Litli Bergþór - 01.04.2006, Blaðsíða 18

Litli Bergþór - 01.04.2006, Blaðsíða 18
var Lauga í húsmennsku. Þegar hann svo fluttist þaðan gerðist Lauga einsetukona og var nokkur ár í Tortu sem er lítil hjáleiga frá Haukadal, fyrst byggð um 1700. Andrés Pálsson (1919-) bóndi á Hjálmsstöðum í Laugardal minnist þess að Lauga var um tíma á því heimili í búskapartíð föður hans. Ekki hafði Lauga mikil umsvif, enda komin á efri ár, fædd um miðjan sjöunda tug 19. aldar. Sér til framfæris átti hún nokkrar kindur sem hún hafði í kofa í skóginum, skammt frá heimili sínu. Auk þess átti hún einn hest, gráan að lit. Hann var dekurskepna sem mátti helst aldrei snerta. Hún kallaði hann jafnan „blessuð beinin”. Heyskap sinn bar hún sjálf á bakinu í tóft enda vonlaust að hún gæti bundið bagga og látið upp á hest. Vera má að nágrannar hafi rétt þar hjálparhönd en lífsviðhorf hennar var örugglega að sækja sem minnst til annarra, vera sjálfri sér nóg, enda aldrei beðið um mikið. Lauga var talin orðská og jafnvel óvægin ef svo bar undir, gerði sér þá engan mannamun. Eitt sinn þegar Jörundur Brynjólfsson (1884- 1979) bóndi og alþingismaður rak stóð sitt til afrétt- ar brá sá grái sér í leikinn og fylgdist með fram á heiðar. Þegar Lauga vissi þetta varð hún ókvæða við, að þvæla „blessuðum beinunum” svona. Lét hún Jörund heyra álit sitt á tiltækinu alveg tæpi- tungulaust. Eg kom eitt sinn í Tortu, þá með Sigurði Greipssyni. Húsakynni voru lítil og léleg að sjá en ekki beint óþrifaleg inni. Lauga gaf okkur kaffi og kandísmola með. Sigurður sagði mér að einn vetur hefði hún alið gráan lambhrút í baðstofukytru sinni og bundið hann við rúmstuðulinn. Eg hygg að Sigurður hafi verið Laugu hjálplegur. Hún vann honum líka stundum við að hreinsa ill- gresi úr görðum. Með henni var þá alloft Margrét í Helludal, annar orðhákurinn til, roskin að árum eins og Lauga. Við vinnu sína skriðu þær á hnjánum og notuðu guðsgafflana, kærðu sig ekki um önnur áhöld. Þær unnu af trúmennsku en létu móðan mása og spöruðu hvergi orðfærin. Ekki voru þær alltaf sammála og varð orðbragðið þá allsvæsið á stund- um, sagði Sigurður. Sennilega hefur Lauga gengið í buxum hversdags þó slíkt væri ekki í tísku á þeirri tíð. En í kjól var hún og hreinleg til fara á skemmt- un sem hún sótti til okkar. Virtist mér hún skemmta sér konunglega og hló dátt þegar strákar duttu á rassinn í stökkum á leikfimisýningunni. Fullyrt var að Lauga hefði aldrei verið við karl- mann kennd, enda þeirrar gerðar í útliti að þar virtist fátt sem töfraði hitt kynið. Hún var einfari, en ekki þar með sagt að lífið hafi verið henni svo andstætt á allan hátt. Eftirfarandi staka bendir til að hún hafi sætt sig við sitt hlutskipti, að minnsta kosti á yfirborðinu: Lauga í Tortu í lífsstraumnum ljómar öll af gleði. Karlmannslaus í kofanum kúrir ein á beði. Kunnugir sögðu mér að eitt hafi Lauga aldrei komist yfir. Hún hræddist hungrið, minnug bams- áranna. Þá var stundum ekkert til matar þegar líða tók á vetur. Var þá helsta vonin að ganga á fjörur ef einhverju kynni að hafa skolað á land sem nýta mætti til að sefa sárasta sultinn. Lauga lést í Úthlíð árið 1939. Þriðji hluti Veðurfar Flestir vita að veðurfar er allólrkt í hinum ýmsu landshlutum. Veðursveiflur munu trúlega einna algengastar á Suðurlandi, stormar tíðir og stór- rigningar meiri en víðast annars staðar. Ekki mun ég verða langorður um veðráttuna þennan stutta tíma sem ég var í skólanum en eitt atvik í þessu sambandi varð mér þó harla minnisstætt og langar mig að geta þess í stuttu máli. Ríkjandi var norðanátt á Suðurlandi fram yfir áramót. Snjór varð þó aldrei mikill í nágrenni Haukadals, svona þúfnafyllingar sögðum við Norð- lendingar. Víða dró þó í skafla, oft var norðankaldi og stundum stormur. Var þá heldur ömurlegt utan dyra, mold og sandrok huldi útsýn til flestra átta. Stuttu eftir áramót brá til sunnanáttar með storm- um og úrfelli. I einu slíku veðri fauk hluti af þaki á fjárhúsum sem Sigurður átti og hafði fé í á hjálend- unni Bryggju. Sigurður fékk með sér nokkra stráka til að tjasla í skemmdirnar og var ég einn þeirra. Við höfðum meðferðis skóflur og gaffla og var ætlunin að stinga út úr húsunum ef tími ynnist til. Myrkur var á skollið, þegar við héldum heim, storminn hafði lægt en úrfelli mikið. Verkfærin bárum við á öxlum. Þá gerðist þetta undur sem ég hafði aldrei séð fyrr, enda brá mér illa. Hrælog kom á skóflublöð og gafflakvíslar sem bókstaflega loguðu á öxlum okkar. Sunnlendingarnir létu sér þó fátt um finnast, enda ekki nýtt fyrir þá. Eftir kynni mín af sunnlensku vetrarveðri með snöggum veðrabrigðum, sandfoki og stórrigningum kunni ég betur við snjóinn og staðviðrin í gömlu Stíflunni minni, enda þeim vanastur. Framh. í næsta blaði. Litli Bergþór 18

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.