Litli Bergþór - 01.12.2010, Blaðsíða 3

Litli Bergþór - 01.12.2010, Blaðsíða 3
r v. -------------------------------------------------------------------------------------N R.i't-s'tjó rna r p i sti 11 Ég er að hlusta hérna á lokalagið úr myndinni „Maybe I should have“ á meðan ég skrifa. Þetta er ótrúlega fallegt lag um landið okkar sem nærir okkur og fóstrar en við umgöngumst kannski ekki alltaf af nógu mikilli virðingu en það má alltaf bæta sig og gera betur. Við Tungnamenn eigum gríðarlega fallega náttúru og gjöfula. Nú berast hins vegar þær fréttir að bæði Gullfoss og Geysir séu komnir á svokallaðan rauðan lista hjá Umhverfisstofnun. Það merkir að brýnt sé að grípa til aðgerða til að sporna við átroðningi á þessi svæði. Þetta er reyndar eitthvað sem ekki kemur heimamönnum neitt sérstaklega á óvart. Lengi hefur verið rætt um bæði slæma umgengni og slæma aðstöðu á þessum svæðum og ekki allir á eitt sáttir um hvernig taka skuli á málum. Það er nýbúið að endurnýja staura og kaðla á Geysissvæðinu og stendur til að stækka palla við Blesa og er það strax til bóta en betur má ef duga skal. Það er byggðinni mikilvægt að þessir staðir séu opnir og okkur til sóma í alla staði. Við eigum yfir fleiri auðlindum að búa en náttúruperlum. I Tungunum búum við líka yfir miklum mannauði og sterkri menningu sem bara styrkist, ef eitthvað er, við mótlætið sem við mætum þessa dagana. Eg var á fundi um daginn á vegum menningarnefndar sveitarfélagsins þar sem farið var yfir sviðið í menningarmálum, bæði styrkleika og veikleika. Styrkleikarnir reyndust mun fyrirferðarmeiri í hugum þeirra sem fundinn sátu og er það vel. Fyrst ber að nefna fjölmörg félög sem eru mjög virk og leggja sitt að mörkum til samfélagsins. Þar má nefna: Björgunarsveitina, Kvenfélagið, Búnaðarfélagið, Hestamannafélagið og Ungmennafélagið með sínar þrjár deildir: leikdeild, íþróttadeild og útgáfudeild. Hér er líka öflugt kórastarf bæði innan sveitar og í nágrannasveitarfélögum sem Tungnamenn taka mikinn þátt í. Landgræðslufélagið leggur sitt af mörkum til að græða upp landið okkar og örugglega er hægt að nefna fleiri félög en ég læt þetta duga að sinni. Það er ekki sjálfgefið að félög sem þessi séu svona virk eins og hjá okkur en,við erum svo heppin að eiga öflugt fólk og að það er mikil samstaða innan félaganna um að starfa vel. Oflugt félagsstarf verður aldrei unnið af bara einum manni eða fáum, til þess þarf fjöldinn að vera virkur. Við eigum líka yfir miklum verðmætum að ráða í formi hæfileika og menntunar íbúanna. Hér býr fólk af ýmsu þjóðerni og frá öllum landshlutum sem bera með sér strauma annarsstaðar frá sem blandast því sem fyrir er. Hér búa t.d: Svíar, Danir, Þjóðverjar, Pólverjar, Tælendingar, Ungverjar og jafnvel einstöku Reykvíkingur.(þetta síðasta var nú meira í gríni sagt). I ljósi þessa þykir mér vel við hæfi að við komum okkur upp þjóðahátíð eins og er víða annarsstaðar svo að við náum að kynnast hvert öðru betur. Það mætti jafnvel hafa það þjóða- og héraðahátíð þar sem hugsanlega kæmi fólk með sérstöðu síns héraðs. Það verður aldrei gert of mikið af því að hittast og skemmta sér saman. Við búum líka að því að hafa Skálholt í okkar heimabyggð og eru áhrif þess mikil og oft kannski ekki alveg augljós en má í því sambandi nefna kórastarf og æskulýðsstarf Molanna sem er mjög sterkt. Og það eru ófáir ferðamennirnir sem koma hingað vegna Skálholts. Það má lengi upp telja auðlegð okkar Tungnamanna. Ein afþeim er fólgin í sumarbústaðafólkinu, sem er að sumu leyti eins og hulduher í byggðinni. Við sjáum að vísu bústaðina en það er ekki alltaf gott að átta sig á því hvaða fólki þeir tilheyra, né hvaða fólk tilheyrir þeim hulduher. Ekki er heldur gott að vita hvort þetta fólk hefur einhvern áhuga á að tengjast sveitinni „sinni“. Mér finnst sjálfri að ef ég ætti sumarbústað einhversstaðar þá hefði ég áhuga á að kynnast þeirri byggð að einhverju marki þar sem ég eyddi töluverðum tíma þar, en kannski er það rangt hjá mér. Hvað sem því líður þá óska ég okkur til hamingju með alla þessa auðlegð og vona að okkur beri gæfa til að nýta hana alla, okkur öllum til góðs. S.T. _____________________________________________________________________________________/ 3 Litli-Bergþór

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.