Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.05.2002, Blaðsíða 18

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.05.2002, Blaðsíða 18
Fréttabréf ættfræðifélagsins í maí 2002 Anna K. Kristjánsdóttir: Um áreiðanleika Islendingabókar Allt frá unga aldri var mér talin trú um að langafi minn í móðurætt væri Pétur Pétursson fæddur 12. ágúst 1852 í Bessastaðasókn og dáinn 31. janúar 1893, sonur Péturs hattara Ólafssonar (1804-1876) frá Kalastöðum á Hvalfjarðarströnd og Elínar Oddsdóttur (1817-1856). Þetta má m.a. sjá í Borgfirzkum ævi- skrám 9. bindi bls. 63-64 svo og í Vélstjóratali hinu nýja 5. bindi bls. 2158. I litlu niðjatali afa míns sem gefið var út í tengslum við ættarmót árið 1994 var þetta einnig staðfest og þar var því haldið fram að afi minn hefði átt 3 hálfsystkini samfeðra auk einnar alsystur. Það fóru að vakna hjá mér grunsemdir að ekki væri allt með felldu í ættfærslunni, að fjölþreifni langafa míns væri ekki sem sýndist. Árið 1997 komst ég yfir eintak af fjölrituðu upp- kasti niðjatals Ólafs Péturssonar bónda og skipasmiðs á Kalastöðum á Hvalfjarðarströnd rituðu af Sólveigu Guðmundsdóttur frá Snartarstöðum í Lundarreykjadal á árunum 1959-1963. Þar er nefndur til sögunnar Pétur Pétursson fæddur 1852 og sonur Péturs hattara, en hann er hinsvegar sagður dáinn 1889 sem vart gat staðist því Þorbjörn Pétursson afi minn var ekki fæddur fyrr en 1892. I ritinu voru eingöngu nefndar tvær dætur Péturs með Málfríði Þorsteinsdóttur (1857-1916), tvær þeirra taldar upp sem hálfsy stur afa míns í áðurnefndu niðjatali. Um svipað leyti og ég komst yfir niðjatal Ólafs á Kalastöðum, eignaðist ég Húsafellsætt eftir Gylfa Asmundsson og þar var nefnd á bls. 353 Steinunn Pétursdóttir sem talin hafði verið hálfsystir afa míns. Þar var faðir hennar sagður vera Pétur Pétursson fæddur 31. júlí 1843 á Brekku Bessastaðahreppi og dáinn 7. maí 1889. Það mátti vera ljóst að Pétur Pétursson væri ekki einn, heldur tveir menn á svipuðum tíma, annar fæddur 1843 og hinnfæddur 1852. Löngu eftir þetta átti ég einhverju sinni erindi á Þjóðskjalasafnið og notaði tækifærið er ég hafði lokið stuttu erindi mínu og hóf að skoða betur gögn um Pétur Pétursson í kirkjubókum. Eftir að hafa kannað gögn um þá félaga nokkuð ítarlega, var niðurstaðan þessi: Pétur Pétursson fæddur 31. júlí 1843 var langafi minn og hann dó 31. janúar 1893. Hann átti tvö börn með Guðrúnu Þorbjörnsdóttur konu sinni, Marín fædda 11. mars 1885 og Þorbjörn fæddan 1. septem- ber 1892. Pétur Pétursson hattara Ólafssonar var fæddur 12. ágúst 1852 og dó 7. maí 1889 rétt eins og Sólveig frá Snartarstöðum hafði haldið fram. Hann átti soninn Guðmund Ólaf Pétursson fæddan 9. október 1880 með Gróu Guðmundsdóttur sbr. hans eigin ættartölu sem rituð var fyrir hann árið 1882 og er enn varðveitt. Hann eignaðist síðan dæturnar Steinunni fædda 21. desember 1885 og Sigríði fædda 1. ágúst 1887 með Málfríði Þorsteinsdóttur. Eftir fæðingu Sigríðar gerðist Málfríður bústýra hjá Pétri á Eyvindarstöðum í Bessastaðasókn meðan hann lifði. Eftir lát Péturs fór Málfríður í vinnumennsku og hafði eldri dóttur sína hjá sér, en Sigríður fór í fóstur til Kristínar í Akrakoti, næstelstu systur Péturs Péturs- sonar. Þess má geta að bæði Steinunn og Sigríður komust vel af á fullorðinsárum, Steinunn (22. desem- ber 1885 - 8. desember 1967) giftist Gísla Þorsteins- syni skipstjóra frá Meiðastöðum og áttu þau þrjú börn (sjáHúsafellsættbls. 353). Sigríður(l. ágúst 1887 - 1. febrúar 1972) giftist Guðjóni Jónssyni kaupmanni Hverfisgötu 50 í Reykjavík og átti einnig þrjú börn. Skömmu eftir að ég hafði talið mig finna hið rétta í málefnum Péturs Péturssonar óskaði ég eftir upp- lýsingum frá íslendingabók um framættir mínar. Ég fékk þær upplýsingar bæði fljótt og vel, en mikil voru vonbrigðin er ég sá að Pétur Pétursson var þar sagður fæddur 1852 og sonur Péturs hattara Ólafs- sonar og Elínar Oddsdóttur. Ég óskaði eftir leiðrétt- ingum, en þær komu ekki. Næst þegar ég kom við hjá Oddi Helgasyni spurði ég hann um ættir afa míns. Hann lumaði á ýmsu, ekki man ég allt, en hann nefndi Guðrúnu Eyjólfsdóttur af ættinni Welding sem móðurömmu afa míns. Ég hafði aldrei áður heyrt þetta og vantreysti fræðum Odds Helgasonar. í febrúar síðastliðnum óskaði ég eftir nýjum upp- lýsingum úr Islendingabók um framættir móður minnar. Mér bárust þessar upplýsingar fljótt og vel, en er ég skoðaði þær reyndist Pétur hattari vera enn inni sem forfaðir minn, en það sem verra var. Starfsfólk Islendingabókar hafði greinilega gengið í smiðju til Odds Helgasonar því Guðrún Eyjólfsdóttir formóðir mín fædd 1830 var nú orðin dóttir Maríu Kristjáns- dóttur Welding og Eyjólfs Þorlákssonar í Hafnarfirði, en ekki dóttir Eyjólfs Einarssonar og Sigríðar Einars- dóttur á Akranesi sbr Borgfirzkar æviskrár 2. bindi bls. 275 eins og ég hafði haldið. Þetta kostaði andvökunótt og einn frídag úr vinnu meðan grúskað var á Þjóð- skjalasafni. Ekki var mikill vandi að útiloka hina hafn- firsku Guðrúnu Eyjólfsdóttur því hún fannst ekki í Manntali 1845. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hún hafði dáið 14. júlí 1840 nýorðin tíu ára gömul og gat því alls ekki verið formóðir hundruða íslendinga. Ég sendi athugaemdir vegna þessa til íslendinga- bókar og bíð enn svars. Þegar tilkynnt var með pomp og prakt um útgáfu Islendingabókar fyrir nokkrum árum óttuðust margir grúskarar að hún ætti eftir að ganga af ættfræðinni dauðri sem áhugamáli þúsunda Islendinga. Ég held að það sé ekkert að óttast lengur. íslendingabók verður þvert á móti fyrirtaks hjálpartæki fyrir það fólk sem vill skoða ættir sínar. http://www.vortex.is/aett 18 aett@vortex.is

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.