Andvari - 01.01.2010, Page 108
106
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
ANDVARI
Jóreykur lífsins þyrlast til himna,
menn í aktýgjum,
vitstola konur í gylltum kerrum.
- Gefið mér salt að eta, svo tungan skorpni í mínum munni
og minn harmur þagni.
Á hvítum hestum hleyptum við upp á bláan himinbogann
og lékum að gylltum knöttum;
við héngum í faxi myrkursins,
þegar það steyptist í gegnum undirdjúpin;
eins og tunglsgeislar sváfum við á bylgjum hafsins.
Hvar eru þau fjöll, sem hrynja yfir mína sorg,
hálsar, sem skýla minni nekt með dufti?
í svartnætti eilífðarinnar flýgur rauður dreki
og spýr eitri.
Sól eftir sól hrynja í dropatali
og fæða nýtt líf og nýja sorg.
Fjórar fyrstu línurnar eru dæmigert upphaf á elegíu, saknaðarljóði. Stefið Ubi
sunt (hvar eru?) er fornt og hefur í aldanna rás gegnt því hlutverki í skáldskap
að tákna sáran harm og söknuð ljóðmælanda vegna þess sem honum er að
eilífu glatað. Og næstu fjórar línur draga upp mynd af hinu glataða og lýsa
eftirsjá mælanda.
Talið er með nokkurri vissu að tilefni kvæðisins sé sú vitneskja Jóhanns að
vinur hans hafi bilast á geði.24 Þannig má ætla að ,hin fallna borg‘ í fyrstu línu
sé upphaflega myndhverfing um þennan vin hans. í seinni gerðum kvæðisins
hefur Jóhann þó þurrkað út allt, eða að minnsta kosti velflest, sem tengir það
hinu upprunalega tilefni, sem skiptir því ekki lengur máli við lesturinn. Eftir
stendur sjálfstætt tregaljóð sem fengið hefur almenna merkingu og tjáir harm
vegna forgengileika lífsins.
Þeir Hannes Pétursson skáld og á undan honum bandaríski bókmennta-
fræðingurinn Peter Carleton, sem samdi doktorsritgerð um íslenskan
nútímaskáldskap, hafa bent á biblíulegt orðfæri og myndmál í kvæð-
inu.2'' Peter Carleton nefnir Harmljóöin og Hannes Opinberunarbókina.
Hvorttveggja er áreiðanlega hárrétt. Kvæðið er elegískur skáldskapur eins
og Harmljóðin og skýr textaleg tengsl eru við Opinberunarbókina eins og
Hannes rekur. Sumar myndanna eru þó býsna nútímalegar: „Hvar eru þín
stræti, / þínir turnar, / og Ijóshafið, yndi næturinnar?íí - sem minnir fremur
á París og New York eða jafnvel Kaupmannahöfn samtímans en hina fornu
Jerúsalemsborg.26 Og að minnsta kosti ein mynd gæti leitt hugann að heima-
högum skáldsins, uppblæstri gróðurlands og moldroki þar: „[Hvar eru þeir]
hálsar, sem skýla minni nekt með dufti?“ [leturbreytingar hér].27 Reyndar er