Unga Ísland - 01.01.1938, Blaðsíða 6

Unga Ísland - 01.01.1938, Blaðsíða 6
6 UNGA ÍSLAND STEFÁN JÓNSSON: VINIR VORSINS. Framh. Hún nemur öðru hvoru staðar og fer ofan í pilsvalsa sinn, nær í vasaklút og þurrkar af andliti sínu. Sólin skín svo heitt. — E-púh, e-púh, dæsir hún og tautar svo eitthvað við sjálfa sig, sem óheyranlegt er öðrum en hennar eigin sál. Síðan heldur hún áfram í áttina heim að Hamri. Sigga litla á Hamri var ekki í nein- um vafa um, hver þetta væri, sem kom utan göturnar. Henni datt hvorki í hug huldukona eða Grýla. Hún vissi, að þetta var hún Hildur gamla í Holti, og Hildur var nú nokkuð góð kerling og kunni sögur. Hildur var móðir húsfreyjunnar í Holti og var til heimilis hjá henni og manni hennar nú orðið; en hér áður fyrr, meðan hann Benedikt hennar lifði, hafði Hildur sjálf verið hús- freyjan. Sigga var að leika sér við heimaaln- inginn, þegar hildur kom í hlaðið. — Sæl og blessuð, telpa mín, sagði Hildur, og munnurinn hennar var auð- sjáanlega tannlaus. — Sæl, sagði Sigga og heimalning- urinn hristi höfuðið. — Gott er blessað veðrið; ég ætla að heilsa upp á hana móður þína, ljúf- an mín. — Mamma er lasin í bólinu. — Ójú, bjóst ég nú við því. Það er það, sem við megum hafa — sem við megum hafa, að vera svona lasin. Ó, ekki, ég held nú það. Jæja, þú munt hafa eignast lítinn bróðir nýlega, litla mín? — Já, hann bara sefur, og ef hann ekki sefur, þá grætur hann. Þá hló Hildur gamla og fór niður í pilsvasa sinn og kom upp með stóran, rauðan kandíssykurmola. — Hérna, góða mín, ég á nú ekki mikið til að gefa úr þessu, það er nú svo sem úti mín makt; reyndu samt að gera þér hann að góðu, molann þann arna, rýjan mín. Sigga tók feginshendi við molanum og þakkaði hæversklega fyrir sig, en lambið horfði á og fékk ekki neitt. Þær hurfu síðan inn í bæinn, Sigga og Hildur, en lambið stóð eftir á stétt- inni og vissi nú ekki, hvað til bragðs skyldi taka í fyrstu; svo setti það undir sig hausinn og tók undir sig stökk mik- ið niður af stéttinni og út á varpann. Kannske fannst því ekki mikið til um þessa gömlu konu, og ef til vill langar ykkur ekki neitt til að kynnast henni; en hjá því verður nú ekki komist. Þegar Hildur kom inn í svefnher- bergi hjónanna, gekk hún fyrst að rúmi sængurkonunnar, rétti fram hönd sína og sagði: — Sæl, Guðrún mín ; ég óska þér til hamingju með litla krílið; þá ertu nú búin að fá óskabörnin. Síðan kysstust þær. Sigga stóð úti í horni og sagði ekki neitt. Hún var ekki laus við að vera feimin. Ekki við Hildi, nei, það var langt frá því, en við mömmu. Kannske þótti mömmu ekkert vænt um hana lengur. Og svo gekk Hildur gamla til litla bróður, sem nú hafði fengið rúm. Hún brá hendinni yfir vögguna í kross og tautaði eitthvað í hálfum hljóðum, sem Sigga heyrði ekki hvað var. — Kannske að ég fái að sjá litla smettið. Ojæja, sér er nú hver karlmað-

x

Unga Ísland

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Unga Ísland
https://timarit.is/publication/894

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.