Bændablaðið - 23.09.2008, Blaðsíða 25

Bændablaðið - 23.09.2008, Blaðsíða 25
22 Bændablaðið | þriðjudagur 23. september 2008 Veröld fláa sýnir sig, sú mér spáir hörðu. Flest öll stráin stinga mig, stór og smá á jörðu. Svo orti Bólu Hjálmar. Hann hafði þó aðeins komist í kynni við venjuleg íslensk strá en ekki þá þyrnirunna sem hér er mælt með að vaxi sem víðast á Íslandi. Þessir þrír runnar eiga það sameiginlegt, auk þyrnanna, að vera allir evr- ópskir. Þeir eiga það líka sameig- inlegt að af þeim öllum hafa verið ræktuð afbrigði eða yrki til þess að auka uppskeru. Hindber (Rubus idaeus) eru í sömu ættkvísl og hrútaberin íslensku og brómberin útlendu svo dæmi séu tekin. Hindber eru hálfrunni. Það þýðir að engin grein á runnanum lifir meira en tvö ár. Ferillinn er þannig að fyrsta árið vex upp grein sem annað árið blómstrar og kemur með ber og sölnar og deyr að því loknu. Villihindberin eru lítil en gómsæt. Ræktuðu hindberin eru nokkuð stærri og bragðið er svolít- ið misjafnt milli yrkja eða sorta. „Árni Th. landfógeti flutt inn hind- berja yrkið ‚Falstaff‘ frá Noregi um 1882 og það gaf ber í góðum árum,“ segir Einar Helgason í bók sinni „Bjarkir“. Svo bætir hann við að hindberjarunnar séu algengir í Reykjavík, en það virðist frekar undantekning að á þá komi ber í byrjun nítjándu aldar. Árið 1909 segir Sigurður Sig- urðsson frá þroskuðum hindberjum á Akureyri af norskum uppruna. Hann var framkvæmdastjóri Rækt- unarfélags Norðurlands og ræktun- arstaðurinn hefur líklega verið þar sem nú er Minjasafnsgarður en þar er enn breiða af hindberjum. Mín reynsla: Við athugun á hind- berjum sumarið 2007 kom í ljós að hindberjabreiða sem óx í Fossvogsdalnum í Reykjavík, hindberjabreiða í Brekku í Skaga- firði og hindberjabreiðan í Minja- safnsgarðinum ásamt nokkrum einkagörðum á Akureyri virðist allt vera sama yrkið. Ef til vill er þetta yrkið hans Árna landfógeta og ef til vill er þetta yrkið hans Sigurðar. Þetta yrki hefur undirritaður rækt- að í mörg ár ásamt nokkrum öðrum yrkjum og samanburðurinn leiðir það í ljós að þetta gamla yrki sem ég hef kallað ‚Gamla Akureyri‘ er besta hindberjayrki sem ég hef reynt. Það er með bragðbestu berin. Það þroskar fyrst ber og hefur verið með árvissa uppskeru og það kelur minnst. Berin eru samt smá og ekki er hægt að segja að uppsker- an sé mikil. Þá hafa villihindber frá Þrændalögum gefið góða raun við Mógilsá í Kollafirði. Sum þeirra hindberjayrkja sem ég hef reynt hafa kalið mikið og þroska ekki öll berin fyrir frost, önnur blómgast of snemma svo blómin frjósa og upp- skeran verður engin. Norskt yrki sem heitir ‚Balder‘ hefur einnig gefist vel. Hindberjarunninn dreifir sér mikið með rótarskotum og þarf því mikið taumhald í litlum heim- ilisgörðum. Aftur á móti er kjörið að skella honum í skógarjaðra og skjólbeltakanta á móti suðri. Það þarf að vanda gróðursetningu runn- ans, hann þolir illa samkeppni við gras á meðan hann er að koma sér fyrir. Uppskerutíminn hjá ‚Gamla Akureyrar‘-yrkinu hefur verið frá seinni hluta ágúst og hefur staðið í u.þ.b. mánuð. Hindber þola illa rok og vilja frjóan rakan jarðveg (ekki bleytu). Hafþyrnir (Hippophae rhamnoi- des) er runni með ógurlegum þyrn- um. Þessi runni vex villtur norður eftir Noregi, sérlega í sendnum jarðvegi og myndar þar kjarr sem er öllum ófært nema fuglinum fljúgandi. Síðustu áratugi hafa Rússar, Svíar og Finnar verið að gefa þessum runna gaum vegna sérstakra eiginleika berjanna. Það er nefnilega svo að hafþyrnisber- in skáka öllum öðrum berjum sem ræktuð eru á okkar breiddargráðum í bætiefnainnihaldi. Þau eru kölluð vítamínsprengja. Þau eru stútfull af A-B-C og E vítamínum, þar fyrir utan eru í þeim Omega fitusýrurn- ar 3-6-7 og 9 og ekki má gleyma lykilatriði nútíma heilsuræktar ANDOXUNAREFNUNUM sem vitaskuld eru í réttu hlutafalli við ofgnótt C-vítamíns í berjunum. Það er mér ógleymanleg stund þegar ég át mitt fyrsta hafþyrniber. Bragðið var eitthvað svo sérstakt en samt kunnuglegt. Loksins sló því niður í hausinn á mér. Þetta var bragðið af vítamín töflunum sem ég hámaði í mig í bernsku. Hafþyrnirinn er stór runni og gæti jafnvel kallast lítið tré. Hann er einkynja og ef maður er með kall eða staka kerlingu þá koma engin ber. Þetta þarf allt að bland- ast saman eins og bændur þekkja. Berin koma mjög seint, ekki fyrr en í byrjun október. Þau láta smá frost ekki stöðva sig í að þroskast og bragðið bara batnar eftir því sem líður á veturinn. Þannig var ég að smá éta af runnanum mínum í allan vetur með þeim afleiðingum að ég yngdist um tíu ár. Stikilsber (Ribes uva-crispa) nafn- ið hringir líklega bjöllum hjá mörg- um og allir kannast við Stikkils- berja Finn sem reyndar hefði heitið Bláberja Finnur hefði þýðandinn ekki ruglast. Þetta er planta af sömu ættkvísl og rifs og sólber. Berin eru samt miklu stærri en þau fyrrnefndu. Til eru bæði gul (grængul) og rauð stikilsber. Yrki sem reynst hafa afbragðs vel hér eru ‚Hinnonmäen‘ rauð og ‚Hinnonmäen‘ gul. Þessi yrki eru finnsk og það er farið að vekja athygli garðyrkjufólks hversu vel margir finnskir runnar reynast hér. Það skýrist af því að vegna hins harða finnska vetrar þá hafa þeir ekki getað notað venjuleg evrópsk afbrigði og hafa því þurft að rækta sín eigin. Sem betur fer fylgja oft með vetrarþolinu hógværar kröfur um sumarhita sem kemur okkur vel. Sikilsberjarunninn er fremur smávaxinn þyrnirunni sem þarf fulla sól ef hann á að þroska hér ber. Hann er seinn og berin eru vart fullþroskuð fyrr en eftir miðj- an september, þannig að hann er hálfum mánuði seinni en flest sól- berja- og rifsberjayrki sem hér eru í ræktun. Þá er þessi þyrnum stráði pist- ill á enda runninn. Með von um farsæla berjarækt og munið að upp- skera ekki þrúgur reiðinnar. Helgi Þórsson bú- og garðyrkjufræðingur í Kristnesi helgitho@hotmail.com Gróður og garðmenning Ber hafþyrnisins þola vel frost og eru nokkurskonar náttúrulegar vítamínpillur. Myndir HÞ Íslensk hindberjauppskera í lok ágúst. Berin eru eitthvert besta sultuhráefni sem völ er á. Þrír þyrnirunnar Stikilsber af yrkinu ‚Hinnonmäen‘ rauð í Kristnesi 15/9 2008. Í lok águst stóðu Leikfélag Hólmavíkur og Félag eldri borg- ara í Strandasýslu fyrir viða- mikilli þjóðsagnadagskrá. Um var að ræða samstarfsverkefni þessara tveggja félaga, sem m.a. hlaut styrk úr Menningarsjóði Vestfjarða. Flutt var dagskrá með þjóðsögum af Ströndum og samanstóð hún af leik, upp- lestri og söng. Leikstjóri var Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir. Þá var hluti verkefnisins að koma upp miðaldabúningasafni fyrir Leikfélagið og var því prjónað og saumað mikið af búningum í safnið. Tvær sýningar voru í reiðskemm- unni á Víðidalsá skammt sunnan Hólmavíkur. Síðan er meiningin að hægt verði að sýna þessa dagskrá, að hluta eða í heild, við hin ýmsu tækifæri. Býður leikfélagið m.a. upp á að þeir sem standa fyrir viðburð- um geti keypt atriði úr dagskránni sem skemmtiefni. kse Feðginin Anna Lena Victorsdóttir og Victor Örn Victorsson í hlutverk- um Galdra-Möngu og sýslumanns. Arnar Jónsson í hlutverki sögu- manns les upp þjóðsögu af Strönd- um. Leikhópurinn fyrir utan reiðskemmuna. Meðlimir leikfélagsins undirbúa sýningu, f.v. Kristján Sigurðsson, Victor Örn Victorsson, Jón Gústi Jónsson, Áskell Benediktsson og Arnar S. Jónsson. Leikfélag og eldri borgarar með þjóðsagnadagskrá Þau leiðu mistök urðu þegar farið var í gegnum getraunaseðlana í get- raunaleik Landstólpa sem fram fór á Landbúnaðarsýningunni á Hellu dag- ana 22.-24. ágúst s.l. að starfsmönnum yfirsást annar réttur seðill. Þegar betur var að gáð reyndust tveir vera jafngetspakir og giskuðu á að ertufræ- in í Suevia vatnskarinu væru 120.000 (en þau voru 118.516). Landstólpamönnum þykir þetta mjög leitt og til að leiðrétta þetta hafa þeir ákveðið að báðir aðilar hljóti vinning, en vinningurinn var Sólarhringssæla í Bláa lóninu fyrir tvo með allskyns dekri. Vinningshafarnir eru: Hulda Gústafsdóttir, Árbakka, Hellu og Bjarni Ingvar Bergsson, Viðborðsseli, Höfn. Getraunaleikur Landstólpa

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.