Bændablaðið - 24.03.2011, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 24.03.2011, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | fimmtudagur 24. mars 2011 Líf og starf Í pistli í Fjóstírunni þann 24. Febrúar var fjallað um það hvernig aðbúnaður gripa og vel- ferð getur haft áhrif á afkomu búsins. Mig langar í þessum pistli að grípa þann bolta á lofti og ræða almennt um það hvaða þýðingu það getur haft að huga að velferð og aðbúnaði gripa og setja það í samhengi við ræktun, kynbætur og dagleg störf á búinu. Velferð hefur aukist Rannsóknir á atferli og velferð gripa hafa aukist mjög á síðustu árum. Vísindamenn og bændur eru orðnir meðvitaðri um mikil- vægi þess að skapa gripunum sem bestar aðstæður, reyna að koma til móts við atferlisþarfir þeirra og minnka að einhverju leyti það álag sem gripirnir eru undir dags daglega. Hluti af þessari þróun snýr einnig að því að neytendur gera sífellt meiri kröfur um að tryggt sé að þær dýraafurðir sem þeir kaupa séu framleiddar þannig að dýravelferð sé tryggð. Aðbúnaður Flestum bændum þykir það sjálfsagður hlutur að búa dýrum sínum sem best skilyrði og líklega hefði fáum kúabændum dottið í hug fyrir 20 árum að ákvæði um svo augljósan hlut og útivist nautgripa yrðu sett í reglugerð um aðbúnað. Að mínu viti hafði fyrsta aðbúnaðarreglugerðin ekki einu sinni litið dagsins ljós fyrir 20 árum síðan. Menn geta þó haft nokkuð misjafnar skoðanir á því hvað felst í góðum aðbúnaði. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að bændur og einstaklingar sem búa í dreifbýli eru líklegri til að telja að mikilvægustu þættirnir í velferð húsdýra séu t.d. tryggur aðgangur að nægu og heilsusamlegu fóðri, vatni og aðrir slíkir þættir sem tengjast umhverfi dýranna í þeim framleiðsluaðstæðum sem þau eru í, meðan þéttbýlisbúar eru líklegir til að tengja dýravelferð við að dýrunum séu búnar sem „náttúrulegastar“ aðstæður. En það var nú ekki meiningin að fara í miklar umræður um mismunandi áherslur einstakra hópa á því hvað telst dýravel- ferð og góður aðbúnaður heldur koma aðeins inn á það hvernig þetta tengist þeim eiginleikum sem við erum að reyna að rækta fyrir og þar með búrekstrinum í heild sinni. Rannsóknir Rannsóknir á atferli, velferð og hvernig bæta megi aðbúnað gripa eru ekki eingöngu hugsaðar til að mæta auknum kröfum sam- félagsins um dýravelferð heldur erum við að reyna að búa grip- unum þannig umhverfi að þeim líði vel og geti þar með betur þolað það álag sem oft fylgir nútímabúskaparháttum. Gríðarlegar breytingar hafa orðið á aðstæðum í mjólkur- framleiðslu á Íslandi á síðustu árum. Á tiltölulega skömmum tíma hefur kúabændum fækkað og búin stækkað. Ef við höldum áfram að horfa 20 ár aftur í tím- ann þá hefur kúabúum líklega fækkaðu um helming á þeim tíma. 30% afurðaaukning Á síðustu 10 árum hefur afurða- aukning á grip verið rúmlega 30 % og stærð búa farið úr 25,5 árskúm í 38,6. Samantekt Snorra Sigurðssonar um fjósgerðir og mjaltatækni á Íslandi sýnir að mikil tæknileg umbylting hefur orðið í íslenskri mjólkurfram- leiðslu síðustu 15 ár sem felst í því að lausaganga gripa og sjálf- virk mjaltatækni hafa rutt sér til rúms. Flestir eru sammála um að þessar tæknilegu framfarir séu bæði mönnum og skepnum til góðs en þeim fylgir líka að gripir og hirðar þurfa að laga sig að talsvert breyttum aðstæðum og vinnulagi. Ræktunarmarkmið Hér á landi stundum við naut- griparækt sem byggir á virkri þátttöku bænda í ræktunarstarf- inu. Við erum með ræktunar- markmið þar sem leitast er við að bæta marga eiginleika samtímis, hvað varðar afurðir, byggingu, heilbrigði, frjósemi og endingu. Þessa þætti leggjum við áherslu á í ræktuninni vegna þess að við teljum að þeir séu mikilvægir fyrir afkomu búsins og þróun stofnsins til lengri tíma. Allir eiginleikar stjórnast bæði af umhverfi og erfðum en það er erfðaþátturinn sem við reynum að fanga eftir bestu getu í kynbótastarfinu. Það þýðir þó ekki að við getum algerlega horft framhjá umhverfisþættinum og treysta eingöngu á ræktunina í því markmiði að fá afurðameiri, sterkbyggðari og frjósamari gripi sem endast vel. Kvígur verða ekki sterk- byggðar og afurðamiklar kýr nema þær nái eðlilegum þroska og hljóti gott uppeldi. Kýr nýtir ekki afurðagetu sína til fulls nema að fóðrunin sé í lagi. Sleip gólf, þrengsli og/eða lýsing geta haft áhrif á hvort og hversu vel gripir sýna beiðsli en það hefur þá bein áhrif á það hversu góð frjósemin er á búinu. Svona mætti eflaust lengi telja upp þætti í aðbúnaði sem hafa bein eða á óbein áhrif á þá eigin- leika sem við teljum mikilvæga og höfum skilgreint sem slíka með því að leggja áherslu á þá í ræktunarstarfinu. Aðstæður Breyttar aðstæður í umhverfi gripa og hirða verða einnig til þess að áherslur breytast. Ýmislegt sem áður var eðlilegur hluti af daglegum störfum og umgengni við gripina er ekki lengur til staðar og það getur breytt ýmsu til lengri tíma litið. Sem einfalt dæmi um þetta má taka kvíguupp- eldi. Með stærri framleiðsluein- ingum, hærra ásetningshlutfalli og breyttum aðstæðum við upp- eldið verða samskipti manna og gripa oft minni. Kvígur sem koma inn í kúa- hjörð hafa því oft átt mun minna samneyti við manninn heldur en áður tíðkaðist, þegar færri gripir voru settir á og kvígurnar jafnvel aldar upp í fjósinu með mjólkurk- únum frá unga aldri. Við verðum því að spyrja okkur hvaða kröfur sé raunhæft að gera til gripa sem alist hafa upp við þessar aðstæður og þá einnig hvernig við getum búið í haginn fyrir okkur þannig að einhverskonar „tamning“ hafi átt sér stað áður en að gripurinn ber fyrsta kálfi og þarf að koma inn sem hluti af hópi mjólkurkúa. Hér erum við þá kannski komin inn á þá hluti sem við erum að reyna að leggja mat á varðandi skapferli gripanna en sá eiginleiki hefur fengið talsverða umfjöllun meðal ráðunauta og bænda að undanförnu, þ.e. hvort og þá hvernig við eigum að meta þennan eiginleika. Þurfum að meta áhrifin Hér að ofan hef ég leyft mér að setja fram nokkurskonar hugleið- ingar sem byggðar eru á þróun í mjólkurframleiðslu á Íslandi og þeirri reynslu sem ég hef öðlast í starfi mínu sem nautgripa- ræktarráðunautur. Ég er á þeirri skoðun að eftir miklar og hraðar breytingar síðustu ára þurfum við nú að setjast niður og meta hvaða áhrif þessar breytingar í tækni og bústærð hafa á aðra þætti. Hvaða áhrif hafa þessar breytingar á mat okkar á þeim eiginleikum sem við viljum leggja áherslu á í ræktunarstarf- inu og þurfum við mögulega að endurskoða á einhvern hátt þær áherslur sem við höfum haft. Það er einnig mikilvægt að meta hvaða áhrif þessar breytingar hafa á aðbúnað og velferð gripanna því þó okkur hafi á ýmsan hátt tekist að bæta aðbúnað gripanna þá þurfum við að vera vakandi fyrir því að breyttar aðstæður geta skapað annarskonar vandamál en við erum vön að þurfa að leysa úr. Skoða þarf alla þessa þætti í samhengi til að ná þeim árangri sem við viljum í nautgriparækt á Íslandi. /GEH Velferð og aðbúnaður gripa FjóstíranRaddir ungra bænda Óðum líður að þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Framan af, eftir að ljóst var að samningurinn færi í atkvæða- greiðslu, var ég frekar óákveðin um hvort ég ætlaði að segja nei eða já. Hræðsluáróður stjórnvalda var farinn að ná til mín, um að það þyrfti að klára málið, um að atvinnulífið kæmist ekki af stað nema samningurinn yrði samþykktur, um að þetta væri besti samningur sem við gætum fengið og að hann væri miklu betri en fyrri samningar. Ég var því jafnvel að hugsa um að samþykkja samning þennan, enda erfitt fyrir leikmann sem hefur ekki mikinn skilning á lagaumhverfi málsins að greina hvað er rétt og rangt í daglegri umræðu. Undanfarið hefur mér hins vegar snúist hugur, og fyrir því eru einkum tvær ástæður. Í fyrsta lagi fór ég að velta fyrir mér þessari margumtöluðu málsókn sem stjórnvöld hér eru svo hrædd við, og hafa hamrað á að útkoman úr slíku máli sé mjög óviss og alveg eins líklegt að við töpum. Fyrst það er talið svona ólíklegt að við vinnum, af hverju eru bresk og hollensk stjórnvöld ekki löngu búin að fara í mál í stað þess að reyna að semja við þessa erfiðu Íslendinga, sem gera ekki annað en hafna hverjum samningnum á fætur öðrum? Getur það verið að þau telji yfirgnæfandi líkur á að Íslendingar vinni málið og finnist þar með betra að hirða af okkur, í gegnum samninga, það sem þau telja sig geta náð af okkur? Því varla er nokkur maður til sem heldur að Bretar og Hollendingar séu að reyna að semja um málið af tómri hjartagæsku í okkar garð, eftir allar hótanirnar um að stöðva fjármagn, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fleira þvíumlíkt? Líklegra finnst mér að þeir hefðu strax í byrjun farið í mál í stað þess að reyna samningaleiðina, ef þeir teldu þokkalega möguleika á að hafa sigur í þessu máli. Annað er það sem ég hef velt fyrir mér líka, en það er hvað gerist ef bank- arnir verða aftur svona stórir og annað hrun verður. Helstu rök þeirra sem eru samþykkir samningnum virðast vera að þessi samningur sé alveg nógu hagstæður, samkvæmt núverandi forsendum (þó hann þjáist reyndar af ákaflega mörgum efaatriðum), og að ríkið hér eigi ekki að fara á hausinn við að greiða núverandi samningsdrög. Reynum hins vegar að hugsa aðeins lengra en hálft ár fram í tímann. Ef bankakerfið verður aftur svona stórt (sem getur auðveldlega gerst, því ríkis- stjórnin virðist ekkert vera að gera til að koma í veg fyrir það) og einhver bankinn býr til sambærilegt innlána- kerfi sem hrynur líka. Samþykkjum við núverandi Icesave-samning erum við búin að setja fordæmi fyrir slíkum samningum og væri því afar erfitt fyrir okkur að neita því að greiða öll hugs- anleg hrun í framtíðinni. Þó að landið okkar geti greitt núverandi samning, efast ég stórlega um að það hafi efni á að greiða fleiri slíka, en ákaflega erfitt væri að komast undan því vegna fyrri samnings, verði hann samþykktur. Ég treysti því ekki að slíkar aðstæð- ur geti ekki komið upp aftur, jafnvel þó líkurnar séu hverfandi. Ég ætla að segja nei við Icesave. Sigríður Ólafsdóttir Víðidalstungu. Nei eða já Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir Nautgriparæktarráðunautur

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.