Bændablaðið - 07.04.2011, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 07.04.2011, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | fimmtudagur 7. apríl 2011 „Eitt er það að eiga draum, annað ef hann rætist.“ Þannig segir í lok kvæðis sem Baldur Ófeigur Einarsson orti í tilefni af opnun reiðhallarinnar Kviku í Torfunesi í febrúar árið 2008. Það hafði lengi verið draumur Baldvins Kr. Baldvinssonar ábúanda að Torfunesi að stunda hrossa- rækt, svo sem hann hefur gert á umliðnum árum, en reiðhöllin sem reist var við Ræktunarbúið Torfunes fyrir þremur árum bætti mjög alla aðstöðu til hrossaræktar á staðnum. Baldvin á og rekur, ásamt eigin- konu sinni Brynhildi Þráinsdóttur og fleirum, Ræktunarbúið Torfunes í Köldukinn í Þingeyjarsveit. Brynhildur starfar sem grunnskóla- kennari á Húsavík en Baldvin starfar við ræktunarbúið. Torfunesjörðin er rúmir 500 hektarar af grónu landi, frá fjalli og niður undir Skjálfandafljót. Hún hentar vel fyrir hross hvað varðar gróðurfar og landslag. Áform um uppbyggingu sauðfjárbús lögð til hliðar Baldvin er frá Rangá, næsta bæ norðan Torfuness, en þar ólst hann upp og rak félagsbú með föður sínum fram undir árið 2000. Á Rangá var blandað bú, bæði kýr og kindur, til 1975. „Áður en ég stofnaði félagsbú með föður mínum fór ég og skoðaði mig aðeins um og starfaði víða, m.a. sem lögreglu- maður, en leitaði svo heim á ný,“ segir hann en þau Brynhildur keyptu jörðina Torfunes árið 1978 og hafa stundað þar búskap síðan. Þau höfðu uppi áform um að byggja upp mynd- arlegt sauðfjárbú á jörðinni á upp- hafsárunum og hófu byggingafram- kvæmdir. „En tímarnir þá voru lítið betri en nú er, óðaverðbólga geisaði og gerði það að verkum að allar hugmyndir um uppbyggingu voru lagðar til hliðar,“ segir Baldvin. Hin síðari ár hafa ábúendur lagt áherslu á hrossarækt og tengda þjónustu. „Við erum með nokkrar kindur okkur til ánægju og til að komast í gott og feitt kjöt,“ segir hann og bendir á að ýmis- legt annað sé óhollara sem fólk lætur ofan í sig en feitt, íslenskt lambakjöt. Keypti fyrsta hrossið 10 ára gamall Baldvin hefur frá unga aldri haft mikinn áhuga á hrossum en sitt fyrsta hross keypti hann aðeins 10 ára gamall, sokkóttu hryssuna Sokku frá Sólheimagerði, en kaupin voru gerð i Silfrastaðarétt í Skagafirði. Í gegnum árin hefur Baldvin ræktað, alið upp og tamið fjöldann allan af úrvalshrossum, sem þekkt eru meðal hestafólks, enda hafa þau mörg hver unnið til verðlauna fyrir hæfileika og byggingu. „Hrossaræktin fór smám saman að aukast í búskapnum,“ segir Baldvin. Fjárhúsunum var breytt í hesthús og nú er á búinu góð aðstaða fyrir 45 hross í rúmgóðum stíum. Þá var reiðhöllin Kvika, sem heitir eftir einni af bestu hryssum Baldvins, reist norðan við hesthúsið en í millibyggingu er m.a. aðstaða fyrir starfsfólk. Fimm manns vinna að jafnaði við búið, auk Baldvins; þau Erlingur Ingvarsson og Benedikt Arnbjörnsson tamningamenn, Baldur Ófeigur Einarsson, sem hefur starfs- titilinn „ráðgjafi í stíu“, og Veronika Lisa Gspandl frá Austurríki, verk- nemi frá Hólum. Mette Mannseth, reiðkennari á Hólum, er sérlegur ráðgjafi búsins og hefur eftirlit með þjálfun hrossa. Verður að gera kröfur ef rækta á úrvalshross „Ég hélt í eina tíð að þetta snérist allt saman um fjöldann og var með mörg hross, mörg þeirra alls ekki nægilega góð. Svo sá ég ljósið, þetta snérist ekki um magn heldur gæði og þá fór ég að skera niður. Ef markmiðið er að rækta úrvalshross er ekki um aðra kosti að ræða en beita hnífnum, skera niður og halda aðeins því besta,“ segir hann. Stefna Ræktunarbúsins Torfuness hvað ræktunina varðar er að ná fram og ala upp fjölhæf og afkastamikil hross og er sérstök áhersla lögð á tölt, brokk, gott geðslag og úrvalsskeið. „Við veljum einungis kostagripi til rækt- unar, efnileg og vel ættuð unghross,“ segir Baldvin en frá Torfunesi hafa komið hæfileikamikil, samvinnuþýð og traust hross sem eru dugmikil, léttbyggð og hreingeng. „Við höfum hug á að fjölga hryssum í ræktun og okkar markmið er að vera með 15 til 20 úrvalshryssur, fyrstu verðlauna- hryssur úr Torfunesræktuninni og það hefur bara mjakast býsna vel,“ segir Baldvin. Áhersla á fagleg vinnubrögð „Við leggjum áherslu á að vanda til verka og stunda fagleg vinnubrögð. Við erum að vinna með lifandi verur og það þarf að huga vel að vellíðan hestsins, allt snýst þetta um að hest- unum líði vel. Við leggjum líka allt kapp á góða tamningu og höfum þann háttinn á, varðandi kaupendur að okkar hrossum, að þeir komi hingað áður en hestur er afhentur og kynnist honum. Við viljum sjá hvort fólk ræður við það sem það fær í hendurnar,“ segir Baldvin. Markaður fyrir hross er að hans sögn ágætur, innanlandsmarkaður hefur verið líflegur einkum síðari hluta árs en þá eru hestamenn gjarnan að endurnýja hestakost sinn fyrir vetur- inn. „Mér finnst hafa orðið vakning í hestamennskunni, áhuginn er mikill og eftir erfitt ár í fyrra, þegar hesta- pestin kom upp, er ég bjartsýnn á að þetta ár verði gott,“ segir Baldvin. Nánari upplýsingar um Ræktunarbúið Torfunes er að finna á heimasíðunni www.torfunes.is. Gaf út geisladisk í stað veisluhalds í tilefni af 60 ára afmælinu „Ég hef lítinn áhuga á að hlusta á lof- ræður um sjálfan mig,“ segir Baldvin Kr. Baldvinsson í Torfunesi, sem í tilefni af 60 ára afmæli sínu á liðnu ári gaf út geisladiskinn Úr hörpu hugans. Jón Stefánsson, organisti og kórstjóri Langholtskirkju, leikur undir en að auki syngur Kammerkór Langholtskirkju með. Áður hefur Baldvin sungið inn á plötu með Baldri bróður sínum. Sú plata heitir Rangárbræður og kom út árið 1986 og þá kom diskur með einsöng Baldvins út árið 1994. Það má segja að sönglistin sé eins konar aukabúgrein Baldvins í Torfunesi. Hann hefur sungið lengi og víða, enda á hann rætur í ríkri sönghefð; æskuheimili hans að Rangá var þekkt fyrir glaðværð og söng. Baldvin hefur sungið með ýmsum kórum, í óperuuppfærslum og söngleikjum í gegnum tíðina og verið eftirsóttur einsöngvari. Röddin verður að vera í lagi Baldvin fór í söngnám til Jóns Þorsteinssonar söngvara á sínum tíma og segir það honum fyrst og fremst að þakka að rödd sín sé eins og hún er nú. „Jón er góður kennari og það var dýrmæt reynsla að kynn- ast honum, hjá honum lærði ég að bera virðingu fyrir röddinni. Það er með hana eins og hrossin, að henni þarf að hlúa,“ segir Baldvin. Flesta daga er hann að atast í hrossum, oft í ryki og við erfiðisvinnu, „en ég passa mig sérstaklega vel áður en ég þarf að fara að syngja, röddin verður að vera í lagi.“ Baldvin er sem fyrr segir eftirsótt- ur einsöngvari og hefur víða komið fram, til að mynda syngur hann oft við jarðarfarir og á nýja diskinum eru mörg laganna einmitt þau sem hann er hvað oftast beðinn um að syngja við slíkar athafnir. „En inn á milli eru líka lög sem ég tók upp úr töskunni, lög sem ég hef dálæti á,“ segir hann. Upptökur fóru fram í Langholtskirkju á fyrri hluta síðasta árs og kom diskurinn út fyrir jólin 2010. „Hann hefur fengið prýðis- góðar viðtökur, ég get ekki kvartað yfir þeim,“ segir Baldvin og nefnir að með sér hafi verið úrvalsfólk sem gaman hafi verið að vinna með. „Það lagði sitt lóð á vogarskálar, þess vegna er útkoman eins og hún er.“ Diskurinn fæst víða í verslunum en einnig er hægt að kaupa hann „beint frá býli“ með því að hafa samband á netfangið brynth@isholf.is. Baldvin með systurnar Mist undan Sveini Hervari og Musku undan Gígjari, en móðir þeirra er Mánadís. Einungis kostagripir valdir til ræktunar hjá Ræktunarbúinu Torfunesi: Markmiðið að ala upp fjölhæf og afkastamikil hross Karen Hrönn, dótturdóttir Baldvins og Brynhildar á Torfunesi, með hryssuna Myrru undan Mánadís og Gígjari. Kristín Hrund, dótturdóttir, með hundinum Torfa.                      

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.