Bændablaðið - 06.09.2012, Blaðsíða 29

Bændablaðið - 06.09.2012, Blaðsíða 29
29Bændablaðið | Fimmtudagur 6. september 2012 Málefni landshlutaverkefna í skóg- rækt hafa heyrt undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið annars vegar og umhverfisráðuneytið hins vegar. Þann 4. september færðust þau yfir í nýtt umhverfis- og auð- lindaráðuneyti. María E. Ingvadóttir, formaður félags skógareigenda á Suðurlandi, segir að skógarbændur séu óhressir með þessa yfirfærslu og telji málefni sín eiga fremur heima hjá atvinnu- vega- og nýsköpunarráðuneyti. Hún bendir af því tilefni á 1. grein laga um landshlutaverkefnin, þar sem segir: „Í því skyni að skapa skógarauðlind á Íslandi, rækta fjölnytjaskóga og skjólbelti, treysta byggð og efla atvinnulíf, skal eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum hverju sinni veita fé til verkefna í skógrækt sem bundin eru við sérstaka landshluta. Í hverju landshlutaverkefni skal stefnt að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis neðan 400 m yfir sjávarmáli.“ „Þarna er beinlínis kveðið á um að rækta skuli skóg til að treysta byggð og efla atvinnulíf. Skógrækt er meira en að pota niður plöntum, þær vaxa og þær þarf að grisja og fella og úr verður efniviður til margra nota,“ segir María. Skógræktin samofin atvinnulífinu „Skógrækt er vaxandi atvinnugrein, sérstaklega þar sem hún stendur á þeim skemmtilegu tímamótum að komið er að úrvinnslu afurða skógarins. Stóriðjan fær ekki allan þann grisjunarvið sem hún þarf úr skógum hér á landi, því þarf að flytja inn stóran hluta þess sem þar er notað. Því meira sem fellur til við grisjun, því meiri gjaldeyrir sparast og dagsverkum í skógrækt fjölgar. Timburframleiðsla er farin af stað, unnir eru viðarspænir og arinviður, fyrir utan handverkið, sem drjúgt er til vinnu og efnis. Sveppir og ber eru skógarafurðir sem setja svip á markaðinn og ekki má gleyma skjólinu sem skógurinn veitir. Hitastig á nærliggjandi ökrum hækkar um 3 til 4 gráður þar sem skjólbelti hefur vaxið upp. Það fer vel saman að rækta skóg og korn, gras, eða annað fóður, það styður hvert annað,“ segir María. Hún bendir einnig á að jólatrjáa- ræktun og akurræktun skóga séu nýjar leiðir í skógrækt. „Það á enn eftir að ná því marki að geta annað innlendri eftirspurn eftir jólatrjám, en bilið minnkar árlega. Akurræktun skóga er einfaldlega þannig að fljótvaxta tegundir eru gróðursettar í akurlendi og síðan felldar þegar ákveðinni stærð er náð. Með góðu skipulagi má ná því að gróðursetja árlega og fella ákveð- in svæði árlega, sem sagt vænleg búgrein. Sem stendur er eftirspurnin aðallega eftir efni til að kurla, en hug- myndir koma og úr verður góð afurð, þannig að það verður forvitnilegt að sjá hvað verður eftir 5 til 6 ár.“ Mikilvægi virks markaðar fyrir kolefnisbindingu Þegar loftslagslögin voru samþykkt á Alþingi sl. vor mótmæltu skógar- bændur því í kjölfarið að vera hlunn- farnir með því að binding kolefnis, sem ætti sér stað í þeirra skógum, væri bókfærð á reikning íslenska ríkisins „Kolefnisbinding í gróðri er mikilvæg og verðmæt afurð. Heildar binding kolefnis er reiknuð fyrir landið allt – eins og losun gróðurhúsaloftteg- unda – og er hluti af milliríkjasamn- ingum um loftslagsmál. Hins vegar fer „framleiðsla“ bindingarinnar fram í skógunum og sú binding er eign skógarbóndans, eins og aðrar afurðir,“ segir María. „Mikilvægt er að nú þegar verði til virkur markaður fyrir kolefnisbindingu. Það er mikil- vægt að vera samstíga þeim þjóðum sem vinna að því að slíkur markaður verði til, þannig höldum við best utan um hagsmuni okkar sem þjóðar og stöðu okkar í alþjóðasamskiptum um þessi mál.“ Stjórnvöld ættu að styðja betur við hina nýju atvinnugrein María segir að ætla mætti, í ljósi sög- unnar, að stjórnvöld hvettu í verki til aukinnar skógræktar og stæðu við bakið á nýrri atvinnugrein, sem bæði er vinnuaflsfrek og framleiðir afurðir sem áður hafa verið keyptar fyrir erlendan gjaldeyri. Einnig þar sem skógræktin á sinn þátt í að bæta stöðu Íslands varðandi samninga um kolefnisbindingu og -losun. „Það virðist svo augljóst mál, að styðja við framleiðslugreinar sem skila strax arðsemi út í samfélagið á margvíslegan hátt. Samt hafa fram- lög til landshlutaverkefna í skógrækt lækkað á undanförnum árum. Þau voru 447 milljónir árið 2009, fóru í 425 milljónir 2010 en voru 387 milljónir 2011 og 2012. Þessi lækk- un hefur valdið því að framleiðsla skógarplantna hefur dregist saman og framleiðendur lent í vandræðum með sínar fjárfestingar. Samdráttur í útplöntun mun valda því að framboð á viði úr skógum mun hrapa niður á ákveðnu árabili. Aðrar hliðargreinar hafa orðið að draga saman seglin.“ Umhverfisleg ábyrgð skógarbænda María segir ljóst af framansögðu að skógræktin eigi heima í nýju atvinnu- málaráðuneyti. „Skógarbændur eru hins vegar mjög meðvitaðir um umhverfislega ábyrgð sína, sem felst í því að yrkja jörðina og skila henni verðmætari til komandi kyn- slóða. Það eru lög sem allar greinar verða að starfa eftir og það sama á við um skógrækt. Nýjar greinar eiga stundum erfitt með að sanna sig og sýna. En þar sem við lifum á öld upp- lýsingarinnar ætti að vera óhætt að sleppa nokkrum fúnum og þreyttum þrepum og treysta skógræktinni til að komast á þann pall sem hún á heima á. Til þess að svo geti orðið verður að nýta þá þekkingu sem kostað hefur verið til með uppbygg- ingu á menntun á sviði skógræktar og umhverfismála. Það á að hvetja til aukinnar skógræktar og viðurkenna mikilvægi skóganna. Umræða um skógana er eðlileg, fólk lætur sig umhverfi sitt varða. Það gera skógarbændur líka. Þeir vilja að ásýnd skógarins sé falleg og falli að umhverfinu. Einhver nefndi að skógurinn væri farinn að skyggja á útsýni til Heklu á veginum á milli Hellu og Hvolsvallar. Það er alveg rétt, þarna er að vaxa upp myndar- legur skógur og hann skyggir á Heklu í heilar 23 sekúndur. Reitur við Skóga undir Eyjafjöllum skyggir á útsýnið heim að Skógum, talað hefur verið um að stýfa þann reit eða ryðja alveg. Það er nefnilega hægt að ryðja skóg. Á göngustígum myndast skuggar, en þar er líka minni vindur, jafnvel logn og auðvelt að stíga þaðan út í sólar- geislann og kannski rokið.“ Stjórnvöld ættu að virða möguleika greinarinnar María segir að stjórnvöld mættu fara að sýna greininni meiri virðingu. „Okkur er sýnd viðeigandi virðing og skilningur með því að ákvarðanir um grein okkar séu teknar á faglegan hátt. Skógræktin á framtíð fyrir sér hér á landi – eins og í nágrannalöndum okkar – og getur orðið okkur ekki síður mikilvæg en öðrum þjóðum. Skógarbænda bíður það mikil- væga verkefni að koma á fót afurða- og sölufélagi, þar sem miðlað er upplýsingum um vöruframboð og áhuga á afurðum og þar sem nýjar hugmyndir verða að verðmætum. Nýr markaður fyrir kolefnis- bindingu mun kalla á bókhald yfir kolefnisbindingu, úttekt fagmanna á skógarsvæðum og vottun á úttektar- aðferðum. Slík vottun viðurkenndra fagmanna gæti jafnvel nýst öðrum þjóðum. Skógræktin, sem atvinnugrein, getur vaxið og dafnað, jafnframt því sem hliðargreinar eflast og styrkjast. Vonandi sjá stjórnvöld arðsemi slíkra framfara.“ /smh María E. Ingvadóttir, skógarbóndi og formaður Félags skógarbænda á Suðurlandi. Skógarbændur vilja heyra undir atvinnuvegaráðuneytið: Skógrækt er vaxandi atvinnugrein – málefni landshlutaverkefnanna færð til umhverfis- og auðlindaráðuneytis Fýlaveiði á þessum árstíma og neysla á fýl er aldagömul hefð í Mýrdalnum. Þó færri stundi þessa iðju nú til dags en áður er fjöldi fólks sem enn kann að meta fýlakjötið og leggur mikið á sig til að verða sér úti um þennan herramannsmat. Í hugum sumra er fýlaveiðin grimmdarleg þar sem fýlsungarnir eru rotaðir með kylfum þegar þeir eru á leið til sjávar, illa fleygir og bjargarlitlir. Eftir að fýllinn er kominn í hús er hann reyttur, sviðinn og saltaður í tunnu. Veiða og verka fyrir fjölskylduna Meðfylgjandi myndir tók Ingibjörg Eiríksdóttir á Kirkjubæjarklaustri þegar hún heimsótti fýlaverkendur í Vík á dögunum. Bændablaðið sló á þráðinn til Sigurðar Hjálmarssonar, sem hefur stundað fýlaveiðarnar í rúmlega hálfa öld. Hann segir fýlinn góðan mat sem sé þó alls ekki allra. „Það er hefð fyrir þessu hér í Vík. Við fjölskyldan veiðum á bilinu 100- 150 fugla á hverju hausti og erum búin að veiða um 90 í ár.“ Sigurður segir upplagt að geyma fuglinn í tvær vikur í salti áður en hann er borðaður. „Flestir reyna að salta ekki meira en svo að ekki þurfi meira en einn sólarhring í útvötnun.“ Hann segir að gamla verkunaraðferðin hafi vinn- inginn en í seinni tíð hafi menn líka hamflett fuglinn, skorið bringurnar úr og reykt þær. Aðspurður segir Sigurður að veiðiaðferðin hafi ekki breyst í gegnum tíðina en alltaf séu einhverjar breytingar í lífríkinu. „Það sem hefur breyst síðustu áratugi, af einhverjum orsökum, er að fuglinn er seinna á ferðinni til sjávar en áður var. Hann er líka minni um sig og léttari. Maður sér ekki lengur þessa stóru fugla sem voru algengir fyrr á árum“. Fýlaveiðin og verkunin er fjölskylduiðja hjá Sigurði og hans fólki en að hans sögn er unga kyn- slóðin að taka við þessum forna sið. Fýlseggin nytjuð áður fyrr Fýllinn er víðar að finna en í Mýrdalnum en hann lifir mest með ströndum landsins og heldur til í bjarglendi. Hann var mikilvæg fæða fyrr á öldum og var saltaður í tunnur til vetrarins. Einnig hafa fýls- egg verið nytjuð í gegnum tíðina en fuglinn verpir einungis einu eggi og er einkvænisfugl. /TB Fýlaverkun í Vík á sér langa sögu: Herramannsmatur sem er þó ekki allra Sigurður Hjálmarsson hefur stundað fýlaveiðar og verkun í meira en hálfa öld fyrir sig og sína. Unga kynslóðin tekur þátt í fýla- verkuninni. Hér er Jóhann Bragi Magnússon í Sólheimahjáleigu í Mýrdal að athafna sig með öxina. Hekla Katharína Kristinsdóttir og Áslaug Einarsdóttir reyta fýlinn. Um 90 fuglar liggja í valnum. Þeir verða loks reyttir, sviðnir og saltaðir.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.