Prentarinn - 01.12.2002, Blaðsíða 15

Prentarinn - 01.12.2002, Blaðsíða 15
hundruð gallaðar sálmabækur, límdar öfugar í svört bindin, þannig að krossinn sem átti að prýða framhlið þeirra stóð á haus aftan á þeim. Klukkan var um það bil ellefu mínútur gengin í ellefu og ég rölti um prentsmiðjuna í rólegheitum með hendur fyrir aftan bak og rýndi inn í myrkrið, nam staðar við þriskerann og virti hann vand- lega fyrir mér og sagði þrískeri í huganum og rölti síðan áfram, fram hjá annarri af saumavélun- um og að stærri kápuísetningar- vélinni og rölti í kringum hana og sagði kápuísetningarvél tvisvar í huganum og gægðist síðan ofan í járnpottinn með heita líminu, sem fyrr um daginn hafði smurst gullið og glóandi eins og hunang upp á hjólin, sem snerust og snertu saumaðan kjöl bókanna og voru til hálfs ofan í pottinum, en á nóttunni snerust engin hjól, vél- in var grafkyrr, potturinn kaldur og límið hvítt og hart, eins og tólg. Ég gekk eftir flóknu gatnakerfi um bókbandssalinn, eins og risi í illa útleikinni stórborg, eftir risp- uðum, slitnum og rykföllnum breiðstrætum, með langar raðir af misháum og misgömlum skýja- kljúfum úr pappír á trébrettum á báðar hendur, framhjá dimmum og drungalegum verksmiðjum, sem litu út eins og gamlar, þreytt- ar vélar, tróð rusl og drasl undir fótum mér og rak leggi, hné og mjaðmir í bása og borð, sem skil- in höfðu verið eftir á víðavangi, stytti mér leið af og til og tróð mér þá í gegnum þröngar hliðar- götur og gætti mín um leið á að detta ekki um auð trébretti og að flækja mig ekki í rafmagnssnúr- unum, sem héngu hér og þar neð- an úr þriggja fasa innstungum í rafmagnsstokkum á steingráum himninum. Þennan fyrsta vinnudag minn á bókbandinu hafði Ómar verkstjóri sett mig í þijú verk: að raða saumuðum bókum í vasana á stóru kápuísetningarvélinni, að taka á móti skornum bókum við enda þrískerans og raða þeim i kassa, og að taka upp, ásamt tveimur öðrum, fimm arka, áttatíu blaðsíðna tískublað í A4 yfirstærð í sjöþúsund eintaka upplagi, sem Stefán Máni ISRAEL Saga af manni var prentað í lit á þungan glans- pappír, brotið í sextán síðna krossbrot, rifgatað í kjölinn. Fyrst voru skapalónin, sem voru breiðir vinklar sem mynduðu vasana, í fremstu fimm stöðvun- um losuð og færð í sundur, síðan var lítið stuð af einni örkinni lagt ofan í vasana, hvern á fætur öðr- um, og skapalónin færð þétt upp að því, þó ekki of þétt, og hert föst, og síðan voru oddhvassir pinnar skrúfaðir á bilinu þrjá til fimm millimetra inn í skapalónin að neðanverðu, einn hægra meg- in, einn vinstra megin og einn í miðjuna að framan, og þessir pinnar áttu að varna því að fleiri en ein örk færu niður úr bunkan- um í einu, en ef að þeir voru skrúfaðir of langt inn náðu sog- blöðkumar þijár ekki að toga eina einustu örk niður fyrir þá, og þá gripu griparmarnir í tómt og þá kviknaði rautt ljós við þá stöð og vélin stöðvaðist sjálfkrafa, og það hafði hún gert aftur og aftur fyrsta klukkutímann eftir að við byrjuðum að taka upp þetta tísku- blað, sem hét Tískan, jafnvel mörgum sinnum á mínútu, og í hvert skipti sem griparmarnir gripu í tómt og rauða ljósið kviknaði og upptökuvélin stöðv- aðist varð Andrés bókbandsnemi, sem var með mér að raða örkun- um í stöðvarnar, rauðari og rauð- ari í framan, rauk til og fiktaði eitthvað í pinnunum, henti örk á færibandið og setti vélina aftur af stað, og þá hrundu margar arkir niður úr vasanum og flæktust og rifnuðu og þá sló hann af alefli á einn af neyðarstopptökkunum, blótaði og barði í vélina og reif arkirnar úr henni og grýtti þeim á gólfið og fiktaði aftur eitthvað í pinnunum og setti vélina af stað og þá færðust sogblöðkurnar á arminum upp og soguðu eina örk fasta og drógu hana niður og slepptu henni rétt áður en griparmarnir gripu um hana og drógu hana neðst úr bunkanum, neðan úr vasanum og niður á færibandið, kannski þrisvar sinn- urn í röð, á fullum hraða, en síðan gripu sogblöðkurnar í tómt vegna þess að pinnarnir héldu örkunum föstum, og þá gripu griparmarnir í tómt, rauða ljósið kviknaði, vél- in stöðvaðist og Andrés varð tóm- ur að innan, rauðari í framan og heilastarfsemin í honurn stöðvað- ist, en varirnar héldu áfram að titra og tauta og hendurnar fálm- uðu, börðu, hrintu, rifu og tættu sem aldrei fyrr. Þegar vinnudeginum lauk höfð- um við Andrés og konan sem var með okkur aðeins náð að taka upp tæplega áttahundruð eintök af PRENTARINN ■ 15 tískublaðinu Tískunni á rúmum þremur tímum, og voru þau ein- tök öll komin í kápu og búið að skera þrjúhundruð af þeim í þri- skeranum og pakka þeim í tólf kassa og senda þá út úr húsinu og vestur á Hótel Sögu, þar sem átti að dreifa blöðununt í kynningar- skyni á einhverri tískusýningu, sem átti að hefjast klukkan átta um kvöldið. Eftir að hafa velt þessum vand- ræðum öllum saman fyrir mér í dágóða stund, og látið vélina ganga í huganum á meðan, hægt og hratt, afturábak og áfram, stökk ég niður af borðinu og tók arkirnar úr vösunum og raðaði þeim aftur á brettin og stillti síðan vasana upp á nýtt, þannig að skapalónin þrengdu ekki eins mikið að örkunum, lokaði síðan fyrir sogið á sogblöðkunum sem voru í miðjunni, vegna þess að ég hafði tekið eftir því fyrr um dag- inn að þær drógu stundum loft og þá var eins og hinar tvær misstu máttinn, og að síðustu létti ég á pinnunum sem voru hægra og vinstra megin, en skrúfaði þann sem var að framan fyrir miðju ör- lítið lengra inn, og hægði síðan á vélinni með því að snúa hraða- stillingarhjólinu rangsælis. Síðan raðaði ég örkunum aftur í vasana, en hafði helmingi minna af þeim í hverjum bunka vegna þess að þær voru stífar og þungar, og hætti síðan að hugsa um upp- tökuvélina og tískublaðið Tískuna og hélt áfram að rölta um prent- smiðjuna með hendur fyrir aftan bak, gegnum bókbandið, inn í prentsalinn og pappírslagerinn, til baka og niður í setninguna, og skoðaði sofandi prentvélar, pappír í tonnatali, svarta tölvuskjái og kaldar kaffivélar þangað til að ég varð þreyttur í augunum og syfj- aður í höfðinu, og þá geispaði ég og fór að velta fyrir mér hvar ég ætti að leggjast til svefns, og hvernig ég ætti að fara að því að vakna áður en skrifstofufólkið, prentararnir, setjararnir, bókbind- ararnir, nemarnir, aðstoðarfólkið, verkstjórarnir og yfirmennirnir mættu til vinnu, alls áttatíu og sjö manns, áttatíu og átta með mér.

x

Prentarinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Prentarinn
https://timarit.is/publication/952

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.