Aðventfréttir - 01.05.1992, Blaðsíða 14

Aðventfréttir - 01.05.1992, Blaðsíða 14
INNSÖFNUN 1992 SÖFNUN m HJÁLPARSTARFS AÐVENTISTA Þá er söfnunin til hjálparstarfsins á þessu ári um garð gengin. Þó hafa ekki borist allra síðustu upphæðir frá hinumýmsu söfnuðum. Árangur söfnunarinnar í ár hefur markast töluvert af þeim drunga sem hvílir yfir efnahagslífi þjóðarinnar. Margir einstaklingar og sérstaklega fyrirtæki hafa þurft að sleppa þátttöku í söfnuninni á ár vegna fjárhagsörðugleika. Þó hafa landsmenn enn á ný tekið söfnurum vel og sýnt velvilja í garð söfnunarinnar sem endranær. Farið var af stað fyrstu helgina í júlí í fyrstu söfnunarferðina út á land, og þá hafist handa á Svalbarðseyri við austanverðan Eyjafjörð og unnið austur um land, allt suður að Hellu á Rangárvöllum. Stjórnandi þeirrar ferðar var Kristinn Ólafsson, en með honum fóru undirritaður, Sigurborg Ólafsdóttir og Brynja og Rhonda Erlingsdætur. Vikuna eftir þessa ferð stjórnaði Erling B. Snorrason ferð um Vesturland. Tekið var Snæfellsnes, allir Vestfirðir og allt að Hólmavík. Með honum í för var kona hans Jeanette, og dæturnar tvær. Síðla sumars stjórnaði Steinþór Þórðarson ferð um Norð-Vesturland. Þá var tekinn helmingur Akureyrar, Dalvík, Hrísey, Ólafsfjörður og allir bæir og þorp allt vestur að Hvammstanga. Aðrir þátttakendur í þeirri ferð voru þeir David West, Þröstur B. Steinþórsson og Davíð Ingibjartsson. Söfnunarátakið á Suð-Vesturlandi og í Vestmannaeyjum hófst í byrjun september að vanda. Safnað var á Akranesi sunnudaginn 6. september og í Hafnarfirði sunnudaginn 13. september með sameinuðu átaki safnaðanna. Þó hafði hinn nýstofnaði Hafnarfjarðarsöfnuður unnið hluta verksins í Hafnarfirði áður. Söfnunin á þessu svæði lauk fyrstu vikuna í október, nema á Suðurnesjum, en þar var haldið áfram, að fengnu framlengdu leyfi, fram í lok nóvember. í næstablaði munum við birta niðurstöður söfnunarinnar þar eð endanlegar tölur eru ekki til staðar nú því enn eiga upphæðir eftir að berast frá hinum ýmsu söfnuðum eins og fyrr segir. Einnig að þessu sinni er mikill hluti söfnunarinnar unninn af fáum aðilum sem lagt hafa á sig ómælda vinnu og fyrirhöfn til að sinna þessu mikilvæga verki jafnvel þó að í sumum tilvikum hafi verið við sjúkdóm að etja eða hreyfihömlun. Mætti þetta verða til þess að hvetja okkur hin til enn frekari dáða á komandi ári, til þess að halda við þessu mikilvæga verki sem er í anda Krists. Hér skulu að lokum færðar innilegustu þakkir til allra þeirra sem starfað hafa að söfnuninni þetta árið. Guð einn getur launað það framlag sem felst í því að heimsækja heimili og fyrirtæki landsins til að gefa almenningi tækifæri til þess að taka þátt í að líkna og lækna í anda Krists. E.G. UM SÁLMABÓKINA Við viljum minna á nýju sálmabókina okkar. Þetta er tilvalin jólagjöf í ár. Þessa bók má ekki vanta á heimili safnaðarmeðlima og margir í þjóðfélaginu í heild myndu fagna því að eignast hana. Við höfum kynnt organistum þjóðkirkunnar bókina og f engið mjög góðar móttökur. Nýlega afhentum við HaukiGuðlaugssyni, söngmálastjóra Þjóðkirkunnar, eintak af bókinni til eignar og hefur hann hug á að skrifa organistum sínum bréf og mæla með henni. Söngvaval á samkomum okkar hefur aukist til muna eftir að nýja bókin kom og margir hafa haft orð á því hve gaman þeim þykir að læra nýja sálma. Þeir sem hafa vanist því að syngja í kór og lesa nótur eiga auðvelt með það nú að syngja sína rödd í almennum kirkjusöng. Auk þess eru ýmsir farnir að prófa sig áfram með að syngja aukaraddir eftir nótunum sem aldrei hafa sungið í kór fyrr. Þegar unnið var að útgáfu bókarinnar var allt kapp lagt á að bókin yrði villulaus. Þó gerðu menn sér grein fyrir því að nær ómögulegt er að komast hjá öllum villum. Um 40 manns unnu við verkið svo erfitt er að samræma verk allra. Sumir slógu á létta strengi og bentu á að íslamskir bókstafstrúarmenn settu alltaf viljandi eina eða tvær villur í hverja bók, því enginn væri fullkomin nema Alla. Ekki vildum við nú fylgja þeirra fordæmi. Því miður gerðist það þó að fáeinar villur slæddust með í bókina: í tveimur sálmum féll niður vers og í einum sálmi dróst eitthvað til á filmu í prentun eftir að prófarkalestri var lokið. Leiðréttingar er nú verið að prenta á límmiða sem auðveldlega má setja í bækumar. Límmiðunum verður dreift í söfnuðina, en einnig verður hægt að nálgast þá á skrifstofu Samtakanna. Aftur viljum við undirstrika, notið tækifærið um þessi jól og gefið góða gjöf, gefið bestu íslensku sálmabókina, „Sálma og lofsöngva." Árið 1992 var útnefnt “ár söngsins” og því er þetta mjög viðeigandi gjöf. Þ.B.S. Sálrnar og Lofsöngvar fást á skrifstofu Aðventista, Suðurhlíð 36, Reykjavik, sími 91-679260. 14 Aðventftéttir 5.1992

x

Aðventfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Aðventfréttir
https://timarit.is/publication/973

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.