Kraftur - 01.05.2010, Blaðsíða 3

Kraftur - 01.05.2010, Blaðsíða 3
3KRAFTUR tÍMaMót Stórafmæli eru tímamót. Staður og stund til að líta yfir farinn veg og skoða hvað er framundan. Við eigum að nýta okkur slík tímamót til að þakka fyrir hverju hefur verið áorkað og um leið setja okkur ný markmið. Stuðningsfélagið Kraftur er 10 ára. Afmælið okkar var í byrjun október. Afmælisnefnd sem samanstóð af gömlum og nýjum Kraftsfélögum tók höndum saman og úr varð eftirminnileg hátíð í alla staði. Mig langar að byrja þennan pistil minn á því að þakka öllum sem að undirbúningi komu. Eftir afmælið urðu stjórnarskipti og tók ég þá við formennsku félagsins. Miklar breytingar urðu á stjórninni í heild og með nýju fólki má vænta þess að félagið gangi í gegnum vissar breytingar, sem eðlilegt er. Frá stofnun Krafts hefur margt breyst. Þjónustan við þá sem greinast með krabbamein hefur verið bætt til muna. Krabbameinsfélagið hefur opnað dyrnar með Ráðgjafarþjónustu sem staðsett er í Skógarhlíð þar sem aðstaðan er til fyrirmyndar og er öllum opinn aðgangur. Ljósið heldur uppi öflugri starfssemi sem er vel nýtt og er algjör lyftistöng fyrir margra sem greinast með krabbamein. Kraftur heldur uppi Stuðningsneti sem samanstendur af ólíkum einstaklingum sem eiga það sameiginlegt að hafa greinst með krabbamein eða eru aðstandendur. Allir hafa þeir hlotið sérstaka þjálfun í að veita stuðning. Ég vil taka það sérstaklega fram að stuðningur býðst ekki eingöngu þeim sem greinast heldur einnig fjölskyldu og vinum. Aðgengi að upplýsingum er orðið miklu betra svo ef á heildina er litið þá virðumst við vera á grænni grein. Alltaf má þó gera betur og draumurinn er sá að við getum látið þetta allt vinna saman í þágu þeirra sem greinast með krabbamein svo við gætum í raun rétt einstaklingnum þessa aðstoð og úrræði á silfurbakka og viðkomandi svo tínt það af bakkanum sem honum hentar. Því miður er það nú ekki alveg svo. Raunveruleikinn er að þú greinist með krabbamein og ert skyndilega orðinn sjúklingur. Þú ert dottinn inn í heim sem þig grunaði aldrei að þú yrðir partur af. Lífið fer á hvolf. Þú þarft að taka við endalausum upplýsingum. Þér er rétt nýtt tímaplan sem þú sérð fram á að þurfa að fara eftir. Ungt fólk er yfirleitt að gera skemmtilega og uppbyggilega hluti. Við erum að byggja upp líf okkar með námi, erum að hefja starfsferilinn, erum að eignast maka og svo koma börnin með allri þeirri gleði og lífsfyllingu sem þau veita okkur. Þessum undirstöðum sem við höfum haft mikið fyrir að koma okkur upp er kippt undan okkur og við vitum ekki alveg hvernig við eigum að fara að þessu. Hvað er Kraftur? Hvað stendur félag eins og Kraftur fyrir? Hvert viljum við stefna og hvernig getum við markað spor í þágu ungra einstaklinga sem greinast með krabbamein? Hver er tilgangurinn með stuðningsfélagi eins og okkar? Þetta eru spurningar sem ég hef spurt sjálfa mig að alveg frá því að ég gekk í félagið 2006. Maðurinn minn hafði þá greinst með krabbamein og var skyndilega í fullri vinnu við að vera sjúklingur. Við þurftum að púsla öllu saman upp á nýtt og lögðum okkur virkilega fram við það en við þáðum líka alla þá hjálp sem okkur bauðst. Við nutum stuðnings frá Krafti og því frábæra fólki sem gaf sér tíma til að aðstoða okkur. Við nýttum okkur einnig sálfræðiaðstoð á Landsspítalanum og fengum hagnýt svör á Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Hjúkrunarfræðingar frá heimaðhlynningu Karítas komu til okkar vikulega. Þegar ég lít til baka þá var í raun komið stærðarinnar net í kringum okkur sem veitti okkur mikið öryggi og við vorum aldrei ein. Í löngu sjúkdómsferli vorum við komin með heilmikla reynslu í að nýta okkur öll úrræði sem bjóðast. Að koma sér upp svona neti krefst heilmikillar vinnu og ég taldi það eitt af mínum meginhlutverkum í okkar sögu. Á ákveðnum tímapunkti áttuðum við okkur á því að við gátum ekki staðið í þessu ein. Ég er þakklát fyrir að við gerðum okkur grein fyrir þessu. Við vorum ekki ein og það fólk sem við settum okkur í samband við hafði skilning, reynslu og þekkingu til að leiða okkur áfram. Sjaldan er góð visa of oft kveðin en á meðan á veikindunum á mínu heimili stóðu, töluðum við oft um „draumateymi’’ sem við sáum fyrir okkur í fullkomnum heimi. Teymið okkar var samsett af læknum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraþjálfara, sál- fræðingi, reynslubolta úr Krafti og öðrum sem voru að vinna með sjúklinginn hverju sinni. Þessi ímyndaði hópur hittist reglulega og tók stöðuna hverju sinni. Allir voru að tala saman og gefa sitt álit og ekki síst að fá ráð hver frá öðrum. Um leið og ég skrifa þetta þá kemur svar við spurningum mínum um tilgang stuðningsfélags. Kraftur er orka frá fólki sem er reynslubanki sem við höfum aðgang að og því langar mig að nota tækifærið í þessum pistli til að hvetja fólk til að nýta þau úrræði sem eru í boði. Þetta er vissulega frumskógur og oft á tíðum upplifir fólk sig algjörlega eitt í heiminum. Því er mikilvægt að þessi úrræði sem nú þegar eru til staðar séu vel sýnileg og vinni hvert með öðru í þágu þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Með kærri kveðju og tilhlökkun til nýrra verkefna. Ásta Hallgrímsdóttir formaður Krafts

x

Kraftur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kraftur
https://timarit.is/publication/982

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.