Kraftur - 01.05.2010, Blaðsíða 12

Kraftur - 01.05.2010, Blaðsíða 12
12 KRAFTUR Kraftur tók þátt í að kynna bókina „Dagbók rokkstjörnu“, þrjú mögnuð ár í lífi fallins flugmanns eftir Atla Thoroddsen. Atli var 36 ára flugmaður hjá Icelandair þegar hann greindist með krabbamein sem dró hann til dauða á þremur árum. Í bókinni er sögð sagan af því hvernig Atli tókst á við sjúkdóminn, góðu fréttirnar og þær slæmu, lífið og tilveruna í nýju ljósi. Hér birtist reynslusaga hetju sem neitaði að láta erfið veikindi ræna sig lífsgleðinni og kímnigáfunni. Hún er einstök frásögn af fádæma hugrekki, þrautseigju, vináttu og ást. Atli var virkur félagi í Krafti og er eftirlifandi eiginkona hans Ásta Hallgrímsdóttir í dag formaður félagsins. Thoroddsen verkefnasjóður Krafts hefur verið stofnaður í minningu Atla og mun allur ágóði af sölu bókarinnar renna í sjóðinn. Dagbók rokkstjörnu fæst í helstu bókaverlsunum og hægt er að panta hana í gegnum vefsíðu Krafts, www.kraftur.org Icelandair styrkti útgáfu bókarinnar og gaf starfsfólki sínu 1000 eintök í aðventugjöf. Útgáfuteiti var haldin í Kaffitári í Bankastræti en þar var „Dagbók rokkstjörnu“ einmitt skrifuð að hluta til. Sigríður Thorlacius og Högni Egilsson úr Hjaltalín fluttu tónlist, Róbert Marshall og Bjarni Haukur Þórsson komu fram en sá síðarnefndi og Gunnar Hansson sáu um upplestur úr bókinni á kynningum á henni í fyrirtækjum og verslunum fyrir jólin. Hér gefur að líta brot úr bókinni: 01-01´2007 Annus Horribilis á enda! Jæja, gleðilegt ár öll sömul og nú tekur við tími endurreisnar hjá Thoroddsen! Var að leggjast upp í rúm og aðeins að hugsa til baka yfir liðið ár... Þetta er búið að vera ágætt í liðnum leiðindum að hluta til, þótt margt gott hafi að sjálfsögðu gerst! Ég náði að gifta mig sem er nú ekkert smáræði og ferðaðist út um allar trissur með og án vinnunnar, þannig að ýmislegt var nú brallað! Mig dreymir um tíma framundan þar sem ég get ferðast án sársauka og lifað eðlilegu lífi sem er alltof langt síðan gert var af einhverju viti.... En að þessu er nú stefnt og maður verður bara að vera þolinmóður og sýna smá getu til að gefa hlutunum tíma til að ná sér almennilega og þá verður árangurinn betri og lengrii! Jákvæðni verður í kortunum og þá tekst að ná fram svo miklu sem vantar uppá held ég. Beljan verður að fá sitt pláss og einnig eitt og eitt ævintýri að læðast inn í pakkann! Þar koma góðir vinir sterkir inn og er það gríðarlega spennandi hlutur sem algjörlega verður að komast að.....Annars náðum við Júlíana að skjótast út á flugvöll á gamlársdag og sáum afa Benna fljúga sitt árlega listflug. Þótt ég segi sjálfur frá, þá er alltaf jafn flott að sjá hvernig hann flýgur sína rútínu....alltaf graceful einhvern veginn og elegant! Hittum fullt af flugfólki og bara gaman að því. Borðuðum síðan æðislegan kalkún hjá Kristínu systur og Steinarri með allri fjölskyldunni og sáum svo John Cleese negla kvöldið með KB auglýsingu....snillingur! Skaupið ömurlegt að mestu og það er bara allt í lagi mín vegna.... Síðan byrjuðu lætin og Júlíana hafði rosa gaman af, var soldið stressaður að hún myndi stressast upp og verða hrædd, en hún tók þessu öllu með mesta jafnaðargeði sem var flott! Hvíld á morgun og síðan verður farið í lyfjameðferð nr. 2 annan jan! Ekkert stress með það, því nú veit ég að hverju ég geng! Góða nótt öll og megið þið eiga hið besta ár framundan, ég veit að ég ætla að gera það... Læknaritarinn (Ásta skrifar) : Við gerum ráð fyrir því að heilbrigðiskerfið virki. Við erum alltaf að stóla á sérfræðiþekkingu ókunnugra og viljum helst ekki fá spurningar frá flugstjóranum í 30 þúsund fetum: -Góðir farþegar. Búinn að prófa spindilfreiserana, rótorvektorana og ekkert virkar. Einhverjar hugmyndir svo við getum lent þessu? Ég er ekki róleg þegar kemur að þessum kafla sögunnar. Þó að ég reyni þá titrar í mér röddin þegar ég tala um þetta. Titrar í mér hjartað. Kerfið klikkaði. Það verður að koma fram. Mér finnst líka mikilvægt að gagnrýni sé borin fram af stillingu og án reiði. Án ásökunar. Allir reyna að gera sitt besta. Það er mannlegt að gera mistök. En við höfðum engar hugmyndir um hvað ætti að gera næst. Í dag sé ég svo eftir því að hafa ekki farið með Atla í öll viðtölin og allar rannsóknirnar. Kannski hefði það engu breytt, en tveir spyrja fleiri spurninga en einn. En við treystum kerfinu. Tvö ein á biðstofu eftir myndatöku í Dómus; tvö að treysta kerfinu. Ég að lesa skýrsluna. Grunur um cancer. Þar kom það fyrir þetta orð. Krabbi. Krabbamein. Ágúst 2006. Ég sýndi Atla setninguna. Hann var ekki búinn að lesa þetta. Hann greip um höfuð sér. Fyrir okkur varð þetta að verkefni. Hver dagur var verkefni. Hver ný tíðindi, góð eða slæm, voru verkefni. Þarna var þó komið eitthvað sem hægt var að taka á, eitthvað sem hönd á festi. Öll þessi leit að orsök þessa verkjar var á enda. Það var blettur á mjaðmabeini. Þar var meinið. Þá var bara að taka á því. Atli með þennan glampa í augum, í þessu góða fromi, fullur af lífsvilja. Hann var svo sérstakur að öllu leyti; hann myndi taka þetta. Ef hægt væri að taka þennan kraft, þessa hvatvísi og umbreyta henni í baráttuuafl gegn veikindum þá var Atli með það sem þurfti. DagbóK roKKStjörnu

x

Kraftur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kraftur
https://timarit.is/publication/982

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.