Kraftur - 01.11.2010, Blaðsíða 16

Kraftur - 01.11.2010, Blaðsíða 16
16 KRAFTUR Við langtíma veikindi er hætt við að sá veiki geti ekki fengist við verkefni daglegs lífs að sama krafti og áður auk þess sem ný verkefni bætast gjarnan við. Oft eru nógu miklar byrðar lagðar á aðra í fjölskyldunni og því er mikilvægt að dreifa álaginu sem skapast. Vinir og fjölskylda eru gjarnan öll af vilja gerð til að hjálpa en það er hætta á að sú aðstoð sem í boði er nýtist ekki sem skildi þar sem í svo mörg horn er að líta. Því er þörf á að skipuleggja þá aðstoð sem í boði er en það var einmitt við slíkar aðstæður sem Chappy Caposella og Sheila Warnock kynntust og til varð Share the Care umönnunar líkanið. Árið 1988 komu þær stöllur saman ásamt tíu öðrum konum til að aðstoða sameiginlega vinkonu Susan sem átti við versnandi krabbamein að glíma. Næstu þrjú og hálft ár hélt hópurinn saman og hjálpaði henni með daglegar athafnir. Þær elduðu, versluðu og ráku erindi fyrir Susan. Þær fóru með í spítalaheimsóknir og fylgdust með lyfjagjöfum. Hópurinn tók þátt í gleði og sorg hennar og skipulagði brúðkaup dóttur Susan hálfu ári áður en hún lést. Eftir andlát Susan var leitað til hópsins þegar vinkona hennar fékk krabbamein og í kjölfarið á því ákváðu Caposella og Warnock að skrásetja það sem þær höfðu skapað og útkoman varð bókin Share The Care sem gæti útlegst á íslensku: Deilum byrðunum. Þær höfðu fundið leið til að deila byrðinni sem fylgir því að hugsa um einstakling sem er með alvarlegan sjúkdóm. Bókin fer í gengum hvert skref í veikindaferlinu, greininguna, fyrstu vikurnar og þegar fólk áttar sig á að þörf er á aðstoð. Hún inniheldur leiðarvísi, uppástungur og vinnubók sem er auðveld í notkun. Aðferðin veitir sjúklingnum stuðning og forðar umönnunaraðilum frá því að brenna út. Auk bókarinnar hefur verið stofnuð vefsíðan Sharethecare.org þar sem fjölmargar upplýsingar eru aðgengilegar. Frá upphafi hefur Share the Care líkanið verið fyrirmynd fyrir umönnunarhópa og hefur verið vísað til þess í háskólum og af sérfræðingum. Markmið Share the Care Inc er að að skrásetja reynslu af notkun líkansins hvaðanæva frá í þeim tilgangi að bæta kerfið svo það geti gagnast öðrum í framtíðinni. Kerfið hentar meðal annars fyrir fólk sem er með krabbamein, alnæmi, alzheimer, afleiðingar alvarlegra slysa, gamalt fólk eða fólk sem hefur þörf fyrir aðstoð á annan hátt. Share the Care er ekki aðeins stuðningshópur. Það er grunnurinn að öflugu tengslaneti. Það byrjar með fundi þar sem gerðar eru nokkrar hópæfingar og hagnýt vinnublöð eru notuð til að koma öllum á sama sporið og skapa þannig sterk tilfinningaleg tengsl og sterka hópamyndun. Þetta er kerfi sem veitir öll hagnýt verkfæri sem þörf er á og það hefur verið endurskoðað í gegnum reynslu margra hópa. Share the Care kerfið veitir fólki stuðning þegar á reynir og kerfið á að koma í veg fyrir að fólk brenni út þegar umönnunar hlutinn er farinn að þyngjast verulega. Margt af því sem íslenskir aðstandendur hafa gert svipar mjög til Share the Care líkansins á einn eða annan hátt. Fólk reynir að axla byrðina saman. Ragnheiður Magnúsdóttir iðjuþjáfli notaði þessa hugmynd í námi sínu þar sem hún þróaði þjónustu sem miðaðist að fötluðum börnum, öldruðum og fjölskyldum þeirra. Karitas hjúkrunar- og ráðgjafarþjónusta hefur í gegnum tíðina aðstoðað fólk við að koma á laggirnar stuðningskerfi í líkingu við Share the Care. Aðstandendur og vinir eru hvattir til að taka höndum saman til að auðvelda líf sjúklingsins og þeirra sem standa sjúklingnum næst. Hver hópur skapar sitt eigið kerfi en áhersla er lögð á að fólk komi saman og geri fyrirfram ákveðna stundatöflu um hver á að gera hvað og hvenær. Verkefnin geta verið fólgin í innkaupum, heimilisverkum, koma með eldaðan mat, fara með eða sækja barn/börn í leikskóla eða fara í skemmtiferðir um helgar með heimilsmeðlimi. Verkefnaskipting felur í sér að verkefnum daglegs lífs er skipt niður á fleiri herðar. Fjölskyldan fær við það tækifæri til að hvílast og lifa eins góðu lífi og unnt er. „Að taka höndum saman“ kemur í veg fyrir að sá sjúki þurfi sjálfur að biðja um aðstoð heldur kemur aðstoðin til hans. Í bókinni koma meðal annars fram tillögur um æskilegan fjölda fólks í hóp eftir aðstæðum og hvernig hentugt er að bera tillöguna að umönnunarhópnum undir þann veika. Það er því ljóst að það er til mikils að vinna við að kynna sér það starf sem hefur farið fram hjá Share the Care, bókin er því miður ekki ennþá til íslenskri þýðingu en Kraftur á eintak af bókinni sem félagsmenn geta fengið að láni á skrifstofu félagsins. Heimildir: Vefsíðan: www.sharethecare.org Glærur frá Ragnheiði Magnúsdóttur byggðar á efni bókarinnar Share the care. Samtal við hjúkrunarfræðing hjá Karitas. Léttum byrðarnar

x

Kraftur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kraftur
https://timarit.is/publication/982

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.