Kópavogur - 24.05.2013, Blaðsíða 8

Kópavogur - 24.05.2013, Blaðsíða 8
8 24. maí 2013 Karl Ágúst Úlfsson lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1981 og lék í mörg ár á sviði, í sjónvarpi og í kvikmyndum. Á síðari árum hefur hann einkum starfað í leikhúsi og við sjónvarp sem höfundur, leikstjóri og þýðandi. Karl Ágúst lauk MFA-gráðu í leikritun, handritagerð og leikstjórn við Ohio University árið 1994. Fjögur verka hans hafa verið sett á svið í Bandaríkjunum, og meðal leikverka Karls Ágústs sem sýnd hafa verið á Íslandi eru Í hvítu myrkri í Þjóðleik- húsinu, söngleikirnir Fagra veröld í Borgarleikhúsinu og Ó, þessi þjóð í Kaffileikhúsinu svo fátt eitt sé nefnt. Auk þessa hefur hann þýtt yfir þrjátíu leikverk fyrir útvarp og leiksvið, þar á meðal Jesus Christ Superstar sem sett var upp í Borgarleikhúsinu árið 2007. Karl Ágúst er sá sem er yfirheyrður að þessu sinni. Fullt nafn? Karl Ágúst Úlfsson Fæðingardagur og ár? 4. nóvember 1957 Stjörnumerki? Sporðdreki Starf? Leiklistamaður. Ég er farinn að nota það starfsheiti í seinni tíð í stað þessa að kalla mig ýmist leikara, leikstjóra, rithöfund, þýðanda eða hvað það nú er sem ég er að fást við þá stundina. Allt sem ég starfa tengist hins vegar leiklist, svo leiklistamaður er ágætis orð. Foreldrar? Unnur Karlsdóttir og Úlfur Þór Ragnarsson Hvert liggja ættir þínar (móðurleggur / föðurleggur)? Pabbi er ættaður úr Austur-Húnavatns- sýslu og úr Dölunum, en mamma ofan af Skaga og úr Reykjavík. Hvert sækirðu gríngenin? Í allar áttir. Það eru margir spaugfuglar í báðum ættum. Pabbi og mamma eru bæði miklir húmoristar og í rauninni miklu fyndnari en ég og móðuramma mín var með skemmtilegri mann- eskjum sem ég hef kynnst. Skólaganga? Ég hóf mína skólagöngu í Vogaskóla, flutti svo í Laugalækjarskóla og þá í Varmárskóla í Mosó. Svo var það Brú- arlandsskóli, sem seinna varð Gagn- fræðaskóli Mosfellssveitar og eftir það M.H., þá Leiklistarskóli Íslands og loks Ohio University, en þaðan lauk ég meistaragráðu í leikritun og handritagerð. Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Áður en ég ákvað að verða auðnuleys- ingi man ég ekki eftir nema einu starfs- heiti sem ég sóttist eftir, en það var dýralæknir, sem er mjög merkilegt þar sem ég var hræddur við flest dýr. Svo datt mér í hug að verða myndhöggv- ari og eftir það hefur þetta allt legið niður á við. Maki? Tveggja manna maki, en einhleypur að öðru leyti. Börn/barnabörn? Fimm börn og fjögur barnabörn. Og kvarta ekki. Hverjir eru helstu kostirnir við að búa í Kópavogi? Ætli aðal kosturinn sé ekki hvað Kópa- vogur hefur komið mér skemmtilega á óvart. Ég vissi lítið hvað ég var að fara út í þegar ég flutti hingað en áttaði mig á því strax á fyrstu vikunni hvað þetta hentaði mér vel. Ég segi bara eins og Kennedy: Ich bin ein Kopavogier. Í hvað hverfi býrðu? Í Kjarrhólmanum, alveg neðst í Foss- vogsdalnum. Þar iðar allt af útivist og íþróttum, já og grænmetisrækt, svo ég er í góðum málum. Ef þú byggir ekki í Kópavogi, hvar þá? Ég veit það ekki. Annað hvort í New York eða einhvers staðar uppi í sveit með hænur og hross sem ég væri sjálf- sagt skíthræddur við. Hefurðu búið erlendis? Já, ég bjó í tvö ár í Athens, Ohio, en það er í Bandaríkjunum. Óhemjulega krúttlegur lítill háskólabær með alvöru meginlandsloftslagi, þar sem maður getur bæði dáið úr hita og kulda eftir árstíðum. Stærsti sigurinn? Þeir eru bara svo margir. (Guð, og ég sem ætlaði að vera svo hógvær í þessu viðtali!) Einn er að horfa á börnin mín fæðast án þess að þurfa áfallahjálp á eftir. Annað er að hafa skrifað og leikið í hátt í 500 Spaugstofuþáttum og hafa ennþá gaman af því. Mesta axarskaftið? Að byrja að reykja tuttugu og þriggja ára gamall. Á þeim aldri hefur maður ekki lengur þá afsökun að maður sé bara krakkabjáni. Síðan losnaði ég ekki við tóbaksfíknina fyrr en átján árum seinna. Vandræðalegasta augnablikið? Þau eru bara svo mörg. (Ég er að reyna að bæta fyrir svarið við spurningunni um sigrana.) Kannski þegar ég fékk svo frábæra hugmynd að leikriti að ég sat í tvo daga og skrifaði nákvæma lýsingu á söguþræðinum, persónum og eins- tökum atriðum. Þegar ég settist síðan niður með þáverandi Þjóðleikhússtjóra til að kynna hugmyndina fyrir honum benti hann mér á að þetta leikrit hefði verið skrifað áður. Ég var sem sagt bú- inn að stela verki annars manns án þess að hafa hugmynd um það. Nei, eflaust á ég miklu vandræðalegri augnablik sem ég er búinn að þurrka út úr minninu. Helstu áhugamál? Útivist, fjallgöngur, kajakróður, lík- amsrækt, hjólreiðar, tennis, uppeldi, trommuleikur og andleg málefni af margvíslegum toga. Ertu tilfinninganæmur? Alveg skelfilega. Sumar ljóðlínur get ég ekki farið með án þess að mér vökni um augun og stundum þarf ég ekki annað en að fá góðan mat til að tilf- inningarnar beri mig ofurliði. Ertu rómantískur? Alveg þokkalega, held ég. Ég lendi stundum í því að segja eða gera eitthvað sem verður til þess að konur segja "ó, en rómantískt", og þá kem ég kannski af fjöllum. Hafði ekki hugmynd um að umrædd orð eða athöfn flokkaðist undir annað en hversdagsleg samskipti. Þannig að, jú, trúlega er ég miklu róm- antískari en ég held. Áttu góða uppskrift að rómantísku kvöldi? Í fúlustu alvöru, þá held ég að svoleiðis uppskrift hlyti alltaf að vera svolítið tilgerðarleg. Er það ekki? Erum við þá ekki farin að tala um ein- hver leiktjöld, búninga og handrit? Eina uppskriftin að rómantík sem ég kann er einlægni og hún á við bæði kvölds og morgna. Hvað gerir konur aðlaðandi? Húmor, jákvætt hugarfar og hlýja. Og svo smá húmor í viðbót. Hver er þinn helsti kostur? Þeir eru bara svo margir — uu, nei, ég er víst að ofnota þetta svar. Ég er farinn að þekkja takmarkanir mínar og taka mark á þeim. Ég er hættur að taka að mér hluti sem ég ræð ekki við. En galli? Hvað það er fátt sem ég ræð við. Kanntu á saumavél? Uuu, nei. Þarna sérðu. Stór galli. Kanntu að bakka bíl með kerru aftaní? Já já, það kann ég. Eins og margir af minni kynslóð var ég farinn að keyra dráttarvél ólöglega í kringum ferm- ingu. Þá lærði ég að bakka með allar stræðir af kerrum aftaní. Svo kann ég líka að bakka saumavél. Hvernig slakarðu best á? Ég íhuga, það er góð slökun. Annars held ég að ég slaki best á lengst uppi á fjöllum, langt frá tölvudóti og GSM símum. Ertu flughræddur? Nei. Ertu með bíladellu og hvernig bíl áttu? Nei, ég er ekki með bíladellu, eða var það að minnsta kosti ekki fyrr en ég eignaðist núverandi bíl, sem er Land Rover Defender. Þá fyrst kynntist ég alvöru karakter af bílakyni og við urðum strax perluvinir. Ferðastu mikið (innanlands og/eða utan)? Ég reyni að ferðast innanlands eins og ég get, helst með börnunum mínum. Við erum útilegufólk öll með tölu. En ég reyni líka að komast burt af skerinu af og til, ýmist til að vinna, heimsækja góða vini eða stunda menningarlíf. Fallegasti staðurinn á Íslandi? Suð-Vesturland séð ofan af Botns- súlum. Fallegasti staðurinn í útlöndum? Blái hellirinn á Capri. Eftirminnilegur staður? Colorado Monument Ertu hjátrúarfullur? Já, alveg sæmilega. Trúir þú á framhaldslíf? Já. Hefurðu farið til spámiðils og/eða trúir þú á slíkt? Nei, það hef ég aldrei gert og hef afar takmarkaða trú á þeim. Ertu góður að elda og hver er þinn uppáhalds matur? Ég er enginn snillingur í eldhúsinu, en ef ég gef mér góðan tíma get ég alveg sett saman ætan mat. Ég er óskaplega veikur fyrir austrænni matargerð, ind- verskri, tælenskri og víetnamskri og reyni stundum að apa eftir einhverju slíku. Ferðu oft út að borða? Já já. Besti/eftirminnilegasti veitingastað- urinn (innanlands eða utan)? Hráfæðisveitingahús á Manhattan sem heitir Pure Food and Wine. Þar varð ég fyrir matarreynslu sem ekkert hefur toppað fyrr eða síðar. Uppáhalds tónlistarmaður eða tón- list? Ætli ég verði ekki að nefna Megas. Ég er búinn að hlusta á hann síðan í menntó og hef ekki ennþá fengið nóg. Svo er Dylan ekki sá alversti. Athyglisverð bók? When the Drummers Were Women eftir Layne Redmond. Stórmerkileg söguleg úttekt á gamla mæðraveldinu og frumkvöðlahlutverki kvenna í menningu, listum og trúarathöfnum. Hvert eftirtalinna er skemmtilegast: Að leika á sviði, kvikmyndum eða sjónvarpi? Ég hef svo lítið leikið á sviði seinni árin að líklega er það tilbreytingin sem gerir það að verkum hvað mér þykir það of- boðslega skemmtilegt í þessi fáu skipti. Hins vegar hef ég stundum orðið leiður á að leika það sama kvöld eftir kvöld og þess vegna hefur sjónvarps- og kvik- myndaleikur hentað mér ágætlega. Ég get eiginlega ekki svarað þessu svo að vit sé í. Eru Íslendingar almennt með léttan og góðan húmor? Ekkert endilega. Íslendingar eru mjög mismunandi eins og aðrar þjóðir. Hvað gerir þú þegar þú ert argur eða ekki í góðu skapi? Ég reyni að horfa á eða lesa eitthvað upplífgandi, eða tala við skemmtilegt fólk, til dæmis börnin mín. Ef það dugar ekki fer ég bara að sofa. Hvaða stjórnmálamann er skemmti- legast að leika? Það væri ósanngjarnt að nefna ekki Jó- hönnu Sigurðar, því hana hef ég leikið lengst og mest, en ég hafði alltaf gaman af að bregða mér í Björn Bjarnason á meðan hann var í sviðsljósinu. Hefur einhver, sem þú hefur leikið eftir, orðið reiður eða fúll? Já. En mér finnst ekki sanngjarnt að ég nefni hann, því hann kaus að bera harm sinn í hljóði. Hvað er framundan? Þessa dagana erum við Siggi Sigurjóns og Örn Árna á fullu að gera klárt fyrir tökur á bíómynd um einkaspæjarana Harrý og Heimi. Þetta er verkefni sem búið er að vera í pípunum í nokkur ár. Já, og hefur reyndar verið draumur okkar í næstum því 25 ár, svo það eru mikil átök framundan, blóð, sviti og tár og vonandi líka fullt af hlátri. Áttu handa okkur uppbyggilega/ skondna sögu? Já, en þær eru bara svo margar...... Karl Ágúst Úlfsson: „Ætlaði að verða dýralæknir....þó ég hafi verið hræddur við flest dýr....“ Stórfjölskylda Karls Ágústs saman komin á góðri stundu. „Þegar ég eignaðist Land Rover Defender þá kynntist ég alvöru karakter af bílakyni.“ segir Karl Ágúst.

x

Kópavogur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kópavogur
https://timarit.is/publication/987

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.