Vesturland - 24.10.2013, Blaðsíða 8

Vesturland - 24.10.2013, Blaðsíða 8
8 24. október 2013 Sveitapiltsins draumur Það þarf kannski ekki að vera gáfulegur yfir höfuð til að geta tjáð sig af einlægni, en það er nú samt sem áður gáfumerki að geta það. Gáfur eru nefnilega þeim kostum gæddar að vera margskonar. Í sveit – eða á landsbyggðinni almennt – þarf oft að minna á þessa einföldu stað- reynd, sem þó flestir sem þar búa hafa gert sér grein fyrir án þess endilega að orða það neitt með sérstaklega hástemmdum hætti. Við leitumst við að byggja samfélag sem er heilt og jarðtengt, sem miðlar okkur lífsgæðum sem felast í hugarró og öryggi í dag- legum störfum, við viljum að líf okkar hafi tilgang, markmið og merkingu. Í sveitum verður þetta hvað skýrast á haustin þegar sú hringrás sem hefst með tilhleypingum um jólaleytið endar með umræðu um fallþunga lamba og heimtur af fjalli. Þannig er hringrás lífsins. Mitt fyrsta launaða starf á ævinni var í sláturtíðinni í Kaupfélagi Önfirðinga um ellefu ára aldurinn. Ég var leiddur inn í sláturhúsið að hausti, vísað inn á “snyrtistofuna” innaf fallbandinu, þar sem féð var hálsskorið sekúndum eftir hinstu stundina í skotklefanum, en þar beið mín haugur sem var hærri en ég sjálfur af lambshausum. Það er eitt- hvað mjög óraunverulegt við að rifja upp þessa stund þegar maður hugsar til samtímans og þess veruleika sem börnin alast upp við í dag. Um sama leyti og ég var að hefja störf í sláturhúsinu á sínum tíma lagðist af sá siður að um hvert og eitt embætti prests á landinu færi fram kosning. Að mínu mati er það klár kenning lútersks siðar að söfnuðurinn fái um það vélað hver prestur hans skyldi vera en þessar kosningar höfðu á sínum tíma þann brag á sér að vera nokkuð litaðar af pólítík og hagsmunagæslu. Því er mjög skiljanlegt að þær hafi lagst af og þær reglur sem síðan hafa verið við lýði hafa að mörgu leyti mætt kröfu lúterskrar kirkju um áhrif sóknarbarnanna. En um leið hafa þær undið upp á sig og illmögulegt hefur því með tíð og tíma orðið að ganga fram hjá reglu- gerðum um opinbera starfsmenn, þar sem tillit er tekið til aldurs, starfs- reynslu á tilteknu sviði og þar fram eftir götunum. Enginn sem til þekkir kýs að í því samfélagi sem við lifum í, hversdegi fjölmiðlavalds þar sem afl þess sem aðgengi (eða fjármagn) hefur að kynningarstarfsemi kynni að ráða úrslitum um útkomu kosningar til embættis prests. Ekki frekar en ef kosið væri um hver yrði læknir á ákveðnu svæði eða sýslumaður. Því er það á ábyrgð okkar sem erum upplýst fólk í lýðræðissamfélagi að taka mið af því í málflutningi okkar þegar við sækjumst eftir ábyrgðarstarfi í sveitasamfélagi, að láta ekki kosningabaráttu eins og þá sem fram fer á sunnanverðu Snæ- fellsnesinu um þessar mundir, snúast upp í slag sem gæti sundrað því sam- félagi sem við sækjumst eftir því að fá að þjóna. Um leið og ég segi það, hugsa ég með hlýhug til þeirra sveitunga sem tóku sig saman um það að fara fram á að um embættið væri kosið. Þannig fór það þegar núverandi sóknarprestur á Staðastað tók við embætti og mun hafa gefið góða raun. Ég hef fulla trú á því að í þessu tilviki muni einnig fara vel, hver sem við embættinu tekur. Það sem ég tel aftur á móti stærsta ávinninginn fyrir sóknarbörnin sem og þann sem valinn verður, er sú stemning og það samfélag sem myndast hefur í þessu ferli. Að við látum okkur varða hver sé „okkar prestur“. Á þeim grundvelli hvílir starf Þjóðkirkjunnar á landinu öllu. Fjölbreytt mannlífsflóra og þakklæti Minn stærsti lærdómur – og ástæða þess þakklætis sem ég vil hér koma á framfæri – er sá að fá að ferðast um sveit í þessu landi og „uppfæra hug- búnaðinn“ ef svo má kalla. Sú sveit sem ég sækist eftir að fá að þjóna er ekki sú sem ól mig en hliðstæðurnar eru margar. Að átta mig á þeim um leið og ég fæ tækifæri til að kynnast ólíku fólki, sem á það þó sameiginlegt að hafa ríka skoðun á því hver fyllir skarð þess prests sem samfélaginu hefur reynst vel um sautján ára skeið. Ég hef heimsótt fólk sem hefur alið allan sinn aldur í Staðasveit, Breiðuvík og vestur undir Öndverðanes, ég hef kynnst fólki sem er annt um sinn hrepp og sitt samfélag í Eyja-og Miklholtshreppi, Kolbein- staðahrepp og allt suður að Mýrum. Að fá nasaþef af lífi fólks í kúabúskap, garðyrkju, skógrækt, bændum í réttum, kennaraliði skólanna, fólkinu í ferða- þjónustunni, hrossaræktinni og þeim sem sækja sjóinn eða herða skreið. Einyrkjar og samlagsfólk, unglingar og aldraðir, trúaðir og heiðnir. Öll mann- lífsflóran. Það eru forréttindi þeim sem finnur að þræðir þess samfélags sem hann vill þjóna, og þræðirnir sem hafa mótað hann sjálfan, þeir liggja saman. Samhengið veitir öryggiskennd, rétt eins og það hefur verið innihaldsríkt að setja sig í tengsl við söguna, það samhengi sem mótað hefur höfuðból eins og Staðastað sem og kristnihaldið á söguslóðum Árna Þórarinssonar og Jóns Prímusar. Samfélagið undir Jökli á það skilið að mörkin á milli skáld- skapar, drauma og veruleika, taki mið af því kyngimagni sem nærvera jökulsins miðlar. Að mörkin á milli kirkjunnar og túnsins og sjávarflatarins séu jafn bundin lögmálum náttúrunnar og hrynjandi flóðs og fjöru í útivistar- paradísinni á Löngufjörum. Það hefur verið gott að vísítera fólk sem finnur á sér hvernig hlutirnir verði eða dreymir fyrir tíðarfari. Það fyllir manni trú á líf og samhengi kirkjunnar og siðarins þegar það rætist svo úr því sem fólkinu dreymir fyrir, þó aðrir vilji kalla það draumarugl. Þannig fórst nú mörgum að orði um kraftaverkin og uppris- una og gott ef ekki kristindómurinn stefnir að marki sem er ofar skilningi okkar allra. En það er líka kosturinn. Í bjarmanum frá jöklinum og gildum hins kristna siðar geta sveitapiltisins draumar ræst. Arnaldur Máni Finnsson guðfræðingur Arnaldur Máni Finnsson að grilla makríl á Hvilft í Önundarfirði. Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni - Landnámssetrið í Borgarnesi meðal fyrri vinningshafa Byggðastofnun, Flugfélag Ís-lands og Listahátíð í Reykja-vík veita nú viðurkenningu til framúrskarandi menningarverkefna í tíunda sinn sem nefnist Eyrarrósin. Þessir aðilar hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi. Viður- kenningin er til framúrskarandi menningarverkefna á starfssvæði Byggðastofnunar, og verður veitt í tíunda sinn sinn í febrúar 2014. Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa saman að verðlaununum frá upphafi. Handhafi Eyrarrósarinnar hlýtur 1.650.000 krónur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Aðrir tilnefndir hljóta 300.000 krónur auk flugferða. Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menn- ingarhátíð. Valnefnd tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrar- rósina. Dorrit Moussaieff forsetafrú er verndari Eyrarrósarinnar. Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Viðurkenningin er mikilvæg enda um veglega upphæð að ræða, og tilnefning til Eyrarrósar er einnig mikilsverður gæðastimpill fyrir þau afburða menningarverkefni sem hana hljóta. Fyrri Eyrarrósarhafar eru Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi; Safnasafnið á Svalbarðs- strönd; Sumartónleikar í Skálholts- kirkju; Bræðslan; Landnámssetrið í Borgarnesi; Aldrei fór ég suður; Strandagaldur á Hólmavík; LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi; og Þjóðlagahátíðin á Siglufirði. Um- sóknarfrestur um Eyrarrósina 2013 er til miðnættis þann 15. nóvember nk. og skulu umsóknir sendar rafrænt á eyrarros@artfest.is. Sýning um íslenskt atvinnu- líf fyrirhuguð á Bifröst Háskólinn á Bifröst hefur hafið undirbúning að sýn-ingu um íslenskt atvinnulíf. Stefnt er að opnun hennar á Bifröst seinni hluta maímánaðar 2014. Sýn- ingin verður öllum opin og er ætluð bæði almenningi og ferðamönnum. Henni er ætlað að draga upp fjöl- breytta og jákvæða mynd af íslenskum fyrirtækjum og þýðingu þeirra fyrir samfélagið. Stjórnendur og starfsfólk fyrirtækjanna munu kynna starfsemi fyrirtækja sinna eftir margvíslegum miðlunarleiðum og segja frá því hvaða verðmæti fyrirtækin eru að skapa og hvernig þau fara að því. Framtíðarsýn fyrirtækjanna verður ennfremur gerð skil. Sýningargestir eiga að ná góðri snertingu við íslenskt nútímaatvinnulíf á sýningunni. Sýningin verður jafn- framt útbúin í sérstakri skólaútgáfu sem hægt verður að fara með milli grunnskóla og framhaldsskóla til þess að kynna íslenskt atvinnulíf fyrir nemendum. Sýningin getur þá staðið uppi í hverjum skóla í viku í senn þar sem samhliða yrðu skipulagðar sér- stakar kynningar á atvinnulífinu. Með þessum hætti er unnt að styrkja mjög tengsl milli atvinnulífsins og skólanna. María Ólafsdóttir hefur verið ráðinn sýningarstjóri fyrir sýninguna. Þrátt fyrir að skólastarf á bifröst hafi tekið miklum breytingum síðan Jónas Jónsson frá Hriflu átti stóran þátt í stofnum samvinnuskóla þar á sínum tíma, hefur þessum frumkvöðlum ekki verið gleymt. Þessi brjóstmynd af Jónasi frá Hriflu stendur fyrir utan skólann og minnir óneitanlega á upp- hafið. Landnámssetrið í borgarnesi.

x

Vesturland

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vesturland
https://timarit.is/publication/989

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.