Reykjanes - 13.06.2013, Blaðsíða 14

Reykjanes - 13.06.2013, Blaðsíða 14
14 13. júní 2013 Guðbergsstofa opnuð í Kvikunni Guðbergsstofa, safn og sýning um Guðberg Bergsson rit-höfund og heiðursborgara Grindavíkur, var opnuð í Kvikunni á Sjóaranum síkáta. Guðbergsstofa er samstarfsverkefni Grindavíkurbæjar og ARTPRO ehf. Fjölmenni var við opnunina. Kristín María Birgisdóttir formaður bæjarráðs og dr. Birna Bjarnadóttir forstöðumaður íslensku- deildar Manitóbaháskóla í Kanada fluttu ávörp sem og Guðbergur sjálfur. Í Guðbergsstofu hefur verið komið upp vönduðu safni og sýningu til heiðurs Guðbergi Bergssyni, einum virtasta rithöfundi Íslendinga fyrr og síðar. Guðbergur fæddist í Grindavík árið 1932 og ólst þar upp. Guðbergur hefur alla tíð tengst Grindavík sterkum böndum og var útnefndur heiðurs- borgari Grindavíkurbæjar árið 2004. Guðbergur býr hluta ársins í húsi sínu í Grindavík sem er húsið sem hann ólst upp í. Guðbergur varð áttræður í fyrra. Meðal þess sem er í Guðbergsstofu eru allar bækur og öll verk sem gefin hafa verið út eftir Guðberg Bergsson á Íslandi. Skáldsögur, ljóðabækur, smásögur, barnabækur, sem samtals eru a. m. k. 36 verk. Auk bóka sem Guðbergur hefur þýtt úr erlendum málum sem skipta tugum. Sýnishorn af bókum og verkum Guðbergs sem þýdd hafa verið á erlend tungumál. Verk Guðbergs hafa komið út á 19 tungumálum um allan heim frá árinu 1961. Sýnishorn af óútgefnum verkum Guðbergs og saga og ferill Guðbergs Bergssonar er á stórum veggskiltum. Allar upplýsingar eru bæði á íslensku og ensku. Ávarp Kristínar Maríu Birgisdóttur, formanns bæjarráðs, við opnun Guð- bergsstofu: „Kæru gestir, ég vil byrja að því að óska ykkur gleðilegrar hátíðar um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn! Það er gaman að sjá hversu margir eru saman komnir á þessum menningar- tímamótum í Kvikunni nú þegar Guð- bergsstofa er formlega opnuð. Í tilefni þess að Guðbergur varð átt- ræður á síðasta ári var það einlæg ósk Grindavíkurbæjar að gera bæði ævi hans og verkum góð skil. Guðbergur er stolt okkar Grindvíkinga enda ein- hver virtasti rithöfundur Íslendinga fyrr og síðar. Hann er heiðursborgari Grindavíkur og líklega okkar manna þekktastur enda liggja eftir hann fjöl- mörg ritverk; skáldsögur, smásögur, ljóðabækur og barnabækur ásamt fjölda annarra ritverka og þýðinga. Þá hafa ritverk hans komið út á 19 tungu- málum. Guðbergur hefur sannarlega auðgað íslenskar bókmenntir þann tíma sem hann hefur verið að skrifa en sá tími telur rúma hálfa öld. Í október í fyrra hélt Grindavíkurbær samkomu til heiðurs Guðbergi sem á þeim tíma fagnaði áttræðis afmæli sínu. Undirrituð var viljayfirlýsing á milli bæjarins og Guðbergs um opnun Guðbergsstofu. Í safninu verður bæði lífi og verkum Guðbergs gerð skil. Við ætlum líka að gera verkum hans góð skil á nýju bókasafni sem senn fer að rísa en fyrsta skóflustungan að því verður á miðvikudaginn næstkomandi. Í gær tók Guðbergur við heiðurs- doktorsnafnbót frá Háskóla Íslands en málþing var haldið um morguninn sérstaklega til heiðurs Guðbergi. Var það á hvorki fleiri né færri en fimm tungumálum. Það var gaman að heyra í fjölmiðlum í hversu miklum metum Guðbergur er, m. a. hjá fyrrverandi forseta okkar, frú Vigdísi Finnboga- dóttur en hún lýsti Guðbergi sem galdramanni orða og hughrifa og að einstakt væri hversu óþreytandi hann hafi verið að ferðast um lönd og færa nýjar hugmyndir hingað heim. Mikil- vægt væri fyrir Íslendinga að eiga rit- höfunda og skáld sem þekktu heiminn. Vigdís sagði Guðberg hafa brotið blað í íslenskri bókmenntasögu. Íslendingar hafi þyrst í sögur af sér og öðrum til samanburðar og það hefði Guðbergur fært þeim. Benti hún á hversu mikil- vægt það væri að víkkja sjóndeildar- hringinn og að Guðbergur hefði, eins og hún orðaði það, „komði með eilítið aðra sól og sýn en við höfum átt að venjast í víkum, til fjalla eða á nesinu, hér heima í íslensku náttúrudýrðinni. Ég vil fyrir hönd bæjarstjórnar Grindavíkur óska ykkur hjartanlega til hamingju með Guðbergsstofu og erum við þess sannfærð um að hún muni auðga til muna þau glæsilegu söfn sem fyrir eru um jarðorku og lífæð okkar Grindvíkinga, saltfiskinn. „ Guðbergur heiðursdoktor frá HÍ Guðbergur Bergsson, rithöfundur, segir að helsti lærdómur ferðalaga sé að læra að þekkja sjálfan sig. Hann hlaut heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands á málþingi sem var tileinkað honum og verkum hans. Guðbergur hefur frá árinu 1961 skrifað ótal skáldsögur, smásögur, ljóðabækur og barnabækur auk annarra ritverka og þýðinga. Verk Guð- bergs hafa komið út á 19 tun gumálum um allan heim. Hann, sem fagnaði átt- ræðisafmæli í fyrra, segist ætla að halda áfram að gera það sem hann hafi gert hingað til, að skrifa. Í dag hlaut hann æðstu viðurkenningu Háskóla Íslands. „Þetta var ekkert undarlegur dagur. Mér finnst þetta vera sjálfsagður dagur. Það fór svona helst í gegnum hugann að ég heyrði afar fátt”, sagði Guðbergur Guðbergur hefur ferðast mikið um ævina, búið erlendis og kynnt Íslendinga fyrir öðrum menn- ingarheimum. „Það er afar erfitt að segja um það hvað maður hafi lært á ferðalögum. En ég held að það sé helst það að maður lærir að þekkja sjálfan sig”. (Heimasíða Grindavíkur)

x

Reykjanes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Reykjanes
https://timarit.is/publication/990

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.