Reykjanes - 11.07.2013, Blaðsíða 8

Reykjanes - 11.07.2013, Blaðsíða 8
8 11. júlí 2013 Björgunarsveitin Sigurvon 85 ára Það er mikið í ráðist að ætla að segja sögu þessarar merku sveitar. Það væri í raun og veru efni í heilt blað. En svo mikið pláss fæ ég ekki. Það er líka of langt mál að telja upp allt það góða fólk sem hefur lagt Björgunarsveitinni Sigurvon krafta sína í gegn um árin. Líklega tengdust eða tengjast flestar fjölskyldur í bæjar- félagi starfinu á einn eða annan hátt. Þegar ég var beðin að skrifa grein um Sigurvon kom fyrst upp í huga minn Sigurður Guðjónsson, betur þekktur sem Siggi í Báru. Hann tók mér vel enda ljúflingur mikill. En efni um starfsemi síðustu ára fékk ég hjá Veigari Þór Gissurarsyni ungum björgunarsveitarmanni sem var nýkominn úr leiðangri er ég ræddi við hann. Upphafið. Ég gef nú Sigga orðið: 29. Janúar 1928 hafði verið stofnað félag í Reykjavík. Slysavarnafélag Íslands. Stuttu seinna eða 27. Febrúar 1928 fórst Jón foreti við Stafnes. Það varð til þess að erindreki SVÍ. hlutaðist til að stofnuð yrði björg- unarsveit í Sandgerði. Það var svo í júlí sama ár sem Björgunarsveitin Sigurvon var stofnuð, sú fyrsta á landinu. Fyrsti formaður hennar var Eiríkur Jónsson í Norðurkoti. Sveitin fékk línubyssu og þess má geta að fyrstur til að skjóta úr henni á æfingu var Guðjón Eyleifsson á Stafnesi, föðurbróðir Sillu. Síðan var byssan varðveitt á Stafnesi og gæslu- menn hennar voru ungu mennirnir þar sem að sjálfsögðu voru meðal stofnfélaga. 1930 kom til Sandgerðis björgunar- báturinn Þorsteinn sem hafði verið smíðaður í Englandi 1901. Sveitin var fyrst og fremst sjóbjörgunarsveit enda höfðu orðið mörg og mannskæð sjóslys á þessu svæði. Björgunarsveitin er það sem kallað er blönduð. Það er að ekki er sér kvennadeild innan hennar. Ég kom fyrst að henni árið 1955 þá 16 ára þegar Jón Kr Jónsson kallaði mig í sveitina. En eitthvað var rólegt yfir starfinu og ekki var ég virkur árin á eftir. Einar Gestson sem var einn stofn- enda sveitarinnar hélt utan um tæki og tól og átti örugglega mikinn þátt í að sveitin lognaðist ekki út af. Formaður. Það var svo árið 1964 sem Einar kom til mín og bað mig að taka að mér for- mennsku í sveitinni. Einar var mikill vinur minn og ég gat auðvitað alls ekki neitað honum um bónina. Það má segja að þá hafi sveitin verið endurvakin. Þá voru tæki orðin lúin og sum ónýt. Björgunarsveitin hafði þá bátinn Odd V. Gislason til afnota. Byrjað var á að fá aðstöðu fyrir sveitina og var hún lengi í skemmu við Hólkot. Slöngubátur kom í gagnið 1967. Fyrsti bíll sveitarinnar var keyptur 1970. Mikill áhugi var nú orðinn og starfið efldist. Farið var að huga að framtíðarhúsnæði og í þriðju tilraun fékkst lóð við Strandgötu. Húsið var teiknað, reist og allt var unnið í sjálfboðavinnu. Leyfi fékkst til að selja Odd V. Gíslason sem þá var orðinn vélarlaus upp í kostnað við húsið. Mikill fjöldi manna og kvenna komu að verkefninu. Fjáröflun var á ýmsan hátt. Sjómenn voru sérlega duglegir að styrkja sveitina. Þeir gáfu reglulega fisk og björgunarsveitarmenn komu honum í verð. Margir muna eftir þegar þeir slægðu, flökuðu, gengu frá og seldu afurðina. Ýmsar fjáröflunarleiðir aðrar voru viðhafðar svo sem kaffisala, basar og árlega blómasala á skírdag. Björgunarsveitarhúsið var svo vígt árið 1978 og einnig fékk Slökkvistöðin að- stöðu þar. Nýr bíll var keyptur 1979. Ströndin hættulega. Á þessum árum var talsvert um slys- farir og má sem dæmi nefna að einn veturinn voru 13 bátsströnd. En það sem skilur mest eftir sig í minningunni er bein björgun 7 mannslífa. Björgunarsveitin sá áratugum saman um hátíðahöld sjómannadagsins. Með árunum varð meiri samvinna meðal fjölgandi björgunarsveita á svæðinu. Nú var ekki lengur aðeins um sjóbjörg- unarsveit að ræða. Jafnt var staðið í aðgerðum á sjó og í landi í samvinnu við aðrar sveitir. Félagar í Sigurvon fóru að sjálfsögðu út í Vestmannaeyjar í gos- inu. Fyrsta sameiginlega útkallskerfið var á Þorbirni við Grindavík. Björg- unarbáturinn Sæbjörg sem var harð- botna björgunarbátur kom svo til Sandgerðis um 1985. Sandgerðingar fögnuðu og var mikill mannfjöldi við- staddur komu bátsins. En þegar þurfti að fara allt að 100 mílur á haf út var Sæbjörgin ekki nógu öflug. Það var svo með aðstoð Hannesar Þ. Hafstein framkvæmdastjóra SVÍ. að til Sand- gerðis var keyptur björgunarbátur frá Þýskalandi. Hann fékk nafnið Hannes Þ. Hafstein og léttabáturinn um borð fékk nafnið Siggi Guðjóns. Þessi björg- unarbátur reyndist okkur afburðavel. Ég hætti sem formaður 1989. Ég þakka Sigga kærlega fyrir upp- lýsandi frásögn. Þess má geta að Siggi sat einnig í stjórn SVÍ. í 12 ár auk þess að sjá um rekstur og útgerð Hannesar Þ. Hafsteins. Samtals starfaði hann að slysavarnar og björgunarmálefnum í 39 ár. Starfið í dag. Ég ræddi við Veigar Þór Gissurarson dugmikinn björgunarsveitarmann um stöðuna í dag. Hann segir svo frá: Starfið blómstrar hjá Sigurvon og á útkallsskrá eru 30 manns. Þeir koma að fjáröflun og útköllum sveitarinnar. Sveitin er nú með aðsetur í nýlegri Björgunarstöð sem tekin var í notkun 29. febrúar 2009. Húsið er 550 fm á tveimur hæðum. Reyndar er hægt að segja þremur því hluti stjórnstöðvar er í turni á þriðju hæð. Húsið er staðsett við Austurgarð 4-6 á hafnarsvæðinu í Sandgerði. Á 80 ára afmæli deildarinnar 2008 var tekinn í notkun nýr hraðharðbotna björgunarbátur sem keyptur var í Nor- egi. Bátnum var gefið nafnið Þorsteinn eins og fyrsta björgunarbát Sigurvonar. Þorsteinn er mjög öflugur og öruggur bátur. Hann er 8.87 m að lengd og 3,37 m á breidd. Hann er 6 tonn að þyngd og hægt er að koma 17 manns fyrir um borð í honum. Hann er keyrður áfram af 2x250 hestafla vélum og er hámarkshraði um 35 hnútar. Báturinn er búin öllum bestu siglinga og fjar- skiptabúnaði sem völ er á í dag. Öflug unglingasveit hefur verið starfandi hjá Sigurvon í yfir tuttugu ár. Núverandi formaður Sigurvonar er Guðlaugur Ottesen. Ég þakka Veigari kærlega fyrir þessar upplýsingar. Reykjanesið óskar þessari öflugu elstu slysavarnardeild landsins farsældar í störfum sínum um ókomin ár. Silla E.

x

Reykjanes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Reykjanes
https://timarit.is/publication/990

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.