Læknablaðið : fylgirit - 15.07.1995, Blaðsíða 30

Læknablaðið : fylgirit - 15.07.1995, Blaðsíða 30
30 LÆKNABLAÐIÐ 1995; 81 sepi. Þá er farið með bogna töng niður á milli raddbandanna, gripið í æxlið og því kippt burtu. Það tekur aðeins augnablik ef maður nær góðu taki á því í fyrstu tilraun. Af eyrnasjúkdómum voru bráðar eyrnabólgur í börnum langalgengasta viðfangsefnið og fór ég í fjölmargar vitjanir af þeim sökum að lokinni vinnu á stofunni. Ástungur á hljóðhimnum þurfti ég að gera daglega en meiri háttar aðgerðir vegna bráðrar eyrnabólgu urðu sjaldgæfar, enda fór notkun penicillíns og annarra sýklalyfja ört vax- andi. Langvinnar eyrnabólgur hafði ég oft til meðferðar. Oftast var þá um útferð að ræða og tókst mér venjulega að stöðva hana, en það tók stundum langan tíma. Aðeins í tvö skipti gerði ég róttæka aðgerð, í tilfellum þar sem bólgan var orðin lífshættuleg í beininu bakvið eyrað. I öðru þeirra reyndist vera krabbamein. Það hefur ekki tekið sig upp aftur, en ég lít eftir því eyra ennþá öðru hvoru. Það var mikið að gera við heyrnarmælingar á stofunni minni, einkum áður en Heyrnarstöðin tók til starfa. Nýtísku heyrnarbætandi aðgerðir fór ég að framkvæma árið 1961 og vík ég að þeim síðar. Loks ætla ég að minnast á að ég fékkst alloft við að spegla vélinda þegar bein eða aðrir að- skotahlutir höfðu orðið fastir þar og fjarlægja þá. Stofnun Félags háls-, nef- og eyrnalækna Árið 1954 flutti ég stofuna frá Sóleyjargötu 5 að Miklubraut 50. Þá voru liðin tæp 10 ár frá því að ég hóf störf á íslandi og fannst mér tími til kominn að stofnað yrði félag í okkar sérgrein þótt við værum aðeins átta talsins. Ég hringdi til þeirra allra til þess að heyra álit þeirra. Undirtektir voru svo góðar að ákveðið var að við kæmum saman á stofu minni að Miklubraut 50 eitt kvöldið og þar var stofnfundurinn haldinn. Félagið nefndist Fé- lag háls-, nef- og eyrnalœkna og fór stjórnarkjör þannig að ég varð formaður, Eyþór Gunnarsson ritari og Stefán Olafsson gjaldkeri. Auk okkar þriggja voru mættir á fundinn Guðmundur Eyj- ólfsson, Victor Gestsson og Theodór Á. Matt- hiesen, sem starfaði í Hafnarfirði. Því miður týndist fyrsta fundargerðarbókin svo ekki er vitað með fullri vissu hvenær félagið var stofnað, en við höfum talið að það hafi verið árið 1955. Fundir voru oftast haldnir mánaðarlega á vetrum, fyrst í stað á stofunni minni en fljótlega tókum við upp þann sið að halda þá á heimilum okkar til skiptis og voru þá bornar fram veitingar í fundarlok. Fundirnir fóru þannig fram að einhver fyrirfram ákveðinn flutti dálítið erindi um sjálf- valið, faglegt efni, sem síðan var rætt. Sameigin- leg hagsmunamál komu stundum til umræðu og svo önnur mál sem efst voru á baugi hverju sinni. Við höfðum bæði gagn og gaman af þessum sam- komum. Þegar ég hafði verið formaður í 22 ár fannst mér meira en tími til kominn að hætta í því starfi og við tók Stefán Skaftason yfirlæknir. Fundirnir höfðu þá um skeið verið haldnir í fundarsal Borgar- spítalans og er svo enn. Árið 1985 þegar félagið var talið þrítugt sagði Stefán af sér formennsku og við tók þriðji formaðurinn, Sigurður Stefánsson. Fjórði formaðurinn er Kristján Guðmundsson og er enn í þeirri stöðu þegar þetta er skráð. Námsdvöl í Bandaríkjunum Haustið 1960 fór ég til námsdvalar í Banda- ríkjunum til þess að kynna mér nýjustu heyrnar- bætandi aðgerðir. Það voru einkum nýjustu að- ferðir við lækningu á eyrnakölkun, otosclerosis, sem ég hafði heyrt og lesið um og hafði brennandi áhuga á að læra. Sjúkdómurinn er eins og kunn- ugt er í því fólginn að ístaðið, sem leiðir hljóð- bylgjurnar inn í völundarhúsið, grær smám saman fast í sporöskjuglugganum, fenestra ovalis, sem það leikur í og heyrnin fer minnkandi og verður sáralítil ef það grær alveg fast. Ef þetta gerist í báðurn eyrum verður viðkomandi því sem næst heyrnarlaus. Fyrstu tilraun til þess að bæta heyrn hjá þessum sjúklingum gerði Gunnar Holmgren prófessor í Stokkhólmi og voru þær fólgnar í því að búa til nýjan glugga á völundarhúsið án þess að hreyfa við ístaðinu. Árangurinn var yfirleitt held- ur lítill og langoftast skammvinnur. Ég kynntist Holmgren í Stokkhólmi 1947 á fyrsta þingi nor- rænna eyrnalækna eftir heimsstyrjöldina, en þar kynnti hann þessa aðferð og þann árangur sem hann hefði náð. Julius Lempert læknir í New York hafði lært þessa tækni af honum og leitast við að endurbæta hana og beitt henni við fjölda sjúklinga hvaðanæva að úr heiminum og sjálfur reist eigið sjúkrahús nær eingöngu fyrir þessar aðgerðir. Það næsta sem gerðist í þessum málum var að árið 1952 var annar bandarískur læknir, Samuel Rosen, með eyrnakölkunarsjúkling til meðferð- ar. Hann langaði til að sjá hvernig umhorfs væri í miðeyranu og opnaði það. Þegar hann var að kanna ístaðið og umhverfi þess rak hann óvart málmþreifara, sem hann hafði í hendinni, í ístaðið með þeim afleiðingum að það losnaði og varð eðlilega hreyfanlegt. Um leið og það skeði varð sjúklingurinn, sem aðeins var staðdeyfður full- heyrandi á eyranu. Rosen tók nú að stjaka við föstum ístöðum og lagfærði þannig heyrnardeyfu hjá fjölda fólks. Þessi aðferð varð svo vinsæl að

x

Læknablaðið : fylgirit

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið : fylgirit
https://timarit.is/publication/991

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.