Læknablaðið : fylgirit - 31.07.1995, Blaðsíða 7

Læknablaðið : fylgirit - 31.07.1995, Blaðsíða 7
LÆKNABLAÐIÐ 1995; 81 7 Geir Zoega (1830-1917), kaupmaður og útgerðar- maður í Reykjavík. Alkunnugt var, að Geir uppnefndi marga menn. Einn sonur afa fór til Geirs að biðja um pláss á skipum hans. Geir spurði, hverra manna hann væri, og strákur sagðist bera honum kveðju föður síns. Þegar Geir vissi, hver hann var, segir hann: „Hvað er þetta, svo að þú ert sonur hans Þorska- Árna, þá held ég, að ég taki þig!“ Afi minn, Árni, hefur áreiðanlega verið með sterkustu mönnum, þvílíkar herðar, framhand- leggir og hendur! Aldrei brá hann skapi, og aldrei heyrði ég hann segja styggðaryrði. Til hans hljóp ég, ef eitthvað bjátaði á. Þar var ég í öruggri höfn. Ég spurði mömmu einhvern tímann, hvort afi hefði alltaf verið svona góður við hana. Hún sló mig alveg út af laginu, er hún svaraði eitthvað þessu líkt: „Heldurðu, að ég hafi ekki verið prúð og þæg stúlka?" Jakobína amma ólst upp á Fjalli á Skeiðum. Foreldrar hennar skildu. Jón Eiríksson, faðir hennar bjó á Auðnum á Vatnsleysuströnd ásamt Guðfinnu Guðmundsdóttur, langömmu minni, sem var af sunnlenskri ætt. Ég spurði einhvern tímann ömmu, var nú krakki þá: „Af hverju voru þau að skilja?" „Æi, þú skilur það ekki, elskan mín, ég skal segja þér, að hann var svo lítill bóndi, hann faðir minn, hann lá alltaf í bókum.“ Og þá segi ég svona: „Nú, það er bara alveg eins og þú.“ „Já, það má nú segja," og hún hló: „Þetta er nú alveg rétt hjá þér.“ Langamma vildi ekki una við þetta, og var amma Jakobína send á Fjall á Skeið- um eftir skilnað foreldranna og ólst upp hjá skyld- fólki sínu til tvítugsaldurs. Fluttist hún svo til Reykjavíkur, þar sem hún kynntist Árna afa mín- um. í augum ömmu var engin Reykjavík nema Vesturgatan. Einhverju sinni sagði amma mér þessa sögu. Hún hafði eignast tvíbura, og á sama tíma átti vinkona hennar barn. Fékk sú mikið brjóstamein, svo að barnið fékk enga mjólk. „Ég tók drenginn til mín og gaf honum brjóst," sagði amma. „Ég drakk alltaf soðið af soðningunni, og þá fann ég mjólkina streyma í brjóstin á mér.“ Þessi drengur úr Vesturbænum varð síðar þekkt- ur borgari og kaupmaður í Reykjavík, Ásgeir Gunnlaugsson að nafni. Amma Jakobína sagði mér einnig þessa sögu. Benedikt Gröndal, skáld og kennari, varð kunn- ingi afa og ömmu og bjó þar nálægt. Eitt vorið voru þau beðin að sinna vorverkum, aðallega dúntekju, í Þerney og nálægum smáeyjum. Þau fluttu því þangað um tíma. Var þá töluverð óregla á Gröndal, svo að nánir vinir hans tóku það ráð að senda hann til þeirra út í Þerney til afvötnunar. Einhvern veginn tókst honum þó að komast með sæmilegan brennivínskút með sér í eyna. Svo líð- ur nokkur tími, uns það sást til bátskomu, og rétt áður en þeir ná landi, kemur Gröndal og segir: „Elsku Bína mín, ég setti kútinn í bólið þitt, ekki trúi ég, að þeir muni leita þar.“ Amma sagðist hafa séð, að gestum hafi þótt „afvötnunin“ ganga seint. Nokkrum dögum seinna kom bátur og flutti Gröndal í land. Faðir minn lærði skósmíði í Reykjavík hjá Rafni Jónssyni, skósmíðameistara, og hann út- skrifaðist um síðustu aldamót ásamt tveimur öðr- um, þeim Stefáni Gunnarssyni, síðar þekktum skókaupmanni í Reykjavík, og Nathanael Móses- syni, skósmiði, útgerðarmanni og síðar kaup- manni á Þingeyri í Dýrafirði. Á þessum tíma var veldi Péturs Thorsteinssonar mikið á Bíldudal. Pétur mun hafa ráðið föður minn, nýútskrifaðan, sem skósmið þangað. Hins vegar stofnaði faðir minn sitt eigið skósmíðaverkstæði ári síðar, og varð það eitt hið stærsta á Vestfjörðum, ef ekki á öllu landinu. Hann hafði þar að störfum níu til 10 sveina að staðaldri. Þá voru ekki gúmmístígvél komin til sögunnar og handsauma þurfti öll sjó- stígvél fyrir Thorsteinssonflotann, sem var um 25 skip. Auk þess voru færeysk skip, sem skiptu við Thorsteinssonverslunina á Bíldudal, og svo voru menn, sem störfuðu við innanfjarðarútgerð. Þá var fjöldi fólks frá ýmsum landshornum, sem starfaði við saltfiskverkun Péturs á Bíldudal. Fað- ir minn sagði mér einhverju sinni, að þessi óhemju vinna hefði gengið svo nærri heilsu hans, að hann breytti til 1914 og gerðist kaupmaður.

x

Læknablaðið : fylgirit

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið : fylgirit
https://timarit.is/publication/991

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.