Alþýðuhelgin - 26.07.1949, Blaðsíða 5

Alþýðuhelgin - 26.07.1949, Blaðsíða 5
ALÞÝÐUHELGIN 197 Þetta gerðist hallærisárið 1892 á leiðinni frá Sukhum til Ochemchiry, á bakka Kodorfljótsins, svo nálægt hafinu, að vel mátti greina lágar drunur öldunnar gegnum léttan klið tæra fjallastraumsins. Þetta var að hausti. Gul kirsi- berjalauf hringsnerust og glitruðu í hvítu straumlöðrinu, áþekk spræk- um laxaseyðum. Ég sat á klettabrík nálægt fljótinu og hugleiddi, hvort veiðibjöllurnar og skarfarnir myndu ekki villast á kirsuberjalaufinu og fiski, því frá hafinu, handan skógar- ins, barst ákaft fuglagarg. Kastaníutrén yfir höfði mér voru merluð gulli; við fætur mér lá laufið í hrúgum og minnti á hendur, sem hafa verið sneiddar af um úlnliðinn. Á bakkanum handan fljótsins stóð skógurinn nakinn, og limið bar við himininn líkt og rifið fiskinet; í net- ið hafði veiðst rauð og gul fjalla- spæta, sem hoppaði fram og aftur og nartaði í börkinn með svörtu nefinu. Yfir fjallahnúkunum til vinstri héngu grá, þunglamaleg regnský; þau varpa skuggum á grænar hlíð- arnar, blettaðar sortulyngi, „trénu dauða“. í holum stofnum beiki- og linditrjánna finnst „hunangið á- fenga“, sem hartnær varð hermönn- um Pompejar að falli fyrir óralöngu, eftir að þeir höfðu sigrazt á herskör- um járngrárra Rómverja. Býflugan vinnur hunangið úr alparósum og lárviðarblómum, og flækingarnir ná því úr trjábolunum og eta það, smyrja því á flatar, þunnar hveiti- kökur, sem þarlendir menn kalla la- vash. Og það var ég einmitt að gera, þar sem ég sat undir kastaníutrján- um. Þrátt fyrir heiftúðugar árásir býflugnanna dýfði ég brauðmolun- um niður í fullan ketil af hunangi og át, og dáðist að syfjulegum leik þreyttrar haustsólarinnar. Haust í Kákasus er líkt og skraut- leg kirkja, sem andlcgir prelátar hafa byggt — þeir eru ævinlega niiklir í syndinni. Til að dylja fortíð sína fyrir hnýsnisaugum samvizk- unnar hafa þeir reist himinvíð must • eri úr gulli, smarögðum og gimstein- um, sveipað fjöllin dýrindis ábreið- um með silkiísaumi eftir meistara frá Samarkand og Shenakka. Þeir hafa látið greipar sópa um allan hnöttinn og borið allt hingað að há- sæti sólarinnar, eins og þeir vildu segja: „Þetta allt er þitt — frá þjóð- um þínum — til þín!“ Ég sé skeggj- aða, hvíthærða risa, stóreyga líkt og ærslafull börn, stika niður úr fjöll- unum til að skreyta jörðina. Þeir dreifa marglitum gimsteinum örlát- lega, þekja fjallatindana þykkum silfurlögum, og hlíðar þeirra með Saga effir Maxim Gorki. lifandi vefnaði ólíkustu trjátegunda — og undir höndum þeirra verður þessi vígða skák hrífandi fögur. Það er gott að vera maður á jörðinni; þú sérð svo margt undur- samlegt; hversu hjartað slær sárt og þýðlega í hljóðum fögnuðinum and- spænis fegurðinni! Auðvitað mæta þér beiskar síundir: Logandi hatur fyllir barm þinn svo út úr flóir, gráðugur óttinn sýgur hjartablóð þitt, en þær stund- ir líða. Jafnvel sólin verður oft döp- ur er hún virðir mennina fyrir sér: Hún hefur lagt svo hart að sér þeirra vegna, samt eru þeir mis- heppnaðir. ... Auðvitað er mikið til af góðu fólki, en einnig það þarf umbóta við, og jafnvel þyrfti að skapa það af nýju. Skyndilega hófust dökkir, vagg- andi hvirflar yfir runnana til vinstri, og ég heyrði daufan óm af manna- máli gegnum brimgnýinn og niðinn í fljótinu. Það voru fórnardýr hung- urvofunnar á leið fótgangandi frá Sukhum, þar sem þau höfðu unnið að vegagerð, til Ochemchiry, þar sem önnur störf biðu þeirra. Ég þekkti þau: Það var bændafólk frá Oryal- héraðinu. Við höfðum unnið saman og verið sagt upp vinnunni samtím- is daginn áður, en ég hafði lagt fyrr af stað, um nóttina, til að mæta sól- aruppkomunni við ströndina. Ég hafði einkum kynnzt fjórum karlmannanna og ungri bóndakonu, sem komin var langt á leið. Hún var kinnbeinahá, með blágrá augu, sem þöndust eins og í skelfingu. Höfuð hennar, með gulri skupl-unni, vagg- aði yfir runnunum líkt og sólblóm í vindinum. Maðurinn hennar hafði dáið í Sukhum af því að éta offylli sína af ávöxtum. Ég hafði búið í verkamannaskála ásamt þessu fólki: samkvæmt góðri rússneskri siðvenju barði það lóminn svo ákaft og hressilega, að kveinstafir þess hafa hlotið að heyrast í fimm rasta fjar- lægð. Þetta fólk var bugað af raunum. Það hafði hrakizt af geldum jörðum sínum og borizt hingað, á sama hátt og skrælnað laufið hrekst fyrir haustvindinum. Hér varð gróðursæld- in og hinn framandi svipur landsins til að ringla það, en seigdrepandi stritið rændi síðustu leifunum af kjarki þess. Það horfði yfir landið, deplaði sljóum, raunalegum augun- um vonleysislega, brosti vorkunn- látt hvert til annars og sagði hljóð- lega: — Æ, hvílík frjósemi ... — Hér sprettur allt af sjálfu sér. — Æ — já .. . þó er hér heldur grýtt ... — Erfitt að rækta hana, þessa jörð, verð ég að segja ... Og það minntist heimila sinna, þar scm hver handfylli moldar var í- mynd dufts forfeðranna og landið var því hugþekkt — og vökvað sveita þess. Það var með þeim kona, há, bein- vaxin, flöt eins og hefluð fjöl, kjálkamikil, með kolsvört, skjálg augu og dauflegt tillit. Á kvöldin gekk hún oftast burt frá vinnuskál- anum, ásamt konunni með gula klút- inn, settist á lirúgu af muldu grjóti, studdi lófum að vöngum, hallaði höfðinu á skakk og söng hárri, gremjuþrunginni röddu: Við kirkjugarðsvegginn þar sem grænir runnarnir knappast á fljótsbakkanum mun ég breiða lín mitt til þerris. Það má vera að ég sjái hann ef ég bíð. Ef elskhugi minn kemur mun ég falla honum til fóta. Lagskona hcnnar sat oftast þegj- andi, drúpti höfði og starði niður á kvið sinn, en stundum tók hún ó- vænt undir sönginn; orðin minntu á grátstunur, röddin var blælaus og hrjúf og dálítið hás:

x

Alþýðuhelgin

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðuhelgin
https://timarit.is/publication/1050

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.