Hermes - 01.04.1971, Blaðsíða 5

Hermes - 01.04.1971, Blaðsíða 5
þessi verðlaun, síðan Indverjinn Rabindranath Tagore hlaut þau árið 1913, er frá er talinn Israelsmaðurinn Samuel Agnon, sem er að öllu fremur evrópskur höf- undur. Svo er sagt, að Kawabata tæki fregninni um þennan sóma með mikilli rósemd, en lét í ljósi áhyggjur af því, að „alltof mikið væri gert með sig". „Heiðursviðurkenningar," sagði hann, „geta stundum orðið rithöfundum óþolandi byrðar." Yasunari Kawabata er fæddur í borginni Osaka árið 1899. Þegar hann er tveggja ára gamall deyr faðir hans og móðir hans ári síðar. Eftir það elst hann upp hjá móðurafa sínum og ömmu til sextán ára aldurs, en þá missir hann þau líka. Faðir hans hafði verið læknir, en lagði stund á bókmenntir, og orti kínversk ljóð, sem þá mun hafa verið íhaldsöm tízka í landinu. Æska drengsins virðist hafa verið einmana- leg og dapurleg og má skilja, að þess gæti síðar í sögum hans: í tragískum skilningi á lífinu og ein- mana tilfinningalífi. Tuttugu og sex ára gamall gaf hann út í skáldsöguformi dagbók frá æskuárum sín- um og kallaði hana Dagbók fimmtán ára drengs. Lífsskoðun sinni og sálarlífi lýsir hann með orðinu Kojikonjo, sem mun mega þýða sem einmanakennd hins munaðarlausa. Kawabata hóf ungur nám í málaralist, en þegar í skóla snerist hugur hans meira að bókmenntum. Rússneskir og franskir skáldsagnahöfundar, einkum Turgenjeff og natúralistarnir svokölluðu voru þá mjög í hávegum hafðir í landinu og áhrif þeirra stuðl- uðu mjög að nýrri skáldsagnagerð í evrópískum stíl. Kawabata virðist hafa verið afar bráðþroska, því að hann skrifar þá 16-17 ára gamall fjölda smásagna í anda þessa nýja skóla og fær þær birtar í virðuleg- um tímaritum. En árið 1917 innritast hann í Háskóla keisarans í Tókíó. Hann leggur stund á enskar bókmenntir fyrst í stað. En bráðlega snýr hann við blaðinu og tekur að lesa japanska bókmenntasögu. Er svo að sjá sem til þessarar námsgreinar megi rekja þrotlausan áhuga hans síðan á forn-japanskri menn- ingu. Hins vegar tók hann ásamt nokkrum félögum sínum að gefa út tímarit, sem nefndist Nýjir and- legir straumar, og virðist eins og nafnið bendir til hafa verið helgað framgangi nútímalegra, evrópiskra áhrifa. Að loknu háskólanámi gerist Kawabata höfundur að atvinnu, og kom honum þá í góðar þarfir lítils- háttar föðurarfur. Hann stofnaði nýtt tímarit ásamt öðrum höfundum, sem hneigðust að evrópískri menn- ingu, og markmið þess var eindregið að veita inn í japanskar bókmenntir ýmsum höfuðstefnum þeirrar tíðar í bókmenntum Vesturlanda, symbólisma, expressionisma og sálfræðinni nýju, „djúpsálfræðinni". Kawabata skrifaði sögur og gagnrýni í þetta rit, sem kallaðist Bókmenntaöld, en virðist hins vegar hafa skorið sig úr þessum hópi vegna þess að hann seildist líka til að draga fram hugmyndir og temu úr forn- japanskri list og heimspeki. Um það leyti gefur hann út skáldsögu þá, sem kallað er, að hafi gert hann frægan: Litla dansmærin frá Izu. Manni skilzt, að Kawabatu gegni dálítið sérstöku hlutverki í japönsk- um bókmenntum, þó að hann sé ef til vill ekki einn um það hlutverk, — að hann brúi í verkum sínum bil milli forns og nýs á stórfelldum breytingatímum, og að list hans samræmi ólíka þætti, án þess að nokk- ur klofningur, nokkurt innra ósamræmi eigi sér stað. Þess vegna ætla ég með örfáum orðum að minnast á bókmenntasögu þessa tímabils í landinu, þó að ég viti í raun og veru fátt eitt um hana og hafi ekki við höndina nægilegar handbækur. I margar aldir réðu hermenn fyrir Japan og þegar leið á þetta tímabil var landið orðið svo einangrað, að varla barst þangað andblær að utan. Bókmennt- um þeirra, sem áður höfðu átt ýmis blómaskeið hafði hnignað svo, að lítið var eftir nema reyfarar. En 1868

x

Hermes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hermes
https://timarit.is/publication/1070

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.