Hermes - 01.04.1971, Blaðsíða 9

Hermes - 01.04.1971, Blaðsíða 9
Kawabata eru ljóð og myndir þeirra ávísanir á geð- hrif og einkum og sér í lagi á geðhrif karlmanna. Að sama skapi eru karlmenn í sögum hans óskýrari sem sjálfstæðar persónur, þeir eru ekki sjálfir eins skarplega dregnir og konurnar; þeir eru í mjög ein- földuðum orðum sagt einskonar speglar, sem myndir kvennanna birtast í. Eg gat þess áður, að kvenlýsingar þessa höfundar væru uppistaða sagnanna og með því átti ég við, að konurnar í sögunum lifa sjálfstæðara lífi en karlmennirnir, þær eru dularfyllri, þær ráða sér meir sjálfar á sögusviðinu, karlmennirnir eru til- búnari, konurnar raunverulegri. Og það eru einmitt konurnar sem ráða samtölunum, hvort sem er með orðum eða þögn; þær tala í gátum, þær tala um hug sér. Mér er ekki grunlaust um, þó að ég viti það ekki, að þjóðfélagsleg staða japanskra kventna leyfi þeim ekki að tala opinskátt á sama hátt og karlmönnum. Samt virðist vald konunnar í Japan miklu meira en ætla mætti af stöðu hennar í þjóð- félaginu. I Japan er til mjög fjölmenn stétt ógiftra kvenna, sem nefnast geisha. Eg spurði einu sinni japanskan kunningja minn og skólabróður, hvað geisha merkd. Hann svaraði mér eins og persóna úr Kawabata á þessa leið: Vesturlandamenn þekkja ekki nema þrennskonar konur: meyjar, eiginkonur og vændiskonur. Geisha er engin þeirra; ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það. I okkar orðabókum er geisha lagt út sem menntuð samkvæmisdama. Og upp að marki er okkur nóg að vita það, að því við- bættu að geishur eru sjálfstæð stétt. Og ennfremur, að geisha er prestur þeirrar formföstu helgiathafnar, sem tedrykkjan er í Japan. Geishan er sömuleiðis ímynd æsku líkt og blómið. Að vissu leyti virðast mér sögur Kawabata fjalla um harmleik þess að eld- ast, sem er auðvitað eitt nærtækasta merki hverful- leikans. Geisha má ekki eldast. Og svo ég víki að Snælandi, sem ég hefi aðallega vitnað til, af því að mér virðist hún bera langt af þeim sögum höfund- arins, sem ég hefi lesið, þá er efni hennar í mjög fáum orðum á þessa leið: Maður frá Tykyo, að nafni Shimamura, kemur til sveitahótels að vetrarlagi. Hótelið stendur við heitar laugar, þar sem er eins konar baðstaður. Hann hittir geishu að nafni Komako og með þeim takast ástir, eða öllu heldur að stúlkan veitir honum ást sína. I raun og veru er Shimamura lifandi dauði holdi klæddur. Til þess að einkenna hann lýsir Kawabata honum þannig, að hann er gagnrýnandi, sem lifir af því að skrifa um vestrænan ballet, þó að hann hafi aldrei séð hann. Komako er ljóst, að samvistir þeirra muni aðeins standa skamma smnd, en í stað þess að reyna að kyrrsetja hann, hvetur hún hann stöðugt til þess að fara. Á hennar máli merkir það, að hann eigi að vera kyrr. Sambandi þeirra lýsir Kawabata á þessa leið: „Honum dvaldist hvorki af því, að hann gæti ekki yfirgefið hana né heldur af því að hann vildi ekki fara ... hann fór að furða sig á því, hvað vantaði í hann, hvað það var, sem hindraði hann í því að lifa fullu lífi eins og hún. Hann stóð og horfði á sinn eigin kulda, ef svo má til orða taka. Komako kom til hans öll, en það var eins og ekkert kæmi frá honum á móti. Hann heyrði til hennar, eins og hlæðist snjór á snjó í brjósti hans eða berg- mál frá tómum vegg." Með öðrum orðum Shimamura er tákn, stúlkan Komako lifandi persóna. Sögur Kawabata eru dapurleg verk. Hann hefir einhvers staðar sagt eitthvað á þá leið, að hann þekki sorg en hann hafi hins vegar aldrei reynt „vest- rænan tómleika". I greinargerð Nóbelsráðsins var svo til orða tekið, að verk hans fjölluðu „um kjarna japansks hugar". Til þess að minna á það, hve þessar athugasemdir mínar hljóta að vera yfir- borðslegar, þá ætla ég að nema staðar við þessi orð, því að út í þá sálma er mér vissara að fara ekki langt.

x

Hermes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hermes
https://timarit.is/publication/1070

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.