Hermes - 01.08.1971, Blaðsíða 3

Hermes - 01.08.1971, Blaðsíða 3
SKÝRSLA STJÓRNAR Flutt af formanni N.S.S., Atla Frey Guðmundssyni, á aðal- fundi 3. október 1970. Góðir félagar! Áður en ég hef þessa skýrslu stjórnar Nemenda- sambands Samvinnuskólans fyrir árið 1969-1970, vil ég leyfa mér að minnast eins félaga okkar, Péturs Rafnssonar, en hann lézt í sumar aðeins 29 ára gam- all. Pétur var fæddur á Bíldudal hinn 8. ágúst 1941. Eftir að hafa lokið landsprófi settist hann í Samvinnu- skólann og lauk þaðan prófi vorið 1968. Pétur heitinn var drengur góður í þess orðs fyllstu merkingu, greindur og heill félagi. Við, sem áttum því láni að fagna að kynnast honum, geymum með okkur minningu hans, sem hins bezta vinar. Pétur átti við mikinn sjúkdóm að etja, sem hann bar þó í hljóði. Víst er að hann varð hvíldinni feginn enda búinn að líða miklar þjáningar og hugarkvöl á stuttri ævi. Ég bið ykkur minnast Péturs Rafnssonar með því að rísa úr sætum. — o — Ég mun nú flytja skýrslu um starfsemi Nemenda- sambandsins frá síðasta aðalfundi, sem haldinn var að Bifröst hinn 31. ágúst á sl. ári. Eins og oftast áður hófst vetrarstarfið á dansleik, sem haldinn var til að kynna nýjum nemendum væntanleg skólasystkini. Nokkuð var hann vel sóttur, þó hinu verði ekki neitað að þessar skemmt- anir eru hin mesta fjárhagsbyrði á okkur. Um ný- næmi i félagsstarfinu var ekki að ræða í sjálfu sér. Hins vegar unnu stjórn og fulltrúaráð að verkefnum, sem ekki verða leyst að sinni og kem ég að því síðar. í starfi þessarar stjórnar var reynt að taka í megin- dráttum upp þráðinn þar sem frá var horfið í fyrra og treysta þær nýjungar í starfmu sem þá áttu sér stað. N.S.S. stóð fyrir þremur bridge-kvöldum, tví- menningskeppni, og var hún vel sótt. Sigurvegarar urðu Halldór Jóhannesson og Ólafur Jónsson. Fyrir okkur hin, sem minni spámenn erum í spila- mennsku, voru haldnar tvær félagsvistir, báðar vel sóttar. Er það trú okkar að slík spilakvöld muni verða einn drýgsti þátturinn í starfi okkar. Hrað- skákmót var haldið, en því miður varð þátttaka ekki eins mikil og æskilegt hefði verið. Stjórn og fulltrúa- ráð varð þó sammála um að veita verðlaun þeim sem beztum árangri næði í taflinu, farandgrip glæstan, sem Jóhann Örn Sigurjónsson vann fyrstur manna og er sú trúa okkar að ýmsir vilji heimta gripinn af honum, þó við ramman reip sé að draga. Á miðjum vetri fór allstór hópur í heimsókn að Bifröst þeirra erinda að kynna væntanlegum félögum N.S.S. starf- semina. Tókst sú ferð hið bezta að allra dómi. Á árinu var sú nýlunda tekin upp, að N.S.S. gekkst fyrir hópferð á sex sýningar Þjóðleikhússins. Á ann- að hundrað manns tóku þátt í þessari hópferð N.S.S. og urðu þar með til að gjöra þessa ferð sem einn þátt í starfinu. Þá er vert að minnast þess, að N.S.S. leigði tvo íþróttasali til afnota fyrir félaga, en því miður voru þeir ekki nægilega vel sóttir. Á skólaslitum að Bifröst afhenti ég f. h. N.S.S. verðlaunagrip, Félagsstyttuna, fyrir framúrskarandi félagsstörf og er það öðru sinni sem hún er veitt. Að þessu sinni hlaut hana Jakob Björnsson frá Vopnafirði, en hann gegndi störfum formanns skóla- félagsins sl. vetur. Á starfsárinu kom Hermes út og er það sautjánda skiptið, sem hann er gefinn út. Var mjög til hans vandað nú sem jafnan áður. Færi ég ritstjórninni beztu þakkir fyrir hennar störf, og þá einkum Reyni Ingibjartssyni, sem unnið hefur i þessu efni sem öðr- um ómetanlegt starf fyrir samtökin. 3

x

Hermes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hermes
https://timarit.is/publication/1070

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.