Hermes - 01.12.1971, Blaðsíða 4

Hermes - 01.12.1971, Blaðsíða 4
Vorkvöld í Borgarfirði. — Langferðabíll ekur úr hlaði á Bifröst og heldur áleiðis til Reykjavíkur, að loknum skólaslitum, með hóp 10 ára Bifröstunga og maka þeirra. Þó að venjulega sé það nokkrum trega blandið að aka úr hlaði á Bifröst, þá er samt glatt á hjalla í bílnum. Hrókur alls fagnaðar er elzti ,,skólabróðirinn“ sr. Sveinn Víkingur, og kemur það raunar engum á óvart. — Ótrúlegt er það en satt engu að síður: 10 ár liðin síðan hann brautskráði okkur vorið 1960. Þessi ferð verður mér minnisstæð, enda síðustu sam- verustundir mínar með sr. Sveini. Sr. Sveinn Víkingur hefur sagt svo frá, að hann hafi raunar litið á okkur sem skólasystkin sín, þó að hann hafi orðið að kalla okkur nemendur sína. Vissulega var hann í senn lærifaðir okkar og félagi. Hann kaus ekki að beita strangleik og hörðum aga, heldur leit- aðist við að hjálpa okkur til þess að læra að stjórna okkur sjálf. Hið sama gilti, hvort sem um var að ræða námið sjálft eða aðra þætti í starfsemi skólans. Sjálfsagt gekk okkur misjafnlega að læra sjálfs- stjórn, og ef til vill áttuðum við okkur ekki alltaf á því, hvað vakti fyrir læriföður okkar. En ég hygg, að flestum hafi orðið það ljóst síðar, að einmitt það traust, sem hann sýndi okkur, hafði þroskandi og varanleg áhrif á okkur. Kennsla hans var venjulega krydduð hinni léttu kímni, sem honum var svo töm, en oft urðum við vitni að alvöruþrungnum hugleiðingum um lífið og tilveruna. Duldist þá engum hin sterka trú hans á eilífðina og sigurafl hins góða og sanna í heiminum og í hverjum manni. Samfylgdin við sr. Svein Víking og hina ágætu konu hans, frú Sigurveigu Gunnarsdóttur, á Bifröst veturinn 1959-1960, verður okkur bekkjarsystkin- unum ógleymanleg. Fyrir hana viljum við þakka af heilum hug, og um leið sendum við frú Sigurveigu og fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur. Við fráfall þessa mæta manns er skarð fyrir skildi. Einn þáttur í tengslum okkar við Samvinnuskólann að Bifröst hefur rofnað. Eftir lifir minningin í hugum okkar; myndir daganna, sem við áttum saman. Útskrifaðir nemendur 1960 Jón Illugason. Samferðamennirnir eru margvíslegir og misjöfn þau áhrif, sem þeir hafa á fylgdarmenn sína. Sveinn Víkingur orkaði án efa meir á okkur skóla- félagana í Bifröst, en flestir þeir er við kynntumst í uppvextinum. Ég man hvað ég horfði á þennan mann er ég leit hann fyrst. Hann nálgaðist Norðurleiðar- rútuna, lágvaxinn, hokinn, og að mér fannst fremur ófríður. Hann horfði yfir gleraugun á sinn sérkenni- lega hátt og hélt um hönd konu sinnar. Það handtak sagði allt um þeirra gagnkvæmu hlýju og traust,um- hyggju og ást. Ekki er hann mér síður minnisstæður er hann hóf upp raust sína í Hátíðasalnum. Fór sér í fyrstu í engu óðslega, sagði góðlátlegar gamansögur. Því næst var líkt því sem hann tækist á loft, kraftur hans og kynngi gerði hann að óvenjulegum kennimanni. Séra Sveinn var undarlega margbreytilegur maður. Hann gat bæði verið ófríður og fallegur. Fjölhæfni hans var fátíð. í honum braust bæði gleði og alvara, frelsi og festa; hann var síleitandi en þó viss. Mér leið vel við skör þessa lærimeistara míns. Hann færði mér frið og öryggi og bar mikla umhyggju fyrir okkur öllum. Við elskuðum hann og virtum og á sama hátt held ég að honum hafi líkað mjög vel sam- veran við nemendur sína i Bifröst. Hann fann í okkur ólguna og lífið, sem hann þráði að vera í snertingu við og vildi hlúa að, líkt og veikum gróðri í hinu fagra umhverfi. Hann var barn sinnar kynslóðar, barðist fyrir um- bótum og betra lífi, vildi fegra land og lýð, þótt hann missti aldrei sjónar á hinu, sem er handan við hafið. Ég átti því miður margt ótalað við séra Svein. En ef trú hans er eins sönn og hann var sjálfur, fæ ég sjálfsagt svör við ýmsu því sem ég vildi vita. Nemendur útskrifaöir 1'961 Baldur Óskarsson.

x

Hermes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hermes
https://timarit.is/publication/1070

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.