Monitor - 24.11.2011, Blaðsíða 17

Monitor - 24.11.2011, Blaðsíða 17
17 FIMMTUDAGUR 24. NÓVEMBER 2011 Monitor Að tyggja gott tyggjó hefur lengi verið í tísku. Hérlendis jórtrar fólk á tyggjói daginn út og daginn inn, hvort sem það er af tannhirðuástæðum eða til munnbragðsbóta. Fyrir skemmstu var ég að spjalla við félaga minn þegar hann lenti í því að kyngja blessuðu tyggjóinu sínu. Eins og gengur og gerist þegar einhver gleypir tyggjó benti einn viðstaddur fórnarlambinu á að nú þyrfti hann að bíða í sjö ár eftir því að tyggjóklessan skilaði sér úr líkamanum. Æ, aumingja hann, hugsuðum við öll í kór. Skömmu seinna varð mér aftur hugsað til þessa atviks og í það skiptið leiddi ég hugann að því hvaðan í áranum álíka „staðreynd“ kæmi, að það taki sjö ár að melta tyggjó. Kemur hún frá gæjanum sem sagði að það yrði heimsendir 21. maí 2011 eða frá mömmunni sem laug því fyrst allra að barninu sínu að maður yrði svartur á tungunni af því að ljúga? Ef ekki þaðan, þá ímyndar maður sér að það hafi ef til vill maður nokkur farið til læknis í ristilskoðun. Í skoðuninni hafi fundist tyggjóklessa og þegar læknirinn spurði manninn hvernig stæði á því þá hlýtur hann að hafa svarað: „Ja hérna, ég skil þetta ekki. Ég hef barasta ekki gleypt tyggjó í heil sjö ár!“ Í kjölfarið hefur læknirinn orðið spenntur og farið með þetta beint í virt læknatímarit og fyrr en varði var þetta orðinn almennur fróðleikur um heim allan. Þessi „staðreynd“ um meltingu tyggjós rifjaði einnig upp fyrir mér tískubylgju sem var við lýði á seinni hluta grunnskólaára minna, þegar vinsælt var að krakkar héldu úti bloggi á síðum eins og blog. central.is. Oftar en ekki innihéldu þær síður samansafn af stað- reyndum undir yfi r- skriftinni „Vissir þú að…?“. Þar mátti síðan fi nna staðreyndir eins og að meðalmaðurinn gleypi sjö kóngulær yfi r ævina og á hverri nóttu skríði að meðaltali tvö skordýr upp í nasirnar á manni í svefni. Allar þessar staðreyndir voru að sjálfsögðu settar fram án heimilda. Voru þessar staðreyndir sem krakkarnir birtu á blogg-síðunum fengnar frá rannsóknum virtra hagfræðinga eða annarra vísindamanna? Það kann að vera en ég held ekki. Ég held satt best að segja að þær hafi verið bull og vitleysa. Lesendur hafa vafalaust tekið eftir því að ég rita orðið „staðreynd“ í tilfellinu um meltingartíma tyggjós innan gæsalappa og er það vegna þess að ég held að sú „stað- reynd“ sé einnig vitleysa. Það er í það minnsta mjög fl jótgert að gúggla læknagrein úr tímariti eins og Scientifi c American sem vísar tyggjómýtunni á bug. Við lifum á gervi-hnattaöld þar sem allir hafa aðgang að stærsta upplýsinga- banka sem menn þekkja, Veraldarvefnum. Algengasta síðan sem fólk notast við að afl a sér heimilda er hin fræga Wikipedia sem er sömuleiðis opin öllum til að skrá hvað sem er. Fyrir vikið er trúlega ráðlegast að efast um staðreyndir endrum og eins, jafnvel þótt oft sé skemmtilegt að trúa þeim. Hvort sem það tekur sjö ár eður ei að melta tyggjó þá ættum við reyndar almennt að sleppa því að gleypa það, það er örugglega skaðlegt í óhófi eins og annað. En við ættum líka að sleppa því að gleypa við hverju sem er. Einar Lövdahl Gunnlaugsson einar@monitor.is ORÐ Í BELG Það má ekki gleypa tyggjó HVER FANN UPP Á ÞVÍ AÐ ÞAÐ TÆKI SJÖ ÁR AÐ MELTA TYGGJÓ?

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.