Milli mála - 01.01.2011, Page 209
209
Madame de Lafayette
Greifynjan af Tende
Söguleg smásaga1
Fyrsta ár forræðisstjórnar Katrínar af Medici giftist ungfrúin af Strozzi, dóttir marskálksins og náinn ættingi konungsmóður-
innar, greifanum af Tende. Greifinn tilheyrði Savoie-ættinni; hann
var auðugur og vel gerður. Hann var sá herra við hirðina sem barst
hvað mest á og uppskar fremur virðingu annarra en vináttu. Þrátt
fyrir það elskaði greifynjan hann heitt í upphafi hjónabandsins.
Hún var kornung, hann leit aðeins á hana sem barn og varð fljótt
ástfanginn af annarri konu. Greifynjan var örlynd, af ítölskum ætt-
um, og hún fylltist afbrýðisemi; hún unni sér engrar hvíldar, eigin-
manninum ekki heldur, hann forðaðist nærveru hennar og framkoma
hans við hana var ekki eins og búast mátti við af eigin manni.
Fegurð greifynjunnar jókst, hún sýndi góðar gáfur, allir litu hana
aðdáunaraugum, hún var upptekin af sjálfri sér og vann smám
saman bug á ástríðunni og afbrýðiseminni.
Hún varð náin vinkona prinsessunnar af Neufchâtel, sem var ung
og fögur ekkja prinsins af sama stað. Við lát hans fékk hún þau völd
sem gerðu hana að æðstu og glæsilegustu konu við hirðina.
Riddarinn af Navarre var afkomandi fornra valdhafa samnefnds
ríkis. Hann var einnig ungur að árum, myndarlegur, andríkur og
göfuglyndur en örlögin höfðu ekki fært honum aðra auðlegð en
upprunann. Honum voru eiginleikar prinsessunnar af Neufchâtel
kunnugir og hann leit hana hýru auga. Í henni sá hann konu sem
væri fær um að tengjast honum á ástríðufullan hátt og gæti gert
mann eins og hann hamingjusaman. Í þeim tilgangi steig hann í
vænginn við hana án þess að vera ástfanginn og uppskar hrifningu
1 Ásdís R. Magnúsdóttir þýddi og ritar um höfund.