Morgunblaðið - 11.02.2012, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 11.02.2012, Blaðsíða 36
36 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. FEBRÚAR 2012 Við sviplegt og ótímabært fráfall Láru Mar- grétar langar mig að minnast hennar með nokkrum orðum. Kynni okkar hófust í Menntaskól- anum í Reykjavík þegar hún og Ólafur Grétar skólabróðir minn voru að draga sig saman. Lára var ári yngri, lífsglöð, einlæg og óvenjulega opinská og þeir eig- inleikar áttu eftir að setja svip sinn á feril hennar alla tíð. Hún kom svo sannarlega til dyranna eins og hún var klædd. Að loknu stúdentsprófi lá leið okkar Óla í læknadeild og þess vegna kynnt- umst við Lára Magga auðvitað enn betur og hittumst oft. Lára fór líka í háskólann og síðan að vinna, meðal annars hjá lækna- félögunum, en átti eftir að bæta við sig námi í heilsuhagfræði síð- ar. Eftir margra ára dvöl og nám í útlöndum fórum við að tínast heim og svo fór að við Valgarður ásamt nokkrum öðrum pörum, þar á meðal Láru og Óla, tókum á leigu gamla íbúðarhúsið í Kirkju- ferjuhjáleigu í Ölfusi og ætluðum okkur að rækta þar börnin okkar sem flest höfðu helst til lítil kynni haft af lífi utan stórborga. Þessi kommúnuhugmynd lognaðist þó smám saman út af þótt hugsjónir um barnrækt hafi lifað. Lára Magga fór seinna út í pólitík og sat á þingi fyrir Sjálf- stæðisflokkinn í mörg ár. Ég átti sæti í borgarstjórn Reykjavíkur 1982 til 1994 og hitti Láru oft á þeim tíma en á Alþingi endurnýj- uðum við síðan kynnin svo um munaði. Við vorum í sama liði og samherjar þótt við hefðum ekki alltaf sömu skoðanir í heilbrigð- Lára Margrét Ragnarsdóttir ✝ Lára MargrétRagnarsdóttir fæddist í Reykjavík 9. október 1947. Hún lést á heimili sínu 29. janúar 2012. Lára Margrét var jarðsungin frá Dómkirkjunni 10. febrúar 2012. ismálum. Henni fannst án efa nóg um áhuga minn á uppbyggingu heilsu- gæslunnar, hún hafði að ýmsu leyti aðra sýn, kannski vegna veru sinnar í Ameríku en slíkur skoðanamunur gerir lífið bara litríkara og við létum það ekki trufla vináttu okkar. Saman sátum við í heil- brigðisnefnd Alþingis og einnig fórum við báðar á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna eitt haustið. Það var lærdómsríkur og ógleym- anlegur tími. Eftir að Lára hvarf af þingi voru henni falin ýmis verkefni, einkum erlendis, og því lágu leiðir sjaldnar saman. Hún sinnti verk- um sínum ætíð af bestu getu. Það er erfitt fyrir aðstandend- ur og vini þegar Lára Magga hverfur svo snöggt á braut og án þess að nokkur hafi náð að kveðja hana. Við munum öll sakna henn- ar. Ástvinum hennar votta ég inni- lega samúð. Katrín Fjeldsted. Nú er hljótt í Vesturbænum en hátt gellur hlátur í himnaríki. Horfin er á braut vinkona okkar til margra ára, hún Lára. Okkar kynni hófust 1985 þegar Lára Margrét var ráðin fram- kvæmdastjóri Stjórnunarfélags Íslands. Láru varð þá tíðrætt um markmið og leiðir, sem eftir það urðu órjúfanlegur þáttur af sam- skiptum okkar. Hluti þess hóps sem var þar fyrir og þeirra sem hún réð til starfa þar hefur tengst órjúfanlegum böndum. Eftir að við hættum öll störfum hjá Stjórnunarfélaginu, sem var árið 1989, höfum við haldið hópinn undir merkjum Gleðifélagsins FÍSA „FarinÍStörfAnnarsstað- ar“. Í gegnum tíðina höfum við ferðast saman, hlegið saman, borðað saman og var Lára ávallt hrókur alls fagnaðar enda mikil félagsvera. Í ferðalögum okkar saman um landið kom vel í ljós hversu vel hún var að sér og víð- lesin um landið okkar, menningu og sögu. Lára lét sig alltaf varða um hagi okkar hinna eins og um eigin fjölskyldu væri að ræða. Kæru Anna Kristín, Yngvi Steinar og Atli Ragnar, innilegar samúðarkveðjur frá okkur öllum og til barnabarna Láru sem voru ofarlega í huga hennar og fylltu líf hennar gleði. Vor hinsti dagur er hniginn af himnum í saltan mar. Sú stund kemur aldrei aftur, sem einu sinni var. (Halldór Kiljan Laxness) Við þökkum Láru fyrir sam- fylgdina. Minning hennar mun lifa í hjörtum okkar. Anna Dagný, Áslaug Adda, Smári, Eggert, Vilborg, Kristín, Grétar, Magnús Ingi, Signý, Valtýr og Sigrún. „Lífsglaður orkubolti“ var nærtæk lýsing á Láru Möggu á árum áður, en undanfarin ár átti hún við erfið veikindi að glíma sem settu mark sitt á allt hennar líf. Baráttuandinn var þó lífseig- ur, þótt þrekið minnkaði, og alltaf var stutt í brosið og hlý orð í garð náungans. Við Lára höfum verið vinkonur frá því í menntaskóla, saman í saumaklúbb í yfir 40 ár, samstiga í stjórnmálum og síðast en ekki síst voru viðhorf okkar til þess hvað máli skipti í lífinu svipuð. Hún vélritaði fyrir mig aðra BA- ritgerðina mína og við hlupum saman á Klambratúni og gerðum þar æfingar með frumburðina skoppandi í kring. Líf okkar hefur verið samtvinnað lengi. Hugsjónabarátta var Láru eðl- islæg og henni voru falin fjölmörg trúnaðarstörf innan lands og ut- an, sem hún sinnti af samvisku- semi. Starfsþrek hennar var lengi með ólíkindum, hún var kröfu- hörð við sjálfa sig og tókst á við verkefnin af alvöru, þar á meðal erfiðar og hættulegar ferðir til Tsjetsjeníu, sem hún hélt ótrauð í, hugrekki skorti ekki. Hún var höfðingi heim að sækja, hafði unun af að dúka fal- legt borð, búa til gómsætan mat og bjóða gestum sínum upp á allt það besta. Síðustu árin fékk gestagleði hennar minna að njóta sín, kraftarnir leyfðu það ekki. Fjölskyldan var Láru alltaf mikilvæg, heilsufar og hamingja alls þess stóra hóps. Börnin henn- ar og síðan barnabörnin léku þar eðlilega stærsta hlutverkið og á síðustu árum held ég að samveran með þeim hafi verið sólarstund- irnar í lífi hennar. Er við Baldvin giftum okkur í Skálholtskirkju fyrir tæpum 20 árum flutti Lára hressilega og fal- lega ræðu eftir athöfnina. Henni var létt um mál og hreif tilheyr- endur gjarnan með sér, var hrók- ur alls fagnaðar. Fyrir nokkrum árum komum við til Strassborgar er hún var þar við störf. Við vorum þar yfir helgi og hún bar okkur á höndum sér. Borgina þekkti hún vel og greini- legt var að hún var vel kynnt með- al þeirra mörgu er við hittum þar. Við gengum með henni um gamla bæinn, snæddum góðan mat á notalegum stöðum og komum á fallegt heimili hennar. Síðdegis á laugardeginum fórum við í öku- ferð um nágrenni borgarinnar og fyrri hluta sunnudagsins um borgina sjálfa. Hafði Lára fengið þaulvanan franskan ökumann til liðs við sig og verða þessar stund- ir okkur ógleymanlegar. Okkur hjónin langar að þakka Láru fyrir vináttuna dýrmætu, samverustundirnar allar, þegar margt var spjallað, hlegið og glaðst en stundum líka slegið á al- varlegri og jafnvel daprar nótur. En þannig er jú lífið, það skiptast á skin og skúrir. Lífsgöngu yndislegrar konu er lokið, langt um aldur fram. Við þökkum fyrir að hafa átt hana Láru Möggu að vinkonu og vott- um Önnu Kristínu, Ingva Stein- ari, Atla Ragnari og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð, svo og systkinum Láru og öðrum að- standendum. Halldóra J. Rafnar og Baldvin Tryggvason. Það var um miðjan níunda ára- tuginn að ég sá hana fyrst. Hún var að tala á fundi úti í Háskóla. Ég man hvorki um hvað fundur- inn var né hverjir aðrir töluðu. En Láru Margréti man ég vel. Hún var eftirminnileg kona. Lára Margrét var skilgetið af- kvæmi hins borgaralega hluta ’68- kynslóðarinnar og kvenréttinda- kona í merg og bein. Hún kom sér upp kærasta og frumburði í menntó og sá svo fyrir manninum sínum svo að hann gæti farið í læknadeildina. Þegar hann var búinn fór hún í viðskiptafræði og eignaðist strákana tvo á námsár- unum. Byggði raðhús í Breiðholt- inu og flutti fjölskylduna til Nor- egs og Bandaríkjanna þar sem Ólafur lagði stund á augnlækn- ingar og hún á heilsuhagfræði. Svo einhenti hún sér í eigin starfs- frama á vinnumarkaði og gekk vel. Lára Margrét bar sterk ein- kenni hins landlæga íslenska dugnaðar, sem miklar fátt fyrir sér og kemst flest með vinnusemi og seiglu. Árið 1991 tók Lára Margrét sæti á Alþingi fyrir Sjálfstæðis- flokkinn í Reykjavík og sat þar í þrjú kjörtímabil. Þar gekk hún óhrædd til verka og gerði sig strax gildandi, m.a. í utanríkis- og heilbrigðismálum. Ekki þótti þessi sjarmerandi og vel lesna kona alltaf bera tilhlýðilega virð- ingu fyrir sér eldri og reyndari þingmönnum. Ég hef það t.d. fyr- ir satt að ekki hafi þótt við hæfi að nýliðar tjáðu sig óumbeðnir í ut- anríkismálanefndinni á þeim ár- um en þá óskrifuðu reglu hafi Lára Margrét brotið margsinnis. En hæfileikunum og reynslunni sem félagar hennar báru ekki gæfu til þess að fullnýta hér heima tók samstarfsfólk hennar á erlendri grundu opnum örmum. Og þar var Lára Margrét líka í essinu sínu. En stjórnmálin geta verið háskalegur starfsvettvangur og tekið sinn toll af heilsu og einka- lífi. Lára Margrét fór ekki var- hluta af þeim háska og það var ekki fyrr en á allra síðustu árum að henni tókst að yfirvinna heilsu- brest og aðra erfiðleika. Fátt benti til annars en að hún ætti góð ár framundan. Við hittumst í Höfða í sumar að fagna 20 ára af- mæli sjálfstæðisyfirlýsingar Litháens og stuðningi Íslands við hana. Hún var glöð og við gönt- uðumst með að gestalistinn í boð- inu bæri keim af annarri öld. Það var gott að hitta hana aftur. Nú hefur Anna Kristín, vin- kona mín og frumburður Láru Margrétar, misst mömmu sína. Það er undarleg tilhugsun en minnir okkur sem eftir lifum á mikilvægi þess að fara vel með hvern dag sem okkur er gefinn. Blessuð sé minning Láru Mar- grétar Ragnarsdóttur. Þórunn Sveinbjarnardóttir. Fyrir meir en aldarfjórðungi átti Lára Margrét Ragnarsdóttir erindi á skrifstofu fjármálaráð- herra í Arnarhvoli. Það var að svara beiðni um að takast á hend- ur stjórnarformennsku í ríkis- verksmiðju norður á Sauðárkróki. Þá var hún eins og hún átti að sér. Hún hafði þurft að hugsa ráð sitt vel fyrir fundinn því að við- fangsefnið var nýtt og framandi. Kvíðboganum leyndi hún ekki. En það gleymist ekki hvernig lífs- gleðin og orkan streymdu frá henni þegar hún hafði gert upp hug sinn og ákveðið að mæta nýrri áskorun og axla nýja ábyrgð. Þannig eru reyndar flestar minningar um þessa mætu konu sem nú er gengin. Hún var æv- inlega kankvís og brosmild. Segja má að hún hafi alla jafnan verið eins og leiftur af nýjum degi. Hvar sem hún fór eða kom var nærvera hennar fremur til að létta lund en þyngja. Á síðustu árum stóð hún and- spænis veikindum og mótlæti af ýmsum toga. Þær aðstæður settu mark sitt á líf hennar en brutu þó aldrei niður þá lyndiseinkunn sem allir þeir, er kynntust henni vel, komust ekki hjá að hrífast af. Stundum er sagt um þá sem þjóðin velur til setu á Alþingi að þeir séu allir steyptir í sama mót. Þegar Lára Margrét steig inn á þann vettvang var það svolítil hólmganga við þá kenningu. Mörgum líkaði það vel en öðrum síður. Hún auðgaði þingstörfin með ákveðnum skoðunum og sjálfstæðum vilja í þeim málum sem voru henni mest hugleikin. Í stjórnmálastarfi var Lára Margrét trú hugsjónum sínum. Á hinni hlið stjórnmálanna, sem gjarnan er kennd við refinn, hafði hún hins vegar minna vald. Vera má að fyrir þá sök hafi hún ekki alltaf náð markmiðum sínum. En mestu skiptir að hún var einlæg í málatilbúnaði og gat sér gott orð ekki aðeins á Alþingi heldur einn- ig í Evrópuráðinu þar sem hún varði drjúgum hluta krafta sinna. Fundum okkar Láru Mar- grétar bar síðast saman snemma í desember. Frá rótum hjarta hennar streymdi þá vinarþel sem verkaði eins og hlýr straumur gegn kulda þungs dags. Megi fólkið hennar á þessum þunga degi taka neista þess snotra hjartalags í arf. Þá vorar fyrr. Þorsteinn Pálsson. Andlát Láru Margrétar, kærs vinar, var bæði snöggt og ótíma- bært þrátt fyrir að hún hafði glímt við alvarleg veikindi árum saman. Þegar við sáumst síðast, sem var á Landsfundi Sjálfstæð- isflokksins, var ekkert sem benti til annars en að ástandið væri stöðugt. Hún var baráttuglöð að vanda og langaði til að takast á við einhver krefjandi verkefni. Þann- ig var hún reyndar alltaf. Láru Margréti kynntist ég fyrst þegar við vorum saman í við- skiptafræði. Hún var heldur eldri en við flestir skólafélagarnir enda komin með fjölskyldu, meira að segja gift góðum Skagfirðingi, Ólafi Grétari Guðmundssyni. Lára Margrét var frábær félagi, jákvæð, skemmtileg. Það stóð fátt fyrir henni og hún var þá þegar komin með marga bolta á loft sem henni tókst merkilega vel að halda samtímis lengi á lofti. Síðar kynntist ég Láru Mar- gréti þegar hún tók við Stjórnun- arfélaginu. Þá fékk hún mig stundum til skrafs og ráðagerða um námskeiðahaldið og starfsem- ina að öðru leyti. Stjórnunarfélag- ið vann á sínum tíma merkt braut- ryðjandastarf í endurmenntun og símenntun stjórnenda í atvinnu- lífinu og hjá hinu opinbera en síð- ar tóku aðrir öflugri aðilar við hlutverki þess. Lára Margrét hafði mikinn metnað í starfi sínu hjá Stjórnunarfélaginu og skap- aði starfseminni glæsilega um- gjörð. Við Lára Margrét tókum svo bæði sæti á Alþingi vorið 1991 sem nýir þingmenn Sjálfstæðis- flokksins. Það urðu miklir fagn- aðarfundir þegar við hittumst á okkar fyrsta þingflokksfundi. Lára Margrét var í framhalds- námi í heilsuhagfræði og hafði unnið í stefnumótunarstarfi hjá Landspítalanum. Hún hafði ákveðnar skoðanir á heilbrigðis- málum og var í heilbrigðisnefnd. Á mörgum erfiðum málum þurfti að taka en Lára Margrét átti ekki alveg skap saman við alþýðu- flokksmennina sem leiddu heil- brigðismálin og hvessti stundum á milli. Hún var í þeim hópi sem vildi ógjarnan að Sjálfstæðis- flokkurinn léti heilbrigðismálin frá sér í stjórnarsamstarfi. Sem þingmaður lét Lára Mar- grét mest til sín taka á vettvangi Evrópuráðsins. Þar naut hún sín vel og náði miklum árangri sem fulltrúi Íslands. Hún náði góðu sambandi við fjölmarga þing- menn, ávann sér traust og virð- ingu og var í forystuhópi þing- manna í ráðinu. Enda starfaði hún áfram á vettvangi Evrópuráðsins eftir að hún lét af þingmennsku. Það er með miklum söknuði sem við Pála kveðjum Láru Mar- gréti. Við minnumst góðra sam- verustunda, sérstaklega síðdegis á sumardegi í góðviðri á Þingvöll- um fyrir tveimur árum þegar við fengum okkur kaffi saman og fór- um vel yfir farinn veg og hvað framundan væri. Lára Margrét var einstaklega velviljuð kona en á sama tíma mikil keppnismanneskja og hörð af sér. Þessa tvo eiginlega er ekki alltaf gott að sameina en það tókst henni með aðdáunarverðum hætti. Lára Margrét hafði örugg- lega ekki reiknað fyrirfram með því að þurfa að takast á við heilsu- brest en það gerði hún af miklu æðruleysi. Og jákvæðnin og vilja- styrkurinn dugði fram á síðasta dag. Við Pála vottum aðstandendum Láru Margrétar okkar dýpstu samúð. Vilhjálmur Egilsson. mynd fyrir láru snemma morguns engi á einn með vota fætur dengir ungur drengur ljá dýjamosinn grætur litir jarðar lifa í sátt logn um fjörð og grundir fugl í lofti flýgur hátt fiskur vakir undir sátu hleður sigurlín sokkaplöggin nýleg litfríð raular lögin sín lagleg iðin hlýleg fullt hús matar fyllir segg fer svo vel í munni harðsoðið er indælt egg úti í náttúrunni lengi ef maður vinnur verk verður maður lúinn sýru vætir sopi kverk senn er dagur búinn rauðan málar röðull tind rómantíkin brjáluð augnablikið eins og mynd sem aldrei verður máluð Mynd máluð fyrir mína ást- kæru mágkonu daginn eftir að hún kvaddi okkur. Valgeir Guðjónsson. ✝ Við færum innilegar þakkir öllum þeim sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför ástkærs eiginmanns, föður, tengda- föður, afa og langafa, GUÐMUNDAR SVEINSSONAR, Billa, netagerðarmeistara frá Siglufirði, Seiðakvísl 3, Reykjavík. Starfsfólk Eirarholts og hjúkrunarheimilisins Eirar fær bestu þakkir fyrir alúð og góða umönnun. Elísabet Kristinsdóttir, Þóra Sjöfn Guðmundsdóttir, Reynir Vignir, Sveinn Guðmundsson, Birna Guðmundsdóttir, Kolbeinn Finnsson, barnabörn og langafabörn. ✝ Innilegar þakkir færum við ykkur öllum, sem sýnt hafið samúð, vináttu og hlýhug við andlát og útför sonar okkar, bróður, mágs og barnabarns, ARNÞÓRS INGA ANDRÉSSONAR. Sérstakar þakkir færum við Lionsklúbbi Álftaness, Kvenfélagi Álftaness og öðrum vinum okkar fyrir ómetanlegan stuðning 4. janúar. Guð blessi ykkur öll. Andrés R. Ingólfsson, Guðlaug Helga Konráðsdóttir, Ása Andrésdóttir, Auður Ásta Andrésdóttir, Benjamin Beier, Guðbjörg Guðlaugsdóttir, Hilmar Þór Sunnuson, Hafliði G. Guðlaugsson, Elva Dröfn Adolfsdóttir, Konráð G. Guðlaugsson, Eygló Árnadóttir, Ásta Haraldsdóttir, Steinþór Nygaard, Ragnheiður Halldórsdóttir, Ingólfur Konráðsson. ✝ Innilegar þakkir færum við öllum þeim sem vottuðu okkur samúð og hlýhug við andlát ástkærrar móður okkar, tengdamóður, systur, ömmu og langömmu, SIGRÍÐAR SIGURÐARDÓTTUR, Hrafnistu, Laugarási. Þökkum einnig öllu því góða starfsfólki á Hrafnistu sem að henni kom á undanförnum árum. Erla Ólafsdóttir, Örvar Ingólfsson, Örn Ólafsson, Signý Einarsdóttir, Svala Ólafsdóttir, Sigurður L. Hall, Hulda Ólafsdóttir, Björn P. Sveinsson, Ragnar Sigurðsson, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.