SunnudagsMogginn - 22.04.2012, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 22.04.2012, Blaðsíða 30
30 22. apríl 2012 Á fyrstu árum nýrrar aldar varð atvinnulífið stöðugt um- svifameira í fjármögnun menn- ingarstarfsemi. Það var ekki af einskærri góðsemi heldur töldu mörg fyr- irtæki það sér til framdráttar að verða fjár- hagslegur bakhjarl menningarlífsins. Stundum gengu þau of langt í kröfu um endurgjald svo jaðraði við smekkleysi en í megindráttum var það jákvætt að fyr- irtækin sýndu menningunni slíkan áhuga. Þetta átti auðvitað sérstaklega við um bankana, sem vissu ekki aura sinna tal, eins og þekkt er, en önnur stór fyrirtæki komu hér líka við sögu, skipafélög, símafyrirtæki og fleiri aðilar. Án þeirra fjármuna, sem þannig runnu frá atvinnulífinu til menningarinnar, hefði menningarstarfsemi á Íslandi verið fá- brotnari fyrir og eftir aldamót. Þess vegna hafði fall bankanna og efnahagshrunið í kjölfarið ekki bara áhrif á lífskjör fólksins í landinu og hag heimila og fyrirtækja. Hrunið hlýtur að hafa haft mjög af- drifaríkar afleiðingar fyrir menningarlífið og kippt að verulegu leyti grundvellinum undan fjármögnun þess. Það er hins vegar umhugsunarefni að um þennan hliðarþátt hrunsins hefur lítið sem ekkert verið rætt. Það hefur ekki komið til umræðu, hvort opinberir aðilar, bæði ríki og sveitarfélög, ættu að hlaupa undir bagga með þessari starfsemi í ríkara mæli en verið hefur. Kannski er ástæðan fyrir því sú, að öllum er ljóst að í þá sjóði hefur ekkert ver- ið að sækja síðustu þrjú árin. Fyrir hrun voru listamenn og menning- arfrömuðir á stöðugri ferð á milli aðila, sem hugsanlegt var að vildu leggja fé í einstaka menningarviðburði. Eftir hrunið er þetta sama fólk enn á ferð en munurinn er sá, að nú er þyngra undir fæti og nánast ómögu- legt í mörgum tilvikum að finna aðila, sem eru aflögufærir í þessum efnum. Það er kominn tími til að opinberar umræður fari fram um það hvernig koma á fjármögnun menningarstarfsemi fyrir í framtíðinni. Það er aðdáunarvert hvað listamenn, sem þurfa helzt að geta helgað sig list- sköpun eingöngu, hafa verið duglegir við að afla fjár til að halda hér uppi blómlegu og öflugu menningarlífi. En það er til mikils mælzt að þeir þurfi að verja jafn miklum tíma og raun ber vitni í fjáröflun. Fyrst eftir hrun var nærtækast að líta svo á, að ekki væri um annað að ræða en að op- inberir aðilar tækju menninguna upp á sína arma að langmestu leyti. En sennilega er óraunsætt að ætla að það geti gerzt. Bæði ríkissjóður og sjóðir sveitarfélaga verða mörg ár að vinna sig út úr þeirri stöðu, sem þeir hafa komizt í vegna atburða undanfar- inna ára. Opinber fjárframlög til menning- armála hafa alltaf verið umdeild, eins skrýtið og það nú er. Það fyrirkomulag, sem hér var orðið til fyrir hrun, að menningarlífið ætti allt undir geðþótta þriggja banka fyrst og fremst og nokkurra annarra fyrirtækja, var ekki endilega eftirsóknarvert eða heilbrigt. Þó er það svo að um allan heim hafa stór fyr- irtæki og/eða eigendur þeirra lagt fram mikla fjármuni til að standa undir menn- ingarstarfsemi. Stundum gera þeir það af meiri rausnarskap en umsjónarmenn op- inbers fjár telja sér heimilt. Fyrir nokkrum dögum dó í Danmörku 98 ára gamall mað- ur að nafni Arnold Mærsk Mc-Kinney Möller. Hann gaf dönsku þjóðinni glæsilegt óperuhús fyrir nokkrum árum. Er til einhver önnur leið en við kynnt- umst hér fyrir hrun til þess að auðvelda að- komu atvinnulífsins að fjármögnun menn- ingarstarfsemi? Spurning er, hvort fyrirtækin í landinu, stór og smá, ættu að sameina krafta sína á þessum vettangi í stað þess að sitja hvert í sínu horni og afgreiða beiðnir sem til þeirra berast með ýmsum hætti m.a. vegna per- sónulegra tengsla og kunningsskapar eða vegna sérstakra áhugamála stjórnenda sinna á tilteknum sviðum menningarlífs- ins. Með sameinuðu átaki gæti atvinnulífið byggt hér upp mjög öflugan menning- arsjóð, sem hefði burði til að takast á við mun stærri verkefni en hvert og eitt fyr- irtæki fyrir sig hefur bolmagn til. Og kannski ekki fráleitt að ætla að svonefndir aðilar vinnumarkaðar gætu tekið þar höndum saman. Verkalýðshreyfingin á sér langa sögu í stuðningi við menningar- starfsemi á sína vísu. Það var ekki að tilefn- islausu að Ragnar Jónsson í Smára gaf Al- þýðusambandi Íslands hið mikla málverkasafn sitt. Okkar bíða gífurleg verkefni í menning- armálum, annars vegar að gefa núverandi kynslóð listamanna tækifæri til að koma listsköpun sinni á framfæri en hins vegar og ekki síður að varðveita menningararf lið- inna tíma, ekki bara fyrri alda, heldur líka verk listamanna okkar á 20. öldinni. Þar þarf samskiptatækni nútímans að koma við sögu eins og áður hefur verið fjallað um hér á þessum vettvangi. Við ráðumst ekki í stór verkefni á sviði menningar vegna þess, að fjármagnið er ekki til. Hver á að standa fjárhagslega að baki listdanssýningu, sem byggist á tónlist Atla Heimis Sveinssonar við Tímann og vatnið og endurspeglar þá ástarsögu, sem sumir segja að liggi að baki hinu mikla verki Steins Steinars? Það gæti öflugur menningarsjóður atvinnulífs og verkalýðs- félaga gert, svo dæmi sé tekið. Hver á að standa að útgáfu á tónverkum tónskálda okkar á 20. öldinni, bæði á nót- um og í flutningi? Það mun ríkissjóður Ís- lands aldrei gera og heldur ekki einstök ís- lenzk fyrirtæki. Hver á að verða bakhjarl framsóknar Víkings Heiðars í alþjóðlegum tónleikahúsum, þar sem hann á heima? Það eru verkefni af þessu tagi, sem eng- inn einn aðili hér ræður við. En með sam- eiginlegu átaki er það hægt. Þetta er sett fram hér forystumönnum atvinnulífs og verkalýðshreyfingar til íhug- unar. Menningarstarfsemi og atvinnulífið – nýjar leiðir? Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Uppi varð fótur og fit á þessum degi fyrir 29árum þegar vestur-þýska fréttatímaritiðDer Stern upplýsti að það hefði undir hönd-um ósviknar dagbækur sjálfs Adolfs Hitlers, alls sextíu stykki, sem aldrei hefðu komið fyrir sjónir al- mennings. Hafði tímaritið greitt tæplega níu milljónir þýskra marka fyrir dagbækurnar, sem náðu yfir árin 1932 til 1945, og fékk í kaupbæti sérstakt bindi um flug- ferð Rudolfs Hess til Bretlands1941. Sú ferð hafði sem kunnugt er þann tilgang að semja frið við Breta áður en Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin. Sú umleitan rann út í sandinn þegar Hess var tekinn höndum. Ýtarleg grein um dagbækurnar birtist í Der Stern þremur dögum síðar en einn blaðamanna þar á bæ, Gerd Heidemann, kvaðst hafa fengið þær frá Austur- Þýskalandi, þaðan sem „dr. Fischer“ nokkur hafði smyglað þeim. Hermdi sagan að dagbækurnar hefðu leynst innan um digra skjalabunka í flugvél sem fórst í Börnersdorf nærri Dresden í apríl-mánuði 1945 eða um sama leyti og Hitler féll fyrir eigin hendi. Það tók útgáfufélag Der Stern, Gruner & Jahr, hálft annað ár að safna dagbókunum saman og að undan- genginni rithandargreiningu þriggja sérfræðinga í Evr- ópu og Bandaríkjunum, sem allir komust að þeirri nið- urstöðu að skriftin væri Hitlers, var tímaritið ekki í nokkrum vafa um að þær væru ósviknar. Der Stern sat á „sprengju“ og fyrir vikið var ákveðið að bíða með frek- ari greiningu á dagbókunum, auk þess sem öllum sér- fræðingum um seinni heimsstyrjöldina var meinaður aðgangur að þeim, af ótta við að efni bókanna læki út. Virtir sagnfræðingar á vegum tveggja erlendra fjöl- miðla, breska dagblaðsins Times og bandaríska tíma- ritsins Newsweek, Hugh Trevor-Roper og Gerhard Weinberg, fengu að blaða lítillega í dagbókunum en bæði rit höfðu áhuga á að bjóða í birtingarréttinn. Fulltrúar beggja voru fyrir sitt leyti sáttir, efuðust ekki um að dagbækurnar væru raunverulega frá Hitler komnar. Ekki voru allir jafnsannfærðir. Helmut Schmidt, fyrr- verandi kanslari Þýskalands, neitaði að trúa því að bæk- urnar væru ósviknar og talað var um samsæri af hálfu stjórnvalda í Austur-Þýskalandi og Sovétríkjunum, annaðhvort til að reka fleyg á milli Vestur-Þjóðverja og bandamanna þeirra eða til að tryggja gjaldeyristekjur. Á blaðamannafundi sem haldinn var þegar tölublaðið kom út snerust vopnin líka í höndum Der Stern. Tre- vor-Roper og Weinberg viðruðu að vísu sín sjónarmið en eftir að rithöfundurinn David Irving stóð upp og veif- aði ljósmynd af falsaðri dagbók Hitlers, sem hann full- yrti að kæmi úr sömu átt og dagbækur Der Stern, runnu tvær grímur á viðstadda. Í kjölfarið rannsakaði vestur- þýska þjóðskjalasafnið bækurnar og komst að þeirri nið- urstöðu á innan við tveimur vikum að þær væru gróflega falsaðar. Reyndust bækurnar skrifaðar á nýlegan pappír með nýlegu bleki og útbíaðar í staðreyndavillum. Inni- haldið hafði að stórum hluta verið afritað úr bók sem innihélt ræður Hitlers. Þetta var síðar staðfest af sér- fræðingi í Lundúnum, auk þess sem rithandarsérfræð- ingurinn Kenneth W. Rendell var þeirrar skoðunar að bækurnar væru hreint ekki vel falsaðar. Gabbið var þeim mun betra og skömm Der Stern var mikil, ekki síður The Times og Newsweek. Sögðu rit- stjórar allra þessara miðla upp störfum í kjölfarið. Þá voru Trevor-Roper og Weinberg rúnir trausti. Lögreglurannsókn leiddi í ljós að alræmdur falsari í Stuttgart, Konrad Kujau, hafði falsað dagbækurnar og blaðamaður Der Stern, Gerd Heidemann, verið í vitorði með honum. Hlutu þeir 42 mánaða fangelsi hvor. Lítið fannst af fénu sem Der Stern hafði greitt fyrir bækurnar en athygli vakti að Heidemann var a.m.k. tveimur vill- um á Spáni og tveimur sportbílum ríkari. orri@mbl.is „Dagbækur Hitlers“ finnast Hin fræga forsíða Der Stern frá 1983. ’ Það tók útgáfufélag Der Stern, Gruner & Jahr, hálft annað ár að safna dagbók- unum saman. Adolf Hitler reyndist ekki vera höfundur dagbókanna. © CORBIS Á þessum degi 22. apríl 1983

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.