Helgafell - 01.05.1945, Page 18
14
HELGAFELL
handa í alvöru. Og þá hefði þjóðin eignazt lýsingu á landi sínu, jafnfagra
og gagnsæja sem Grasaferðina eða ævintýri Jónasar. Ef honum hefði orðið
lengra lífs auðið. En hann dó svo ungur. Því fór sem fór.
VI.
í öndverðu tengdi Jónas miklar vonir við íslandslýsingu sína. Hún horfði
við honum líkt og líðandi brekka með fyrirheitum um fagurt útsýni. En
örlögin höfðu bundið honum þyngri bagga en hann hugði, og brekkan
reyndist torsótt fja.ll, þegar að var komið.
Sumarið 1843, ritar hann Steenstrup, að sér miði hægt, enda verði hann að
róta í dómadagskynstrum af efni. En í bréfi til Páls Melsted síðar á sama
ári kveður hann svo að orði um þetta: ,,Það vantar ekki mikið á, að ég hafi
reist mér hurðarás um öxl, því verkið er bæði mikið sjálft og undirbúning-
urinn því meiri. Lakast af öllu er, að félagið getur ekki boðið mér neitt
viðunandi hónórar, því mér er ómögulegt að vinna peningalaus. Sæi ég
því nokkurn kost á, eða réttara sagt, sæi ég nokkurn annan færan um að
taka við því starfi, seldi ég mér það af höndum.“
Jónas bar ábyrgð á því, að Hafnardeild Bókmenntafélagsins hafði ráð-
izt í útgáfu íslandslýsingarinnar, og þrátt fyrir allt greiddi hún honum laun
af litlum efnum. Má því gera sér í hugarlund, að honum hafi fundizt fast
að sér sorfið, er hann vildi hlaupast frá fyrirætlunum sínum og samning-
um, en það vildi hann, að minnsta kosti hálft í hvoru. Hugleiddi hann fyrst
að fá sér prestsembæti, en síðar, er flytja skyldi latínuskólann frá Bessa-
stöðum til Reykjavíkur, fýsti hann mjög að gerast kennari þar. ..Ég vildi
heldur geta orðið kennari við góðan skóla á íslandi en allt annað,“ segir
hann í bréfi Konráðs vorið 1844. Til þessa kom þó ekki. Skólayfirvöld-
unum þótti betur fyrir séð á annan hátt en þann að gera Jónas Hallgríms-
son að náttúrufræðikennara hér. Hann varð því, nauðugur viljugur, að
halda áfram enn um sinn.
Vorið 1845, rúmum mánuði áður en Jónas dó, ritaði hann deildinni og
kvaðst þá ætla sér eitt ár enn til þess að ljúka íslandslýsingunni að sínum
hluta. Heldur virðist þó vafasamt, að þessi áætlun hefði staðizt. Hitt er
líklegra, að deildarstjórnin hafi verið farin að ýta á eftir. En Jónas var í
vorhuga og leið með bezta móti, svo að hann hefur hugsað sér að taka á
sig rögg og losna úr þessari prísund, enda hefur hann þá sennilega séð
fram úr undirbúningsstörfunum.
Ég hygg, að Jónasi hafi orðið það mikil vonbrigði, hve torvelt honum
reyndist að rita lýsingu landsins. í öndverðu hugsaði hann til þess með skáld-
legum fögnuði, en þegar til kom, var það lítið annað en erfitt og hversdags-
legt verk, sem ól á óánægju hans með sjálfan sig, þunglyndi hans og þján-
ing.
Hitt er augljóst mál, að Islandslýsingin hlýtur að hafa orkað fast á hugar-