Morgunblaðið - 03.11.2012, Blaðsíða 32
32 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. NÓVEMBER 2012
Ég „fór í fýlu“ um daginn þegar viðmælendur fréttamanns töl-uðu um „ræot“ í London, „tribjút“-tónleika í Hörpu ogvandkvæði við að „staffa“ hótelin. Hvað er að?En ég tók gleði mína á ný þegar ég fékk upphringingu
frá góðkunningja að norðan. Talið barst að beygingum nafna, og hann
sagði m.a. að sá mæti menntaskólakennari á Akureyri, Gísli Jónsson,
hefði talið þágufallið „Áskeli“ eðlilegra en „Áskatli“, af því að nefni-
fallið væri ekki „Ásketill“. Góð röksemd. Í handbókum teljast þó þágu-
fallsmyndirnar Áskeli og Áskatli jafngildar.
Eitthvað ræddum við um
áhrifamátt barnaleikrita, og
í því sambandi upplýsti
kunninginn mig um að gata
ein í byggðarlagi nyrðra
væri kölluð Kardimommu-
bærinn því að þar byggju
„ræningjarnir þrír“ (virtir
peningamenn) auk bæjarstjórans, „Soffíu frænku“.
Góðkunninginn kvaddi síðan með þessari „m-vísu“ sem hann kallaði
Dimmalimm hina nýju: „Grimm í djamm er Dimmalimm,/ í dimmu á
pramma þrammar;/ á Hlemmi trimma hommar fimm/ sem Hemmi í
Hvammi skammar.“
Íslenskukennarinn í Kennaraskólanum, doktor Björn frá Viðfirði,
var eini lærimeistarinn sem Þórbergur Þórðarson hreifst af í „musteri
viskunnar“. Dr. Björn ræddi gjarnan við nemendur um uppruna orða
og benti m.a. á að orðið skemmtun væri leitt af orðinu skammur: tím-
inn verður svo skammur (fljótur að líða) þegar við skemmtum okkur.
Hér er þá jafnframt skýringin á því að orðið er skrifað með tveimur m-
um. Glöggur kennari gæti svo notað tækifærið og minnt á hljóðvarp
sem þarna hefur orðið; „a“ er upprunalega hljóðið en hefur hljóðverpst
í „e“ (a > e; i-hljóðvarp).
Við þurfum, eins og dr. Björn og Gísli Jónsson, að koma nemendum
á óvart. Kennari sagði mér um daginn að unglingar hefðu aðspurðir
ekki kannast við orðið „forsæla“; en uppástunga hefði komið frá aft-
asta bekk um að það merkti sennilega e.k. forstig „alsælu“. Kennarinn
benti þá á að orðið merkti „stað í skugga undan sól“; það væri m.ö.o.
náskylt orðinu „sól“ (eins og atviksorðin „réttsælis“ og „rangsælis“).
Og hún notaði tækifærið og minntist á hljóðvarpið ó>æ (i-hljóðvarp) –
og uppskar lófatak nemenda.
Sami kennari ræddi um oxymoron (dæmi: „elskulegt hatur“) sem
mætti vera erlenda heitið yfir refhvörf, sem Snorri Sturluson notar yf-
ir það þegar tveimur orðum gagnstæðrar merkingar slær saman:
Þversögn (paradox) er sama eðlis: Eruð þið ekki einfærir um þetta
tveir? Hallgrímur Helgason beitir þessu stílbragði margoft í Konunni
við 1000°: „Það var þá sem ég uppgötvaði að Guð er guðleysingi“/
„starði út í sjónleysið og tuggði tannleysið“/ „fyrir utan var komið nátt-
hljóð í þögnina“/„stríðinu var lokið og friðurinn úti“.
Lítum að lokum á örfá lýsingarorð Hallgríms Helgasonar úr um-
ræddri skáldsögu: (ég kom) slagsmáluð (heim)/ kápaðar (vinkonur)/
eyrnaspenntur (slúðurblaðamaður)/ stúlkufagrir (glókollar)/ strand-
brún (kona)/ náttgrænt (gras)/ íshvítt (hár)/ tómétinn (konfektkassi)/
vorkunnarfagur (piltur)/ ginóður (læknir).
Sannfærum unga fólkið um mikilvægi hins skapandi krafts rithöf-
undanna.
„Ég kom slagsmáluð heim“
Tungutak
Baldur Hafstað
bhafstad@hi.is
Morgunblaðið/ÓmarTillaga tveggja bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Kópa-vogs, þeirra Ólafs Þórs Gunnarssonar, bæjar-fulltrúa Vinstri-grænna, og Ómars Stef-ánssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins,
um sameiningu Kópavogs, Garðabæjar (þar með Álfta-
ness) og Hafnarfjarðar í eitt sveitarfélag er skynsamleg.
Tillagan var lögð fram í bæjarráði Kópavogs og samþykkt
þar með þremur atkvæðum gegn einu en einn bæjarráðs-
maður sat hjá. Í samþykkt bæjarráðs segir m.a.:
„Á höfuðborgarsvæðinu ættu að vera ágætar aðstæður
til að fækka sveitarfélögum og auka þannig hagkvæmni í
rekstri þeirra. Reykjavík er þegar mjög stór á íslenzkan
mælikvarða. Sameining frá Kópavogi og suðurúr (jafnvel
með einhverjum breytingum á sveitarfélagamörkum)
gæti skapað mótvægi við borgina …“
Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem hugmyndir eru settar
fram um sameiningu sveitarfélaga á þessu svæði. Um
miðjan sjötta áratuginn, um það
bil þegar Kópavogur varð kaup-
staður, settu forráðamenn sveitar-
félagsins fram tillögu um samein-
ingu við Reykjavík.
Sjálfstæðismönnum, sem þá voru í
meirihluta í borgarstjórn Reykja-
víkur, hugnaðist ekki sú tillaga fyrst og fremst vegna
þess, að þeir töldu hættu á að sá meirihluti, sem vinstri-
menn höfðu í Kópavogi á þeim tíma, mundi duga til að
fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þær
hugmyndir náðu því ekki lengra.
En tillögur um einhvers konar sameiningu sveitarfé-
laga á höfuðborgarsvæðinu hafa skotið upp kollinum við
og við og af eðlilegum ástæðum. Það blasir við að í þeim
þremur bæjarfélögum, sem þeir Ólafur Þór og Ómar Stef-
ánsson vilja sameina, er nú þreföld yfirstjórn miðað við
það sem þyrfti að vera.
Með sameiningu í eitt bæjarfélag mundi nást umtals-
verður sparnaður með því að ein bæjarstjórn yrði í stað
þriggja, einn bæjarstjóri (eða kannski öllu heldur borgar-
stjóri) í stað þriggja, eitt embættismannakerfi í stað
þriggja o.s.frv. auk þess hagræðis, sem að öðru leyti
mundi nást fram í rekstri hins sameinaða sveitarfélags, í
þjónustu þess við íbúa og í framkvæmdum á þess vegum.
Þar að auki er ljóst að slíkt sameinað sveitarfélag yrði
mjög öflugt að öðru leyti og gæti tekizt á við viðameiri
verkefni en núverandi bæjarfélög hvert um sig.
Það hafa alltaf verið skiptar skoðanir um svona hug-
myndir og ekki við öðru að búast. Hins vegar vekur það
athygli að bæjarstjórar Garðabæjar og Kópavogs eru
ekki hrifnir af hugmyndinni. Gunnari Einarssyni, bæj-
arstjóra í Garðabæ, fannst tímasetning tillögunnar
óþægileg að því er fram kom í samtali RÚV við hann
vegna þess að stutt var í kosningar um sameiningu Garða-
bæjar og Álftaness. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í
Kópavogi, tók undir það sjónarmið í RÚV og taldi tillög-
una ákveðið „tillitsleysi“ gagnvart þessum tveimur ná-
grannasveitarfélögum á þessum tíma. Guðrún Ágústa
Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sagði að sér
litist betur á svona sameiningu en að sameina allt höfuð-
borgarsvæðið undir einni stjórn.
Það er að vísu ekki auðvelt að sjá í hverju óþægindin
hafi verið fólgin að setja fram slíka tillögu nú en látum það
vera. Aðalatriðið er að fram fari efnislegar umræður um
málið. Og þá er erfitt að sjá með hvaða rökum bæjar-
fulltrúar Sjálfstæðisflokks í þessum sveitarfélögum geta
verið andvígir slíkri sameiningu. Enginn stjórnmála-
flokkur hefur lagt jafnmikla áherzlu og Sjálfstæðisflokk-
urinn á hagkvæmni bæði í einkarekstri og opinberum
rekstri. Og einu sinni var sagt á
þeim bæ: Báknið burt! Vissulega
er þrefalt bákn stærra og tekur
meira til sín en einfalt bákn. Þess
vegna verður því tæpast trúað að
Sjálfstæðisflokkurinn í þessum
bæjarfélögum mundi snúast önd-
verður gegn sameiningu, þótt oddvitar flokksins í tveimur
þeirra hafi tekið þunglega í tillöguna nú af ofangreindum
ástæðum.
Rekstur ríkis eða sveitarfélags lýtur að sumu leyti
sömu lögmálum og rekstur fyrirtækis. Það er eftirsókn-
arvert ef hægt er að draga úr kostnaði við yfirstjórn fyr-
irtækis og það sama á við um yfirbyggingu ríkis eða sveit-
arfélaga. Hrunið haustið 2008 hefur gert það að verkum,
að bæði íslenzka ríkið og einstök sveitarfélög hafa hert
mjög að sér og dregið úr margvíslegum útgjöldum. Það
var nauðsynlegt og eðlilegt. Yfirbygging íslenzka ríkisins
er alltof umfangsmikil og dýr fyrir svona fámennt sam-
félag eins og margsinnis hefur verið bent á hér á þessum
vettvangi. Það dugar að benda á utanríkisþjónustuna því
til sönnunar, þótt hægt sé að benda á margt fleira.
Hið sama á við um sveitarfélög. Og sennilega er hvergi
á Íslandi hægt að benda á skýrara dæmi um það, hvernig
draga megi úr kostnaði við yfirbyggingu, en einmitt í
þeim þremur sveitarfélögum, sem hér eru til umræðu.
Það er liðin tíð, að þeir stjórnmálaflokkar, sem við völd-
in eru hverju sinni, ráði svona málum. Ef í ljós kæmi að
verulegur stuðningur er við sameiningu þessara sveitar-
félaga meðal íbúa þeirra verður sú vegferð tæpast stöðv-
uð. Kannski verður andstaðan mest í Hafnarfirði, sem á
sér miklu lengri sögu og er rótgrónara bæjarfélag en hin
tvö.
Það er ástæða til að hvetja bæjarfulltrúana tvo til að
láta ekki deigan síga. Og kannski er tilefni til að áhugafólk
um slíka sameiningu í sveitarfélögunum þremur taki
höndum saman um að efna til umræðna um málið til þess
að leiða betur fram kosti og galla sameiningar og hvetja til
skoðanaskipta íbúanna sjálfra.
Að lokum er ákvörðunarvaldið í þeirra höndum.
Öll rök mæla með sameiningu
þriggja sveitarfélaga
Það er hægt að lækka mikið
kostnað við „báknið“ í Kópa-
vogi-Garðabæ-Hafnarfirði.
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Ein hugsun, sem gengur eins ograuður þráður um skáldskap
og heimspeki á Vesturlöndum, er,
að gildi lífsins verði ekki mælt eftir
lengd þess, heldur hinu, hvernig
því hafi verið varið. Þetta orðaði
skáldið Jónas Hallgrímsson vel í
minningarkvæði um séra Stefán
Pálsson, sem lést 1841:
Margoft tvítugur
meir hefur lifað
svefnugum segg,
er sjötugur hjarði.
Langlífi væri ekki talið í árum að
sögn Jónasar, heldur frjórri lífs-
nautn, aleflingu andans og athöfn
þarfri.
Hugsanlega hafði Jónas þessa
hugsun frá danska lögfræðingnum
og rithöfundinum Jens Kragh
Høst, sem skrifaði 1824 í tímaritinu
Clio: „Et Tidsrums Vigtighed beror
ikke paa dets Længde.“ Gildi tíma-
bils veltur ekki á lengd þess.
Áður hafði Johann Wolfgang von
Goethe sagt í leikritinu Iphigenie
1787: „Ein unnütz Leben ist ein
früher Tod.“ Ónotað líf er ótíma-
bær dauðdagi. Goethe sagði einnig
í Maskenzug 1818: „So lang man
leb, sei man lebendig!“ Á meðan
menn eru á lífi, eiga þeir að vera
lifandi!
Enn lengra má rekja þessa hugs-
un aftur. Franski siðfræðingurinn
Michel de Montaigne skrifaði í rit-
gerðasafni (1580): „L’utilité du
vivre n’est pas en l’espace, elle est
en l’usage.“ Gildi lífsins liggur ekki
í fjölda daganna, heldur notkun
þeirra.
Einnig á ítalski listamaðurinn
Leonardo da Vinci að hafa sagt, að
vel notað líf væri langt.
Leiðrétting: Í sögu af orðaskipt-
um þeirra Magnúsar Torfasonar
sýslumanns og Jóns Þorlákssonar
forsætisráðherra, sem ég sagði frá
á dögunum, hreykti Magnús sér af
vera kominn í karllegg af Finni
biskupi, og væri sá göfugri. Jón
svaraði þá, að sinn leggur, kven-
leggurinn, væri vissari.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Gildi daganna veltur
ekki á lengd þeirra
Við eigum 15 ára afmæli
Af því tilefni eru þessar vélar á sérstöku afmælistilboði
Borvél 14.4 volt
Gírar 2 36Nm,
með dioðuljósi,
2 rafhlöður, 30 mín
hleðslutæki.
Afmælistilboð
kr. 26.900.-
Borvél 12 Volta
Gírar 2, 30Nm,
2 rafhlöður,
30 mín hleðslutæki.
Afmælistilboð
kr.17.900.-
Síðumúla 11, 108 Reykjavík,
sími 568 6899, vfs@vfs.is
www.vfs.is