Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.11.2012, Page 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.11. 2012
Menning
Hann hafði séð ljósmynd af jökli. Þaðgat þó á engan hátt búið hann undirþá upplifun að sjá slíkt náttúrufyr-
irbrigði berum augum. Honum féllust hrein-
lega hendur.
„Þvílík dýrð, þetta var engu líkt. Ég get
eiginlega ekki komið tilfinningunni í orð.
Svínafellsjökull er stórbrotið listaverk í nátt-
úrunni, fegurðin fölskvalaus, stærðin hrika-
leg. Í bakgrunni sprikluðu svo norðurljósin,
ég þurfti að klípa mig til að ganga úr skugga
um að mig væri örugglega ekki að dreyma.“
Þannig lýsir fjöllistamaðurinn Jack Hatt-
ingh fyrstu kynnum sínum af Svínafellsjökli
en hann var hér staddur á dögunum til að
leggja drög að mikilli ljósasýningu sem hald-
in verður á jöklinum í september á næsta ári.
Verkefnið er liður í alþjóðlegri vitund-
arvakningu, „Celebrating Glaciers“, sem ís-
lensku félagasamtökin Vox Naturae hafa
unnið að undanfarin ár í því augnamiði að
vekja athygli á mikilvægi jökla og áhrifum
hlýnandi loftslags. Jack Hattingh mun hanna
ljósasýninguna við tónverk sem Bergljót
Arnalds, tónlistarstjóri Vox Naturae, er að
semja.
Tóku viðbrögðin upp
Páll Ásgeir Davíðsson, framkvæmdastjóri
Vox Naturae, segir hópinn sem fór með
Hattingh á jökulinn hafa verið undir þessi
viðbrögð búinn. „Það var kostulegt að fylgj-
ast með Jack á því augnabliki og við stóð-
umst ekki mátið að taka það upp. Þær mynd-
ir styðja frásögn hans hér að framan.“
Hattingh, sem er suðurafrískur en búsett-
ur í Bandaríkjunum, er einn sá fremsti í sínu
fagi og Páll Ásgeir og Bergljót segja það
mikinn feng fyrir Vox Naturae að fá hann til
liðs við sig. „Þegar ég sá verkin hans gerði
ég mér grein fyrir að hann væri mjög spenn-
andi fyrir verkefnið,“ segir Bergljót.
Hattingh hefur mörg járn í eldinum þ.á m.
fyrir stærstu kvikmyndaver heims en Berg-
ljót lét það ekki draga úr sér kjarkinn. „Ég
sendi honum tölvupóst og kynnti verkefnið
fyrir honum,“ segir hún.
„Og ég svaraði,“ skýtur hann brosandi inn
í. „Mér leist strax vel á verkefnið og það sem
gerði útslagið var jökullinn. Mig blóðlangaði
að vinna með jökul, í því eru miklir mögu-
leikar fólgnir. Ég er mjög spenntur fyrir
þessu verkefni enda verður það mitt lang-
stærsta til þessa. Ég hef áður verið beðinn
að lýsa upp fjöll en það hentar þessari tækni
ekki.“
Hattingh er brautryðjandi í notkun þrí-
víddartækni við ljósasýningar og hafa verk
hans vakið athygli víða um lönd. „Þessi tækni
er þeirrar gerðar að annaðhvort nær fólk
henni strax eða alls ekki. Það er ekkert þar á
milli. Við höfum aðallega verið að lýsa upp
byggingar og tæknin er í grunninn þríþætt;
við getum haft hluti inni í byggingunni, á
henni eða fyrir framan hana. Allt vinnur
þetta saman og úr verður mikið sjónarspil.“
Sem gott dæmi um áhrif sýninga af þessu
tagi nefnir Hattingh lýsingu á ráðhúsinu í
Sugar Land í Texas, fyrir áramótin 2009.
Mikil, fjölbreytt og litrík sýning sem fengið
hefur mikið áhorf á YouTube. „Við fengum
mjög góð viðbrögð við þeirri sýningu sem
kom Sugar Land rækilega á kortið. Það hef-
ur verið mikil aukning í heimsóknum ferða-
manna síðan sýningin var.“
Við bara keyrum!
Hatting flaug til Skaftafells, en þegar leggja
átti á Svínafellsjökul brá honum í brún. Hafði
séð fyrir sér þyrlu eða sérbúinn jeppa en var
óvænt settur upp í venjulegan fólksbíl.
„Við bara keyrum,“ sagði Páll Ásgeir og
Hattingh viðurkennir að hann hafi í fyrstu
haldið að Páll væri að grínast. Það gæti ekki
verið svo auðvelt að komast að jöklinum. Sú
var þó raunin.
„Síðan vorum við allt í einu komin og ég sá
ekki neitt. Stór jökulgarður byrgði sýn. Var
eiginlega alveg hættur að botna nokkurn
skapaðan hlut í þessu. Páll sagði mér hins
vegar að bíða rólegur, við þyrftum að ganga
spölkorn uppá garðinn. Og viti menn – þá
blasti dýrðin við.“
Hattingh flaug líka yfir jökulinn og heill-
aðist ekki síður af honum frá því sjónarhorni.
„Og það er fleira, svo sem hraunið, fjöllin og
allir þessir dásamlegu svörtu sandar. Ísland
er óvenjulegt land, mér leið á köflum eins og
ég væri staddur á öðrum hnetti.“
Þetta var þriggja daga ferð á jökulinn og
fór fyrsti dagurinn í að anda honum að sér,
ef svo má að orði komast. Síðan vann Hatt-
ingh alls konar forvinnu, tók ljósmyndir,
kvikmyndir, gerði mælingar og fleira með að-
stoð frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum
sem eru samstarfsaðilar verkefnisins. „Það
var afar fært fólk með okkur í för og lagði
mun meira af mörkum en hægt var að ætlast
til.“
Jafnframt var haldinn fundur með heima-
mönnum úr sveitinni enda verkefnið unnið í
samráði og samvinnu við sveitarfélagið og
Vatnajökulsþjóðgarð. Hattingh gisti á bónda-
bæ í sveitinni og ber lof á aðstæður, ekki síst
lyktina. „Þá er ég að tala um mykjuna, ég er
sveitastrákur að upplagi og ann henni.“
Þarf djarfari liti
„Nú fer ég heim til Houston til að melta það
sem ég hef séð og upplifað hér á Íslandi.
Hugmyndirnar eru þegar byrjaðar að gerjast
en það tekur tíma að útfæra þær. Það er
best að tjá sig sem minnst um sýninguna
sjálfa á þessu stigi en ég get þó upplýst að
ég mun ekki nota hvítt ljós, það yrði bara
eins og vasaljós á hvítum grunninum. Hér
þurfum við djarfari liti.“
Tónverk Bergljótar er grundvöllur verks-
ins og Hattingh hlakkar til að heyra það þeg-
ar það verður tilbúið. „Ég er vanur að vinna
út frá hljóði og fá þaðan innblástur. Ég er af
þeirri kynslóð í Suður-Afríku sem ólst upp
við útvarp, sá ekki sjónvarp fyrr en ég var
kominn yfir tvítugt, þannig að ég tengi
marga stóra viðburði við hljóð fremur en sýn,
svo sem fyrstu tunglgönguna 1969.“
Þess má geta að Bergljót hefur á und-
anförnum árum tekið upp hljóð frá jöklinum
sjálfum og verða þau, að hennar sögn, at-
kvæðamikil í tónverkinu.
Fátt jafnast á við undirleik Móður jarðar!
Bergljót Arnalds mun vinna náið með
Hattingh í að þróa sýninguna en mikilvægt
er að hennar sögn að sú sýn um skilaboð
jökla sem félagasamtökin hafa þróað og vakið
mikla athygli alþjóðlega komi glögglega fram
í sýningunni. Von er á Hattingh aftur um
mitt næsta sumar til að leggja frekari drög
að sýningunni, meðal annars þarf hann að
gera líkan af jöklinum. Eftir það fer hann
aftur utan og snýr ekki aftur fyrr en fáeinum
dögum fyrir sýninguna til að fínstilla hana.
Mikill umhverfisverndarsinni
Hattingh styður markmið Vox Naturae heils-
hugar. „Ég er með umhverfisvernd í blóðinu
og ek um á umhverfisvænum bíl. Þetta verk-
efni hefur burði til að vekja mikla athygli á
jöklum og áhrifum hlýnandi loftslags á þá –
að því gefnu að sýningin verði vel heppnuð.“
Hann brosir.
Í framhaldinu mun Hattingh vinna með
Vox Naturae að hönnun sýningar þar sem ís-
lenskum jöklum verður varpað á þekktar
byggingar erlendis. „Við viljum fara með
þetta verkefni inn í borgirnar til að gera
jöklana sýnilegri,“ segir Páll Ásgeir. „Þreif-
ingar eru þegar hafnar, meðal annars í New
York, þar sem okkur var mjög vel tekið.
Vonandi náum við að fara með þennan hluta
verkefnisins sem víðast og það er enginn vafi
á að sýningin á Svínafellsjökli næsta haust
mun liðka fyrir því.“
Aðspurður kveðst Hattingh vel geta hugs-
að sér að vinna meira með jökla í framtíðinni.
„Blessaður vertu, hann kemur ekki til með
að gera neitt annað næstu tíu árin,“ grípur
Sighvatur Lárusson, einn af stofnendum Vox
Naturae, inn í.
Fjöllistamaðurinn Jack Hattingh frá Suður-Afríku við mælingar á Svínafellsjökli á dögunum. Honum líst feikilega vel á verkefnið.
UNDIRBÝR LJÓSASÝNINGU Á SVÍNAFELLSJÖKLI
Ljós á öðrum hnetti
„ÍSLAND ER ÓVENJULEGT LAND,
MÉR LEIÐ Á KÖFLUM EINS OG ÉG
VÆRI STADDUR Á ÖÐRUM
HNETTI,“ SEGIR SUÐURAFRÍSKI FJÖL-
LISTAMAÐURINN JACK HATTINGH
SEM KOM HINGAÐ Á DÖGUNUM
TIL AÐ UNDIRBÚA MIKLA ÞRÍVÍDD-
ARLJÓSASÝNINGU Á SVÍNAFELLS-
JÖKLI NÆSTA HAUST.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Jack Hattingh ásamt Bergljótu Arnalds, Páli Á. Davíðssyni og Sighvati Lárussyni hjá Vox Naturae.
Morgunblaðið/RAX
* Þetta verkefni hefurburði til að vekjamikla athygli á jöklum
og áhrifum hlýnandi
loftslags á þá.
Ljósmynd/Páll Ásgeir Davíðsson