Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.02.2013, Page 47
Þ
að er öskudagur í Borgarleikhúsinu. Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Guð-
jón Davíð Karlsson, Hansa og Gói, aðalleikararnir í Mary Poppins, taka
eigi að síður á móti mér í borgaralegum klæðum. Það fer líklega vel á
því, þau eru í grímubúningum alla aðra daga ársins, alltént í leikhúsinu.
Það má því segja að í þeirra tilviki séu borgaraleg klæði ígildi grímubún-
ings.
Bæði eiga þau lítil börn og náðu að hjálpa þeim í búningana um morguninn, áður
en viðtalið brast á. „Voru strákarnir þínir Mary Poppins?“ spyr Gói Hönsu.
Hún hleypir brúnum.
„Nei, þeir voru sjóræningjar. Ég teiknaði meira að segja á þá yfirvararskegg. Þeir
voru alls ekki ólíkir Errol Flynn. Ætli Errol Flynn hafi ekki einhvern tíma leikið sjó-
ræningja?“
Hún horfir á blaðamann sem horfir tómum augum á móti.
Það hlýtur að vera!
Synir Hönsu eru fimm og sjö ára og forfallnir aðdáendur Góa Baunagrasbónda.
„Það er plakat af honum á herbergishurðinni. Þeim þykir miklu meira til Góa koma
en móður sinnar,“ segir Hansa hlæjandi.
Dóttir Góa er eins og hálfs árs. Hún var fíll í tilefni dagsins. Sonurinn, sem er
fjögurra ára, var á hinn bóginn Bakkúkan. „Ég reyndi meira að segja að pressa
hann í kúlu en það virkaði ekki,“ upplýsir faðirinn og uppsker hlátur hjá Hönsu.
Blaðamaður kemur af fjöllum, börnin hans eru bersýnilega orðin of gömul.
Áttatíu manna sýning
Mikið stendur til við Listabraut, sjálf Mary Poppins er komin í hús. „Þetta er lang-
stærsta sýning sem sett hefur verið á svið á Íslandi. Það er ekkert flóknara,“ út-
skýrir Gói. Máli sínu til stuðnings dregur hann nýjustu tölur úr Austurbæjarskóla
upp úr hatti sínum. 50 manns verða á sviðinu, leikarar, dansarar og hljómsveit og
um 30 á baksviðinu, reiðubúnir að skipta um leikmynd, hjálpa leikurum, dönsurum og
söngvurum að skipta um föt, farða þá og greiða. Þetta fólk er víst að allan tímann
meðan á sýningunni stendur, rétt eins og þeir sem standa á sjálfu sviðinu. „Það verð-
ur sumsé söngleikur á sviðinu en farsi á baksviðinu,“
segir Gói hlæjandi.
„Í sjálfu sér mæðir ekkert minna á þeim sem eru
baksviðs en okkur sem verðum á sviðinu. Það ættu
allir að koma í uppklappið, allir áttatíu,“ segir Hansa
og Gói bætir við að ekkert megi fara úrskeiðis. Rétt-
ar tímasetningar séu nánast upp á líf og dauða.
Spurð hvort selt verði inn á „farsann“ líka hlæja
Gói og Hansa í fyrstu. Síðan velta þau vöngum. „Það
væri ef til vill ekki svo vitlaust, hafa þetta þá
tveggja kvölda dagskrá, söngleikinn fyrra kvöldið og
hamaganginn á baksviðinu seinna kvöldið,“ segir
Hansa brosandi.
Magnús Geir, verði þessari hugmynd hrint í fram-
kvæmd vill blaðamaður fá prósentur!
Sviðið eiginlega of lítið
Að öllu gamni slepptu hafa hvorki Gói né Hansa tek-
ið þátt í eins umfangsmikilli sýningu – og eru þau þó
eldri en tvævetur í leikhúsinu. „Venjulega er verið að
dreifa úr fólki á stóra sviðinu hérna í Borgarleikhús-
inu, núna er það eiginlega of lítið,“ segir Hansa og
Gói bætir við: „Þetta er á svona Broadway- og West
End-standard. Langi fólk að sjá þannig sýningu þarf
ekki lengur að fara úr landi.“
Borgarleikhúsið er undirlagt þessa dagana enda
undirbúningur kominn á lokastig, fólk að smíða,
sauma, mála og hvaðeina. Hansa upplýsir að 200
búningar hafi verið saumaðir sérstaklega fyrir sýn-
inguna. Það eru ófá spor og saumavélin gengur víst
dag sem nótt. „Það hljóta þá að vera 200 skópör líka, það eru 400 stakir skór,“ segir
Gói.
Málin voru tekin af Hönsu og Góa í nóvember en babb er komið í bátinn, búning-
arnir hanga nú utan á þeim. „Sko,“ byrjar Gói að útskýra, „málin voru tekin áður en
við byrjuðum á stífum dansæfingum og lýsið hefur runnið af okkur undanfarnar vik-
ur.“
„Já,“ bætir Hansa við. „Það er verið að þrengja og þrengja …“
Augnhárahreyfingar útfærðar
Maðurinn á bak við þessa gríðarlegu lýsisframleiðslu heitir Lee Proud og er hingað
kominn frá Lundúnum. „Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei hafi sést eins nákvæm kó-
reógrafía á Íslandi og í þessari sýningu,“ segir Gói og nefnir sem dæmi að jafnvel
augnhárahreyfingar skipti máli. „Það er ekki sama hvort höndin snýr svona eða
svona,“ segir Hansa og færir handarbakið lítillega til.
Proud var um langt árabil virtur dansari en hefur nú alfarið snúið sér að því að
semja dansa. „Hann er Off-West End eins og staðan er núna en það er bara tíma-
spursmál hvenær hann kemst inn í úrvalsdeildina,“ segir Gói og Hansa vekur athygli
á því að Proud hafi verið tilnefndur til verðlauna fyrir þrjár sýningar af fjórum sem
hann samdi dansana fyrir á síðasta ári.
Spurð hvort Mary Poppins líði þá lipurlega um sviðið segja þau hana á mun meiri
hreyfingu en tíðkist í uppfærslum erlendis, þar sem hún sé alla jafna settleg á miðju
sviðinu. „Það fer vel á því, Hansa er okkar Dancing Queen,“ segir Gói meðan Hansa
ranghvolfir augunum. „Einmitt.“
Dansarar úr Íslenska dansflokknum setja sterkan svip á sýninguna og Hansa og
Gói segja frábært að fá að vinna með þeim. Þar sé hver snillingurinn upp af öðrum.
Ekki er nóg að dansa í Mary Poppins, eitthvað þarf að leika líka og auðvitað
syngja. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson og bera aðalleikararnir honum afar vel
söguna. „Frábær“ og „æðislegur“, svo orðunum sé haldið til haga. „Bergur gerði frá-
bæra hluti með Galdrakarlinn í Oz á síðasta leikári og hann er líka í essinu sínu hér.
Hann er alveg ótrúlega skipulagður, sem er líklega besta gjöf sem leikstjóri, sem
leikstýrir svona skrímsli eins og þessi sýning er, getur fengið,“ segir Gói.
„Bergur treystir manni og er með hjartað á réttum stað. Við erum í mjög örugg-
um höndum,“ segir Hansa.
Þau benda á að ekki sé um keyptan „pakka“ að ræða, það er sýningin þurfi ekki
að vera í ákveðnum skorðum að kröfu rétthafanna. Þó megi ekki fara um of út af
sporinu. Agnar Már Magnússon hefur útsett alla tónlistina upp á nýtt og segja Gói
og Hansa hann hafa unnið þrekvirki.
Tékkinn Petr Hloušek á heiðurinn af margslunginni leikmyndinni og segja þau
hugmyndaflugi hans greinilega engin takmörk sett. „Ég legg til að við kyrrsetjum út-
lendingana sem vinna að þessari sýningu. Við höfum lært ótrúlega mikið af þeim,“
segir Hansa og bætir við að þeir komi úr miklu samkeppnisumhverfi, þar sem menn
komist ekki upp með annað en að gera allt 150%.
Gói tekur í sama streng: „Ég hélt að ég væri búinn að sjá allt í leikhúsi. Aldeilis
ekki. Aftur og aftur klórar maður sér í höfðinu og spyr fullur undrunar og efasemda:
Hvernig fara þeir eiginlega að þessu?“
Vel fer á með Hönsu og Góa í leðursófanum í Borgarleikhúsinu og þegar talið
berst að samstarfinu keppast þau við að ausa hvort annað lofi. Þau hafa svo sem
unnið saman áður, stóðu fyrst saman á sviði í uppfærslu Nemendaleikhússins á
Þremur systrum eftir Tsjekhov árið 1997. Hansa var þá þriðja árs nemi þar á bæ en
Gói sautján ára gestaleikari.
„Það er alltaf jafngaman að vinna með Hönsu. Hún er í einu orði sagt frábær leik-
kona,“ segir Gói.
„Við höfum svipað viðhorf til listarinnar. Það er lykilatriðið. Það er alltaf hægt að
ýta Góa aðeins lengra í dag en í gær. Það er stór kostur,“ segir Hansa.
„Það þarf að koma fram að Inga og Steini eru líka frábær,“ flýtir Gói sér allt í
einu að segja.
Hmm?
„Það eru makarnir okkar. Börnin og heimilið hvíla á þeirra herðum meðan við er-
um á lokasprettinum með æfingarnar hérna. Það er ómetanlegt fyrir leikara að eiga
skilningsríkan maka,“ segir Hansa.
Kann að njóta lífsins
Kvikmyndin um Mary Poppins sló rækilega í gegn um allan heim þegar hún var
frumsýnd árið 1964 með Julie Andrews í aðalhlutverkinu. Myndin fékk fimm Ósk-
arsverðlaun og er löngu orðin sígild. Það var svo árið
2004 að loks var gerður söngleikur. Hann fékk mjög
góðar viðtökur þegar hann var frumsýndur á West
End; hlaut sjö Tony-verðlaun, m.a. sem besti söngleik-
urinn.
Spurð hvað geri karakterinn Mary Poppins svona
áhugaverðan og vinsælan svarar Hansa að bragði:
„Hún kann að njóta lífsins og skilur að börn þurfa að
fá að vera börn. Við fullorðna fólkið lærum alveg jafn-
mikið af börnunum og þau af okkur. Ég væri til í að
hafa eina svona Mary Poppins í mínu lífi – hún kann
þetta. Hún sér ekki vandamál, bara lausnir. Samt
leysir hún ekki málin ein og sér, heldur lætur fólk
hafa fyrir því að gera það sjálft eftir að hafa beint því
í rétta átt. Hún bætir fjölskyldur og kætir með já-
kvæðri og uppbyggilegri gagnrýni. Mary Poppins er
full af kærleika en um leið ströng og öguð. Hún leið-
beinir fólki gegnum lífið. Leitið og þér munuð finna
það skemmtilega í lífinu, er boðskapurinn. Njótið þess
að vera í augnabliknu, annars missið þið af svo mörg-
um tækifærum.“
Fjölskyldan ofar öllu
Gói segir okkur Íslendinga hafa gott af því að tileinka
okkur þetta viðhorf. „Pössum okkur á því að verða
ekki gömul og hafa misst af einhverju mikilvægu.
Hversu skemmtileg sem vinnan okkar er, hversu gott
hlutverk ég fékk, hversu stóran samning ég gerði,
skipta okkar nánustu á endanum öllu máli. Þetta vita
svo sem allir innst inni en samt hættir okkur til að
gleyma því. Rífum okkur nú upp með þetta að leiðarljósi!“
Hann þagnar stutta stund en bætir svo við sposkur á svip: „Kosningaskrifstofan
mín er á Hverfisgötu …“
Hansa er honum sammála. „Við Íslendingar erum upp til hópa alltof lengi í
vinnunni, oft lengur en framleiðnin segir til um. Njóti fólk þess ekki að vera heima
með fjölskyldunni þarf það að skoða sinn gang rækilega!“
Þegar séra Guðjón Davíð hefur prédikað og séra Jóhanna Vigdís þjónað fyrir altari
horfa þau hvort á annað, yggla sig aðeins. „Það er kannski svolítið skrýtið að vera að
prédika þetta hafandi sjálf verið í vinnunni allan sólarhringinn að undanförnu,“ segir
Gói.
Þau skellihlæja.
En Mary Poppins er harður húsbóndi.
Á sömu blaðsíðu í lífinu
Gói fer með hlutverk Berts, besta vinar Mary Poppins í verkinu. Hvernig náungi ætli
hann sé?
„Bert er þúsundþjalasmiður. Sótari, götulistamaður, lírukassaspilari og Guð má vita
hvað. Hann leiðir áhorfendur gegnum sýninguna, þessa töfraveröld. Bert er ákaflega
heillaður af Mary Poppins, hver yrði það svo sem ekki? Og það sem er ef til vill
mest um vert; hann er búinn að læra, nú er hann bara að njóta. Þau Mary Poppins
eru fyrir vikið á sömu blaðsíðu í lífinu. Eins og hún kennir hann börnunum að sjá
hlutina í öðru ljósi,“ segir hann.
Hansa kinkar kolli. „Það er mjög sterk taug á milli Mary Poppins og Berts. Hann
býr yfir einstaklega fallegu æðruleysi.“
Talið berst að markhópnum og Gói og Hansa fullyrða að Mary Poppins sé jafnt
fyrir börn og fullorðna, sannkölluð fjölskyldusýning.
„Ég sá sýninguna úti í London fyrir nokkrum árum með hópi fullorðins fólks. Við
urðum öll börn aftur. Þvílíkir töfrar!“ segir Gói.
Hansa tekur undir það sjónarmið. „Fólk þarf alls ekki að hafa barn meðferðis á
sýninguna enda þótt það sé auðvitað ekki verra.“
Að lokum hvetja þau alla leikhúsunnendur til að koma og njóta herlegheitanna.
„Allir þessir áttatíu sem að sýningunni koma eru stilltir inn á að gera stærstu og
flottustu uppfærslu sem um getur á Íslandi,“ segir Gói. „Mér líður eins og ég sé að
fara að keppa á ólympíuleikunum!“
17.2. 2013 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 47
Byggt á: Sögum P.L. Travers og kvikmynd frá Disney.
Leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson
Handrit: Julian Fellowes.
Ný lög og textar: George Stiles, Anthony Drewe
Meðframleiðandi: Cameron Mackintosh.
Upphaflega sett upp af: Cameron Mackintosh,
Thomas Schumacher.
Íslenskun á lausu máli og bundnu:
Gísli Rúnar Jónsson
Leikmynd: Petr Hloušek.
Aðstoðarleikstjóri: Hlynur Páll Pálsson.
Búningar: María Ólafsdóttir.
Lýsing: Þórður Orri Pétursson.
Hljóð: Thorbjoern Knudsen.
Tónlist og texti: Richard og Robert Sherman.
Tónlistarstjórn: Agnar Már Magnússon.
Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir.
Danshöfundur: Lee Proud.
Leikarar: Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Guðjón Davíð
Karlsson, Halldór Gylfason, Esther Talía Casey, Sigrún
Edda Björnsdóttir, Theodór Júlíusson, Hallgrímur
Ólafsson, Hanna María Karlsdóttir, Jóhann Sigurð-
arson, Sigurður Þór Óskarsson o.fl.
MARY POPPINS