Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.02.2013, Blaðsíða 52
52 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17.2. 2013
Sinfóníuhljómsveit Íslands mun halda til
Washington í Bandaríkjunum í byrjun mars
og leika á norrænu menningarhátíðinni Nor-
dic Cool, sem haldin er í Kennedy Center og
stendur í tæpan mánuð. Ilan Volkov stjórnar
hljómleikum sveitarinnar, sem verða 4. mars,
og einleikari verður bandaríski píanóleik-
arinn Garrick Ohlsson. Af fjórum verkum
sem flutt verða eru tvö íslensk, nýtt verk eft-
ir Hlyn Aðils Vilmarsson og „Aeriality“ eftir
Önnu Þorvaldsdóttur. Íslenska dans-
flokknum hefur einnig verið boðið að koma
fram á Nordic Cool, 27. febrúar. Flokkurinn
sýnir „Großstadtsafari“ eftir Jo Strömgren,
„Svaninn“ eftir Láru Stefánsdóttur og „Til“
eftir Frank Fannar Pedersen.
ÍSLENSK LIST Í WASHINGTON
VESTUR UM HAF
Sinfóníuhljómsveit Íslands á sviði Kennedy
Center í Washington fyrir þrettán árum.
Morgunblaðið/Einar Falur
Sena úr leikritinu Ráðabruggið, sem er fellt inn í
leikdagskrá Snúðs og Snældu í Iðnó á laugardag.
Leikhópurinn Snúður og Snælda frumflytur
leikdagskrána „Ráðabruggið og Bland í poka“
í Iðnó á laugardag klukkan 16. Höfundar eru
leikhópurinn, Sella Páls og Bjarni Ingvarsson.
Leikurinn gerist á vistheimili aldraðra. Í til-
efni 50 ára afmælis þess hefur hópur vist-
manna tekið að sér að æfa upp skemmti-
dagskrá sem inniheldur leikritið
„Ráðabruggið“, sem er um aldraða konu sem
gabbar son sinn til sín, auk nokkurra gam-
anþátta þar sem stiklað er milli söngatriða.
Bjarni Ingvarsson leikstýrir verkinu, en
hann hefur leikstýrt og leikið í fjölda leiksýn-
inga og kvikmyndum.
LEIKSÝNING Í IÐNÓ
RÁÐABRUGGIÐ
Í Hollywood er unnið að
undirbúningi kvikmyndar
sem byggist á ævin-
týraheimi skáldsögu Char-
les Dickens um Óliver
Twist. Kvikmyndin, sem
Sony framleiðir, mun heita
„Dogde and Twist“ og
fjallar um tvo menn sem
standa hvor sínum megin
við lög og reglu í Lund-
únum Viktoríutímans, og inn í söguna bland-
ast tilraun til að stela krúnudjásnunum. Óli-
ver Twist er annar mannanna en hinn gamall
félagi hans úr vasaþjófagenginu.
Skáldsaga Dickens kom út árið 1838 og
hefur síðan notið mikilla vinsælda. Nokkrar
kvikmyndir hafa verið gerðar eftir henni,
meðal annars af David Lean (1948), Carol
Reed (söngleikurinn Oliver, 1968) og Roman
Polanski (2005). Nýja myndin byggist á skáld-
sögu eftir Tony Lee með sama nafni.
FRAMHALD AF SÖGU DICKENS
ÓLIVER ELDIST
Charles
Dickens
Björn Thoroddsen heldur upp á 55 ára afmæli sitt með tón-leikum í Salnum í Kópavogi á laugardag klukkan 16. Á tón-leikunum sýnir hann á sér hliðar sem íslenskir tónlistarunn-
endur hafa ekki kynnst fyrr, en Björn kemur einn fram með
kassagítarinn og leikur flest annað en djass. Leikur hann ýmis þekkt
lög, popp, rokk og blús, jafnvel þungarokk, úr smiðju hljómsveita á
borð við Bítlana, Deep Purple, Black Sabbath, Police og Who.
Björn segir hugmyndina hafa kviknað þegar hann horfði á sjón-
varpsþátt með uppistandaranum Seinfeld, þar sem já verður nei og
leikarar gera allt andstætt því sem þeir hugsa. „Fólk þekkir mig hér
einkum fyrir ákveðna tegund tónlistar og því ákvað ég að gera eitt-
hvað allt annað á þessum tónleikum og koma einn fram,“ segir
Björn. Hann segist reyndar hafa komið fram með svona efnisskrá á
tónleikum erlendis en viðurkennir að honum finnist meira mál að
gera þetta hér, þótt hann þekki öll þessi lög vel.
„Þetta eru mörg mín uppáhaldslög gegnum tíðina. Í gamla daga
var Black Sabbath mín uppáhaldshljómsveit; þarna er grunnurinn!
Ég leik allt á kassagítarinn, þótt þessi tónlist heyrist venjulega ekki
á það hljóðfæri, og ég ætla líka að hafa hátt,“ segir hann og hlær.
„Gegnum tíðina hef ég leikið marga gítarstíla en engu að síður er
maður oft settur í ákveðið hólf, sérstaklega hér heima, en það er
gaman að smeygja sér út úr því.“
Björn er upptekinn maður og að tónleikunum loknum einbeitir
hann sér að undirbúningi tveggja gítarhátíða sem hann stýrir erlend-
is í sumar, í Winnipeg í Kanada og Bergen í Noregi, auk þess sem
tónleikar eru á döfinni í Bandaríkjunum, Kanada og á Norð-
urlöndum. Þá er Björn að leggja lokahönd á plötu sem hann gerir
með stórsöngvaranum Kristni Sigmundssyni. efi@mbl.is
AFMÆLISTÓNLEIKAR BJÖRNS THORODDSEN
„Ég ætla líka að
hafa hátt“
„Þarna er grunnurinn,“ segir Björn Thoroddsen um lögin sem hann leikur
á afmælistónleikunum í Salnum. Djassarinn hélt upp á Black Sabbath.
Morgunblaðið/RAX
„ÞETTA ERU MÖRG MÍN UPPÁHALDSLÖG GEGNUM
TÍÐINA,“ SEGIR GÍTARLEIKARINN BJÖRN THORODDSEN
UM EFNISSKRÁ TÓNLEIKA Í SALNUM. HANN LEIKUR
LÖG EFTIR BÍTLANA, WHO OG AC/DC Á KASSAGÍTAR.
Menning
V
erkin verða að vera eftir núlifandi
listamenn sem eru menntaðir á
sínu sviði, komnir með góðan
bakgrunn og þeir verða að vinna
af miklum metnaði,“ segir Birna
Gunnarsdóttir, starfsmaður Landspítalans.
Hún gæti verið að tala um lækna og annað
heilbrigðisstarfsfólk stofnunarinnar, sem
vissulega þarf einnig að vera vel menntað og
vinna af metnaði, listamenn á sínu sviði, en
talið snýst hinsvegar um listaverkin sem
mæta gestum og starfsfólki svo víða á göng-
um og salarkynnum stofnunarinnar. Í bygg-
ingum Landspítalans er nú 601 skráð lista-
verk eftir fjölda myndlistarmanna og mynda
afar athyglisvert listasafn, sem hefur orðið
heildstæðara með hverju árinu, enda verkin
keypt að ráði hæfustu sérfræðinga en ætíð í
samráði við starfsfólk á þeim deildum þar
sem verkunum er komið fyrir. „Verkin eru
ekki keypt fyrir fé spítalans heldur á ríkið
þessi verk, þau eru keypt fyrir framlög úr
Listskreytingasjóði ríkisins,“ segir Birna.
Samkvæmt lögum skal verja einu prósenti
af byggingarkostnaði nýbygginga til list-
skreytinga, innandyra sem utan, en mark-
miðið er að fegra opinberar byggingar og um-
hverfi þeirra með listaverkum. Landspítalinn
hefur frá stofnun Listskreytingasjóðs ríkisins
árið 1983 sótt um styrki vegna nýfram-
kvæmda, jafnt nýrra bygginga sem end-
urbóta, en þær eru tíðar innan veggja stofn-
unarinnar. Um árabil hefur það verið hlutverk
Birnu að sækja um þessa styrki og halda utan
um listaverkaeign spítalans.
Kjarvalsverk á tombólu
Birna segir framlögin úr Listskreytingasjóði
hafa gert spítalanum kleift að prýða vaxandi
húsakynnin nýjum verkum eftir marga
fremstu listamenn þjóðarinnar, sjúklingum,
gestum og starfsfólki til gleði og uppörvunar.
Vitaskuld hafa spítalarnir sem í dag eru
reknir undir hatti Landspítalans, þar á meðal
Borgarspítalinn og þeir á Kleppi og Vífils-
stöðum, eignast merk listaverk gegnum tíðina.
Á skrifstofu sinni sýnir Birna blaðamanni
möppu með myndum af öllum verkunum og
dregur fram mynd af glæsilegu málverki Ás-
gríms Jónssonar frá árinu 1907.
„Ásgrímur gaf þetta verk til Vífilsstaða
þegar spítalinn þar tók til starfa,“ segir hún.
Og þegar spítalinn þar var lagður niður var
verkið flutt á lungnadeildina í Fossvogi, þar
sem það er „læst“ á vegginn, eins og önnur
listaverk spítalans. „Þetta er einn af okkar
dýrgripum, og hér er annar sem einnig var á
Vífilsstöðum.“ Hún sýnir mynd af hraunlands-
lagi eftir Jóhannes Kjarval í kúbískum stíl
sem nú er einnig á lungnadeildinni. „Kjarval
gaf þessa mynd á tombólu sem berkla-
sjúklingar héldu á sínum tíma,“ segir hún.
Í skrám Birnu má sjá að í eigu safnsins eru
verk eftir fjölda listamanna, allt frá fyrr-
nefndum frumherjum að ljósmyndaverki eftir
Ingvar Högna Ragnarsson, sem var vígt í
móttöku bráðadeildar í síðustu viku.
ALLS ER 601 SKRÁÐ MYNDLISTARVERK Á LANDSPÍTALANUM
Sjúklingum, gestum og
starfsfólki til uppörvunar
ÞEGAR FARIÐ ER UM HINAR
MÖRGU BYGGINGAR SEM SAMAN
MYNDA LANDSPÍTALANN, BLASA
VIÐ ÓTAL LISTAVERK, EFTIR MARGA
BESTU LISTAMENN ÞJÓÐARINNAR.
BIRNA GUNNARSDÓTTIR HELDUR
UTAN UM ÞETTA SAFN.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
Birna við verk Harðar Ágústssonar, Straumamót, frá 1975, nærri aðalinngangi Landspítalans. Verk-
ið var keypt eftir sameiningu Landspítala og Borgarspítala árið 2000 og má lesa það sem táknmynd
sameiningar stofnananna. „Ég held afskaplega mikið upp á verk Harðar,“ segir Birna.
Morgunblaðið/Einar Falur