Morgunblaðið - 30.12.2013, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 30.12.2013, Blaðsíða 25
MINNINGAR 25 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 30. DESEMBER 2013 ✝ Stella Jóns-dóttir fæddist á Akureyri 16. sept- ember 1929. Hún lést á Dvalarheim- ilinu Hlíð 16. des- ember 2013. Foreldrar henn- ar voru Ingibjörg Þórhannesdóttir og Jón Guðjónsson bakarameistari. Systkini Stellu voru sex, eftirlifandi eru Jóna Berta og Hrafnhildur. Uppeldissystir hennar er Gréta Óskarsdóttir. Stella fór í Húsmæðraskólann á Akureyri 16 ára gömul. Ung hóf hún störf í Ullarverksmiðj- unni Gefjun þar sem hún vann allan sinn starfsaldur. Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Kjartani Helga Sumarliðasyni frá Bolungarvík, sem lést 9. júní 2012. Hann var sonur hjónanna Maríu Friðgerðar Bjarnadóttur og Sumarliða Guðmundssonar. Þau giftu sig árið 1950. Stella og Kjartan eignuðust fjögur börn: Ingi- björg, f. 1949, maki Gestur Björnsson; Jón, f. 1952, d. 14.12. 1969; Kjart- an Friðgeir, f. 1955, maki Dýrleif Ingv- arsdóttir; Sum- arliði Már, f. 196,1 maki Björg Hjör- leifsdóttir. Stella helgaði sig heimilinu jafnframt því að vera virk í Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og kvenfélaginu Baldursbrá þar sem hún var heiðursfélagi. Lengst af bjuggu þau hjónin í Viðarholti í Glerárhverfi. Í maí 2012 fluttu þau á Dvalarheimilið Hlíð þar sem hún síðan lést. Útför Stellu fer fram frá Glerárkirkju í dag, 30. desem- ber 2013, og hefst athöfnin kl. 13.30. Elsku mamma mín, þá er komið að kveðjustund og söknuðurinn er mikill. Það er margs að minnast, ljúfar minningar streyma fram. Það sem lýsir þér best er hvað þú varst alltaf hjálpsöm og hafðir alltaf tíma fyrir alla. Oft var gest- kvæmt í Viðarholti og enginn mátti fara svangur þaðan. Þú hafðir alltaf gaman af að hlusta á tónlist enda varstu alin upp við mikinn söng. Fjölskyldan var þér efst í huga og barnabörnin sem þú varst svo stolt af nutu góðs af. Það var sama hvað þú varst að gera, þau máttu alltaf vera með, þú hlustaðir og gafst góð ráð. Betri og ljúfari móður hefði ég ekki getað átt, þú ert fyrirmyndin mín. En nú ert þú búin að fá hvíld- ina og laus við allar þrautir og komin til pabba og ástvina þinna. Nafn þitt þýðir stjarna og nú skín hún skært á himninum. Elsku mamma mín, þakka þér fyrir allt og allt. Ég sakna þín mikið og mun geyma minningarnar í hjarta mér. Megi ljósið umvefja þig og allir guðs englar vaka yfir þér. Um síðir, þegar ævin dvín við mætast munum svo aftur, elsku ástin mín, við ströndina á englalandi, þar sem fegurðin býr og eilíf sólin við okkur skín. (Sigurbjörn Þorkelsson) Þín dóttir, Ingibjörg (Inga). Góða nótt, góða nótt, Falla húmtjöldin hljótt, meðan himinsins ljós, signir viknandi rós. Lokast blómanna brár, vakna blundandi þrár. Góða nótt, góða nótt, falla húmtjöldin hljótt. (Sigfús Elíasson.) Í dag kveð ég þig, kæra systir mín, og í gegnum hugann streym- ir fjöldi minninga liðinna áratuga. Hlýi faðmurinn þinn, hlýjan og væntumþykjan eru mér efst í huga. Frá unga aldri varð mér ljós styrkur þinn, kraftur og æðru- leysi, þegar hinar erfiðu stundir lífsins áttu það til að banka upp á. Stella var elst okkar systra sem einatt kölluðum okkur „bakara- dæturnar“ og aldrei komum við að lokuðum dyrum ef leitað var ráða og handleiðslu. Viðarholt, heimili hennar og Kjartans heitins, stóð fjölskyldu minni alltaf opið og eftirminnileg- ur er fjöldi gleðistunda þar við leik og störf. Fyrir allar þær stundir erum við ævinlega þakklát. Það er huggun, nú þegar hátíð ljóss og friðar gengur í garð að vita til þess að nú ert þú elsku systir umvafin þeim sem biðu þín og voru þér svo kærir. Við Siggi og börnin okkar þökk- um fyrir allt sem þú gafst okkur um leið og við sendum öllu þínu fólki okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Góða nótt og Guð geymi þig, Stella mín, þín. Hrafnhildur Jónsdóttir (Habba). Elsku amma. Við sitjum hér systkinin og minningarnar hrann- ast upp. Betri og yndislegri ömmu var ekki hægt að hugsa sér. Þú varst eins og okkar önnur móðir og besti vinur. Amma var ekki þessi týpíska amma, heldur var hún hvers barns draumaamma. Hún var hress og skemmtileg og gladdi okkur alltaf þegar við vor- um eitthvað döpur og við vorum stolt af að eiga hana. Við fundum aldrei fyrir aldursmun, þú settir þig í spor okkar, hlustaðir og ráð- lagðir. Þú varst svo hlý og góð, óeigingjarnari manneskju var ekki hægt að finna. Þú fylgdist með öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur og varst svo stolt af okkur. Amma var mikil fjölskyldu- manneskja, þegar stórfjölskyldan hittist vildu allir koma í Viðarholt og alltaf var nóg pláss fyrir alla. Haldin voru ættarmót, fjölskyldu- fagnaðir, allskonar mannfagnaðir og alltaf var nóg pláss í litla hús- inu, Viðarholti. Lífið var ekki alltaf dans á rós- um. Áföllin dundu yfir fjölskyld- una, þú misstir mömmu þína að- eins 11 ára gömul, svo missir þú bróður þinn, föður og son með stuttu millibili. Að missa barnið sitt er eitthvað sem enginn getur skilið nema sá sem hefur upplifað það. Það sem einkenndi ömmu fyrst og fremst var góðvild og hjálpsemi í garð annarra, fjöl- skyldunnar, ættingja, vina og einnig óskyldra, meðal annars starfaði hún hjá mæðrastyrks- nefnd til fjölda ára. Hún mátti hvergi aumt sjá, gerði aldrei mannamun og hafði ríka réttlæt- iskennd. Við eigum margar góðar minningar t.d. frá ferðalögum með ömmu og afa um landið, spjalli í eldhúsinu í Viðarholti, útreiðar- túrum, gistinóttum hjá ykkur sem voru ófáar, heimabakstri, konfekt- gerð fyrir jólin og svona má lengi telja. Elsku amma, það er skrítið og sárt að hafa þig ekki hér lengur hjá okkur. Söknuðurinn er mikill, en við vitum að þú varst hvíldinni feg- in, því líkaminn var orðinn þreyttur og kvalinn. Nú ertu komin til afa og Nonna og ástvina þinna. Takk fyrir allt. Við elskum þig. Megi Guðs englar vaka yfir þér og fjölskyldu þinni. Þín barnabörn, Stella, Björn og Antonía. Við kveðjum í dag með söknuði elskulega móðursystur okkar, Stellu Jónsdóttur. Móðir okkar, Jóna Berta, var yngri systir henn- ar og að auki áttu þær bróður sem eldri var og hét Kristbjörn, en hann drukknaði með Súlunni EA árið 1963. Ekki munum við eftir Stellu án Kjartans, eiginmanns hennar, en hann lést á síðasta ári. Einhvernveginn varð þá ljóst að ekki yrði langt á milli þeirra. Við vorum öll systkinin mjög nátengd Stellu og Kjartani. Börn- in þeirra Inga, Nonni, Brói og Már voru á svipuðu reki og við, nema Siggi sem var jafngamall Stellu, elsta barnabarni þeirra. Það var yndislegt að koma á heimili þeirra hjóna; alltaf tími fyrir okkur börnin og við vorum aldrei fyrir, þó við hljótum nú stundum að hafa verið það. Þau bjuggu ekki við mikil efni eins og títt var um hinn venjulega launa- mann, en aldrei vorum við látin finna fyrir því. Við frænkurnar vorum gjarnan inni í dúkkuleikj- um og þvilíku og var Stella alltaf boðin og búin að hjálpa okkur að útbúa dúkkuföt og annað sem við þurftum á að halda, þótt hennar vinnudagur væri oftast langur. Strákarnir voru meira með Kjart- ani í húsunum, en hann var frí- stundabóndi með kindur og hesta í Viðarholti. Honum þótti mjög vænt um skepnurnar sínar og sinnti þeim vel. Móðir okkar og Stella voru alla tíð mjög nánar og er erfitt fyrir móður okkar að sjá á bak henni nú. Stella er búin að vera mikill hjartasjúklingur síðustu ár, en hún tók því af miklu æðruleysi eins og öllum áföllum í lífi sínu. Nú hefur ættarhöfðinginn okk- ar kvatt og færum við henni bestu þakkir fyrir allt sem hún var okk- ur. Þorgerður Þorgils, Guðmundur Gíslason og Sigurður Þorsteinsson. Stella Jónsdóttir, amma Stella eða amma í Viðó eins og hún var alltaf kölluð á mínu heimili, er fall- in frá. Því langar mig að minnast hennar og Kjartans í Viðarholti. Það var fyrir svona 19 árum að ég kom fyrst í Viðarholt. Stella, konan mín, vildi endilega að amma hennar og afi, þau Stella og Kjart- an í Viðarholti, fengju að hitta mig. Ég hafði alveg áttað mig á að henni Stellu minni þætti mjög vænt um afa sinn og ömmu en þegar við komum inn á þetta litla alvörusveitaheimili inni í miðri Akureyri þá fyrst sá ég hvað þeim þótti öllum ofboðslega vænt hverju um annað. Þarna urðu miklir fagnaðarfundir og þau föðmuðust og kysstust eins og þau hefðu ekki sést í langan tíma. Auð- vitað fékk ég sömu móttökurnar og varð vægast sagt mjög hissa og asnalegur yfir þessu öllu saman. Ég var strax góðkenndur enda al- inn upp í sveit og kærasti Stellu litlu. En svona var þetta þegar menn litu inn í Viðarholti, þá var dembt yfir mann faðmlögum, kossum, væntumþykju og svo auð- vitað kaffi og með því. Ég áttaði mig ekki alveg strax á því hvað ég var heppinn því að þarna var ég að tengjast því besta og yndislegasta fólki sem maður getur hugsað sér að eiga sem tengdaafa og -ömmu eða kannski tengdamömmu og -pabba frekar því þau voru eins og foreldrar hennar Stellu minnar. Jón Helgi og Sandra kölluðu Við- arholts-hjónin alltaf afa og ömmu, ekkert langa neitt. Það er alveg klárt að það voru forréttindi að verða þeirrar gæfu aðnjótandi að ala upp börnin okkar Stellu í svona mikilli nálægð og samvistun við afa sinn og ömmu. Kjartan hringdi stundum um helgar og bauð Söndru og Jóni Helga með út í hús á eftir eins og hann orðaði það alltaf. Þá þurfti að hafa hraðar hendur og hendast á fætur, klæða krakkana í fötin og þá passaði það, Kjartan var kominn að ná í þau. Það var nefnilega ekkert slugs í gangi hjá honum Kjartani að drífa hlutina af. Þegar Jón Helgi eða Sandra voru búin að vera í heim- sókn í Viðarholti og við komum svo að ná í þau var alltaf búið að baka einhvern slatta af góðgæti eða spæla egg og eldhúsið alveg á hvolfi eftir þau. En það gerði ekk- ert til, hún Stella þreif það bara upp eftir elskurnar sínar. Enda voru þau komin niður í kjallara til Kjartans að smíða eða tálga eitt- hvað. Já, þau Sandra og Jón Helgi fara svo sannarlega með góðar og ánægjulegar minningar ásamt góðu veganesti úr Viðarholti út í lífið. Elsku Stella, þú smitaðir hana Stellu mína og börnin okkar af réttsýni þinni og hjartahlýju. Jólasteikin smakkast mun betur af jólastellinu sem þú málaðir og gafst okkur. Takk fyrir allt, Stella, takk. Þau Viðarholtshjón voru ein- staklega samrýnd og náin. Ákaf- lega vandræðalítið fólk. Manni leið alltaf vel að vera nálægt ykkur hjónum. Ég er ákaflega þakklátur og tel mig betri mann eftir að hafa kynnst ykkur og ykkar lífsspeki. Elsku Stella og Kjartan, ykkar er sárt saknað. Hafið þökk fyrir allt og allt. Eyþór. Það hefur komið fyrir mig nokkrum sinnum í lífinu að ég hitti fólk og er sannfærður um að vera þess á jörðinni er til þess ætluð að gera heiminn þó ekki væri nema örlítið betri. Við eigum að læra af þessu fólki, tileinka okkur hugar- far þess til lífsins og ást þess til fjölskyldu og vina. Oftast fer ekki mikið fyrir þessu fólki, það hefur ekki þörf fyrir að láta mikið fyrir sér fara en við leitum til þess aftur og aftur vegna þess að við vitum að hjá því fáum við eingöngu heil- indi, sanna ást og góðar ráðlegg- ingar sem við tökum með okkur aftur út í lífið. Stella Jónsdóttir var svo sannarlega ein þeirra sem ég set í þennan hóp. Ég þurfti ekki að sitja lengi í eldhúskróknum í Viðarholti hjá Stellu til að átta mig á hversu ljúf og góð kona hún var. Stella hafði gengið í gegnum margt um ævina. Hún var enn barn þegar hún missti móður sína og allt í einu þurfti hún að takast á við hluti sem oftar er ætlast til að fullorðnir tak- ist á við. Nonni sonur hennar lést í sjóslysi og ekki mörgum árum áð- ur hafði bróðir hennar einnig látist á sama hátt. Stuttu áður en Nonni lést hafði hún misst föður sinn. Að sjálfsögðu mörkuðu þessir atburð- ir líf Stellu en ég dáðist alltaf að viðhorfum hennar til lífsins og hún lét ekki þessa atburði buga sig. Stella hélt minningu ástvina sinna á lofti með ótal sögum af þeim og hún kunni þær margar. Að sjálfsögðu heyrði ég sumar sögurnar margoft en það var samt alveg sama hversu oft hún sagði þær; þessar sögur voru alltaf jafn einstakar, áhrifaríkar og lær- dómsríkar. Það var einfaldlega þannig að þegar fólk hlustaði á Stellu segja sögur fylltist það að- dáun og virðingu fyrir þessari konu og viðhorfum hennar til lífs- ins. Tímarnir í Viðarholti þar sem ég hlustaði á Stellu eru mér mjög mikilvægir. Margt af því sem hún sagði mér geymi ég með mér út lífið og ég vona að ég geti borið gæfu til að tileinka mér marga þá mannkosti sem hún hafði að geyma. Nú er Stella komin aftur til ást- vina sinna og það hafa eflaust ver- ið fagnaðarfundir. Kjartan, eigin- maður og samferðamaður hennar í gegnum lífið, hefur nú fengið Stellu sína aftur. Nú eru þau sam- an á ný. Ég sé Stellu fyrir mér á nýjum stað sitjandi við eldhúsborð ekki ólíkt Viðarholti og nýbúin að ljúka við að segja sögur. Kannski eru sögurnar um börn, barnabörn eða barnabarnabörn hennar sem hún var svo stolt af en nú eru hlustendur aðrir. Nú sitja við borðið þeir Kjartan og Nonni, for- eldrar hennar, bróðir og aðrir ætt- ingjar. Nú líður Stellu vel og við sem eftir lifum skulum halda minningu þessarar einstöku konu á lofti um ókomna tíð. Það mun ég gera. Guðmundur Óskar Guðjónsson. Stella Jónsdóttir ✝ Pétur Björns-son fæddist í Reykjavík 4. júní 1954. Hann lést á heimili sínu 16. desember 2013. Foreldrar Pét- urs voru Björn Jónsson frá Fossi í Hrútafirði, f. 4.2. 1915, d. 13.2. 2012, og Guðný Helga Brynjólfdóttir frá Ormstöðum í Breiðdal, f. 10.8. 1923, d. 18.2. 2012. Bróðir Pét- urs er Ármann, f. 15.2. 1950. Pétur eignaðist eina dóttur, Guð- rúnu Birtu, f. 29.2. 2000. Barnsmóðir hans er Ingveldur Kristjánsdóttir. Pétur lauk prófi í rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík og vann við þá iðn alla sína tíð. Útför Péturs fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 30. desember 2013, og hefst kl. 13. Er við setjumst niður og skrif- um fáeinar línur um þig, Pétur, rennur margt í gegnum hugann. Þú ætlaðir að eyða jólunum með okkur og á aðfangadagskvöld ætl- uðum við að borða saman og vor- um við í sameiningu búin að ákveða hvað ætti að vera í matinn. Þú ólst upp fyrst í Kópavogi og síðar í Bústaðahverfinu og voruð þið bræðurnir mjög samrýndir. Þú fékkst alltaf að vera með þótt þú værir fjórum árum yngri, Ár- mann passaði upp á litla bróður sinn. Þú lærðir rafvirkjun og vannst við það fag mestan hluta ævinnar. Þú hafðir yndi af því að ferðast og fórst víða hér innanlands og er- lendis. Þegar þú varst krakki fórstu oft norður í Hrútafjörð með pabba þínum og Jóni Guðmunds- syni. Þar byggðuð þið sumarbú- stað við Fitjarvatnið og voruð þar við veiðar. Þú undir þér alltaf vel við vatnið og áttir góðar minning- ar þaðan. Fyrir þremur árum fór- uð þið bræðurnir norður að veiða einn dag ykkur til gamans. Gaman hafðir þú af því að stríða og atast í krökkunum okkar, þeim Þresti, Siggu, Guðnýju og Bigga, og eiga þau margar góðar minningar um þig. Svo varstu mjög svo duglegur að taka upp vídeó og eigum við eft- ir að skoða það aftur og aftur og minnast þín. Þú eignaðist eina dóttur, Guð- rúnu Birtu, með Ingveldi Krist- jánsdóttur og er missir hennar mestur. Þú reyndist foreldrum þínum mjög vel og gerðir þeim kleift að vera heima uns þau kvöddu þennan heim. Var missir þinn mikill enda kvöddu þau með fimm daga millibili. Takk fyrir allt. Við kveðjum þig með söknuði en huggum okkur við það að þú ert kominn í faðm for- eldra þinna. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Þýð. Sigurbjörn Egilsson) Ármann og Stefanía. Elsku Pési okkar. Í dag kveðj- um við þig með mikinn söknuð í hjarta. Þegar við systkinin sett- umst niður til að skrifa þessa minningargrein komu margar góðar minningar upp í hugann. Þú varst alltaf langskemmtilegasti frændinn, mjög stríðinn og alltaf tilbúinn í fíflaskap. Eftirminnileg- asta setning þín er án efa „Eru úlf- arnir nú búnir að éta allt?“ sem þú sagðir iðulega þegar við sátum að snæðingi í eldhúsinu hjá ömmu og afa á Tungó. Einnig sagðist þú alltaf ætla að setja okkur í poka, fara með okkur í skottið á bílnum þínum og fara með okkur heim til þín í Kríuhólana. Þetta vakti mikla kátínu hjá okkur krakkaormun- um. Einnig er okkur minnisstætt hversu gjafmildur þú ætíð varst, ekki bara við fjölskyldu þína held- ur einnig aðra sem minna máttu sín. Skemmst er þess að minnast að nú í desember fórst þú niður í Samhjálp og styrktir þá með pen- ingagjöf. Þegar við vorum yngri var allt- af gaman að opna jólapakkana frá þér því það var öruggt að þínar gjafir hittu ávallt í mark hjá okk- ur. Við gleymum aldrei þegar Guðný fékk sjónvarp í fermingar- gjöf og nokkrum dögum síðar mættir þú með annað sjónvarp undir hendinni handa henni Siggu greyinu sem átti ekkert. Ekki má heldur gleyma þegar þú gafst Bigga Cadillac-bílinn þinn þegar hann var aðeins 16 ára og á Biggi bílinn enn í dag. Biggi mun varð- veita hann í minningu þinni. Elsku Pési okkar, þú varst svo mikill græjukall, alltaf búinn að kaupa einhverjar svakalega sniðugar græjur eða flotta bíla. Skemmti- legasta græjan var að okkar mati vídeóvélin, sem þú notaðir til að festa marga gullmola á filmu. Þú varst alltaf stoð og stytta ömmu og afa og hugsaðir svo vel um þau og vitum við hversu mikið þú misstir þegar þau fóru. En við vit- um nú að þau hafa tekið vel á móti þér og eruð þið þrjú sameinuð á ný. Þetta veitir okkur huggun í sorginni. Takk, elsku Pési okkar, fyrir að vera frábær frændi. Sigríður, Guðný og Birgir. Pétur Björnsson Ástkær eiginkona, móðir, tengdamóðir, amma og langamma, SIGURLAUG ELÍSA BJÖRGVINSDÓTTIR hjúkrunarfræðingur, lést á Sólvangi, Hafnarfirði, 28. desember. Jarðarför auglýst síðar. Eiginmaður, synir, tengdadætur, barnabörn og barnabarnabarn. Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, ÞÓRDÍS ODDSDÓTTIR, Ketilsstöðum, Hörðudal, sem lést á Sjúkrahúsi Akraness, verður jarðsungin frá Snóksdalskirkju laugardaginn 4. janúar kl. 14.00. Börn, tengdabörn og fjölskyldur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.