Málfríður - 15.03.2005, Blaðsíða 15

Málfríður - 15.03.2005, Blaðsíða 15
MÁLFRÍÐUR 15 sóknir á ASL (Wilcox 2000:36-37). Fram að þeim tíma (og sérstaklega á meðan talmálsstefnan ríkti) voru þau viðhorf mjög algeng að táknmál væru ekki mál heldur aðeins látbragð eða „myndir í loftinu“. Stokoe benti hins vegar á að í þessu samskiptakerfi væri að finna bæði reglulega þætti og eins óhlut- bundin tákn sem ættu ekkert skylt við myndir í loftinu (Battison 1980:231-232). Grunneiningarnar Í stuttu máli má segja að hvert tákn sé sett saman úr fimm einingum, handformi, hreyfingu, myndunar- stað, afstöðu og munnhreyfingu. Stokoe benti á þær þrjár fyrstu, hinar komu síðar (Sutton-Spence & Woll 1999:155). Allar þessar einingar þurfa að vera til staðar svo út komi heilt tákn. Þessar einingar eru þá um leið minnstu merkingargreinandi einingar táknmálsins. Fjöldi eininganna er takmarkaður en samsetningarnar óendanlega margar (sbr. Valli & Lucas 2000). Stokoe setti fram þessa kenningu og bjó um leið til umritunarkerfi sem hann notaði til að búa til orðabók ASL. Þó umritunarkerfið sé mjög takmarkað og á margan hátt gallað var það bylting í rannsóknum á táknmálum og markaði upphaf þeirra (sjá t.d. Sutton-Spence & Woll 1999, Valli & Lucas 2000). Þessar einingar táknanna má bera saman við þær hljóðkerfisfræðilegu einingar sem við höfum í raddmálum. Einingarnar hafa sumt sammerkt með fónemum, eins og það að vera minnsta merkingar- greinandi eining máls, annað er líkara aðgreinandi þáttum. Ekki verður farið nánar út í það hér hvaða greining á best við heldur einungis undirstrikað að myndun tákns er ekki tilviljanakennd og er háð því að allir þættir séu uppfylltir. Það er nefnilega svo að þó að auðvelt sé að máta málfræðitæki latínumálfræðinnar á táknmál þá þjónar það ekki alltaf táknmálinu sem slíku. Þessar aðferðir var nauðsynlegt að nota í byrjun þegar sannfæra þurfti málfræðinga sem aðra um það að táknmál væru jafn fullkomin og önnur tungumál. Í dag er sú barátta sem betur fer að baki og því ekki lengur ástæða til þess að fella táknmálsmálfræðina algjörlega inn í ramma latínumálfræðinnar eða þeirrar málfræði sem við þekkjum best. Með það að sjónarmiði verður hér fjallað um beygingar- og orð- myndunarfræði íslenska táknmálsins og þá m.a. þá virkni eða frjósemi sem er í orðmyndun táknmála. Beygingar – áttbeygingarsagnir Flest þekkjum við það að þurfa að læra beygingar, fallbeygingu nafnorða, persónu- og tíðbeygingu sagna, stigbreytingu lýsingarorða o.s.frv. Táknmál eru sjónræn mál og hafa til að bera allt annan strúktúr en þau mál sem við (a.m.k. í þessum hluta heimsins) erum vön að fást við. Til dæmis er minna um beygingar orða. Heyrnarlausir, sem til marga ára vöndust því að talað væri um táknmál sem látbragð, litu því gjarnan svo á að táknmálið gæti ekki talist mál – það væri einfaldlega of fátækt af málfræði. En málfræðin er til staðar þó hún sé annars eðlis. Eitt af því er áttbeyging sagna en þar er átt við það að sagnir (sumar hverjar) beygjast í átt að þeim sem á í hlut. Tökum dæmi. Sögnin HEIMSÆKJA3 er dæmi um sögn sem áttbeygist og sýnir um leið vensl við frumlag og andlag. Þegar sögnin er sögð er því ekki nauðsynlegt að geta þess sérstaklega hvert frumlag- ið eða andlagið er. Sögnin, sem sýnd er á myndum 1 og 2 byrjar hjá frumlagi og endar hjá andlagi, fingur snúa allan tímann að andlagi. Ef merking setning- arinnar er „ég heimsæki þig“ snúa fingurgómar frá líkama táknara og hreyfingin er frá líkama táknara (sjá mynd 1)4. Ef merkingin er hins vegar „þú heim- sækir mig“ snúa fingurgómar að líkama táknara og hreyfing er í átt til táknara (sjá mynd 2). Þannig er afstaða handa og hreyfing í rýminu nóg til að gera grein fyrir frumlagi og andlagi setningar- innar. Til þess að beygingin sé málfræðilega rétt þarf sögnin að beygjast í rétta átt. Þetta má útskýra nánar með dæmi. Ef þrjár persónur eru að tala saman, A stendur fyrir miðju, B stendur hægra megin við A og C vinstra megin við A (séð út frá sjónarhóli A) 3 Táknmál hafa ekki ritmál en talað er um glósur þegar íslensk mynd tákna er sett á prent. Tákn eru þá glósuð með hástöfum og er íslenska birtingarmynd þess gjarnan höfð í grunnmynd. 4 Athugið að myndirnar sýna ekki þá hreyfingu sem er í táknunum. Mynd 1

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.