Selfoss - 11.09.2014, Blaðsíða 10

Selfoss - 11.09.2014, Blaðsíða 10
10 11. SEPTEMBER 2014 Jarðarber – sælgæti sumarsins Vilt jarðarber má finna víða um land. Plönturnar láta lítið yfir sér þar sem þær kúra innan um annan lággróður í birkikjörrum, giljabrekkum eða hraunbollum. Tegundin vex eigin- lega allt í kring um landið austan Vestfjarða. Á Vestfjörðum eru þau ekki upprunaleg, þótt nú megi finna þau þar aðflutt í skógarreitum eða við sumarbústaði. En venjulega fara íslensku jarðarberin framhjá flestum, því hvergi er mikið um að þau þroski hér aldin svo að áberandi sé. Þau treysta meira á að dreifa sér út með jarðrenglum en að stóla á að fuglar sjái um útbreiðsluna. Enda hefur sumraveðurfarið á Íslandi sjaldan verið hagstætt jarðarberjaplöntun- um að þroska aldin sín. Samt er það greinilegt merki um að sum- arveðráttan á Íslandi fer batnandi að á síðari árum hefur mér fundist æ meira bera á því að villt jarðarber megi tína á stöðum þar sem aðeins var að finna eitt og eitt ber á strjál- ingi fyrir þrjátíu til fjörutíu árum. Eiginlega eru jarðarber ekki ber í grasafræðilegum skilningi, heldur skynaldin eða samaldin. Þ.e. að eftir frjóvgun blómanna þrútnar blóm- botninn út undir fræjunum, sem þá sitja utan á „berinu“. Þetta gera murur líka, þótt ekki séu fræ þeirra jafn safarík og þær stóli meira á að mýs dreifi fræjunum en fuglar. En skyldleikinn milli ættkvísla jarðar- berja (Fragaria) og mura (Potentilla) er það náinn að tiltölulega auðvelt er fyrir ræktunarfólk að búa til ætt- kvíslablendinga með því að flytja frjóduft á milli tegunda. Þannig hafa komið til jarðarberjasortir með bleikum blómum með því að æxla saman jarðarberjaplöntur og engjarós. Þær sortir eru samt fyrst og fremst ræktaðar fyrir skemmtunina, þótt þær gefi nokkra uppskeru af bragðgóðum berjum, er hún svo lítil að stórræktun skilar naumum arði. Til ættkvíslar jarðarberja eru taldar tuttugu til fimmtíu tegundir, eftir því hverjir skilgreina, dreifðar um allan heim. Í Evrópu höfum við okkar íslenska skógarjarðarber, en þar vaxa líka aðrar tegundir sem eru áþekkar því. Frá Norður-Am- eríku komu virginíujarðarberið og moskusjarðarberið. Þær tegundir urðu til þess að menn fóru að rækta jarðarber í görðum á fyrri helmingi sautjándu aldar. Berin voru mun stærri og matarmeiri en þær tegundir sem fyrir voru. En svo gerðist það árið 1714 að fransmaður nokkur og suðurame- ríkufari, Frezier að nafni, sneri til heimalands síns með fimm plöntur af jarðarberjategund sem frumbyggj- ar í Síle höfðu ræktað um aldaraðir. Berin af þessum plöntum voru að sögn á stærð við hænuegg. Og þess- um fimm plöntum úthlutaði hann til yfirboðara sinna. Smám saman dreifðust þessar „súperplöntur“ víða um en ullu alls staðar nokkrum von- brigðum. Því að þrátt fyrir góða um- önnun og mikla fyrirhöfn, gerðu þær ekkert annað en að vaxa myndarlega og skríða út um allt með renglunum, en aldrei skiluðu blómin aldinum. En Frezier gafst ekki upp á þessum óskabörnum sínum. Því tók hann þær með sér þegar hann fluttist til bæjarins Brest í Norðmandí og hafði þar yfir garði að ráða. Í þessum garði uxu líka aðrar jarðarberjategundir, meðal annars virginíujarðarber- ið norðurameríska. Og nú fór að draga til tíðinda. Síleönsku súper- plönturnar byrjuðu að bera ber. Á daginn kom að plöntuklónninn sem Frezier hafði tekið heim með sér var kvenkynsklónn sem ekki gat frjóvgast upp á eigin spýtur. Og í þessu tilviki dugði önnur, en náskyld tegund til, þ.e. virginíujarðarberið. Þetta var upphafið á þeim rækt- uðu jarðarberjum sem við þekkjum best í dag. Því þegar fræjum þessarar fyrstu blendinga var sáð, kom fram mikill fjölbreytileiki hjá afkom- endunum. Síðan hefur verið unnið linnulaust að kynbótum garðajarðar- berja. Á hverju ári koma fram nýjar sortir, sem ýmist leysa hinar eldri af hólmi – eða hverfa í gleymsku og dá þegar í ljós kemur að þær standa ekki undir væntingum. En þetta kynbótastarf hefur skilað miklum árangri og í umferð eru tugir sorta (yrkja) sem henta okkar norðlægu aðstæðum. En jarðarberjarækt á Ís- landi er samt á mörkunum á opnu landi. Plöntunum þarf ávallt að skýla eitthvað til að árangur og uppskera verði fullnægjandi. Best er hér að rækta jarðarber í skjólgóðum görðum. Helst í einföld- um sólreit þar sem hægt er að skýla þeim lauslega á veturna með grófu laufi, greinum eða heyrudda sem sett er yfir og í kring um pönturn- ar á haustin. Þessi skýling er fjar- lægð á vorin. Best er að breiða yfir plönturnar á sumrin þegar kuldi og veðurhryssingur er í lofti. Þó þurfa þær að vera undir berum himni um blómgunartímann til að flugur kom- ist að til að frjóvga blómin. Skjólnet eða þunn plastfólía er nægjanlegt skjól til að halda uppi hitanum með- an berin þroskast. Venjuleg, frjó og hlý, jafnrök garðmold hentar jarðarberjum vel. Bæta má moldina með sveppamassa eða gömlum búfjáráburði eins og hrossa- eða sauðataði sem stungið er niður á milli plantnanna á vorin. Það borgar sig að gefa jarðarberja- plöntunum gott pláss þegar gróður- sett er á nýjan stað. Hæfilegt millibil er 60×60cm og síðan er renglunum sem plönturnar mynda haldið innan þess reits. Það nægir að láta tvo til fjóra „afleggjara“ rótfesta sig í reitn- um til að auka við plöntuna. Hinum er hent eða þeir notaðir í að gera nýj- ar plöntur til flutnings. Eftir þrjú til fjögur sumur fer að draga úr hreysti plantnanna og þær hætta að bera ávöxt. Þetta er vegna þess að kring- um jarðarberjaplöntur kemur upp svokölluð jarðvegsþreyta sem dregur úr vexti plantnanna. Þá þarf að byrja á nýjum stað með nýjar plöntur sem ýmist eru keyptar að eða að notaðar eru græðlingsplöntur frá fyrra sumri. Hér á landi eru jarðarberjaplöntur gróðursettar á vorin og þeim lofað að koma sér fyrir án þess að bera aldin fyrsta sumarið. Í nágranna- löndunum er reglan að gróðursetja í ný jarðarberjabeð í ágúst. En það er ógerlegt hér á landi því haustið er ekki nægilega langt og hlýtt til að plönturnar nái almennilega að spjara sig um veturinn. Í garðplöntusölunum er boðið upp á töluvert úrval jarðarberja- yrkja. Flest þeirra eru influtt sem smáplöntur og vel merkt með yrk- isheiti. Reynsla af þessum yrkjum er mismunandi og árangur getur dálítið oltið á aðstæðum í hverjum garði. Sjálfum hefur mér enn sem komið er best reynst sortin 'Zefyr‘ (stundum skrifað 'Zephyr‘) sem er harðgert, danskt yrki með stórum en nokkuð óreglulega löguðum berjum. Grænt er vænt Hafsteinn Hafliðason. Fullt af nýju efni! Skólavefurinn.is LUNDINN & HVA LURINN Skólavefurinn.is Bættu námsáran gurinn! Mynd: Jarðarber-Zefyr-ágúst-2014-HH

x

Selfoss

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Selfoss
https://timarit.is/publication/988

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.