Hafnarfjörður - Garðabær - 10.01.2014, Blaðsíða 14

Hafnarfjörður - Garðabær - 10.01.2014, Blaðsíða 14
14 10. janúar 2013 Hvernig verður árið 2014? Blaðamaður sest niður með Völvunni í eldhúsi á ónefndum stað í Norð- urbænum í Hafnarfirði. Hún rýnir í kristalskúlu sína (sem virðist samt sem áður vera heldur til skrauts finnst blaðamanni) og sýpur á kaffi. Hún bíður þess að síðustu droparnir klárist úr bollanum og snýr honum síðan á hvolf. Brúnir blettir vísa veginn inn í komandi ár. „Árið gæti orðið mörgum erfitt,“ mælir Völvan þung á brún. „Það er næstum sama hvert er litið. Ég sé deilur, verkföll og mótmæli. Fólk á erfitt með að sætta sig við mikinn niðurskurð og engar launabætur. Það verður talað um Landspítalann. Fólk verður mjög tvístígandi og það gæti soðið upp úr þegar bið verður á ávísun- inni frá Framsóknarflokknum,“ segir Völvan og heldur áfram. „Ólga verður í Sjálfstæðisflokknum og menn munu áfram spyrja sig hvort stjórnarsam- starfið sé þess virði. En það gerist ekki fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar.“ Íslandsmet í auðum seðlum „Úrslitin í sveitarstjórnarkosningunum munu koma á óvart. Niðurstaðan hjá Framsóknarflokknum verður köflótt. Þeim mun ekki ganga illa úti á landi, en á höfuðborgarsvæðinu verður fylgið ekki mikið. Það verður hins vegar hrun hjá Sjálfstæðisflokknum heilt yfir. Í framhaldinu munu menn spyrja sig um stjórnarsamstarfið. Ég sé stjórnarslit, en ég sé ekki hvort það verður vegna sjálfstæðismannanna eða hvort and- staða fólksins verður ráðandi þáttur,“ segir Völvan. „Ég er samt ekki endilega að sjá hverjir ríða feitum hesti frá kosn- ingunum. Reykjavík er stórt spurninga- merki. Það á eftir að kvarnast úr fylgi Bjartrar framtíðar og Pírataflokkurinn mun vaxa mjög, en tölvupóstur, sem óvart er sendur á vitlausan stað, mun hafa slæm áhrif á gengi flokksins þegar upp er staðið. Það verður sett Íslands- met í auðum seðlum.“ - Hvað um Hafnarfjörðinn? „Ég sé ekki stórar breytingar, en það veltur þó á gengi Vinstri grænna. Annað hvort nær flokkurinn tveimur inn í bæjarstjórn eða engum. Gerist það síðara, er ljóst að meirihlutinn fellur og þá er tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurinn mun samt sem áður verða í hálfgerðum sárum í kosningunum, því innanflokksátök í tengslum við prófkjörið munu draga dilk á eftir sér. Óþekkt kona mun stíga fram á sjón- arsviðið í bæjarpólitíkinni og vinna hug og hjörtu bæjarbúa. Hafnfirðingar munu samt sem áður halda ró sinni enda ýmsu vanir. Í Garðabæ sýnist mér að allt verði eins og venjulega.“ Völvan hikar „… að mestu, athyglin verður á ríkisstjórninni.“ Makríllinn flytur úr landi „Verðbólgan kemur. Hún er búin að vera að bíða. En það eru líka jákvæð teikn á lofti. Það mun aukast ferða- mannastraumurinn. Skandinavar sem hafa lesið ókeypis Íslendingasögur á netinu munu flykkjast til landsins. Gjaldeyrinn mun samt að mestu leyti fara beint úr landi aftur. Makríllinn gefst upp á deilum við Evrópusam- bandið og syndir út úr lögsögunni. En hann verður áfram veiddur, með kvóta sem útgerðarmennirnir kaupa í Færeyjum. Pyngjurnar verða léttari hjá flestum. Visareikningurinn í febr- úar verður vondur. En verra verður þegar landsmenn þurfa að borga fyrir sumarfríið.“ Hekla vaknar úr dvala „Móðir náttúra verður í stóru hlut- verki,“ segir Völvan. „Hekla lætur á sér kræla og viðbrögð umheims- ins vera miklu meiri en áður vegna minninganna frá Eyjafjallajökli. Þetta verður enn til að auka á ferðamanna- strauminn hingað til lands en líklegt að nokkrir vinsælir ferðamannastaðir láti verulega á sjá. Bláa lónið tæmist óvænt vegna virkjanaframkvæmda á Reykjanesskaga. Það vekur líka athygli í útlöndum og dregur hingað forvitnar sálir. Jarðhræringar út af Skjálfanda verða til þess að mönnum verður ljóst að öll áform um byggingu álvers þar verða endanlega slegin út af borðinu.“ Ný stjarna stígur fram Völvan beinir sjónum annað. „Hingað til lands koma þó nokkrar stórstjörnur en ástarsamband einnar þeirra við íslenskan karlmann vekur athygli heimspressunnar. Davíð Oddsson hættir á Mogganum en skrifar ævisögu sína „Eftir sjálfan hann“. Hún verður mest selda bók Íslandssögunnar. Hér verður bollinn óljós, blettirnir renna saman, en ég sé áfram ólgu á Ríkis- útvarpinu og ljóst að þar eru ekki öll kurl komin til grafar, og Hannes Hólm- steinn Gissurarsson fær óvænta upp- hefð á nýjum vettvangi. En um stund gleymist allt þegar ný stjarna stígur fram á sjónarsviðið fyrir Íslands hönd í Eurovision eftir að hafa unnið hug og hjörtu landsmanna. Það verður þó ekki til að landa stóra sigrinum úti en niðurstöðurnar verða vel við unandi.“ Ekkert ár án útrásarvíkinga „En gamlar stjörnur fá líka óvænta athygli. Skattamál forsetafrúarinnar komast óvænt í hámæli í umræðum um niðurskurð og kjaraskerðingu al- mennings. Ekki er útséð hvernig þeim málum lyktar en frægt áramótaávarp forsetans verður rifjað upp, þegar hann talaði um að fólk sýndi því skilning ef hann sæti ekki út kjörtímabilið. Vinátta Dorritar og Yoko Ono kemst í hámæli í nóvembermánuði. Síðan sé ég útrásarvíkinga. Mér sýnist að málið snúist um gistingu hjá hinu opinbera.“ Óvæntustu tíðindi ársins Völvan okkar pírir augun ofan í boll- ann og heldur áfram. „Höfundur þjóð- hátíðarlagsins um verslunarmanna- helgi verður úr nokkuð óvæntri átt en lagið verður feykivinsælt og upp- selt verður á hátíðina. Veit ekki með veðrið samt,“ Völvan hikar um stund en heldur svo áfram. „Ný íslensk kvik- mynd sem frumsýnd verður á árinu slær aðsóknarmet og býðst leikstjóra hennar að taka þátt í fjölmörgum ver- kefnum erlendis í kjölfar þess, bæði í Hollywood en einkum þó í Skandin- avíu. Íþróttakonurnar íslensku, Aníta Hinriksdóttir hlaupari og Thelma Björg Björnsdóttir sundkona standa sig sérstaklega vel. Ég er ekki frá því að Íslandsmeistaratitill lendi í Hafnarfirði. En stærstu tíðindin á árinu verða af íslenska karlalandsliðinu í fótbolta.“ Blaðamaður sperrir eyrun. „Það kemur upp lyfjamál í röðum króatíska landsliðsins. Við það mun aftur vakna von um að liðið komist í lokakeppni heimsmeistarmótsins í Brasilíu. En hvort þeir fara alla leið … sé ég ekki í bollanum,“ segir Völva bæjarblaðsins Hafnarfjörður/ Garðabær og biður blaðamann fyrir góðum kveðjum til lesenda.

x

Hafnarfjörður - Garðabær

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hafnarfjörður - Garðabær
https://timarit.is/publication/1080

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.