Hafnarfjörður - Garðabær - 01.05.2014, Blaðsíða 4

Hafnarfjörður - Garðabær - 01.05.2014, Blaðsíða 4
4 1. maí 2014 Af hverju Björt framtíð? Ég er ósjaldan spurð að því hversvegna ég valdi það að fara út í pólitík, ég veit aldrei hverju ég á að svara nákvæmlega en yfirleitt er svarið á þá leið að mig langi til þess að taka þátt í að byggja upp samfélagið mitt. Það er einmitt raunin, mig langar að byggja upp bæjarfélagið okkar, vera virkur hluti af því. Sveitafélög eru ekkert ósvipuð og fyrirtæki, þetta er rekstur sem þarf utanumhald, þarna eru mörg hjól sem eru að vinna saman að einu markmiði, það er mikilvægt að hvert tannhjól haldi áfram að snúast svo kerfið allt gangi upp og reksturinn heldur áfram. Ég vil vera eitt af þessum hjólum. Ég hafði samt sem áður aldrei rétta grundvöllinn til þess, ég fann mig ekki hjá þeim stjórnmálaflokkum sem voru til staðar í Hafnarfirði. Þarna voru einfaldlega ekki valkostir sem ég heillaðist af. Þegar ég komst að því að Björt Framtíð væri að fara af stað í Firðinum fagra þá var ég ekki lengi að stökkva til og hoppa uppí þá lest. En hversvegna Björt Framtíð? Mig langaði ekki að vinna í neikvæðu umhverfi sem snérist um að benda á hvorn annan, endalaus loftbóluloforð sem allir vita að ekki er hægt að standa við. Mig langaði að vinna í flokki sem hefur báðar lappirnar á jörðinni, sem sér sig ekki knúinn til þess að vera á móti góðum verkefnum bara vegna þess að andstæðingurinn kom fram með hugmyndina. Mig langaði að vinna í björtu umhverfi sem saman stendur af vinum, góðum hópi sem er kominn til þess að bæta samfélagið sitt þvert á pólitíska flokka, öll hönd í hönd. En það er ekki nóg að vilja nýtt pólitískt afl í samfélagið okkar, hvað er það sem ég læt mig dreyma um? Mig langar að bæta samfélagið okkar með því að við bæjarbúar séum betur meðvitaðri og upplýstari um okkar nærumhverfi, að við veljum frekar að leita fyrst inní bæinn, til nágrannans eða innan samfélagsins áður en við förum annað. Ég vil að við stöndum öll jöfn, við séum ekki hópuð niður eftir ákveðnum fyrirfram mótuðum römmum heldur séum við öll metin sem einstaklingar, jafnir einstaklingar. Ég vil að börnin okkar geti vaxið úr grasi í fallegu umhverfi sem einkennist af öryggi, jafnrétti og birtu. Að Hafna- fjörður og Hafnfirðingar fái að vaxa og dafna í samheldni, vináttu og ná- ungakærleik. Ég vil Bjartari Framtíð í Hafnarfirði. Oddviti Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði: Leggst gegn loforðalistum fyrir kosningar Guðlaug Kristjánsdóttir er borin og barnfædd í Hafnarfirði. Hún er þekkt fyrir störf sín hjá BHM þar sem hún hefur gegnt formennsku um árabil, en hún er sjúkraþjálfari að mennt. Hún starfaði meðal annars með konum á meðgöngu og eftir fæðingu áður en hún helgaði sig störfum fyrir stéttarfé- lagið. Hún er fjölskyldukona og á þrjú börn með manni sínum, en er auk þess „tónelskur bókaormur með handavinnuáráttu,“ eins og hún lýsir sjálfri sér. Guðlaug segist lítinn bakgrunn hafa í pólitík, nema sem almennur kjósandi. Hún hafi ekki tekið þátt í pólitísku starfi fyrr en með tilkomu Bjartrar framtíðar, en hún sat á lista fyrir flokkinn í síðustu Alþingiskosningum. „Ég fann mig alls ekki í þessu hægri/vinstri landslagi og tengdi ekki við einn flokk fremur en annan. Hélt reyndar að mín pólitíska skoðun væri almennt ekki til,“ segir Guðlaug. Þetta skýrst ef til vill af því að lítil hefð sé fyrir „liberal“ flokkum hér á landi. Guðlaug segist alltaf hafa lesið mikið og hlustað á tónlist. Hún segir aðspurð um áhrifavalda eða fyrirmyndir að sterkir frumkvöðlar eða þjónandi leið- togar hafi haft áhrif á sig. Fólk sem einnig hafi húmor fyrir sjálfu sér og lífinu. „Ég held að ég halli ekki á neinn þó ég nefni Margréti Pálu Hjallahöfund sem einstakling sem hefur allt þetta til að bera.“ Auður í fjölbreytileika - Hvernig myndir þú lýsa grund- vallahugsjónum þínum? „Grundvallarafstaða mín til lífs- ins almennt er sú að það eigi að vera ánægjuleg reynsla, að okkur eigi að líða vel. Lífið er núna. Mér finnst að hver og einn eigi rétt á sinni skoðun og aðferð, svo framarlega sem það skaðar ekki aðra,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir. Fólk sé af ýmsu tagi og eigi að fá að vera það. „Enda er fjölbreytileiki auðlind sem við eigum að rækta. Góð samskipti og heilbrigð umræða eru síðan lykilat- riði í að allir geti lifað saman í sátt og samlyndi, hver með sínu nefi.“ Hrista upp í hlutunum Spurð um þrjú brýnustu málin fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar til skemmri og lengri tíma segist Guðlaug ekki vilja aðskilja markmið með þessum hætti. „Allt sem við gerum í dag hefur áhrif til framtíðar og því brýnt að horfa fram í tímann þegar ákvarðanir eru teknar,“ segir Guðlaug, og bætir því við að Björt framtíð vilji „hrista aðeins upp“ í bæjarpólitíkinni í Hafnarfirði. Það sé markmið til skemmri tíma. „Annars er grunnáhersla Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði á framtíðar- stefnu, sem við myndum vilja móta þvert á flokka og með greiðri aðkomu bæjarbúa. Hvernig bæ vilja Hafn- firðingar sjá til framtíðar? Fyrir hvað stendur bærinn okkar? Sátt um sam- eiginlega framtíðarsýn myndi styrkja mjög starf bæjarstjórnar að okkar mati. Við erum þar með gnótt af hug- myndum til að leggja í púkkið,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir. „Þeir“ eru „við“ Hún nefnir sérstaklega að opna þurfi betur aðgengi að upplýsingum úr rekstri bæjarins. Sýnileg stjórnsýsla veiti meiri skilning á ákvarðanatöku. „Hvað kostar t.d. skólaganga barnanna okkar? Í hvað fer útsvarið?“ spyr hún. Ekki eigi að hugsa um bæinn sem „þá“ segir Guðlaug og nefnir sem dæmi algenga hugsun, sem gæti falist í setn- ingu eins og „Þeir moka aldrei snjóinn“ og fleira í þeim dúr. „Bærinn er í raun „við“,“ segir Guðlaug og vísar til þeirra sem búa og starfa í bænum sem í sam- einingu fjármagni rekstur bæjarins. Engin loforð „Stjórn bæjarfélags eru örugglega engin töfrabrögð, byggð á kennisetn- ingum flokka, heldur mun frekar praktískur rekstur sem þarf að byggja á staðreyndum og málefnalegri rök- ræðu,“ segir Guðlaug og bætir við. „Meðal annars af þessum sökum hefur Björt framtíð frá upphafi lagst gegn loforðalistum fyrir kosningar. Við teljum mikilvægara að gera grein fyrir grundvallarafstöðu til málefna og þeim markmiðum sem við viljum vinna að.“ Slík áhersla sé bæði til lengri og skemmri tíma. Óhrædd að spyrja „Við erum nýtt framboð og því eðli málsins samkvæmt nýgræðingar í bæj- arstjórnarmálum, þótt við búum yfir umfangsmikilli reynslu úr fjölbreyttum áttum. Það veitir okkur ákveðinn styrk, því við höfum frelsi til að þurfa ekki að þykjast hafa öll svör á reiðum höndum en getum þess í stað verið óhrædd við að spyrja spurninga. Pólitíkin þarf að mínu mati á slíkri nálgun að halda, að færri þykist vita allt og fleiri þori að spyrja. Það hafa allir gott af því.“ Tekjuöflun og dreifing Að svo komnu máli nefnir Guðlaug raunar nokkur úrlausnarefni. Augljóst verkefni í bráð sé fjárhagsstaða bæj- arins. Þar þurfi að horfa bæði á tekju- öflun og dreifingu útgjalda. Einnig séu húsnæðismálin stórmál. „Svo eru menntamál og skipulag skólamála mikið áhugamál okkar líkt og margra annarra í þjóðfélaginu. Útlit bæjarins og hönnun skipulags eru annað hjart- ans mál, langtímaskipulag og heildar- mynd Hafnarfjarðar.“ Guðlaug segist vera bjartsýn í eðli sínu, aðspurð um gengi Bjartrar fram- tíðar í kosningunum í vor. Hún hafi trú á „því öfluga fólki sem gefur kost á sér fyrir hönd Bjartrar framtíðar.“ Kraftur og gleði sé í hópnum „og ein- lægur vilji til að bjóða fram krafta í þjónustu bæjarbúa.“ Þingmennirnir hafa áhrif Hún segir jafnframt að framganga fulltrúa flokksins á Alþingi skipti máli. „Ef ég ber saman aðstöðuna nú í sveitarstjórnarframboðinu við þingframboðið í fyrra, þá erum við t.d. alveg laus við spurninguna um hvort framboðið sé grínframboð,“ segir Guðlaug. Hún bætir því við að auðveldara sé að koma því á framfæri að megináhersla Bjartrar framtíðar sé á breytt vinnubrögð. Þau þurfi að sýna í verki, „og það hafa þingmennirnir okkar sannarlega gert með framgöngu sinni. Enda hefur fylgi við Bjarta fram- tíð aukist jafnt og þétt frá því að þing kom saman.“ Guðlaug Kristjánsdóttir segist ekki hafa farið í framboð gagngert til að verða bæjarstjóri. „En ég gæti þó alveg hugsað mér að ganga í það verk ef það getur orðið til þess að hreyfa málin í þá átt sem framboð Bjartrar framtíðar vill að þau fari.“ Jákvæð samræða - Myndir þú starfa í meirihluta með hverjum sem er eftir kosningar? „Við erum almennt fráhverf hugsun- inni um andstæð hlutverk af tegund- inni stjórn-stjórnarandstaða eða meirihluti-minnihluti. Okkar nálgun er að allir kjósendur eigi rétt á virkri talsmennsku í stjórn bæjarins. Það er vel hægt að starfa þvert á alla flokka, slíkt byggir á því að hver og einn þekki sína stefnu og afstöðu og geti á grunni hennar nálgast góð mál jákvætt sama hvaðan þau koma. Það þarf alls ekki að trufla okkur að gott mál komi að frumkvæði annarra. Við munum styðja málefni frekar en flokka í bæjarstjórn og hvetja til opinnar og jákvæðrar sam- ræðu til að stuðla að skilvirkum árangri í málefnum bæjarins.“ Höfundur er Karólína Helga Símonardóttir, Frambjóðandi í 9. sæti á lista Bjartar framtíðar í Hafnarfirði SveitarStjórnakoSningar 2014 „Það er vel hægt að starfa þvert á alla flokka, slíkt byggir á því að hver og einn þekki sína stefnu og afstöðu og geti á grunni hennar nálgast góð mál jákvætt sama hvaðan þau koma,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir. Guðlaug Kristjánsdóttir í faðmi fjölskyldunnar.

x

Hafnarfjörður - Garðabær

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hafnarfjörður - Garðabær
https://timarit.is/publication/1080

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.