Stígandi - 01.10.1944, Blaðsíða 37
STÍGANDI FJÖL ÚR AUÐUNARSTOFU 275
stokka, hvar af hann lét smíða timburstofuna á Hólum." „Lét
hann gjöra steinofn í timburstofuna, sem gjört er í Noregi og
bera út reykinn, þó að liann sæti sjálfur inni." Árni Magnússon
lýsti Auðunarstofu á þessa leið á árunum 1720—25: „Timbur-
stofuna á Hólum segja menn Auðunn biskup rauði hafi látið
liöggva í Noregi og út flytja á Eyrum og þaðan norður og hafi
viðirnir um veturinn legið við Grettisskála á miðjum Kjöl. Hún
er af heildigrum stokkum saman sett." Þó að þessar lýsingar
greini á um útkomustað timburstokkanna, bera þær báðar
glöggt vitni þess, að Auðunarstofa hefir verið stokkahús í norsk-
um stíl, gerð úr láréttum bjálkum. Þetta kemur einnig skýrt
fram í prýðisgóðri úttekt frá 1685: „Hún er með tveimur greni-
bitum og þriðja járnbita gömlum, sperrum, skammbitum átta
með súð og bjálka, veggjum umhverfis á allar síður eftir norskri
byggingu; Iangbekkir og krókbekkir að sunnan fóðraðir, 4 rúm
og fyrir biskupssæng tvennar skarir fóðraðar og fyrir miðsæng-
inni við gaflinn tvísett skör, ein við þá þriðju, þar með bekkjar-
fjöl, bakdyr og framdyr með hurð á járnum, skrá og hespa fyrir
framdyrum, og með 2 glergluggum."
Sést af þessari lýsingu, hversu vandað hús Auðunarstofa hefir
verið, enda var hún stundum notuð sem kirkja, þegar mikið lá
við, t. d. á árunum 1759—63, meðan dómkirkja sú, er enn stend-
ur, var í smíðum. Um þetta segir í Ævisögu Jóns Þorkelssonar:
„Meðan þessi nýja kirkja var í byggingu, þá var embættisgerð
framin í hinni fornu timburstofu niður í staðnum, hver nú er
það elzta hús á íslandi og staðið hefir að allri umgrindinni í
ferskeyttu formi síðan 1317 með timburbjálkum bakflettum og
höggnum saman á hornunum allt um kring, hingað fluttir af
norskum grenivið, hverjar menjar hér sjást víða í gömlum kirkj-
um og bænhúsum, ótrúlega harður og varanlegur. Hingað var
nú flutt altarið og prédikunarstóllinn, þegar kirkjan sjálf var
rofin." Þessar lýsingar gefa svo góða hugmynd um Auðunarstofu,
að ekki er unnt við að bæta, og hin síðasta sýnir einnig og sannar,
að stofan hefir verið stæðilegt og gott hús fram á seinni hluta
18. aldar, er hún var notuð sem kirkja árum saman.
En árið 1801 var Hólastóll niður lagður og eignir hans seldar.
Hófst þá brátt mikil eyðing á húsum staðarins, því að venjulegur
ábúandi, bóndi eða prestur, hafði vitanlega ekki not fyrir allan
húsakost biskups, en hins vegar voru sum húsin viðamikil og
hægðarleikur að koma þeim í verð með niðurrifi.
18*