Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 03.07.2008, Blaðsíða 3

Fréttir - Eyjafréttir - 03.07.2008, Blaðsíða 3
I sambýli viö Landeyjasand í 40 ór Maðurinn, sem hefur unnið við vatnsveituna í Landeyjum allt frá upphafi og fram til þessa dags, 40 ár, heitir Gunnar Marmundsson. Hann er vélvirkjameistari og býr á Hvolsvelli en er ættaður frá Svanavatni í Austur- Landeyjum. Eiginkonan, Guðrún Óskarsdóttir, er úr Vestur-Landeyjum þannig að þau hafa ekki valið sér búsetu fjarri heimaslóðunum. Gunnar er vörpulegur maður, fer ekki milli mála að hann er með krafta í kögglum enda hefur stundum reynt á það á þessum 40 árum sem hann hefur þjónað vatnsbúskap Vestmannaeyinga. TÚLKAÐI ENSKU YFIR Á DÖNSKU Gunnar vann hjá vélsmiðjunni á Hvolsvelli þegar vatnsveitulögnin stóð sem hæst, á árunum 1966 til 1968. „Við sáum um ýmsa þjónustu fyrir Hávarð Sigurðsson (Væja) og þá sem stóðu í þessum framkvæmdum," segir Gunnar. „Ég var yfirleitt í þeim verkefnum sem unnin voru utanhúss og því kom ég nokkuð að þessari lögn ef eitthvað þurfti að aðstoða við hana. En segja má að ég hafi komið af alvöru inn í þetta þegar ég var fenginn til að gangsetja rafstöðina fyrir dæluhúsið. Væi var meira og minna viðloðandi þetta fyrstu tvö árin eftir að leiðslan var komin í gagnið. En svo þurfti hann auðvitað að fara til Eyja og þá ein- hvern veginn þróaðist þetta þannig að ég tók við. Ég man t.d. eftir því þegar Væi fór til Eyja fyrir jólin 1969 eða 1970. Þá bilaði vatns- leiðslan á Markarfljótsbrúnni á Þorláksmessu og ég var megnið af jólunum að koma því aftur í lag. Náði aðfangadagskvöldinu heima en allur jóladagurinn fór í viðgerðir." Gunnar var fastráðinn starfsmaður Vatnsveitunnar 1. ágúst 1977. „Ég hafði reynd- ar verið í þessu sem aðalstarfi íátta áren þarna var gengið frá fastráðningu," segir Gunnar. „Þetta er orðið mun þægilegra en það var áður fyrr. Nú er allt orðið tölvuvætt og sjálfvirkt. Reyndar átti þetta í upphafi að vera fjarstýrt frá Vestmannaeyjum en það kerfi virkaði aldrei sem skyldi. Ég man eftir því þegar við vorum að vinna við uppsetningu á dælukerfi á fyrstu árunum. Þá voru tveir Bretar með mér og verkinu var stjórnað úr Vestmannaeyjum með sambandi gegnum loftskeytastöðina. Þá var þar á vakt Dani sem skildi ekki ensku og auð- vitað skildu Bretarnir ekki dönskuna hans. Samskiptin fóru því þannig fram að ég var notaður sem túlkur, þýddi af ensku á dönsku og svo öfugt og kunni lítið sem ekkert í þessum tveimur málum. En allt bjargaðist þetta," segir Gunnar og brosir þegar hann rifjar þetta upp. SEXTÍU TÍMATÖRN Hann segir líka að það hafi verið mikil bót þegar farsíminn kom til sögunnar. „Lengi vel var heldur ekkert símasamband í Land- eyjunum og ef maður þurfti að hringja til Eyja, varð að fara upp á Hvolsvöll til þess. Ég man t.d. í gosinu þegar ég var í dælustöðinni og horfði á hamfarirnar hinum megin við sundið. Þá varð maður að keyra upp á Hvolsvöll til að ná sambandi við Eyjar og þær voru margar ferðirnar sem þá voru farnar til að komast í símasamband." Starf Gunnars felst í því að hafa eftirlit með dæluhúsinu og lögninni, sjá um viðhald og viðgerðir þegar þarf. Hann segir að starfið geti verið hálfeinmanalegt stundum. „Maður er alltaf einn. Ef eitthvað bilar getur maður ekki spurt neinn, heldur verður að leysa það sjálfur. En ef bilun verður á leiðslunni þá þarf ég að fá gröfumann til að moka ofan af leiðslunni. Rörin eru komin til ára sinna og ekki óeðlilegt að þau láti undan. Aðallega eru það sam- setningarnar sem gefa sig. Og það er misjafnt hve alvarlegt það er. Stundum lítið og stund- um meira." Versta törnin segir Gunnar að hafi verið í febrúar 1988. „Þá fór leiðslan í sundur í Álunum og það var mjög erfitt að eiga við þá bilun, undir ís og snjó og krapi. Þá varð ég að fá fleiri í lið með mér og við fengum haugsugu til að halda vatnselgnum frá. Sú viðgerð tók 60 klukkustundir og maður var orðinn ansi þreyttur þegar henni lauk. Sighvatur Arnars- son var þá bæjartæknifræðingur í Eyjum. Hann var með okkur í þessu brasi og ég held að honum hafi ekki litist á blikuna þegar við vorum að keyra upp á Hvolsvöll að verki loknu. Ég sofnaði fjórum sinnum undir stýri á leiðinni. En fáum dögum seinna fékk ég sendan pakka frá Sighvati og í honum var fyrsti farsíminn sem ég eignaðist. Það tæki er búið að spara manni mörg sporin. Og Sighvatur sýndi einn- ig að hann var þakklátur þeim sem tóku þátt í þessu með okkur. Þeir fengu allir koníaks- flöskur sem ég sá um að útdeila. Þetta var mjög myndarlegt af honum." Annað skipti, sem Gunnar man vel eftir, var nokkrum árum fýrr. Þá fóru plaströr í sundur við Eyvindarholtsána, áin nuddaði plastið í sundur. Sú viðgerð tók 40 klukkutíma við slæmar aðstæður. „Þetta var á miðri vetrar- vertíð. Páll Zóphóníasson var þá bæjarstjóri og ég hringdi í hann og spurði hvort mikið lægi á að klára verkið. Og Páll var ekkert að skafa utan af því. -Við töpum milljónum á hverri klukkustund sem það dregst, sagði hann. Og þar með héldum við áfram og kláruðum verkið." Gunnar segist ekki finna fyrir stressi í starfi sínu. Stundum hafi þó komið upp atvik sem hafi valdið meiri spenningi en endranær. „Ég var hálfsmeykur einu sinni um það hvort önnur sjóleiðslan, sú sem lögð var 1971, myndi þola þrýstinginn. Hún er veikari en sú eldri og það var ekki laust við hjartslátt þegar trukkið var sett á. Það hefði ekki verið skemmtilegt að missa hana út vegna of mikils þrýstings. En hún stóðstálagið, sem beturfer." SAMFELLD VAKT, ALLAN SÓLARHRINGINN, ALLT ÁRIÐ Starf Gunnars er í raun ein samfelld vakt, allan sólarhringinn, allt árið. Hann segir að álagið sé þó misjafnt eftir árstímum. „Mest er það á loðnuvertíðinni, þá er ég nær samfellt niðri í dæluhúsi. Rétt skrepp heim til að sofa og stundum halla ég mér bara þar niður frá," segir hann. Þrjár dælur eru í dæluhúsinu og oftast nægir að keyra tvær þeirra, ein er höfð til vara. En á loðnuvertíðinni verðurað keyra allar þrjár og hafa þær þó ekki við þegar álagið er mest. En yfir sumartímann er öllu rólegra. Þá getum við farið í frí og t.d. erum við nýkomin úr hálfs mánaðar ferð til Kaliforníu. Reyndar var nú hringt í mig tvisvar meðan ég var úti en það var minni háttar mál sem hægt var að leysa án þess að ég væri til staðar. Fyrir nokkrum árum var hringt í mig þegar ég var í fríi. Það var Friðrik Friðriksson, sem þá var veitustjóri í Eyjum. Þá hafði komið upp eitthvert vanda- mál og hann spurði mig hvort ég gæti ekki skroppið niður eftir. Ég sagði honum að það gæti verið erfitt, ég væri staddur norður á Akureyri og það væru 600 kílómetrar að fara. Það mál bjargaðist með því að ég hringdi í stelpurnar mínar sem voru heima. Þær fóru niður eftir, önnur var í símanum í sambandi við mig og hin á takkaborðinu. Þannig tókst að bjarga því. En maður er ekki alltaf bundinn, þetta er að mörgu leyti frjálst. Þó getur komið fyrir að maður verður að breyta áætlun, er kannski á leið til Reykjavíkur og kominn á Selfoss þegar koma boð, og maður verður að snúa við." Gunnar segir að bylting hafi orðið í þessu eftir að kerfið var tölvuvætt árið 1997. Nú er þetta meira og minna fjarstýrt og þarf ekki að sitja yfir því eins og áður. Ég er líka með tölvu heima hjá mér þar sem ég get séð ef eitthvað fer úrskeiðis og hversu alvarlegt það er. Áður fyrr varð maður að rjúka niður eftir ef eitthvað kom upp á en núna er hægt að vega það og meta hvort liggur á því eða ekki." Einu sinni í mánuði fer Gunnar upp að lind- inni til að mæla hitastig vatnsins og athuga hvort allt sé í lagi þar efra. Oftast er hægt að komast það á bíl en yfir veturinn er oft ófært þangað vegna snjóa og þá er bara að ganga. be„.................: JN Gunnar Marmundsson - cfeitthvað biiar, í Jj þágetur maður ekki spurt neinn, heldur verður að jS leysa það sjálfur. v- .. . Hundurinn í Syðstu-Mörk röltir oft með mér upp eftir. Ef eitthvað kemur upp á, þá getur maður ekki spurt neinn ráða. Maður spjallar við bílinn og hundinn og spyr þá hvað gera skuli. Oftast nær er fátt um svör frá þeim og maður verður að ráða sjálfur fram úr hlut- unum. SANDFOKIÐ VERÐUR AÐ HEFTA Gunnar segir líka að Landeyjasandur geti verið heldur kaldranalegur vinnustaður. „Myrkrið getur orðið ógurlega svart þar. Ég hef samt aldrei fundið til myrkfælni. Stundum er erfitt að komast um sandinn, sérstaklega að vetrar- lagi þegar allt er á kafi í bleytu eða þegar snjór liggur yfir. Veðrið getur orðið kolbrjálað á sandinum. Stundum var sandfokið slíkt að maður sá ekki einu sinni hvort það voru Ijós á bílnum eða ekki. Núna er ég með GPS-tæki sem ég get keyrt eftir við slíkar aðstæður. En áður fyrr varð að nota aðrar aðferðir. T.d. notaði ég mér að keyra undir raflínunni niður eftir meðan þangað lá loftlína. Var með útvarpið á og gat heyrt á brakinu í því hvort ég var undir línunni. Það var mikil breyting að fá GPS-tækið og eins er alger nauðsyn að vera með góðan bíl í þessu starfi." Hvernig skyldi honum lítast á fýrirhugaða hafnargerð í næsta nágrenni við sig? „Ég hef ekki vit eða kunnáttu til að segja til um hafnargerð. Ef þetta er mögulegt þá verður það til mikilla bóta. Það er annað sem ég held að geti orðið til vandræða, sandfokið. Það verður að hefta, annars verður þetta aldrei af neinu viti. Ég hefði viljað sjá að fram- kvæmdir við það væru komnar af stað, það tekur langan tíma að græða upp sandinn, ég þekki hann orðið nokkuð vel eftir 40 ára sam- býli." VÆRI EKKI í ÞESSU, HEFÐI MÉR EKKI LÍKAÐ ÞAÐ Gunnar verður 63 ára í haust og segist ekki vera með það í huga að fara að leita að öðru starfi. „Ég væri varla búinn að vera í þessu í 40 ár ef mér hefði ekki líkað það. Einhverjir voru nú að tala um að það yrði að flytja dælustöð- ina upp af sandinum þegar ég hætti störfum, það væri enginn svo vitlaus að láta hafa sig í þetta starf," segir Gunnar og brosir við. „Þegar leiðslan var lögð, voru sumir sem vildu ekki hafa dælustöðina á sandinum, töldu betra að hafa hana ofar. Það var kostnaðarhliðin sem réði því að húsið var reist þarna. Neðansjávar- leiðslan var svo margfalt dýrari en asbeströrin að menn sáu á þeim tíma verulegan sparnað í því að fara þessa leið, vildu hafa neðansjávar- leiðsluna eins stutta og mögulegt væri. Sennilega hefði hitt þó verið ódýrara til langs tíma litið. Hitt er svo annað mál að aðstæður manna hafa breyst og nú til dags gera menn meiri kröfur en áður. Ég býst ekki við að nokkur maður fengist til þess í dag að taka að sér þetta starf við þær aðstæður sem voru hér, árið 1968. Maður lét sig hafa það þá en ég veit ekki hvort ég myndi treysta mér í það núna," segir Gunnar Marmundsson.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.