Hrund - 01.05.1967, Blaðsíða 29

Hrund - 01.05.1967, Blaðsíða 29
Nœringarþörf ogfœðuval Vigdís Jónsdóttir, skólastjóri, skrifar fyrir HRUND argir virðast hafa fremur óljósar hugmyndir um það hvernig setja skuli saman fæði, svo að það teljist gott. Er það að vonum, með því að matreiðsla var í vitund manna einskonar annarsflokks verkefni, sem skynsamt fólk lét sig litlu varða. Aukin þekking í næringarefnafræði hefir breytt þessu viðhorfi. Mörg þau verk, sem hversdagsleg þóttu, hafa svo afdrifa- ríkar afleiðingar, að ekki verður um bætt, ef illa tekst til. Þörfin fyrir hin einstöku næringarefni er hvorki háð smekk né dutlungum. Þar gildir strangt lögmál um kröfur lífveranna. Ef eitthvert hinna nauðsynlegu efna vantar, nægir það til að hefta þroskann og ekki stoðar þótt gnægð sé af öllu öðru. Góðar matarvenjur, byggðar á þekkingu á þörfum mannsins, jafnt næringarfræðilegum sem félagslegum, efla flestu öðru fremur heilbrigðan þroska og fram- farir á vaxtarskeiðinu og tefja fyrir hrörnun og afturför, eftir að einstaklingurinn hefir náð þeim þroska, sem erfðaeiginleikar hans standa til. Ollum ætti því að vera hugleikið að leggja rækt við þennan mikilvægasta þátt allra heilsuverndjrráðstafana. Oftast kemur það í hlut húsmæðranna að velja fæði handa sér og sínum. Þarf bæði kunnáttu og fyrir- hyggju til þess að leysa það verk vel af hendi. Að dómi margra heilsufræðinga þarf hver máltíð að vera svo vel samsett, að í henni séu öll þau efni, sem talin eru nauðsynleg til heilbrigðra þrifa. Auk brennanlegu næringarefnanna, þ.e. kolvetna og fitu, þurfum við daglega að fá í fæðinu um fjörutíu efni, til þess að halda fullri heilsu. Eru þar til nefndar tíu lífsnauðsynlegar amínósýrur, sem fást úr hvítu- ríkum fæðutegundum, um það bil tuttugu mis- munandi vítamín og tíu tegundir steinefna eða salta; af þeim eru kalk, fosfór og járn þekktust. Mörgum kann nú að virðast sem örðugt muni að átta sig á því, hvernig setja megi saman fæði, þar sem séð sé fyrir því, að ekkert vanti og nægilegt fáist af öllum þessum efnum. En sem betur fer er það hægt, með því að fylgja einföldum grundvallarreglum. í næstum öllum óunnum fæðutegundúm úr jurta- og dýraríkinu, svo sem fiski, kjöti, innmat, eggjum, mjólk, ávöxtum og grænmeti eru þessi lífsnauð- synlegu efni í breytilegum hlutföllum, því að bæði jurtir, dýr og menn þurfa þau til að vaxa og þrífast. Jurtirnar mynda lífrænu efnasamböndin, svo sem sykur, hvítu og vítamín og allar ófrumbjarga lífverur eru þeim háðar um sína fæðuöflun, þær sem ekki eru búnar þeim hæfileika að geta breytt ólífrænum efna- samböndum í lífræn. Þótt maðurinn hafi verið nefndur æðsta skepna jarðarinnar, er hæfni hans til að breyta einu efnasambandi fæðunnar í annað í meltingunni, minni en flestra annarra skepna. Hann þarf að fá efnin tilreidd og aðgengileg, ef þau eiga að nýtast, t.d., verða í fæðinu að fást tíu af þeim rúmlega tuttugu amínósýrum, sem hvíta líkamans er byggð úr-og hann á það sameiginlegt með aðeins tveimur öðrum skepnum að þurfa fullmyndaða ascorbinsýru eða C-vítamín í fæðinu. En maðurinn hefir margfalda getu og tækifæri umfram aðrar lífverur til að afla sér fjölbreyttrar fæðu. Algengt er að rekast á fólk, sem hyggst tryggja sér fullnægjandi fæði með því að neyta í ríkum mæli einhverrar einnar fæðutegundar, sem sögð er holl og láta svo ráðast, hvað þar er umfram. Slíkt leiðir oftast á villigötur, því að hættan á skorti vissra efna er alltaf yfirvofandi, ef fæðið er einhæft. Athygli margra vísindamanna beinist nú að jafnvægishlutföllum efnanna í fæðinu, en hætt er við að þau raskist við ofneyzlu einhæfra fæðutegunda og þá meðalanotkun, sem margir temja sér. Gott fæði er fjölbreytt; í því þurfa að vera nokkrar fæðutegundir úr jurta- og dýraríkinu. Ur algengum óbreyttum og auðfengnum fæðutegundum má setja saman fullkomið fæði, ef meðhöndlun þeirra er svo góð, að næringarefni þeirra nýtast en spillast ekki í vinnslu og matreiðslu. Til þess að fá einfalt yfirlit um gildi fæðutegunda, er þeim oft skipað í sex flokka og er mönnum ráðlagt að velja daglega nokkurn hluta fæðisins úr hverjum þeirra Þessir flokkar eru: 1. grænmeti og rætur. 2. ávextir og ber. 3. mjólk, ostur og skyr. 4. kornvörur, brauð og belgjurtir, 5. smjör, smjörlíki, lýsi og jurtaolíur, 6. kjöt, fiskur, egg og innmatur. Lítum á fyrsta flokkinn, blaðgrænmeti, kál, kartöflur og rætur. Aðeins ein jurt úr þessum flokki hefir náð öruggu sæti í fæði okkar — kartaflan. Því þarf að auka neyzlu fæðutegunda úr þessum flokki; nota daglega hrá salöt úr rófum, gulrótum eða káli; búa til súpur úr grænmeti og nota, svo sem við verður komið, nýtt grænmeti, ekki þurrkað eða niðursoðið. Ættu allir, sem hafa ráð á garðbletti að rækta þar nokkrar auðræktaðar matjurtir, svo sem salat, steinselju, graslauk, dill og grænkál. Þessi flokkur matvæla gefur C- vítamín og B- vítamín, auk þess fæst karótín úr gulrótum og grænum blöðum. Þá eru í grænmeti steinefni í aðgengilegu formi. Allar eru fæðutegund- irnar í þessum flokki tiltölulega orkusnauðar, gefa saðningu án þess að vera fitandi og hafa örvandi áhrif á meltinguna. Hrátt grænmeti stælir og hreinsar tennurnar og ætti að vera þáttur í fæðinu allan ársins hring. í öðrum flokknum eru ávextir og ber. Margir veigra sér við að kaupa ávexti að nokkru ráði, telja þá of dýra til þess að falla inn í daglega neyzlu. En ef þeir geta tekið sæti annarra óheppilegra fæðu- tegunda, að einhverju leyti, er ávinningur að skipt- unum. Epli- en ekki súkkulaðikex, appelsína- en ekki vínarbrauð, melóna, í staðinn fyrir sætan og feitan rjómabúðing, svo að dæmi séu tekin. Ávextir þurfa að verða þáttur í daglegu fæði, einkum ætti að neyta þeirra í ríkum mæli á útmánuðum, þegar litið er um C- vítamín í öðrum fæðutegundum, velja þá helzt appelsínur, sítrónur og aðra þá ávexti, sem mikið er í af vítamínum. Á berjatímanum er um að gera að nota öll þau ber, sem hægt er að afla á meðan þau eru ný. Mikið af vítamínum berjanna eyðist með þeim ófullkomnu geymsluaðferðum, sem fólk ræður yfir í heimahúsum. Er því hyggilegt að nota þau á meðan þau eru í fullu gildi. Svo er einnig um ávexti, bezt er að kaupa á hverjum árstíma þá ávexti, sem fást nýir, en sneiða heldur hjá sætum niðursoðnum ávöxtum, ávaxt- amauki og saft. Ávextir eru góður eftirmatur, bæði fyrir tennur og meltingu. Þriðji flokkurinn, mjólk, ostur og skyr er sennilega á borðum flestra alla daga og er ríkur þáttur í fæðinu. Úr mjólkurmatnum fæst fullgild hvíta, kalk og B- vítamín, auk þess svolítið af fitufylgjandi vítamín- unum A og D og lítið eitt af C- vítamíni. Öll eru þessi efni mikilvæg fyrir vöxt og viðhald líkamans. En svo góð og nauðsynleg, sem mjólkurneyzla er, má hún þó ekki verða að ofneyzlu á kostnað annarra hollra fæðutegunda. Einhliða fæðúval er óheppilegt, jafnvel þótt valin sé holl fæðutegund. Talið er fullnægjandi, að skólabörn fái 3/4 - 1 lítra af nýmjólk og súrmjólk á dag. Mikil mjólkurdrykkja er naumast talin holl eða eðlileg fullorðnu fólki. Ostur, skyr, súrmjólk og mysa á betur við það. í mögrum osti er jafn mikið af kalki, hvítu og B- vítamíni og í feitum, en hann gefur færri hitaeiningar og er ódýrari. í fjórða flokknum er brauð, kornvörur og baunir. Úr þessum flokki fást einkum B- vítamín, járn og nokkuð af hvítu; auk þess mikið af orkuríkum kolvetnum, sem gefa margar hitaeiningar við bruna, en hlaðast að öðrum kosti upp sem fita í líkamanum, ef orkuþörfin er ekki í samræmi við neyzluna. Þarf því mjög að vanda val fæðutegunda úr þessum flokki, nota rúgbrauð, heilhveitibrauð, hrökkbrauð, hafra og baunir — þ.e. þær fæðutegundir, sem ekki hafa verið sviftar B- vítamínum, steinefnum og hvítu að nokkru eða öllu leyti við vinnslu — en sneiða hjá kökum, sætabrauði, maísflögum og öðrum fæðutegundum, sem seðja án þess að gefa jafnframt heilsustyrkjandi efni í réttu hlutfalli við orkumagn. Sykurnotkun ætti að stilla í hóf svo sem verða má. Frh. á bls.42

x

Hrund

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hrund
https://timarit.is/publication/1091

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.