Hrund - 01.06.1967, Blaðsíða 18

Hrund - 01.06.1967, Blaðsíða 18
FRÚAR- LEIKFIMI Bára Magnúsdóttir leiðbeinir Kæru lesendur, I síðasta blaði var ein góð magaæfing, sem ég vona, að ykkur hafi gengið vel að æfa og sem flestar hafi tekið þátt í. Við höldum áfram með magann að þessu sinni og tökum eina æfingu í viðbót. Hún er nokkuð erfiðari en hin, sem á undan kom, og þið skuluð gera nokkrar fótsveiflur bæði á undan og á eftir æfingunni. Þá eru fyrst fótsveiflurnar: Leggist beinar á bakið og sveiflið fótleggjunum rösklega upp, til skiptis hægri og vinstri fæti. Mynd I. Gætið þess vel, að fætur séu beinir, og varist einkum að beygja fótinn, sem er í gólfi. Þetta skuluð þið gera nokkrum sinnum, og liggið ekki á liði ykkar, því að æfingin hitar ykkur upp fyrir magaæfinguna og grennir, stinnir og fegrar fótleggi og læri. Nú komum við að magaæfingunni: 1. Leggist beinar á bakið. Sveiflið hægri fæti rösklega upp, en gætið þess að hafa fótinn beinan, sem er í gólfi. Mynd 1. Síðan látið þið hægri fótinn síga niður og lyftið vinstri fæti á móti, þannig að fæturnir mætist á miðri leið. Mynd 2; hægri fótur fer í gólf, en vinstri fótur sveiflast áfram upp og síðan í gólf. Þá byrjið þið aftur, nú með vinstri fæti, og gerið eins: sveifla, mætast, sveifla, niður. Þessa æfingu skuluð þið gera fjórum sinnum til að byrja með og smám saman auka við eftir getu. Magaæfingunum skal raða þannig niður, að byrjað sé á æfingunni, sem var í síðasta blaði, þá gerið þið fótsveiflut og magaæfinguna, sem við fjöllum um í þessu blaði, og að lokum fótsveiflurnar aftur. Nú snúum við okkur að barminum: 1. Gerið þessa æfingu helzt fyrir framan spegil. Haldið með hægri hendi um vinstri upphandlegg og með vinstri hendi um hægri upp- handlegg. Gætið þess að halda handleggjum í axlarhæð. Athugið mynd 3. Gerið síðan snöggar hreyfingar þannig, að þið þrýstið handleggj- unum saman. Haldið bakinu vel beinu. Gerið æfinguna fyrst með jöfnum hraða þannig: „kreppa, slappa'' og teljið 1-2, 1-2. Skiptið yfir þannig, að vinstri handleggur leggist yfir þann hægri. Gerið æfinguna fyrst fjórum sinnum báðum megin. Síðan breytið þið til og gerið æfinguna nú þannig, að þið kreppið og teljið upp að fjórum áður en þið slappið af. Það verður þá: „kreppa 1-2-3-4 slaka." Gerið þetta einnig fjórum sinnum báðum megin. Gerið æfingarnar samvizkusamlega í fjórar vikur og þið munuð sannfærast um gildi þeirra!

x

Hrund

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hrund
https://timarit.is/publication/1091

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.