Fréttablaðið - 14.02.2013, Blaðsíða 12
14. febrúar 2013 FIMMTUDAGUR| FRÉTTIR | 12
General Electric kæli- og frystiskápar sem hafa inn-
byggða klakavél með mulningi og ísköldu íslensku
vatni. Þeir eru öflugir og glæsilega innréttaðir. Fást
hvítir, svartir og með stálklæðningu.
Verð frá kr. 398.800 stgr.
Suðurlandsbraut 20, Reykjavík | Sími 588 0200 | www.eirvik.is
TILBOÐSDAGAR
Tilboð
Amerískir með klakavél
UMHVERFISMÁL Hreinsunarátak
vegna síldardauðans hófst í Kolgrafa-
firði í gær. Takmarkið er að grafa
dauða síld áður en hún grotnar og
bætir á gríðarlegt magn af grút sem
fyrir er. Grút verður mokað upp og
hann fluttur til urðunar. Heimamenn
annast verkið á kostnað stjórnvalda.
Helgi Jensson, ráðgjafi hjá
Umhverfisstofnun, hefur tekið þátt í
að skipuleggja aðgerðir. Hann segir
aðgerðina lúta að því að grafa hræ
af dauðri síld í fjörunni fyrir neðan
bæinn Eiði og freista þess að hreinsa
upp grút á sama stað og flytja hann til
urðunar á viðurkenndum urðunarstað.
Fyrst verður síldin grafin og svo reynt
við grútarhreinsunina. Framkvæmd
og stjórn er á hendi heimamanna
en kostnaður er greiddur af stjórn-
völdum, segir Helgi.
Ekki er um að ræða hluta af verk-
efninu sem nýfarið er af stað og
stjórnvöld lögðu sex milljónir króna
til. Það verkefni snýr að vöktun en
hreinsunin snýr að aðgerða áætlun.
„Eftir tvo daga metum við hvernig
þetta hefur gengið og ákvörðun verður
tekin um fram haldið,“ segir Helgi.
Bjarni Sigurbjörnsson, bóndi á Eiði
í Kolgrafafirði, var við hreinsunar-
störf í gær. „Þetta lítur alveg þokka-
lega vel út og mikið er gott að þetta
hreinsunar starf er hafið. Þetta tekur
kúfinn af þessu hið minnsta,“ segir
Bjarni.
Bjarni er ekki sáttur við að eyða
tíma í að flytja grút til urðunar í Fífl-
holti, [sorpmóttökustaður fyrir Vestur-
land]. Hann vildi nýta gamla námu á
svæðinu. Hann hefur hins vegar skiln-
ing á ákvörðun Umhverfisstofnunar,
þar sem nauðsynlegt sé að fara að
lögum í þessari aðgerð þótt skammur
tími sé til stefnu.
Líffræðingar frá Náttúrufræði-
stofnun Íslands og Náttúrustofu Vest-
urlands (NV) fóru í könnunarflug yfir
Kolgrafafjörð og nágrenni á þriðjudag
til að fylgjast með fuglalífi, og þá ekki
síst til að leita hafarna sem vitað er að
eru grútarblautir.
Róbert Arnar Stefánsson, forstöðu-
maður NV, segir að flogið hafi verið
yfir svæðið frá Stykkishólmi að
Lárvaðli, við vestanverðan Grundar-
fjörð, í góðu veðri. „Í ferðinni sáum
við 39 erni, langflesta við Urthvala-
fjörð [utanverðan Kolgrafafjörð],
Hraunsfjörð og innanverðan Kol-
grafa fjörð. Nokkur grútarmengun var
sjáanleg á yfirborði sjávar og dauð
síld þakti botninn í nágrenni við Eiði.
Mikill fjöldi fugla var á svæðinu eins
og áður,“ segir Róbert.
Í yfirlitsfluginu var ekki hægt
að staðfesta grútarbleytu í neinum
arnanna. „Margir flugu upp og virtust
þungfleygir og settust eftir stutt flug
en það þýðir ekki endilega að þeir hafi
verið blautir. Einhverjir gætu hafa
verið í svipuðu ástandi og þeir sem
sést hafa á síðustu dögum; blautir og
þungfleygir en ekki orðnir alveg van-
færir.“
Eins og sagt hefur verið frá bárust
NV fimm tilkynningar um grútar-
blauta erni á einum og sama deginum.
„Þessi mikli fjöldi arna á svona litlu
svæði er magnaður en vekur um leið
áhyggjur í ljósi þess að þeir eru í tals-
verðri hættu á að komast í snertingu
við grútinn,“ segir Róbert.
svavar@frettabladid.is
Grút mokað upp og síldin grafin
Hreinsunarátak hófst í Kolgrafafirði í gær. Heil síld verður grafin í sandinn. Grútardrullu verður mokað upp og urðuð. Árangur aðgerða
metinn daglega. Ernir eru tugum saman í firðinum, eins og yfirlitsflug leiddi í ljós. Fimm tilkynningar um grútarblauta erni á einum degi.
HREINSUN HAFIN Við verkið eru nýttar nokkrar þungavinnuvélar; gámar, dráttarvélar og vagnar til flutninga.
MYND/BJARNI SIGURBJÖRNSSON
FERÐAÞJÓNUSTA Ferðamönnum sem
heimsækja Evrópulönd fjölgaði um
fjögur prósent á síðasta ári, sam-
kvæmt nýbirtum tölum Ferðamála-
ráðs Evrópu (European Travel Com-
mission, ETC). Aukningin er minni
en 2011 þegar hún var sjö prósent.
Langmest var aukning ferða-
manna til Íslands, tæp tuttugu pró-
sent frá árinu 2011. Aukningin er
nær helmingi meiri en í löndunum í
öðru og þriðja sæti, Litháen og Rúm-
eníu. Mestur er samdrátturinn svo á
straumi ferðamanna til Grikklands,
5,2 prósent, til Póllands 1,8 prósent
og til Ítalíu um 0,4 prósent.
Í nýrri skýrslu ETC um þróun og
horfur í evrópska ferðaiðnaðinum
kemur fram að nokkuð hafi komið
á óvart að heimsóknir til Bret-
lands hafi staðið í stað milli ára,
þrátt fyrir viðburði sem vakið hafi
heimsathygli í landinu. Þannig hafi
á árinu verið bæði hátíð vegna sex-
tíu ára valdatíðar Elísabetar Eng-
landsdrottningar og Ólympíuleikar,
bæði fatlaðra og ófatlaðra.
Þá hafi Evrópumeistaramótið í
fótbolta í Póllandi ekki skilað sér í
fjölgun ferðamanna.
„Reynsla frá fyrri tíð sýnir hins
vegar að stórviðburðir auka venju-
lega áhuga ferðamanna á áfanga-
stöðum til miðlungslangs og lengri
tíma,“ segir í skýrslunni. Mann-
þröng og verðhækkanir geti hins
vegar virkað letjandi á árinu sem
viðburðurinn fer fram. - óká
Dró úr aukningu erlendra ferðamanna í Evrópu:
Fjölgar mest á Íslandi
Í LEIFSSTÖÐ Straumur ferðamanna jókst hvergi eins og hér í fyrra. FRÉTTABLAÐIÐ/HAG
Land Aukning frá fyrra ári
1. Ísland 19,6%
2. Litháen 12,4%
3. Rúmenía 10,0%
4. Ungverjaland 8,0%
5. Þýskaland 7,5%
6. Tékkland 6,9%
7. Serbía 5,9%
8. Slóvakía 5,4%
9. Slóvenía 5,4%
10. Svartfjallaland 5,3%
Heimild: Ferðamálaráð Evrópu (ETC)
HEIMSÓKNIR
ERLENDRA
FERÐAMANNA 2012