Akureyri


Akureyri - 26.06.2014, Blaðsíða 13

Akureyri - 26.06.2014, Blaðsíða 13
26. júní 2014 24. tölublað 4. árgangur 13 „Ég hef verið á lista Dögunar, það er rétt en það hefur meira ver- ið til að styðja gott fólk, hef verið til uppfyllingar í þriðja sætinu þar í tvígang, aðallega vegna þess hve erfitt er að fá fólk til þátttöku, við náðum ekki að manna fullan lista í kosningunum síðast, sem dæmi. Mínar pólitísku ambisjónir eru nánast engar, geng ekki með þing- mann í maganum eða neitt slíkt. Dögun fannst mér góður kostur, þar var engin spillingarsaga en áhersla lögð á lýðræðisumbætur, afnám kvótakerfisins og verðtryggingar- innar, auk umbóta á fjármálakef- inu og lífeyrissjóðakerfinu. Fátt af þessu hefur náð fram að ganga, til þess eru múrarnir of háir, staða Fjórflokksins of sterk og of stórir hagsmunaaðilar að baki sem vilja óbreytt ástand. Þetta sést best á örlögum tillagna Stjórnlagaþings- ins.“ Akureyringar smeykir við Bensa Það hefur þó verið lærdómsríkt og gefandi fyrir mig að vinna með fólkinu í Dögun, Gísli Tryggvason sem leiddi listann í Alþingiskosn- ingunum í fyrra er afburðamaður og ég vildi gjarnan styðja hann á þing, tel hann eiga þangað erindi fremur en marga sem þar sitja, með fullri virðingu. Sama má segja um Hlín Bolladóttur í bæjarstjórnar- kosningunum, hún hafði skilað frá- bæru starfi hér sem bæjarfulltrúi m.a. sem formaður Samfélags- og mannréttindaráðs, Hlín er heil- steypt og góð manneskja. Þá hef ég unnið náið með sveitunga þínum Benedikt Sigurðarsyni frá Græna- vatni, þar fer mikill og skarpgreind- ur dugnaðarforkur með munninn fyrir neðan nefið, okkur Akureyr- ingum stendur stuggur af svoleiðis mönnum. Það er rétt að við höfum ekki náð árangri í kosningum og kemur þar margt til að mínu mati. Dögun byrjaði á því að klofna í nokkra minni flokka, það var ekki efnilegt, því er ekki að neita, svo var flati strúktúrinn kannski ekki góður heldur, það var enginn for- maður eða talsmaður, og það bara gengur ekki í því fjölmiðlaum- hverfi sem við búum við í dag. Eins myndi ég vilja nefna skoðanakann- anir, þær eru skoðanamyndandi, við komumst aldrei af stað í þeim, fjölmiðlar bera mikla ábyrgð, RÚV stóð sig til dæmis afspyrnuilla í að- draganda sveitarstjórnarkosning- anna. Einn þáttur í útvarpinu var allt og sumt sem það bauð upp á, þar var lélegur þáttastjórnandi sem stýrði þættinum beint út í skurð, má segja, hann fór meira og minna í malbik og steypu; það hvort Gler- árgatan ætti að vera einbreið eða tvíbreið, smærra er varla hægt að hafa það. 365-miðlar sniðgengu þessi “smáframboð” nær alveg, ef frá er talinn þáttur á Stöð2 sem var sama marki brenndur og hinn í útvarpi RÚV, kjósendur voru engu nær um hvað flokkarnir stóðu fyrir. Þið hér á svæðismiðlunum stóðuð ykkur miklu betur. Peningaöflin hafi áhrif Fjármagn er líka eitt, ef fjölmiðl- ar bregðast lýðræðislegru skyldu sinni, þá er bara eftir að reyna að “plögga sig” eða auglýsa til áhrifa, um það var aldrei að ræða hjá okk- ur, við höfðum 300 þúsunda króna “budget” fyrir kosningarnar hér á Akureyri, þær duga skammt. Það er sama upphæð og hver verktaki var að leggja í kosningasjóð Sjálfstæð- isflokksins fyrir kosningarnar 2006, það er ójafn leikur. Vinur minn var einmitt með verktakafyrirtæki árið 2006 og fékk klapp á bakið frá karli nokkrum, bæjarfulltrúa sjálfstæð- ismanna hér í bæ og spurninguna: “Heldurðu að þú setjir ekki eins og 300 þúsund krónur í kosninga- sjóðinn hjá okkur?” Ekkert hér um bil heldur nákvæmlega 300 þúsund krónur. Verktaki sem fær svona spurningu frá bæjarfulltrúa í meirihluta, hvað gerir hann? Jú hann gerir nákvæmlega það sem honum er sagt. Er þetta ekki nán- ast skilgreiningin á fjárkúgun ef þú skoðar samhengið? Fjórflokk- urinn og helmingaskiptaflokkarn- ir alveg sérstaklega, hafa aðlagað sig vel gildandi kosningakerfi og vinna eins og smurð vél og berjast hatrammlega gegn hvers kyns lýð- ræðisumbótum, slök kosningaþátt- taka hjálpar þeim. Úthringingar og áreiti á kjördag telur þá enn meira. Þetta lýsir hins vegar ekki burðugu lýðræði. Kjósendur gáfu reyndar ákveðin skilaboð í kosningunni um tillögur Stjórnlagaþings en vald- hafar hafa kosið að virða þau skila- boð að vettugi. Hitt er svo annað mál að eitthvað af hugmyndum okkar hafa komist á flug og öðlast sjálfstætt líf þannig að ég tel alls ekki til einskis af stað farið. Ef þetta er að berja höfðinu við stein þá er það mjúkur og mosa- vaxinn steinn því mér er ekkert illt í hausnum.“ Súrrealísk ríkisstjórn í ljósi sögu Nýverið skrifaðirðu opinberlega að Framsóknarflokkurinn hafi náð að gefa burtu fiskiauðlindina með kvótakerfi og frjálsa fram- salinu, áætlun flokksins virðist að einkavinavæða áfram samanber bankana og einangra landið. Má af þessum ummælum ráða að þú teljir ríkisstjórn vora vonda stjórn? „Mér sýnist þetta vera dæmi- gerð Helmingaskiptastjórn þeirra Framsjalla eins og tíðkast hefur frá lýðveldisstofnun, fyrir 70 árum, það er náttúrulega súrrealískt að hún sé mætt aftur til starfa svona skömmu eftir að hafa teymt þjóðina eins og læmingja fram af klettum. Framsóknarflokkurinn, að til- hlutan og frumkvæði Halldórs Ás- grímssonar, kom á kvótakerfi árið 1984 og Frjálsa framsalinu árið 1990. Þetta var fordæmalaus gjörn- ingur, aðalauðlind þjóðarinnar, fram og aftur um aldir, einkavædd og gefin þeim sem voru í útgerð á þriggja ára tímabili; 1982, 1983 og 1984. Þessu var þrælað gegnum Al- þingi með minnsta mögulega mun, þetta er alveg ótrúlegt og helst sam- jöfnuð að finna eftir fall Sovétríkj- anna, það sem kallað er ólígarkismi. Halldór sjálfur og hans fjölskylda hagnaðist vel á þessum gjörningi, ég held að fólk hafi almennt ekki kveikt á þeirri staðreynd að kom- ið var á lénsveldi í sjávarútvegi. Þjóðin var aldrei spurð þó þetta hafi verið ein stærsta ákvörðun lýð- veldistímans sem hafði gríðarlega alvarlegar afleiðingar hagrænt, byggða- og félagslega og er ekki búið að bíta úr nálinni með það enn. Ég hef orðað þetta þannig að fólk í ákveðnum byggðum í þessu landi hefur frá setningu laganna verið að vakna á mánudagsmorgni, atvinnulaust og eignalaust. Þetta er svo mikil mannvonska að það nær ekki nokkurri átt. Ég get nefnt sem dæmi, eins klikkað og það hljómar, þá er Akureyri búin að tapa helm- ingi kvótans frá 1984, svipað og Húsavík, Kópasker og Raufarhöfn en á sama tíma er Reykjavík orðin stærsta verstöð landsins en hún komst varla á topp-tíu listann árið 1984! Bankakerfið og þetta kvóta- kerfi eru nátengd fyrirbæri, bank- arnir eiga heima í Reykjavík. Ég vil benda fólki sem vill kynna sér þetta mál að lesa grein sem birtist í nýjasta hefti Skírnis eftir prófess- or Svan Kristjánsson sem heitir: “Lýðræðisbrestir íslenska lýðveld- isins: Frjálst framsal fiskveiðiheim- ilda” Þarna gerðist eitthvað sem var svo yfirgengilegt að menn átta sig ekkert á því, sérstaklega ungt fólk. Lýðræðið var fótum troðið á skítugum skóm. Einkavinavæðing viðskiptalífsins og bankanna er að sama skapi draumur í dós fyrir inn- múraða en til þess þarf múra, eðli málsins samkvæmt. Kristján Þór hótaði og stóð við Það er ljóst að þú vilt múra þig af ef þér hefur tekist að koma þér upp lénsveldi, þá vilt þú ekkert að bátnum sé ruggað utan frá. Í því ljósi sé ég vaxandi þjóðrembing Framsóknar og stóra moskumálið. Þetta er að sjálfsögðu stórhættulegt í tilfelli moskumálsins þar sem ýtt er undir öryggisleysi fólks af er- lendum uppruna. Svo er það athygl- isvert að sjá hvernig Sjálfstæðis- flokkurinn beygir með Framsókn í þessa átt alveg öfugt við stefnu flokksins áratugum saman. Ég sé þetta svona. Það er létt að spila inn á ótta fólks við hið óþekkta en um leið er það ljótur leikur. Það má segja að óttaprang (fear mongering) sé aðalsmerki íslenskra stjórnmála; “ef þið kjósið okkur ekki, fer allt í steik”, kannastu við þetta? Auðvitað eru núansar á þessu máli eins og öllum, Framsókn á Akureyri hefur til dæmis verið farsælt og góðvilj- að afl, mestmegnis. Mér finnst sem innanbúðarmenn þar hefðu mátt stíga fram fyrir skjöldu og mót- mæla málatilbúnaði Framsóknar í Reykjavík eins og allt of fáir Fram- sóknarmenn gerðu, ég heyrði það í samtölum að þeim var ekki skemmt yfir þessum óvinafagnaði. Ungir Framsóknarmenn voru gerðir aft- urreka með ályktun um málið, það er ekki mjög lýðræðislegt, en til marks um þöggun og talandi um þöggun og ofbeldi, þá manstu eftir því að Kristján Þór Júlíusson hót- aði því í tvígang í umræðum fyrir kosningarnar í fyrra að leggja niður embætti talsmanns neytenda sem Gísli Tryggvason sat í. Það var nán- ast fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að standa við þessa hótun.“ Ægivaldið LÍÚ Þú varst mörg ár á sjó og getur borið saman tímana tvenna fyrir kvóta og eftir. Ertu til í að lýsa því nú öllum þessum árum síðar hvaða breytingar urðu á umgengni við auðlindina, ef við ræðum sérstak- lega brottkastið? „Eins og ég sagði áðan þá angr- aði þetta mig alltaf, þessi lygi um umgengnina. Ég sá ekki fiski hent fyrir tilkomu kvótans, var reyndar eitt sinn hundskammaður fyrir að henda ufsa í hafið á heimstími þegar við vorum að ganga frá en sá hafði verið ánetjaður og orðinn hvítur í tálknin og því ónýtur en skipstjór- inn sá þetta ekki og skammaði mig því til öryggis, hélt mig vera að henda heilum fiski. Eftir að kvótinn komst á hófst þetta yfirgengilega brottkast. Sjómenn sem vitnuðu um það máttu þola atvinnumissi og Berufsverbot og talsmenn út- gerðarmanna sögðu þá ljúga. Það voru hins vegar sjómennirnir sem voru að segja satt, að sjálfsögðu. Þetta mál var þaggað í hel. Ég hef því síðan haft tilhneig- ingu til þess að draga allt í efa sem kemur frá samtökum útgerðar- manna, LÍÚ, enda eru þetta hags- munasamtök eða lobbíistasamtök, þau sterkustu í landinu, fólk skyldi hafa það í huga. Reyndar varð þetta til þess að ég hef tilhneigingu til þess að draga allt í efa, ég er miklu gagnrýnni og kaldhæðnari en ég var, tek engu sem gefnu.“ Engin pólitísk boðun í stólnum! Hefur líf þitt breyst eftir að þú fórst að láta til þín taka í umræðunni með greinarskrifum og beinni þátt- töku? Getur tannlæknir grætt á því að vera samfélagspólitískur – eða jafnvel tapað kúnnum? „Líf mitt hefur auðgast mik- ið eftir að ég fór að skipta mér af þjóðmálum, ég hef kynnst mörgu frábæru fólki og eignast nýja vini, það hef ég grætt. Ég hef ekki orðið var við það að kúnnarnir hlaupi í burtu, þvert á móti eru oft fjörlegar umræður við stólinn; díalóg, þó sumir kvarti undan því að ég sæti lagi og setji á einræður einmitt þegar þeir eru með fullan munn- inn af einhverju dóti og geta engu svarað. Svo er það nú ekki svo að ég taki pólitíska umræðu við aðra en þá sem kæra sig um það. Menn eiga að fá að njóta þess í friði að sitja í tannlæknastólnum, sumir sofna jafnvel! Margir bestu vina minn styðja flokka sem ég hef ekki mikið álit á en við verðum að geta verið sammála um að vera ósammála, óþarfi að stökkva alltaf beint ofan í skotgrafirnar, stjórnmál eru ekki eins og enski fótboltinn þar sem þú velur eitt lið þegar þú ert 12 ára og mátt síðan ekki skipta. Margir uppáhaldskúnnarnir mínir eru líka börn og þeim er alveg sama hvað kallinn er spá í sínum frítíma, þau vilja bara að hann sé góður við sig og sé ekki leiðinlegur.“ Styður ekki fríar tannlækningar fyrir alla Þar sem maður tekur ekki viðtal við tannlækni á hverjum degi, verð ég að fá að spyrja þig út í tannheilsu Íslendinga og opinberan stuðning ríkisins. Hvernig standa þau mál í samanburði við nágrannaþjóðir? Er eitthvað sem mælir gegn því að tannlækningakostnaður sé einfald- lega ókeypis fyrir alla? „Tannheilsa Íslendinga er frekar döpur, í samanburði við hin Norð- urlöndin, sem er ekki kynlegt þar sem við erum heimsmeistarar í sykuráti. Landlægu kæruleysi má ef til vill líka kenna um. Tannlækn- ingar barna hafa verið í ólestri síð- astliðin 20 ár en síðasta ríkisstjórn kippti því í liðinn, hún á heiður skilið fyrir það. Nú fá öll börn 10- 18 ára gjaldfríar tannlækningar (fyrir utan 2500kr. “komugjald”, ár- lega). Þetta kerfi mun færast niður árgangana þ.a. eftir þrjú ár verða öll börn komin í þetta kerfi. Þá er eftir að bæta hlut aldraðra og ör- yrkja. Varðandi okkur sem erum fullorðin og fullfrísk má deila um það hvort það skuli vera á hendi ríkisins að greiða niður nánast 100% fyrirbyggjanlega sjúkdóma; tannskemmdir. Ef ég nenni ekki að bursta í mér tennurnar og nota tannþráð og ét kók og prins fyrir allan peninginn, átt þú þá að greiða fyrir mig ? Mér finnst það ekki en þetta má alveg ræða. Ég held að kerfið sé nokkuð gott þegar börn fá þjónustuna, óháð efnahag foreldra, aldraðir og öryrkjar hafa hins vegar setið eftir og þar má bæta úr, byrj- um á því.“ Líður best í náttúrunni Hvaða áhugamál eru þér kærust og hvers vegna? „Mér líður best úti í náttúrunni, ég stunda stangveiði og skotveiði og hef gert frá því ég var krakki. Svo er afastrákurinn minn mitt helsta áhugamál núna, það er stórkostlegt að vera með honum og sjá hvern- ig hann sér heiminn; “vá þarna er steinn...vá þarna er spýta...vá þarna er köttur”. Hann minnir mig á að hætta aldrei að hrífast af furðum heimsins.“ Ertu mikill fjölskyldukarl? „Já, við konan mín, Margrét Thorarensen eigum þrjú börn og eitt barnabarn, hann Arnar Kára. Sonur okkar, Ívar, er rekstrarverk- fræðingur. Margrét, eldri dóttir okkar, er að klára bókmenntafræði og Sunna, sú yngsta, verður stúd- ent eftir eitt ár. Ég hættti aldrei að dást að þessum börnum, þau eru alltaf að kenna mér eitthvað nýtt. Sérstaklega eftir að Ívar flutti að heiman og ég varð einn með þrem- ur konum hefur kallremban í mér fengið á baukinn, ég hef þurft að horfast í augu við feðraveldið og viðurkenna forréttindastöðu mína sem kall á 21.öldinni. Þær hafa ver- ið að boxa mig til.“ Vill fríar skólamáltíðir Hvert yrði þitt fyrsta verk ef þú yrðir bæjarstjóri á Akureyri í einn dag? „Ætli ég myndi ekki beita mér fyrir fríum skólamáltíðum eins og við í Dögun vorum að tala fyrir, ég myndi veita auknu fé til Aflsins og Grófarinnar en minna í fínimanna- hobbí eins og golf, svo myndi ég skipa fyrir um enduropnun Nátt- úrugripasafnsins og leyfa okkur sem vorum með hesthús í Búðar- gilinu að byggja þar ný, bærinn ætti náttúrulega að byggja þar nýtt fjárhús fyrir hann Magnþór á Naustum, hann sá um að sýna bæj- arbörnum me-me fyrir ekki neitt, árum saman....og við hinir ho-ho.“ Sama spurning og síðast en nú skulum við ímynda okkur að þú sért orðinn forsætisráðherra. „Ég myndi gefa krókaveiðar frjálsar, skipa fyrir um innköllun gjafakvótans og fyrningu fyrn- ingukvótans og herða mjög fast að fjármálakerfinu, jafnvel þjóð- nýta bankana, þetta tengist. Í það minnsta skilja að fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi, endur- skoða lífeyrissjóðakerfið og banna verðtryggingu neytendalána, ná skýrslu RNA um hrunið upp úr pappírstætararnum. Ætli ég yrði ekki að fá að vera einræðis- fremur en forsætisráðherra í einn dag til að gera þetta?“ Sætu þorpsbúarnir við... Hvað er best og verst við Akureyri og Akureyringa? „Það væri nær að þú segðir mér það, Best? Við erum hálfgerðir þorpsbúar, er það ekki voða sætt? Verst? Æi erum við ekki soldið snobbaðir og smáborgaralegir, alltaf að pæla í yfirborðslegum hlutum, bílaþrifum og svoleiðis nokkru? Annars elska ég þennan bæ, hann hefur fóstrað mig og börnin mín, fallegasti bær sem ég veit um, svo er alltaf að koma hingað nýtt fólk og með því ferskir vindar.“ VIÐTAL Björn Þorláksson MYND Völundur Jónsson.

x

Akureyri

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akureyri
https://timarit.is/publication/1079

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.