Austurland - 06.09.2012, Side 6

Austurland - 06.09.2012, Side 6
6 6. SEPTEMBER 2012 Það var mér mikið ánægjuefni að setja ríkisstjórnarfund 8. maí síðastliðinn í virðulega gamla gistihúsinu á Egilsstaðabýlinu sem svo vel hefur verið við haldið og endurnýjað. Við áttum góða fundi með sveitarstjórnarmönnum á Austurlandi og forystufólki þeirra stofnana sem styðja atvinnulífið í fjórðungnum. Austfirðingar riðu á vaðið þennan dag og stofnuðu með stuðningi ríkisvaldsins Austurbrú, samstarfsvettvang sem vinnur að nýsköpun, þróun og eflingu atvinnulífs í fjórðungnum. Það er einlæg von mín að starfið gangi að óskum og sá grunnur sem lagður var verði fjórðungnum til heilla. Samtímis þessu er ætlunin að framfylgja sóknaráætlunum landshlutanna sem hafa verið í mótun undanfarin misseri. Þær byggjast meðal annars á einföldun á samstarfi landshlutanna annars vegar og stjórnvalda og stjórnarráðsins hins vegar. Þetta samstarf og samtal þarf að vera skilvirkt og markvisst og krefst þess að menn heima í héraði skipuleggi, forgangsraði og mæli fyrir hagsmunum sínum á nýjan og skýrari hátt en áður. Sama á við í stjórnarráðinu þar sem hópur fólks úr mörgum ráðuneytum kemur að úrvinnslu mála, t.d. innan sóknaraáætlananna. Í gegn um fjöllin Austurland og Vestfirðir eiga það sameiginlegt að búa við sérstaka samgönguerfiðleika. Fjallvegir eru margir og sumir þeirra eru þungfærir eða ófærir mánuðum saman á veturna. Gerð jarðganga og fjölgun þeirra breytir því mannlífinu og búsetuskilyrðum verulega til batnaðar í þessum landshlutum rétt eins og um miðbik Norðurlands. Það var okkur því kappsmál að geta treyst fjármögnun slíkra mannvirkja og flýtt þeim, m.a. með því að leggja sérstakt veiðigjald á útgerðina, eins og samþykkt var á Alþingi snemma sumars. Á grundvelli fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar 2013 - 2015 og samgönguáætlunar er undirbúningur jarðganga milli Norðfjarðar og Eskifjarðar hafinn. Áætlað er að verkið verði boðið út öðru hvoru megin við áramótin og að framkvæmdir hefjist á miðju næsta ári. Það verður sannarlega áhrifarík aðgerð til þess að gera Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað í raun að einu samfelldu atvinnusvæði. Stóriðjan í Reyðarfirði hefur leitt til um 40% fjölgunar íbúa á síðustu árum og með bættum samgöngum við Neskaupstað má ætla að búsetuskilyrði og öryggi íbúa verði jafnara innan Fjarðabyggðar allrar. Enginn velkist í vafa um hve þýðingarmikil jarðgöngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar hafa verið fyrir íbúana og atvinnusvæðið allt um miðbik Austurlands. Innviðirnir og atvinnan Fjárfestingaráætlunin, sem áður var nefnd, gerir einnig ráð fyrir fjármögnun rannsókna- og tækniþróunarsjóða og markaðsáætlana. Loks er gert ráð fyrir að verja af þessum tekjustofni umtalsverðum fjármunum næstu þrjú árin til sóknaráætlana landshlutanna. Eignasala á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og arðtaka af þeim skilar einnig fé til uppbyggingar ferðamannastaða, verkefnasjóða skapandi greina og grænna og orkusparandi verkefna. Það er ánægjulegt að sjá að atvinnulausu fólki fækkar á Austurlandi. Nýleg gögn Vinnumálastofnunar sýna að atvinnuleysi í júlí sl. hafi aðeins verið 1,9% í fjórðungnum. Í júlí í fyrra var það 2,9%. Reyndar er atvinnuleysi hvergi minna en á Austurlandi ef frá er talið Norðurland vestra. Þetta helst í hendur við jafnan 2,5 til 3 % hagvöxt í landinu. Þau ánægjulegu tíðindi berast einnig að verðbólga minnki enn; hún nam liðlega 4 prósentum síðustu tólf mánuði samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Ástæða er til bjartsýni á Austurlandi með traustari innviðum og vænlegri búsetu- og atvinnuskilyrðum en áður. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Norðfjarðargöng og sóknarfæri Austurlands Myndin er tekin í kjölfar ríkisstjórnarfundar á Egilsstöðum 8. maí í tengslum við stofnfund Austurbrúar. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Valdimar O. Hermannsson formaður stjórnar Austurbrúar undirritar samning um fullvinnslu á Austfirsku hráefni við Austurbrú. Pétur og úlfurinn í Selskógi Leikfélag Fljótsdalshéraðs setti í sumar upp leikritið Pétur og úlfurinn á útisviðinu í Selskógi. Pétur Ármannsson vann leikgerð um Pétur og úlfinn og samið var við vinnuskóla Fljótsdalshéraðs um að leggja til leikara. Alls voru það 9 unglingar sem sóttu um að taka þátt í verkefninu en ekkert af þeim hafði tekið þátt í sambærilegu verkefni áður. 6 vikur fóru í undirbúning en æfingar byrjuðu upp úr miðjum júní. Fyrsta vikan fór í leiktækninámskeið en eftir það var byrjað að búa til persónur og leikgerð. Unnið var alla virka daga og frí um helgar og var frábært að fylgjast með þeim og þá helst hvernig persónurnar sem þau voru að búa til þroskuðust. Það er gríðarleg vinna að setja upp svona leikrit og margt sem þarf að huga að. Þátttakendur lærðu nánast allt sem við kemur því að setja upp sýningu s.s. að vinna með leikmynd, gera búninga, finna leikmuni o.fl. Frumsýnt var síðan 20. júlí og var “skógfylli” á sýningunni en alls voru um 130 manns sem mættu á frumsýninguna en það kallast hjá okkur þokkalega uppselt. Sýndar voru 9 sýningar á rétt tæpum mánuði og fengum við 660 áhorfendur. Það er óhætt að segja að allt hafi gengið upp hjá okkur í sumar. Við fengum bæði gott veður og góða styrktaraðila en svona uppsetning er langt frá því að vera ódýr. Helstu styrktaraðilar okkar voru Samfélagssjóður Alcoa og vinnuskóli Fljótsdalshéraðs. Allir græða á svona verkefni græði allir og ekki síst samfélagið sjálft. Við fengum líf í skóginn okkar en þeir sem mest græddu að mínu mati voru unglingarnir sjálfir sem tóku þátt, ótrúlegt að sjá hversu mikið þau uxu og þroskuðust í þessu ferli. Þráinn Sigvaldason Formaður Leikfélags Fljótsdalshéraðs Framtíðin er björt á Austurlandi Örugg atvinna er undirstaða farsældar, samfélaga, fjölskyldna og einstaklinga. Fjölbreytt atvinnulífssýning á Fljótsdalshéraði og fimm ára afmæli álvers Alcoa á Reyðarfirði á síðustu vikum sýnir að miklir möguleikar eru á öruggri og fjölbreyttri atvinnu á Austurlandi. Það er tilefni bjartsýni og lífsgleði. Sjávarútvegur, Vatnajökulsþjóð- garður, ferðaþjónusta og skapandi greinar eru fleiri öflugir angar öflugs atvinnulífs á Austurlandi. Ekki má gleyma opinberri þjónustu, sem margir starfa við, en hún byggir á hinu öfluga atvinnulífi fjórðungsins. Nýlegar rannsóknir sýna að ungar konur eiga erfiðara með að finna sér atvinnu og lífsstíl við hæfi úti á landi en aðrir þjóðfélagshópar. Það er verðugt verkefni að vinna að lausn á þeim vanda með öflugum sóknaráætlunum landshluta þar sem innviðir samfélaga eru treystir, samgöngur bættar, velferðar – og menntakerfi eflt og umgjörð utan um fjölbreytta atvinnuhætti stórefld. Það er sérstakt ánægjuefni að um allt land hefur jöfnuður aukist með þeim lífsgæðum sem allar rannsóknir sýna að jöfnuði fylgi. Vonandi tekst okkur að viðhalda þessum jöfnuði um leið og við höldum áfram að vinna að því að allir hafi þá framfærslu sem nauðsynleg er til eðlilegrar afkomu fjölskyldna. Það er skylda stjórnvalda á öllum stigum að vinna fyrst og fremst að almannahag. Til þess þarf að tryggja að allir fái að njóta arðsins af auðlindum þjóðarinnar og þeir sem þær nýti greiði fyrir afnotin eðlilegt gjald en tryggi sér jafnframt góða afkomu. Austurland tækifæranna er veruleiki dagsins í dag. Skapandi hugsun, farsæl nýting auðlinda, samfélagsleg ábyrgð og markviss uppbygging innviða gerir landshlutann að eftirsóknarverðum stað til búsetu. Jónína Rós Guðmundsdóttir, Egilsstöðum, þingkona Samfylkingarinnar í NA - kjördæmi Hafist handa við Norðfjarðargöng Ákvörðun hefur verið tekin. Undirbúningur Vegagerðar að hönnun, útboðsgögnum, skipulagsmálum og samningum við landeigendur hófst að nýju og af fullum krafti fyrir nokkrum vikum. Vinna gengur samkvæmt áætlun og útboð verður á verkinu í janúar á næsta ári. Þetta þýðir að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hefjast næsta sumar. Allt er komið á fulla ferð og nú verður ekki aftur snúið í ferlinu. Ný göng verða framfarastökk fyrir samgöngur, atvinnulíf og samskipti innan sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Þau munu tryggja öryggi allra vegfarenda og fullnægja kröfum nútímans til samgöngumannvirkja. Jarðgöngin í Oddsskarði, sem nýju göngin munu leysa af hólmi, eru í um 600 m hæð yfir sjávarmáli og að þeim liggja erfiðir fjallvegir, mjög brattar brekkur og vinkilbeygjur á leiðinni eins og Austfirðingar þekkja alltof vel. Auk þess eru göngin einbreið, dimm og með blindhæð! Eftir ca þrjú og hálft ár verður hægt að bruna inn í 8 km löng tvíbreið og vel upplýst göng milli Fannardals og Eskifjarðar. Þvílíkur munur sem það verður! Í þeirri samgönguáætlun sem ég lagði fram sem samgönguráðherra, og samþykkt var á Alþingi, var gert ráð fyrir fjárveitingum vegna Norðfjarðarganga á yfirstandandi ári. Vegna bágrar stöðu ríkissjóðs hefur upphaf verksins frestast um eitt ár en það eru mikil gleðitíðindi að nú er lokahnykkur undirbúnings hafinn eins og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri hefur staðfest. Síðustu kostnaðaráætlanir gera ráð fyrir að kostnaður við Norðfjarðargöng verði 10,5 milljarðar króna. Það er mikið fé, en verulegum fjármunum má kosta til þess að tryggja öryggi, framfarir og greiðar samgöngur á svæðinu. Þeir fjármunir munu skila sér í hagvexti og sterkara samfélagi í Fjarðabyggð. Það eru vissulega gleðitíðindi að þetta baráttumál okkar skuli nú vera komið í höfn Kristján L Möller Fyrrverandi samgönguráðherra og alþingismaður Norð- Austurkjördæmis

x

Austurland

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurland
https://timarit.is/publication/1094

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.