Skessuhorn


Skessuhorn - 26.02.2014, Blaðsíða 18

Skessuhorn - 26.02.2014, Blaðsíða 18
18 MIÐVIKUDAGUR 26. FEBRÚAR 2014 Miklar breytingar urðu í þingliði eftir kosningar til Alþingis síðasta vor. Þær urðu ekki síst vegna mik- illar og snöggrar fylgisaukningar Framsóknarflokksins í kjölfar Ice- save dóms og þess traust sem flokk- urinn hlaut í stóru kosningamálun- um; húsnæðismálunum sem eink- um tengdust skuldavanda heim- ilanna í landinu og áheit um end- urskoðun verðtryggingar. Á lista Framsóknarflokksins víða um land hafði raðast fólk úr ýmsum þjóð- félagsstigum, flest óþekkt og marg- ir þeirra sem þáðu sæti ofarlega á lista bjuggust hreinlega ekki við að fara inn á þing. Niðurstaðan þeg- ar talið var upp úr kjörkössunum var m.a. sú að Framsóknarflokkur- inn stórbætti fylgi sitt í Norðvest- urkjördæmi, glansaði inn með fjóra menn en hafði fengið tvo í kosn- ingunum 2009. Í þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins var óþekkt Skagakona, Elsa Lára Arnardótt- ir varabæjarfulltrúi og kennari við Brekkubæjarskóla. Þessi þingvet- ur mun brátt renna sitt skeið þar sem stutt er í sveitarstjórnarkosn- ingar. Því var forvitnilegt að spjalla við Elsu Láru, bæði að forvitnast um hana sjálfa og reynslu hennar af þingsetunni í vetur. Þolinmæðisverk í humrinum Elsa Lára fæddist í Reykjavík 30. desember 1975. Foreldrar henn- ar voru mjög ungir þegar hún kom í heiminn, Sigríður Lárus- dóttir og Örn Johansen, og stofn- uðu þau ekki til hjúskapar. Barn- ung flutti Elsa Lára með móður sinni að Stóra-Lambhaga í Hval- fjarðarsveit og byrjaði því barna- skólanám í Heiðarskóla. Á tólfta ári flutti hún svo austur á Horna- fjörð með móður sinni og lauk þar grunnskólaprófi. ,,Útkoman úr grunnskólaprófunum var ekki góð hjá mér og þurfti ég því að taka upp ýmis fög þegar ég byrjaði í fram- haldsskóla. Það seinkaði mér um ár í framhaldsskólanum. Það var nóg að gera fyrir unglinga fyrir aust- an. Ég vann hjá Skinney-Þinganesi á Höfn sumrin 1991-1997 í humr- inum. Það var ekki skemmtilegt að garnhreinsa humarskelina. Þetta var þolinmæðisvinna, unnið með verkfæri sem líktist flísatöng. Mað- ur bölvaði þessu stundum en samt var skemmtilegt og gott að hafa þessa vinnu. Ég sakna þess svolít- ið í dag að minn unglingur eigi ekki kost á að fara í alvöru vinnu sem ég kalla,“ segir Elsa Lára. Hún seg- ir að áhuginn hafi þó kviknað fyr- ir náminu aftur þegar hún byrjaði í framhaldsskóla. „Þá opnaðist þetta fyrir mér og ég hafði bara rosalega gaman af því að vera í námi.“ Saknaði afa og ömmu á Skaganum Eftir einn og hálfan vetur í Fram- haldsskólanum í Austur-Skafta- fellssýslu á Höfn ákvað Elsa Lára að skipta um skóla og fara í Fjöl- brautaskóla Vesturlands á Akra- nesi. „Ástæðan fyrir því var sú að ég var mjög mikið hjá afa mínum og ömmu á Akranesi, Elsu Sigurð- ardóttur og Stefáni Lárusi Pálssyni, ekki síst á uppvaxtarárunum í Stóra- Lambhaga. Ég saknaði þeirra mikið fyrir austan og fór til þeirra þegar ég kom hingað á Akranes í skólann. Ég kunni strax vel við mig í FVA og sóttist námið ekki síður betur eftir að ég kom hingað,“ segir Elsa Lára, sem varð stúdent af félagsfræði- braut hjá FVA. Hún segist ung hafa kynnst manninum sínum Rúnari Geir Þorsteinssyni rafiðnfræðingi frá Patreksfirði, sem síðustu árin hefur starfað við sína iðn á Græn- landi og í Noregi. Börn þeirra eru Þorsteinn Atli fæddur 1998 og Þór- dís Eva 2003. Eins og að framan greinir er ljóst að Elsa Lára fæddist ekki með silf- urskeið í munni. Það var því alveg í takt að eftir stúdentsprófið fóru þau Elsa Lára og Rúnar á vertíð aust- ur á Hornafjörð. „Við ákváðum að vera ár fyrir austan og vinna okk- ur fyrir útborgun í íbúð. Fyrst var það síldarvertíð og síðan loðna. Þetta voru mikil uppgrip og fyr- ir hýruna keyptum við íbúð í vest- urbænum í Reykjavík og fluttum þangað. Maðurinn minn er mik- ill KR-ingur þannig að það pass- aði ágætlega. Það var mikið fjör á heimilinu þegar Skagamenn voru enn í efstu deild,“ segir Elsa Lára og hlær. Fann að kennslan átti vel við sig Úr fiskvinnslunni fyrir austan fór Elsa Lára í Tryggingastofnun rík- isins og var þar fulltrúi 1998-1999. „Á þessum tíma fæddist strákurinn Þorsteinn Atli. Ég kunni ekki alveg nógu vel við mig í Reykjavík, enda var kunningjahópurinn og fjöl- skyldan á Akranesi. Mér fannst ég lokast af félagslega í Reykjavík, oft- ast ein heima með barnið og flest- ir vinir og ættingjar uppi á Akra- nesi. Í fæðingarorlofinu skrapp ég oft hingað á Akranes og var þar nokkra daga í einu. Við sáum að það myndi henta okkur að mörgu leyti betur að búa á Akranesi svo við fluttum hingað.“ Elsa Lára fékk vinnu sem ritari hjá Brekkubæjar- skóla eftir að þau Rúnar voru flutt á Akranes. „Í ritarastarfinu fékk ég að detta inn í kennslu í skólanum og fann að þetta var eitthvað fyrir mig. Eftir tvo vetur í Brekkubæjar- skóla var ég ráðin leiðbeinandi við skólann haustið 2001 og jafnframt byrjaði ég nám við Kennaraháskól- ann í fjarnámi. Þegar síðan Þórdís Eva fæddist 2003 ákvað ég að taka mér ársfrí að loknu fæðingarorlof- inu til að hraða kennaranáminu. Það tókst en það á ég náttúrlega því að þakka hvað ég á yndislega fjöl- skyldu sem hjálpaði mér með börn- in þegar álag var í skólanum. Þegar ég síðan útskrifaðist úr Kennarahá- skólanum áramótin 2004 var ekki laus kennarastaða fyrir mig á Akra- nesi. Ég fékk starf í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit og fannst spenn- andi að kenna í gamla barnaskólan- um mínum. Það hentaði þó betur fyrir mig að kenna á Akranesi og ég fór aftur í Brekkubæjarskóla þegar starf losnaði þar. Ég kenndi því ekki nema einn og hálfan vetur í Heið- arskóla.“ Tók því fálega að fara í framboð til þings Elsa Lára segir að afi sinn Stefán Lárus sé mikill framsóknarmaður og trúlega hafi stjórnmálaskoðanir sínar mótast mikið frá honum. „Ég gaf kost á mér á listann hjá Fram- sóknarflokknum til bæjarstjórn- ar á Akranesi fyrir kosningarnar 2009. Ég ætlaði mér ekkert að fara á fullt í pólitíkina, alla vega ekki í landspólitíkina. Ég kunni bara svo vel við kennarastarfið og elska það að vinna með börnum og ungling- um. En svo síðasta vetur höfðu þeir samband við mig bæði Gunnar Bragi Sveinsson og Ásmundur Ein- ar Daðason og vildu fá mig í þriðja sætið á framboðslistanum. Ég tók því mjög fálega í fyrstu, taldi al- veg af og frá að það kæmi til greina. En ég var ekki látin í friði og þegar þetta hafði gengið í nokkurn tíma fór ég að hugsa sem svo að það gæti nú verið skemmtilegt að detta inn á þing tíma og tíma sem varamaður. Þetta endaði með því að ég sló til og svo fóru að birtast skoðanakann- anir um að ég færi inn á þing. Þeg- ar kosningatölur birtust var ég svo inni strax frá byrjun, þannig að ljóst var að ég væri að fara að skipta um starfsvettvang, að minnsta kosti um stundarsakir.“ Ekki eins máls manneskja Elsa Lára segir að á Alþingi sé unn- ið að mörgum skemmtilegum verk- efnum. „Við fjórir þingmenn Fram- sóknarflokksins í Norðvesturkjör- dæmi erum mjög samstilltur hóp- ur og ég held við dekkum ágætlega málaflokkana,“ segir Elsa Lára, en hún á sæti í allsherjar- og mennta- málanefnd og situr jafnframt í verk- efnastjórn um framtíðarskipan hús- næðismála í velferðarráðuneytinu. Strax í aðdraganda kosninga kom fram að Elsa Lára er í þeim hópi sem fór illa út úr hruninu. Hún er með verðtryggt lán á sínu húsi sem hækkaði mjög í kjölfar efnahags- hrunsins. Hún segir að fólk hafi spurt sig hvort að hún yrði þá ekki eins máls manneskja á þingi, fyrst hún ætti sjálf svona mikið undir úr- lausn í húsnæðismálum. „Þótt ég hafi sett mig mjög vel inn í húsnæð- ismálin hef ég líka gert það í mörg- um öðrum málum, þannig að ég tel mig langt í frá eins máls manneskju á þingi. Ég hef látið mig heilbrigð- ismálin miklu skipta, rætt í þinginu um síldardauðann í Kolgrafafirði, samgöngumál á Vestfjörðum, talað fyrir hertum viðurlögum við áfeng- is- og vímuefnaakstri og fleiru. Þingstörfin endurspegl­ ast ekki í fréttum Aðspurð segist Elsa Lára kunna ágætlega við sig á Alþingi, þótt stundum sakni hún kennarastarfs- ins og barnanna. „Auðvitað getur það stundum verið leiðigjarnt þegar fólk er að endurtaka hlutina, hjakka á því sem komið hefur fram ítrekað í umræðunni í þinginu. Annars er það alveg langt í frá að þingstörfin endurspeglist í því sem fram kemur í fréttum fjölmiðla. Í þeim birtast yfirleitt bara fréttir þegar einhver hasar er, en venjulega er umræðan í þinginu mjög málefnaleg. En þess- ar rökræður eru bundnar við þing- salinn. Í kaffi- og matarhléum ræð- ir fólk um daginn og veginn og allt er á vinsamlegum nótum. Í nefnd- arstörfum vinnur fólk saman fag- lega og málefnalega sama í hvaða flokki er. Það fer miklu meiri vinna fram í nefndunum en almenningur gerir sér grein fyrir. Svo er ég líka með svo skemmtilega sessunauta í þinginu að ég get ekki kvartað. Össur Skarphéðinsson er mér ná- lægur á aðra hönd, alltaf notalegur og manna skemmtilegastur. Svo er það Steingrímur J Sigfússon á hina höndina, mjög notalegur líka. Fyr- ir jólin var hann spurður af Frétta- blaðinu hvað hann myndi gefa sessunauti sínum í þinginu í jóla- gjöf. Hann svarði því til að hann myndi gefa mér ullarvettlinga því mér væri oft svo kalt. Hann sagði þetta ekki bara heldur lét verða af því blessaður að gefa mér þessa hlýju ullarvettlinga,“ segir Elsa Lára og hlær. Hefði viljað sjá „þakið“ hærra Eins og að framan segir átti Elsa Lára mikið undir væntanlegum að- gerðum ríkisstjórnarinnar í hús- næðismálum, það er skuldaniður- fellingarleiðinni sem boðuð var. Þegar hún er spurð hvort hún hafi þá ekki orðið fyrir nokkrum von- brigðum með það sem kom upp úr hatti ríkisstjórnarinnar í húsnæðis- málum, segist hún hafa verið fylgj- andi almennri niðurfærslu húsnæð- islána. Samkvæmt síðustu útreikn- ingum mun höfuðstóll lána lækka um 14% í júní næstkomandi og allt að fjórum milljónum króna. „Ég hefði viljað hafa þetta þak aðeins hærra. Staðreyndin er sú að það eru talsvert margir, fólk með litlar eða meðaltekjur, sem skuldar meira og er í miklum vanda. Ég hefði kosið að aðgerðirnar gætu náð til þeirra. Við höfum stöðvað nauðungarsölur fram undir mitt ár. Það var brýnt að gera það áður en þessar aðgerðir ná fram að ganga. Við viljum líka veita þeim stuðning sem þurfa að ganga í gegnum gjaldþrotameðferð. Þann- ig að ég held við séum að gera ým- islegt gott í sambandi við húsnæðis- málin,“ segir Elsa Lára. Í lok þessarar alvarlegu umræðu um húsnæðismálin sló hún í lokin á létta strengi. „En svo ætla ég að lyfta mér upp á næstunni með því að fara í heimsókn í bekkinn minn í Brekkubæjarskóla. Mig langar að kíkja inn í tíma og spjalla við krakk- ana,“ sagði Elsa Lára að endingu. þá „Spennandi verkefni í þinginu en sakna barnanna“ Spjallað við Elsu Láru Arnardóttur alþingismann og kennara á Akranesi Elsa Lára ásamt manni sínum Rúnari Geir Þorsteinssyni rafiðnfræðingi og börn- unum Þorsteini Atla og Þórdísi Evu. Elsa Lára Arnardóttir alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.