Skessuhorn


Skessuhorn - 12.03.2014, Blaðsíða 22

Skessuhorn - 12.03.2014, Blaðsíða 22
22 MIÐVIKUDAGUR 12. MARS 2014 Eftir ellefu mánaða dvöl í skipa- smíðastöð er báturinn loks tilbúinn. Í apríl á síðasta ári kom Magnús SH 205 frá Hellissandi til breytinga hjá Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ell- erts á Akranesi. Þeim átti að ljúka þá um sumarið. Þann 30. júlí, rétt áður en endurbótum lauk, braust út eldur í skipinu þar sem það stóð inni í húsi skipasmíðastöðvarinnar. Tjónið varð mjög mikið. Um skeið leit jafn vel út fyrir að ekki yrði gert við bátinn, Magnús SH dæmdur ónýtur og honum fargað. Ákvörð- un var hins vegar tekin um að gera við skemmdir og ljúka fyrirhugðum breytingum. Sú vinna hefur staðið yfir síðan í fyrrahaust og er henni nú lokið. Útkoman er glæsileg og ber bæði eigendum, skipasmíðastöð og iðnaðarmönnum fagurt vitni. Útgerð Magnúsar SH er Skarðs- vík ehf. á Hellissandi. Þetta er lítið fyrirtæki í eigu Sigurðar Kristjóns- sonar og fjölskyldu hans. Sigurð- ur er landsþekkt aflakló sem gerði um árabil út happafleytuna Skarðs- vík SH. Hefur stundað sjó frá blautu barnsbeini Sigurður Valdimar Sigurðsson er skipstjóri á Magnúsi SH í dag. Eins og nafnið gefur til kynna þá er Sig- urður Kristjónsson faðir hans. Við hittum Sigurð yngri um borð í Magnúsi SH þar sem skipið lá við bryggju á Akranesi. Það var ver- ið að vinna í lokafrágangi. Eft- ir nokkra daga rynni stóra stund- in upp þegar siglt yrði heim í Snæ- fellsbæ á bátnum sem er stórglæsi- legur og eins og nýr eftir breyting- arnar. Sigurður vann ásamt eigin- konu sinni Kristínu Gilsfjörð og hópi manna að því að dytta að ýmsu fyrir heimsiglinguna. Við settumst niður í nýrri setustofu Magnúsar SH og tókum tal saman. Sigurður skipstjóri hefur stundað sjóinn alla tíð. Hann byrjaði á því að gera grein fyrir ferli sínum. „Ég er búinn að vera til sjós síðan ég byrjaði að vinna. Þá byrjaði ég að róa með föður mínum. Áður hafði ég fengið að fara sem krakki. Þetta var á Skarðsvík SH. Ég fór með- al annars á síld í Norðursjó síðasta árið sem Íslendingar stunduðu þær veiðar þar. Það var 1975 og mik- ið ævintýri fyrir strákling frá Hell- issandi. Síðan var ég mikið með á Skarðsvík á nótaveiðum eftir loðnu en einnig á netum. Um tíma sigld- um við með aflann bæði til Eng- lands og Þýskalands.“ Þrír Magnúsar SH Skarðsvík SH var að lokum seld. Þá hófu þeir feðgar rekstur þeirr- ar útgerðar sem fjölskyldan stendur að í dag. Byrjað var að gera út báta sem allir hafa heitið Magnús SH. Bátarnir hafa verið skráðir á Hell- issandi og stundað bolfisksveiðar eingöngu þar sem bæði hefur verið róið og lagt upp í Rifi. „Þetta átti smá forsögu. Ég hafði eignast trillu með pabba 1985. Hún hét Valdís. Við létum svo smíða hraðfiskibát af Gáskagerð árið 1987. Á honum rérum við á sumr- in á netum og línu þegar Skarðs- víkin var ekki gerð út. Fyrsti Magn- úsinn var svo smíðaður í Njarð- vík árið 1990. Þann bát seldum við 1996 og keyptum stærri bát frá Hornafirði sem var 150 tonn. Árið 2002 var svo fjárfest í þeim Magn- úsi SH sem við eigum í dag. Hann var þá í mikilli niðurníðslu. Við lét- um skipta um brú á honum árið eft- ir og margt annað lagað. Árið 2007 létum við skipta um vél. Við vorum alltaf að gera eitthvað,“ segir Sig- urður. Hann brosir við endurminn- ingarnar. „Árið 2011 var allt milli- dekkið tekið í gegn.“ „Við höfum alltaf látið gera allt hjá Þorgeiri og Ellert hér á Akra- nesi,“ bætir Kristín kona hans við. „Já, við höfum alltaf komið hing- að í allar breytingar. Það er eins og gamli maðurinn hann pabbi sagði; „Ef við eignuðumst peninga þá fóru þeir á Akranes.“ En án gríns þá er þetta er allvega komið á þetta stig í dag. Magnús SH er nú nánast nýtt skip að telja,“ segir Sigurður og bætir við að faðir hans verði 85 ára nú í ágúst. „Hann fylgist með af hliðarlínunni og sýnir útgerðinni mikinn áhuga.“ Veiða kvótann þrátt fyrir brunann Við að heyra um þessar miklu breyt- ingar vaknar spurningin um hvort aldrei hafi komið til greina að láta smíða nýtt skip? „Það er bara svo ofboðslega dýrt. Svona skip kostar nýtt heilan milljarð í dag, allavega 800 – 900 milljónir. Það er mikið átak,“ svarar Sigurður. Talið berst að brunanum sem varð 30. júlí í fyrra. Tjónið var mikið en fékkst bætt af tryggingum. Nýverið kom í ljós að þetta reyndist dýrasti einstaki bruninn hér á landi síðasta ár. Engu að síður var fljótt ákveðið að gera við bátinn og ljúka endur- bótunum. Það verk hófst í lok ágúst og skrifað var undir 200 milljóna króna samning við Þorgeir og Ell- ert um að skipasmíðastöðin sæi um verkið. Því skyldi ljúka nú í mars og það hefur staðist. „Bruninn var rosalegt áfall. Sem betur fer eru reglurnar í kvóta- kerfinu þannig að ef báturinn er frá veiðum lengur en í sex mánuði vegna tjóns þá má færa allan kvót- ann á milli ára. Við erum þannig ekki bundin af neinni veiðiskyldu, þurfum ekki að veiða helminginn af kvótanum á einu fiskveiðiári eða neitt svoleiðis. Við höfum hins veg- ar ekkert þurft að færa veiðiheim- ildir milli ára. Við höfum heldur ekki leigt frá okkur kvóta á meðan báturinn hefur verið í breytingum. Nú þegar báturinn verður klár ætl- um við að byrja að róa á fullu og taka kvótann áður en fiskveiðiárinu lýkur í lok ágúst. Við leyfum strák- unum að njóta þess það sem eft- ir er árs að taka þetta. Fyrst förum við á netaveiðar í vor og svo á drag- nót í sumar. Við höfum ekki stund- að hana í nokkur ár en báturinn er núna orðinn mjög vel búinn til þeirra veiða,“ segir Sigurður. Það rættist úr fyrir áhöfninni Kristín tekur undir þetta. Henn- ar starf hjá útgerðinni er að sjá um fjármálin. Auk þess starfar hún sem bókari hjá Hraðfrystihúsi Hellis- sands í Rifi. „Eldsvoðinn var mjög óvænt- ur. Það voru ekki nema tvær vikur í verklok þegar kviknaði í bátnum. Okkar stærstu áhyggjur þegar bát- urinn brann var að við vorum með átta manns í vinnu sem allir eiga fjölskyldur. Skipverjar eru allir bú- settir í Snæfellsbæ. Við gerum okk- ur far um að vera með heimamenn á okkar báti svo að byggðarlagið okk- ar fái að njóta útsvars og tekna af þessari útgerð. Við bárum kvíðboga fyrir þeirra afkomu þegar báturinn brann. Það var auðvitað fyrirsjáan- legt að hann yrði alls ekki tilbúinn á þeim tíma sem áætlað var og menn- irnir því án atvinnutækis og vinnu. Við höfum fundið ótrúlega mikinn velvilja hjá öllu okkar heimafólki og okkar starfsmönnum. Þeir hafa allir fundið sér aðra vinnu á meðan þeir hafa beðið eftir bátnum, tímabund- in pláss, farið í afleysingar og ann- að þess háttar þannig að þetta hefur blessast,“ segir Kristín. Á netum eftir þorski og skötusel Við tölum aðeins um útgerðar- mynstrið á Magnúsi SH. Það eru ekki margir stórir netabátar gerð- ir út frá Vesturlandi í dag en fyrir nokkrum áratugum var stór floti af þeim. „Við höfum verið á skötuselsnet- um hálft árið og svo þorskanetum á öðrum tímum. Skötuselurinn hefur verið að gefa okkur gott. Við erum eini báturinn sem er svona stór á þeim veiðum heima í Snæfellsbæ. Svo er það helst bara Bárður SH og Katrín SH af þeim minni. Annars hefur bara Glófaxi frá Vestmanna- eyjum verið eini stóri báturinn með okkur á skötusel heiman frá,“ út- skýrir skipstjórinn á Magnúsi SH. Skötuselurinn er búin að vera góð búbót fyrir útgerðina. Nýting- in á þeim merka fiski skötuselnum hefur þó ekki gengið þrautalaust. „Við vorum búin að kaupa fullt af kvótahlutdeild í skötusel. Það hafa bara orðið svo miklar skerðing- ar á kvótanum. Jón Bjarnason þá- verandi sjávarútvegsráðherra tók af okkur kvóta til að setja í pottana sína. Heimildirnar úr þeim voru svo boðnar út af ríkinu. Við þurft- um að leigja aftur til baka kvóta af ríkinu sem við höfðum keypt fyrr til að geta veitt. Þetta var svoleið- is, þetta er bara svona,“ segir Sig- urður með blöndu af kaldhæðni og alvöru. Veiðigjöld byggist á sanngirni Fyrst við erum farin að tala um kvóta og afskipti stjórnmálamanna hljótum við að minnast á veiði- gjöldin. Kristín sem sér um bók- haldið, leggur nú orð í belg. „Það er stöðugt erfiðara fyrir þessar fjöl- skylduútgerðir og einyrkja að gera út vegna þessara veiðigjalda. Auðvi- tað er sjálfsagt að greiða veiðigjöld en þau verða að vera sanngjörn.“ Sigurður bætir við: „Það verður að vera hægt að gera bátana út með forsvaranlegum hætti. Við þurfum að afla fjármuna til endurbóta og viðhalds eins og við höfum verið að gera svo það verði hægt að halda þessu gangandi. Fiskiskipaflotinn er víða orðinn mjög gamall og kall- ar á viðhald. Við sjáum fram á að veiðigjöldin geti orðið okkur þung í skauti í framtíðinni. Við höfum keypt til okkar mjög mikið af afla- heimildum. Ég hugsa að við ættum ekki nema um hundrað tonn í dag ef við hefðum ekki gert það.“ Fjárfest í kvóta og endurbótum Kristín segir að kvótakaupin séu hrein nauðsyn. „Það verður að hafa aflaheimildir ef það á að vera hægt að halda svona útgerð þokka- lega gangandi á ársgrundvelli. Sig- urður grípur orðið: „Ég vil segja að við höfum gert mjög vel úr því sem við höfum haft svigrúm til að gera. Fjölskyldan hefur staðið á bak við þetta allt. Fjármagnið sem hef- ur skapast af útgerðinni hefur far- ið sjálfkrafa aftur í reksturinn. Við höfum alltaf passað að halda báti og búnaði vel við. Svo erum við með Hjónin Sigurður V Sigurðsson og Kristín Gilsfjörð gera út Magnús SH: Starfa við sjávarútveginn, það sem þau kunna og vilja gera í framtíðinni Hjónin Sigurður Valdimar Sigurðsson skipstjóri á Magnúsi SH og eiginkona hans Kristín Gilsfjörð í brúnni á bátnum eftir endurbæturnar. Magnús SH 205 á siglingu eins og báturinn leit út fyrir breytingarnar hjá Þorgeiri og Ellert á Akranesi.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.