Skessuhorn


Skessuhorn - 23.04.2014, Blaðsíða 16

Skessuhorn - 23.04.2014, Blaðsíða 16
16 MIÐVIKUDAGUR 23. APRÍL 2014 Fritz H. Berndsen hefur starfað sem skurðlæknir á Sjúkrahúsinu á Akra- nesi í tæp tólf ár. Hann er sérfræð- ingur í almennum skurðlækningum og hefur sérhæft sig í kviðsjárað- gerðum með góðum árangri. Fritz kemur úr höfuðborginni, er Reyk- víkingur í húð og hár. „Ég er fædd- ur 1965 og uppalinn í Reykjavík. Ég lauk læknisfræðinni hér heima og var svo í tíu ár í Svíþjóð,“ segir Fritz í samtali við Skessuhorn. Fritz lauk doktorsnámi sumarið 2003 og fjallaði doktorsverkefnið um nára- kviðslitsaðgerðir með áherslu á kviðsjáraðgerðir. „Ég byrjaði strax að vinna hér á Skaganum eftir að við komum heim frá Svíþjóð. Við fjölskyldan fluttum samt ekki hing- að því ég var upphaflega í afleys- ingastarfi hér til eins árs. Svo end- aði það með því að ég tók við af þeim sem var hér áður. Það hefur því teygst verulega úr þessu eina ári,“ segir Fritz og brosir. Hann bætir því við að hann hafi þó áður starfað á Skaganum en hann var kandídat á sjúkrahúsinu fyrir 23 árum og það hafi verið upphafið á tengingunni við Akranes. Stytta biðlista á Landspítalanum Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi er deildaskipt sjúkrahús með vaktþjónustu allan sólarhring- inn. Skurðdeildin hefur til um- ráða þrjár skurðstofur, vöknun og aðstöðu fyrir dagdeildarsjúklinga. Handlækningadeildin er tíu rúma deild. Á deildinni er vaktþjónusta allan sólarhringinn og eru um 2000 aðgerðir gerðar árlega á deildinni. „Miðað við hvað sjúkrahúsið er lítið er mikil starfsemi á skurðstofunum. Við þjónustum allt Vesturland og yfir helmingur sjúklinganna kemur frá höfuðborgarsvæðinu. Reyndar er hefð fyrir því að skurðstofan sé mjög virk hér. Þegar ég var kandí- dat hér fyrir 23 árum var einnig mikið af sjúklingum frá Reykjavík sem komu hingað,“ útskýrir Fritz. Í dag er sjúkrahúsið á Akranesi eina svokallaða „kragasjúkrahúsið“ sem er með starfandi skurðstofu. Önnur kragahús sem áður voru með starf- andi skurðstofur eru sjúkrahúsin á Selfossi, í Keflavík og St. Jósefs- spítalinn í Hafnarfirði. „Hlutverk skurðstofunnar hér er því með- al annars að létta á Landspítalan- um ásamt því að þjónusta fólkið sem býr á Vesturlandi. Við gerum algengar aðgerðir, sem þarfnast í raun ekki hátæknisjúkrahúss. Þann- ig getum við stytt biðlista á Land- spítalanum með því að taka þær að- gerðir sem hægt er, svo þeir geti þá einbeitt sér að þeim aðgerðum sem ekki eru gerðar annars staðar á landinu,“ segir hann. Fritz segir að HVE sendi ákveðnar aðgerðir beint í bæinn. „Til dæmis aðgerð- ir vegna brjóstakrabbameins. Það er mjög gott teymi og góð vinna í kringum þær aðgerðir í bænum og ég sé enga ástæðu til að fara af stað með slíka vinnu hér fyrir nokkrar aðgerðir á ári.“ Aðgerðum hefur fjölgað Á þeim tólf árum sem Fritz hefur starfað á Akranesi hefur hann séð sjúkrahúsið fara í gegnum ýmsar breytingar, svo sem sameiningar- ferli og samdrátt í kjölfar efnahags- hrunsins. Hann segir eina mest áberandi breytinguna á skurðdeild- inni undanfarin ár vera þá að að- gerðum hefur fjölgað. „Sú fjölg- un kemur frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta er fjölgun á algengum, al- mennum skurðaðgerðum, til dæm- is við gallsteinum og kviðsliti.“ Eins og flestir vita hefur verið niðurskurður víða í heilbrigðiskerf- inu undanfarin ár. HVE er engin undantekning þar á og mun minni peningar hafa komið til starfsem- innar en áður. „Við höfum klár- lega fundið fyrir samdrætti. Öldr- unardeildinni var lokað og það er sparnaðarhugsun í öllu. Við höfum reynt að láta það ekki bitna á skurð- starfinu og það hefur gengið mjög vel enda hefur ekkert þjónustufall orðið hér, þvert á móti. Aðgerðum hefur fjölgað en legudögum fækk- að. Sjúklingar koma inn á morgni en fara heim að kveldi. Þetta eitt og sér aflar sjúkrahúsinu sértekna. Þróunin hefur verið í þessa átt og sjúkrahúsið hefur verið mjög vel rekið. Ég tel að það sé meðal annars þess vegna sem okkur var ekki lok- að eins og öðrum kragasjúkrahús- um. Sjúkrahúsið er vel rekið og hér er sterk starfsemi,“ segir Fritz. Hann nefnir þá að einnig hafi það breytt vinnuumhverfinu á sjúkrahúsinu til hins betra að fá tölvusneiðmyndatæki á sjúkrahús- ið. Árið 2007 var stofnuninni fært notað sneiðmyndatæki að gjöf eft- ir að safnað var fyrir tækinu. Það tæki er nú farið að láta á sjá enda hefur það verið í stanslausri notkun síðan. Hollvinasamtök HVE safna nú fyrir nýju og betra tæki. „Það er að sjálfsögðu bót fyrir okkur þeg- ar betri tæki fást inn á sjúkrahús- ið. Tilkoma tölvusneiðmyndatæk- isins fækkaði sjúkraflutningum til Reykjavíkur mikið, það voru jafn- vel margar ferðir á dag til að koma sjúklingum í myndatökur. Tilkoma tækisins gjörbreytti okkar vinnuað- stöðu,“ segir Fritz. Framúrskarandi góður árangur Ein af algengustu aðgerðunum sem gerðar eru á skurðstofunni á Akranesi eru aðgerðir vegna gall- steina. Árangur gallblöðruaðgerða á sjúkrahúsinu er framúrskarandi góður, samkvæmt rannsókn sem gerð hefur verið. Aðgerðartími er styttri en í öðrum samanburðar- rannsóknum og tíðni fylgikvilla lág. „Aðgerðir vegna gallsteina eru meðal algengustu aðgerða í al- mennum skurðlækningum þar sem notast er við speglun. Ég geri mik- ið af þessum aðgerðum og ákvað að taka saman átta ára tímabil frá því að ég byrjaði að vinna hér. Það kom í ljós að alvarlegir fylgikvillar voru afar sjaldgæfir. Það var mjög sjald- gæft að það þyrfti að breyta yfir í opna aðgerð, það gerðist í tveimur tilfellum af 400. Það er mjög góður árangur,“ segir Fritz. Aðgerðartím- inn í slíkum aðgerðum á HVE er þrjú korter en í öðrum rannsókn- um sem teknar voru til samanburð- ar tók rúma klukkustund upp í einn og hálfan tíma að gera samskonar aðgerð. „Í svona rannsóknum eru oft margir skurðlæknar, á ýmsum stigum sérnáms og með mismikla reynslu, að framkvæma aðgerðirn- ar. Í minni rannsókn var ég sá eini sem gerði aðgerðirnar og það er sennilega aðalástæðan fyrir stuttum tíma og góðum árangri. Ásamt því að vanda sig við verkið,“ segir Fritz hógvær varðandi þennan góða ár- angur. Mikilvægt að hafa vaktþjónustu Framtíðarsýn Fritz varðandi starf- semi Sjúkrahússins á Akranesi er skýr. Hann vill halda áfram uppi vaktþjónustu fyrir Vesturland ásamt því að veita jafn breiða þjón- ustu og gert er í dag. „Á skurð- deildinni eru starfandi skurð- læknir, háls,- nef- og eyrnalækn- ir, bæklunarlæknir og kvensjúk- dómalæknar. Hryggjarstykkið á deildinni eru svo tveir mjög færir svæfingarlæknar. Hér er ekki bara mikil skurðstarfsemi, heldur mik- il breidd sérfræðinga á lyflækn- ingasviði. Hér höfum við hjarta- lækni, gigtarlækni, meltingarfæra- sérfræðing, innkirtlasérfræðing, nýrnasérfræðing og lungnalækni. Bæði kvensjúkdómalæknarnir og bæklunarlæknirinn eru mjög virk- ir og stór hluti þeirra sjúklinga er frá höfuðborgarsvæðinu. Bæklun- arlæknirinn gerir 120 gerviliðaað- gerðir á ári, sem er mjög mikið.“ Hann bætir því við að það sé hægt að þjónusta Vesturland vel. „Eitt af markmiðum sjúkrahússins er að halda uppi breiðri þjónustu. Hvað skurðsviðið varðar er að halda áfram svona mikilli þjónustu líkt og gert er nú og jafnvel fjölga að- gerðum sem ekki þarfnast mikillar yfirbyggingar. Árangurinn er góð- ur af kviðslitsaðgerðum og gall- steinaaðgerðum. Það er markmið að láta þetta sjúkrahús skera sig úr með því að gera aðgerðirnar vel, fjölga þeim og létta þannig á Land- spítalanum,“ útskýrir Fritz. For- sendan fyrir því að þjónustustig- ið haldist er að sjúkrahúsið sé með vaktþjónustu allan sólarhringinn og lítur Fritz svo á að mikilvægt sé að halda því óbreyttu. „Ef það er ekki veitt 24 stunda þjónusta hér þá fara sjúklingar að fara framhjá ef þeir lenda utan dagvinnu tíma og þá smám saman minnkar þjón- ustustigið samhliða.Við sáum þetta gerast bæði í Keflavík og á Selfossi. Um leið og vaktþjónustan minnk- aði, fór sjúklingum fækkandi.“ Nú hefur þetta eina ár sem Fritz ætlaði að starfa við stofnunina á Akranesi orðið að tólf árum. Hann hefur hug á því að þau verði fleiri en segir þó að álagið sé mik- ið og að vinnan hafi breyst. „Þeg- ar ég byrjaði vorum við þrír al- mennir skurðlæknar að vinna hér. Einn þeirra hætti í kringum 2006 og annar 2011. Ég er nánast einn eftir hér og vaktabyrðin er mjög þung. Þó eru komnir skurðlækn- ar hingað um helgar og einn sem kemur tvo daga í mánuði frá LSH. En vaktirnar eru margar, í þess- um mánuði urðu þær til dæmis 21 í 30 daga mánuði,“ útskýrir hann. „Yngri kynslóð lækna er ekki hrif- in af svona miklu vaktaálagi og þeir vilja heldur ekki starfa svona ein- ir. Maður er að verða eins og síð- asti geirfuglinn hvað þetta varðar. Þetta sama er uppi á teningnum með kvensjúkdómalæknana, það hefur verið erfitt að fá kvensjúk- dómalækna hingað,“ bætir hann við. Hann segir að almennt sé erf- itt að fá nýja lækna til vinnu á Ís- landi og þá sérstaklega utan höf- uðborgarsvæðisins. „Það þarf að passa vel upp á þetta. Það má ekki koma eyða í þjónustuna, það gæti haft þau áhrif að allt yrði fljótt að fara til verri vegar. Ef ekki er hægt að manna vaktir, þá gætu sjúkling- ar farið að streyma framhjá okkur.“ grþ Sterk starfsemi í vel reknu sjúkrahúsi Rætt við Fritz H. Berndsen skurðlækni á Akranesi Fritz Berndsen, skurðlæknir og yfirlæknir handlækningadeildar á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Aðgerð í gangi á skurðstofu SHA. Ljósm. hve.is Sjúkrahúsið á Akranesi.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.