Skessuhorn


Skessuhorn - 21.05.2014, Blaðsíða 20

Skessuhorn - 21.05.2014, Blaðsíða 20
20 MIÐVIKUDAGUR 21. MAÍ 2014 „Dalirnir heilla,“ heyrist gjarn- an sagt þegar ferðamenn á leið um landið eru minntir á hvert þeir gætu m.a. beint ferð sinni. Víst er að Dalirnir hafa heillað marga og ýmsir sem þar hafa dvalið um lengri eða skemmri tíma halda tryggð við Dalasýsluna. Einn þeirra er Ragn- ar Ingi Aðalsteinsson þjóðþekktur hagyrðingur og skáld sem og höf- undur margra kennslubóka um ís- lensku og bragfræði. Það var ein- mitt vegna ljóðaáhuga Ragnars Inga og útgáfu á tímariti um hefðbundna ljóðlist, Stuðlabergi, sem hann gef- ur út, sem ritstjóri Skessuhorn komst í samband við hann og varð áskynja um tengsl hans við Dalina. Ragnar Ingi starfaði þar í átta ár og m.a. ritstýrði hann þá Dalablaðinu um þriggja ára skeið. Á árunum í Dölunum byggðu Ragnar Ingi og kona hans, Sigurlína Davíðs- dóttir, sér sumarhús í Lindarkoti í landi Stóru-Tungu á Fellsströnd. Þar dvelja þau löngum stundum og Ragnar Ingi var einmitt farinn að iða í skinninu af tilhlökkun að fara í Dalina á þessu vori þegar blaða- maður Skessuhorns átti spjall við hann á dögunum. Sagan af því hvernig Ragnar varð til Ragnar Ingi er einn níu systkina sem gjarnan eru kennd við Vað- brekku í Hrafnkelsdal, í Jökuldals- hreppi. Alls voru þau tíu systkin- in en ein systir dó ung. Bræðurnir voru fimm og systurnar fjórar sem upp komust. Ragnar Ingi er þeirra langyngstur. Hann var níu árum yngri en Hákon sem var næst- yngstur í hópnum. Ragnari Inga segist svo frá að Hákon hafi verið með þvílíkum ólíkindum stór þegar hann fæddist og móður þeirra svo aðframkomin eftir að hafa gengið með hann og fætt að læknirinn sem sóttur var til hennar á sængina hafi bannað henni að eiga fleiri börn, enda var drengurinn 24 merkur. „Ég átti sem sagt aldrei að verða til, um það var til úrskurður frá lækn- inum. En þeir niðri á Héraði og í Fjarðabyggðinni höfðu kenningu á lofti um það hvers vegna ég kom undir. Hún er sú að á útmánuðum 1943 fórst breskt birgðaflutninga- skip við Austfirði. Um borð í skip- inu var m.a. mikið magn af rommi í kútum sem rak á fjörur næstu dag- ana. Þegar þeir á fjörðunum gátu ekki lengur torgað romminu og voru orðnir leiðir á því að vera full- ir heima fóru þeir með kútana á trússhestum upp á Hérað, enduðu hjá föður mínum á Vaðbrekku, en honum þótti dálítið gott í staup- inu. Sagan segir að hann hafi tekið vel við sér þegar hann fékk romm- ið. Þetta skipsstrand var í aprílmán- uði og ég fæddist síðan í janúar árið eftir. Þessa sögu sagði mér Björn Andrésson póstur frá Snotrunesi í Borgarfirði eystra og ekki var hann þekktur fyrir að fara með fleipur,“ segir Ragnar Ingi og brosir. Fékkst við ýmislegt á yngri árum Ragnar Ingi segir að vissulega hafi það verið sérstakt að alast upp á Vaðbrekku langyngstur barnanna þar, en Hrafnkelsdalur gengur suð- ur úr Jökuldal, 40 kílómetra innar en komið er af Möðrudalsöræfun- um niður á Jökuldalinn. Í dalnum eru tveir bæir, Vaðbrekka og Aðal- ból. Búið er á báðum þessum bæj- um enn í dag. „Á þessum tíma var ennþá slegið með orfi og ljá og við heyjuðum eins og landnámsmenn- irnir. Samgöngur voru að mestu á tveimur jafnfljótum og svo á hest- um.“ Ragnar Ingi er kennari að mennt og bragfræðingur. Hann segist hafa hætt ungur í skóla, eða gert hlé á námi, og fengist við ýmis- legt annað á yngri árum. Hann fór á sjóinn og var þar í mörg ár og síð- an var hann líka lengi í bygginga- vinnu. Það var síðan eftir að hann breytti um neysluvenjur, eins og hann kallar það, sem hann flutti í Dalina og bjó þar eins og áður seg- ir í átta ár.“ Ráðgjafastarfið tók á en var lærdómsríkt „Það var upp úr því að ég breytti neysluvenjunum í það horf sem nú er að ég kom í Dalina. Ég og konan mín, Sigurlína Davíðsdótt- ir, réðumst sem ráðgjafar hjá SÁÁ á Staðarfell. Það var haustið 1980 og við kunnum strax vel við okkur. Ráðgjafastarfið er reyndar erfitt, tekur mjög á, en það hjálpaði mér líka að átta mig á sjálfum mér. Eftir þrjú ár í ráðgjafastarfinu fannst mér rétt að breyta til. Þá fórum við inn að Laugum þar sem ég var kennari næstu fimm ár. Umhverfið í Döl- unum heillaði okkur strax þegar við komum þangað og ekki er náttúru- fegurðin síðri á Laugum en Stað- arfelli. Ég hefði gjarnan viljað vera þar lengur ef það hefði ekki stað- ið þannig af sér að konan mín var í námi. Við fluttum þess vegna suður og eftir þrjú ár í Reykjavík fórum við til Chicago þar sem Sigurlína var í doktorsnámi í sálfræði. Mest- an þann tíma vann ég við skriftir, en til að auka tekjurnar vann ég með- fram sem bílstjóri við kínverskan veitingastað, keyrði úr matarsend- ingar og lifði meðal annars á tipps- inu,“ segir Ragnar Ingi. Hann hefur skrifað reiðinnar býsn af bókum um dagana. „Mig sundlar þegar ég lít yfir listann og geri mér grein fyrir því hvað ég hef skrifað mikið,“ segir Ragnar Ingi, en eftir hann hefur auk vísna- og ljóðabóka komið út mikill fjöldi kennslu- og námsbóka, aðallega um íslensku og bragfræði. „Þetta er nú meiri skrifræpan,“ segir hann og hristir höfuðið. Kynntist strax menningunni Ragnar Ingi segir að hann hafi í raun verið að byrja nýtt líf þeg- ar hann kom á Staðarfell sem ráð- gjafi. Komið þangað sem nýfrels- aður maður undan ánauð Bakkusar konungs og sér hafi liðið ákaflega vel með það. Hann segist strax hafa kynnst menningunni og félagslíf- inu þegar hann kom í Dalina. „Ég fór strax í kirkjukórinn hjá Halldóri Þórðarsyni á Breiðabólsstað og við urðum góðir vinir. Við og fleiri fór- um að spila saman á harmonikkur, vorum meira að segja með hljóm- sveit og spiluðum á þorrablótum og öðrum skemmtunum. Fellsstrand- arkarlana kölluðum við okkur.“ Spurður um spilamennskuna seg- ir Ragnar Ingi að barn að aldri hafi hann lært á orgel austur á Jökuldal hjá Þórði Sigvaldasyni á Hákonar- stöðum. „Hann var mikill músíkant og góður kennari. Það sem hann kenndi mér hefur fylgt mér alla ævi og reynst gott veganesti. Þeg- ar ég var 14 ára komst ég yfir fyrstu harmonikkuna, lítið kríli með tutt- ugu og fjóra bassa, og þar með voru örlög mín ráðin. Dragspilið hefur fylgt mér síðan þá. Meðan ég var í Dölunum var ég reyndar líka org- anisti í fjórum kirkjum í suður Döl- unum; í Hjarðarholti, Stóra-Vatns- horni, Kvennabrekku og Snjóksdal. Það var ógleymanlega skemmtilegt og gefandi og þar naut ég kennsl- unnar á Hákonarstöðum forðum.“ Ritstýrði Dalablaðinu Á þessum árum sem Ragnar Ingi og Sigurlína kona hans bjuggu í Döl- unum var stundum rætt um að ráð- ast í útgáfu héraðsfréttablaðs eins og þá orðið tíðkaðist í mörgum héruðum landsins. „Svo var það sem þær höfðu samband við mig Þrúður Kristjánsdóttir skólastjóri í Búðardal og Svala Valdimarsdóttir kona Gunnars læknis og báðu mig að vera með í því að setja á stofn blað, Dalablaðið skyldi það heita. Ég var áhugamaður um blaðaútgáfu og það þurfti ekki að ganga á eftir mér með þetta. Ég ritstýrði blaðinu svo næstu þrjú ár og naut þar lið- sinnis margra, meðal annars Sigur- línu konu minnar sem var mér til aðstoðar þar eins og við svo margt annað. Hún er mjög góður vélrit- ari og það kom sér vel við vinnslu blaðsins. Dalablaðið kom út mán- aðarlega og mér fannst það mjög lærdómsríkt að ritstýra því. Ég kynnist mörgu fólki í sambandi við útgáfuna, tók viðtöl og spjallaði við marga. Í leiðaraskrifum reyndi ég að fjalla um það sem var að gerast og efst á baugi í samfélaginu. Það var mjög skemmtilegt og lærdóm- ríkt að skrifa héraðsfréttablað.“ Vill koma bragfræðinni inn í grunnskólana Ragnar er mikill áhugamaður um ljóðagerð og bragfræði eins og áður segir og ber tímaritið Stuðlaberg, sem hann gefur út, glöggt merki um það, en tímaritið er helgað Fengið margt gott veganestið um ævina Spjallað við Ragnar Inga Aðalsteinsson um árin í Dölunum og vísnagerð Ragnar Ingi Aðalsteinsson. Ragnar Ingi og Sigurlína á ferð í Héðinsfirði fyrir norðan. Stuðlaberg, tímarit helgað hefðbundinni ljóðlist, sem Ragnar Ingi gefur út. Lindarkot, sumarhús þeirra Ragnars Inga og Sigurlínu á Fellsströnd.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.